31 desember 2008

10 ára trúlofunarafmæli

Í dag, gamlársdag 2008, eru hvorki meira né minna en 10 ár síðan við Jóhann Gunnar settum upp hringa í fyrsta skipti :o)

Ung og ástfangin árið 1998


Eldri og enn ástfangin, 2008


24 desember 2008

GLEÐILEG JOL


Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Takk fyrir allt gamalt og gott.

Knús og kossar,

Unnur Stella, Jóhann Gunnar, Gunnar Máni og Guðmundur Magnús


23 desember 2008

Jólin koma á morgun

Héðan frá Álaborg er nú ýmislegt að frétta, þó svo ég hafi verið alltof löt við að skrifa fréttir undanfarið.

Allavega þá varð ég lasin um daginn og fékk himinháann hita og svo loks pensilín. Ég fór svo á laugardagskvöldinu í jólahlaðborð (julefrokost) með dönsku vinum mínum. Í sambandi við þann gjörning hef ég lofað einni kveðju :o)

Hej Bjarne (Lullo, Thomas, Per, Kim og Uffe også). Tak for en super dejlig julefrokost og en fantastisk aften. Jeg håber at jeg kan dele jeres snaps næste år ;o)

Julemand Lullo

Klar til at spise :o)



Núna er ég svo loks komin í jólafrí, hófst á föstudag. Ég gerði mér bara lítið fyrir og tók mér 5 daga af frídögunum mínum og nældi mér þannig í 2 vikna jólafrí með strákunum mínum :o) Við höfum notið þess að vera í fríi og leikið okkur, perlað, kubbað, föndrað og brallað ýmislegt. Þar fyrir utan saumaði ég mér svo eitt stykki jólakjól fyrir annað kvöld og við fórum familían ásamt Írisar familíu að sækja okkur jólatré í skóg rétt fyrir norðan Limafjörðinn. Fengum alveg geggjað tré, stærra en Jóhann og þvílíkt þétt alla leiðina upp í topp. Svo var þetta voða skemmtileg upplifun. Gengum um skóginn og leituðum að trjám (enduðum nú samt á að kaupa tré sem búið var að höggva). Með trjánum fylgdi svo nammip0ki fyrir krakkana og jólaglögg með smákökum í litlum skúr eftir kaupin. Svo við settumst saman í stutta stund og sötruðum jólaglögg og nörtuðum í smákökur. Þetta var alveg ofsalega hómí og notalegt. Plús það að tréð var að sjálfsögðu meira en helmingi ódýrara en á Íslandi (kostaði 175 dkk, með nammi, jólaglöggi og smákökum, og var ríflega 2 metrar á hæð). Svo við vorum ægilega sátt með þetta allt saman :o)

Í dag fórum við svo öll saman í bæinn að skoða jólaljósin og prófa öll jólatækin (parísarhjólið, hringekjuna og jólasveinalestina). Fengum okkur líka kvöldmati í bænum í tilefni af Þorláki. Þreittir og glaðir drengir steinsofnuðu í aftursætinu og voru bornir inn í rúm (klæddir í nýju jólanáttfötin og lagðir til svefns í jólarúmfötunum). Foreldrarnir kláruðu svo þrifin, skreyttu jólatréð og settu ALLA ÞÚSUNDA pakkana undir. Svo nú sitjum við bara í leti uppi í sófa og erum alveg að fara að steikja egg og beikon (enn ein hefðin) til að narta í svona rétt fyrir svefninn. Möndlugjafirnar tilbúnar á borðinu frammi og húsið allt orðið tandur hreint.

Knús og kossar frá okkur í Álaborg og
GLEÐILEG JÓL ALLIR SAMAN.



11 desember 2008

Veikindi

Haldiði ekki að mín hafi náð sér í einhverja pestina. Líður eins og vörubíll komi reglulega og keyri yfir öll bein í líkamanum. Fór svo loks til læknis áðan (mesta törnin búin í bili, var á fundi í Fredericia í gær og hef því ekki þorað að fá úrskurð læknisins fyrr) og tók blóðprufu og setti mig beint á sterkt pensilín. Er víst með eitthvað hátt sýkingarhlutfall í blóðinu og er að sjálfsögðu rúmsett (hjúkk að ég fór ekki til hans fyrr en í dag).

Héðan er allt það fínasta að frétta. Talnasnillinn minn hann Gunnar Máni er farinn að telja upp að 100, bæði á dönsku og íslensku. Gleymir stundum 50 og segir fjörtíu og tíu, en það er líka eina talan sem hann gleymir :o)
Ótrúlegt en satt, þá man hann alveg röðina á tyve-tredve-førre-halftreds-tres-halffjerds-firs-halffemms. Hann er greinilega töluvert betri en við í þessari dönsku sinni, þar sem ég held það hafi tekið okkur ca. 2-3ár að muna alltaf rétta röð á þessum blessuðu furðulegu dönsku tugum. Annars er hann líka orðinn svo klár í dönskunni að hann telur sig hafa fullan rétt á að leiðrétta móður sína. Um daginn var ég að reyna að segja loftið (luft) en hann fór að skellihlæja að mér og sagði NEI MAMMA ÞETTA ER AÐ LYFTA (løfte) ÞÚ ÁTT AÐ SEGJA LUFT (og svo sagði hann það með sínum fullkomna danska hreim).

Sá stutti er líka farinn að tala heilmikið og blandar saman bæði dönskum og íslenskum orðum. Hérna eru nokkur dæmi um hans orð:
Náni (Máni)
Mamma
Pabbi
Nei
Góna (skórnir)
meija (meira)
mælk (mjólk)
ebbi (nebbi)
sunnur (munnur)
oje (øjne=auga)
mad (matur)

og svo eru hundruð þúsundir mismunandi orða sem við erum bara ekki nógu gáfuð til að skilja.

Svo verð ég að láta ykkur vita að minn ástkæri eiginmaður er loks farinn að bulla á netinu eins og svo margir aðrir. Hans bull getið þið fundið á http://wwjd.blogg.is/

En jæja, ég ætla að halda áfram að sitja í góða fína fjarstýrða rúminu mínu og reyna að halda áfram að vinna í tölvunni ;o)

Yfir og út frá Álaborg

04 desember 2008

Jólakort

Eitthvað hefur borið á áhuga á heimilisfanginu okkar vegna jólakortasendinga. Til að auðvelda lífið höfum við sett heimilisfangið upp í vefdagbók prinsanna okkar.
Svo ef þú ferð inn á heimasíðuna þeirra og velur vefdagbókina, ættir þú að geta fundið heimilisfangið okkar hérna úti í Danaveldi :o)

Vefdagbókin er hinsvegar læst með lykilorði, svo þú þarft að stimpla inn rétt lykilorð til að geta komist inn.

Lykilorðið er svar við spurningunni:
Hvað var pabbi (þ.e. Jóhann Gunnar) gamall þegar mamma og pabbi byrjuðu að vera saman?
Skrifaðu töluna með íslenskum bókstöfum, ekki tölustöfum

Ef þú veist hvaða ár Jóhann Gunnar er fæddur, en ert ekki viss á því hvenær við byrjuðum að vera saman, þá var það árið 1996 :o)

Ef þú manst alveg ómögulega hvenær Jóhann Gunnar er fæddur, en vantar heimilisfangið eða langar að skoða myndir af prinsunum okkar og skrifa í gestabókina, þá er bara að óska eftir aðgangi og ég svara um hæl ;o)

Jólakveðjur þegar 20 dagar eru til jóla :o)

03 desember 2008

Börn eru ótrúleg.

Ég held að það sé alveg óhætt að segja að hann Gunnar Máni er skyldur frænku sinni á Íslandi. Þessari sem að var svo heppin að eiga klósett á Drangagötunni :o)

Þannig er nú það að hann Máninn minn á stundum pínu erfitt með að muna að fara alltaf á klósettið þegar hann þarf að gera númer 2. Svo oftar en ekki verða pínu slys í brókina. Þetta er nú í ströngu aðhaldi, þar sem hann er að læra að muna að fara strax á klósettið, ekki þegar það er orðið of seint. En allavega, drengurinn stendur sig alveg ofsalega vel í þessum málum núna og man næstum því alltaf að fara straks á klóið. Eitt af þessum góðu skiptum var núna í morgun, þegar hann kom hlaupandi inn á baðherbergi (ég var í sturtu) og kallaði æstur: "MAMMA ÉG ÞARF AÐ KÚKA OG ÞAÐ ER EKKERT Í BRÓKINNI". Svo kláraði hann öll sín mál í klósettið og var ofsalega stolltur og glaður með sjálfan sig. En þetta er nú svo sem ekki frásögum færandi, nema vegna þess, að þegar við komumst loks öll af stað og út í bíl til að hefja vinnudaginn. Þá var ruslamaðurinn að taka ruslið og setja nýjan poka. Haldiði ekki að stóri prinsinn minn hafi hlaupið til hans, hress og glaður og sagt HÁTT OG SNJALLT:

"Jeg har lavet pølser i toilettet i dag"

við foreldrarnir sem vorum að koma að bílnum og heyrðum þessa frábæru setningu, urðum nú pínu rauð í framan en dóum samt úr hlátri. Ruslamaðurinn hló ofsalega og hrósaði drengnum okkar mikið fyrir og gaf honum svo lítinn hlauppoka í verðlaun fyrir að vera svona duglegur :o)


Annars er bara allt það besta að frétta frá Álaborg. Móðirin komst heim heilu á höldnu og urðu miklir fagnaðarfundir á flugvellinum á laugardaginn var. Svo var bara hangið og notið samverunnar laugardagskvöldið og allan sunnudaginn. Við erum aðeins byrjuð að setja upp jólaskraut og höfum fengið okkur æbleskiver með sultu og flórsykri allavega einu sinni og pebbernøder svona kannski 10 sinnum :o)
Ég er nú í kosningabaráttu, þar sem það eru kosningar í AAU þessa dagana og ég er í kjörframboði fyrir doktorsnema. Bauð mig fram sem nefndarmann fyrir hönd doktorsnema í stjórn "Doctoral school" í Álaborg. En það er stjórnin sem þarf að samþykkja allar doktorsnema umsóknir, lærdómsáætlanir hjá hverjum nemenda og fara yfir 1/2-árs mat hvers kennara á sínum doktorsnema og hvers doktorsnema á sínum kennara. "Doctoral school" býður einnig upp á samtvinna kúrsa, svo sem í sambandi við hvernig á að skrifa tæknigreinar, hvernig á að leiðbeina í Álaborgarháskóla kennslulíkaninu, hvernig á að leita að fræðiefni hjá Bókasafninu og á netinu, svo fátt eitt sé nefnt.
En kosningarnar standa yfir fram á föstudag, svo það verður spennandi að heyra hvað gerist ;o)

Jæja, best að koma sér í smá vinnu.
Yfir og út frá Álaborg

29 nóvember 2008

Heimferðadagur

Jæja þá er dvöl mín í Þrándheimi á enda komin. Taskan stendur tilbúin á stofugólfinu og flugmiði ásamt vegabréfi á sínum stað í vasanum.

Þessi tími hérna norðurfrá hefur verið alveg einstaklega lærdómsríkur. Þrátt fyrir mikinn söknuð til strákanna minna hefur ferðin verið hin besta í alla staði. Ég hef eignast frábæra "professional" vini, sem ég mun örugglega hafa ávinning af síðar á starfsferli mínum. Allur tíminn fór í mikla vinnu, en ég hef líka uppskorið vel, því nú stend ég töluvert mikið betur en ég gerði fyrir 3 vikum síðan.

Þrándheimur er alveg yndisleg borg og ef ég mögulega get, þá langar mig til að koma hingað aftur síðar, þá með manninn minn og drengina mína með mér. Sýn mín á Noreg hefur breyst algerlega og langar mig nú til að eyða einhverju fríi í það að keyra í gegnum Noreg og jafnvel heimsækja Svíþjóð (annað en bara Gautaborg sem ég hef nokkrum sinnum heimsótt).

Ferðaáætlunin í dag hefst á rútuferð klukkan 9:20. Sú rútuferð endar á flugvellinum. Þaðan verður flogið klukkan 11:30 beinustu leið til Kaupmannahafnar og áfram frá Kóngsins Köben til Álaborgar með áætluðum komutíma klukkan 15:20. Svo rétt um hálf fjögur í dag ætti ég að vera kominn í faðm fjölskyldunnar :o)

Því segi ég nú í síðasta sinn yfir og út frá Þrándheimi

ps. við heyrumst næst í Danaveldi

26 nóvember 2008

Dvölin brátt á enda

Þá eru einungis 3 dagar eftir af Noregsævintýrinu mínu. Það er komið miðvikudagskvöld, svo ég á bara 2 vinnudaga eftir og 3 nætur. Á laugardagsmorgun flýg ég svo héðan frá Þrándheimi til Kaupmannahafnar og svo þaðan áfram til Álaborgar.

Þessi ferð mín hér hefur verið einstaklega skemmtileg og spennandi. Ég hef náð að ljúka við mun meiri vinnu en ég átti von á og er nú skv. tímaplaninu mínu komin langt fram í febrúar á nokkrum sviðum. Svo ekki er það slæmt. Það þýðir líka að ég get næstum alveg samviskubitslaust farið í langt frí um jólin. (Planið er 2 vikur).

Talandi um jólin þá er nú farið að styttast allverulega í þau og SVOOOOO margt eftir að gera. Nú þegar námsstressið er loksins að minnka, þá tekur jólastressið við. Á heimleiðinni á laugardag mun ég þurfa að versla kerti og grein. Svo þegar heim er komið þarf ða knúsa stráka, búa til aðventukrans og setja upp jólaskrautið. Það þarf að búa til jólakortin, ljúka við síðustu jólagjafirnar og koma öllu í póstinn. Í næstu viku erum við í stjórn doktorsnemafélags verkfæðinema við Álaborgarháskóla svo að halda jólapartí (þriðjudag). Daginn eftir erum við í stjórn foreldrafélags leikskólans að halda innandyra jólahlaðborð (bara við stjórnin). Á laugardag í næstu viku koma stúlkurnar úr mömmó í heimsókn í jólakonfektgerð (verð að klára jólahreingerninguna fyrir það). Laugardaginn viku seinna er svo DDÅ (danski vinahópurinn minn) að halda jólahlaðborð. Þess á milli þarf ég svo að knúsa strákana mína dálítið meira (þarf að vinna upp fyrir 3 heilar vikur), undirbúa jólin (bakstur og fleira) og fara á fund í vinnunni og kynna niðurstöðurnar frá Noregsferðinni :o)

Svo nóóóóóóg að gera hjá mér á næstunni.
En ég ætla nú að reyna að taka þessu bara með stakri ró og njóta hverrar mínútu með manninum mínum, strákunum mínum og í jólaundirbúningnum. Síðan þegar fríið hefst (20. des) þá ætla ég að liggja í leti og bæta á mig einhverjum aukakílóum sem geta fokið í janúar.

Í kvöld er ég hinsvegar að fara út að borða í boði Bjørn Gustavsen og ætlum við og Dirk (sá sem er með mér á skrifstofu hér í Þrándheimi) að hittast á Peppes Pizza klukkan 19:30.

En nóg í bili,
ég segi yfir og út frá Þrándheimi, þremur dögum fyrir heimferð

22 nóvember 2008

Veturkonungur hefur tekið völd í Noregi og heimilisfaðirinn lifir sig vel inn í húsmóðurhlutverkin.


Það er nokkuð ljóst að veturinn er mættur í Þrándheim. Það snjóaði þungt án hléa frá þriðjudagskvöldi til föstudagseftirmiðdags. Þegar hætti að snjóa kólnaði all verulega og var 8 gráðu frost hér í gær og búið að spá 10 gráða frosti á mánudag. Það var því ekki alveg sjálfgefið að ganga niður brekkuna frá vinnunni þegar ég lagði af stað heim klukkan 19:30 í gærkvöldi. Munaði minnstu að ég hreinsaði alla brekkuna með rassinum á mér, en tókst með naumindum að grípa í næsta tré :o)

Hér er nóg að gera að venju. Dagurinn í dag fer þó í einhverja afslöppun og smá vinnu (og að sjálfsögðu endanleg jólagjafakaup handa húsbóndanum). Á morgun er stefnt á að taka lestina til Oppdal og skella sér á skíði :o)

Svona í tilefni þess að ég yfirgaf fjölskylduna og skildi þrjá stráka eftir eina í heilar þrjár vikur, þá verð ég nú bara að hrósa fjölskylduföðurnum. Hann hefur staðið sig rosalega vel í uppeldi drengjanna okkar og er t.d. Mummi litli orðinn ótrúlega flinkur með orðinn og segir mér nýjan hlut í hvert sinn sem ég tala við hann í gegnum vefmyndavélina. Frekar skrítið að sjá hann þroskast og dafna svona mikið þegar ég er svona rosalega langt í burtu. Máninn minn er líka ofsalega duglegur og leikur við bróður sinn og hjálpar pabba að hafa röð og reglu. En þetta er nú svosem ekkert nýtt, ég vissi hundraðprósent að heimilisfaðirinn myndi ráða við uppeldið og þessi venjulegu hússtörf án vandkvæða, enda er hann alveg vanur að sjá um þessa hluti. Hinsvegar þá kom heimilisfaðirinn mér bókstaflega mikið á óvart áðan og ekki átti ég von á að hann myndi lifa sig svona vel inn í húsmóðurhlutverkið. Hann fór nefnilega að hafa áhyggjur af jólakortunum. Hvernig það nú væri og hvenær ætti eiginlega að senda þau því ég kæmi ekki heim fyrr en eftir viku og hvort það væri þá orðið of seint. Svo hann Jóhann minn, duglegasta elskan, er greinilega farinn að hugsa um fleiri hluti en ég átti von á. Spurning hvort við sitjum ekki bara saman í ár og sleikjum umslög áður en þau fara til Íslands, Bretlands og fleiri staða. Kannski maður splæsi í ódýrt kreppuhvítvín í Nettó (Nettó er bónus danmerkur) og helli sér í staup yfir jólakortafrágang um næstu helgi :o)

Annað sem sýnir hversu mikil húsmóðir hann Jóhann minn er og hversu duglegur hann er í kreppuástandinu :o) Það slitnaði önnur festingin á vagnabeisli Mumma. Þessi beisli eru rosalega góð en þau kosta líka ca. 300dkk stykkið svo það er frekar dýrt að versla bara nýtt svoleiðis. En nei, húsfaðirinn á heimilinu lætur nú ekki svoleiðis stoppa sig. Hann veit af því að það eru tvær saumavélar á heimilinu sem þessi sem strauk til Noregs notar á hverju kvöldi. En þó hann sé frábær húsfaðir og farinn að lifa sig vel inn í húsmóðurhlutverkið, þá veit hann að ef hann reyndi við þessar flóknu vélar væru fingurnir í bráðri hættu. Þar sem heilir fingur eru frekar mikilvægir í barnauppeldi, þá ákvað hann að gera það skynsamlegasta sem hann hefði getað gert í stöðunni. Hann hringdi í Fríðu bjargvætt (góðan félaga og sam-sauma-unnanda strokukonunnar) og bað hana að hjálpa sér með að gera við beislið. Og að sjálfsögðu var Fríða boðin og búin að hjálpa og sauma nokkur spor í beislið fyrir hinn duglega heimilisföður :o)

En jæja, nú ætla ég að skríða út úr holunni minni, skreppa út í snjóinn og finna mér eitthvað spennandi að gera. Áður en ég sting af, nokkur orð til frábærra vina og ástmanns fyrir að gera þessa Noregsför mína auðveldari.

Takk Íris fyrir að bjóða strákunum mínum í mat
Takk Fríða fyrir að redda Jóhanni og hugsa til þeirra í einsemdinni
Takk Jóhann fyrir að vera frábærlega duglegur að sjá ALEINN bæði um duglegu drengina okkar og heimilið. Og engar áhyggjur, þú þarft ekki að hugsa um jólakortin ég skal redda þeim þegar ég kem aftur. Þú mátt mögulega opna hvítvínsflöskuna og hjálpa mér að tæma hana ;o)

Yfir og út frá Þrándheimi þegar bara 7 dagar eru í heimferð

19 nóvember 2008

Dvölin hálfnuð

Jæja þá er bara dvöl mín hérna í Þrændalögum rétt ríflega hálfnuð. Nú er ég búin að vera hér í 11 daga og fer heim að kyssa strákana mína (alla þrjá) eftir bara 10 daga.

Það er nú kominn meiri vetrarbragur yfir bæinn, þar sem allt er komið á kaf og búið að kveikja á hvítum ljósum í trjám miðbæjarins. Ég hef síðustu daga verið að missa tærnar, þar sem ég hef orðið rennblaut í fæturna á leiðinni í vinnuna á morgnana og svo setið með blautar fætur allan daginn. Svo ég tók mig nú til, hætti snemma í dag (fór af stað klukkan 16:00) og fór í skóbúð og keypti mér þessa rosa flottu fóðruðu vetrarskó. Svo nú er Jóhann búinn að gefa mér jólagjöfina mína (og hann hefur ekki einu sinni séð gjöfina) :o)

Annars hefur ýmislegt á daga mína drifið undanfarið. Á mánudag fékk ég gríðarlega merkilegar og skemmtilegar niðurstöður í því sem ég er að vinna við. Svo nú er ég byrjuð að sanka að efni í næstu grein (verður líklega journal eða IEEE transaction grein í þetta skiptið). Þessar niðurstöður voru þess efnis að ég er líklega búin að leysa hvað það er sem ég þarf að gera til að ljúka doktorsverkefninu mínu. Þó svo ég sé búin að bera kennsl á vandamálið (sem hefur tekið heilmikinn tíma) þá er enn langt í land, því ég þarf víst líka að leysa vandamálið sem ég mun nota næstu tæp 2 árin til. Svo nú hefur verkefnið mitt tekið fyrsta stóra kippinn sem bendir á lok þessa alls.
Á mánudagskvöldið kom svo einn frá Energinet.dk hingað til Trondheim og bauð mér og Bjørn Gustavsen út að borða á þvílíkt flottan veitingastað. Þetta var minn fyrsti viðskiptakvöldverður á ferlinum og samanstóð af 3 réttum, fordrykk, rauðvíni og bjór á pöbb eftir matinn. Í forrétt fengum við rjómalagaða villisveppasúpu, í aðalrétt fengum við léttsteikt hvalkjöt og í eftirrétt fékk ég þvílíka súkkulaðisælu með brómberjaís á meðan hinir fengu sér ostaveislu. Undir borðhaldinu ræddum við bæði um viðskiptaleg málefni og svo margt fleira til að efla tengslaböndin og kynnast fyrir viðskiptin. En á þriðjudag var minn fyrsti viðskiptalegi fundur, þar sem við vorum að ræða um mælingar og ýmislegt varðandi þær. Ástæðan er sú að við hjá Energinet.dk erum að hugsa um að kaupa mæliþjónustu fyrir nokkrar milljónir dkk hjá SINTEF :o)
Ég var nú fyrst hálf feimin á fundinum og þorði ekki mikið að segja þar sem ég var hálf hrædd við að segja einhverja vitleysu, en svo fóru karlarnir bara að spyrja mig tæknilegra spurninga og biðja mig um álit á hinu og þessu og það gekk alveg dæmalaust vel. Allavega voru allir mjög sáttir eftirá og nokkrar af mínum tillögum voru valdar og verður unnið áfram með þær. Svo ég er bara glöð með þennan fyrsta viðskiptafund minn.

Eitthvað hef ég nú verið að skoða umhverfið og fór meðal annars í gönguferð meðfram kanalnum sem rennur um miðbæinn og fór svo líka að skoða Niðarósar Dómkirkjuna að innan. Það mátti því miður ekki taka myndir innandyra, en ég held bara að ég hafi aldrei í lífinu séð jafn stóra og flotta kirkju. Ég hugsa að gólfflöturinn á Hallgrímskirkju kæmist svona 3-4 sinnum inn í þessa kirkju. Svo voru legsteinar hist og her inni í kirkjunni og stærsti minnisvarðinn að sjálfsögðu tileinkaður Ólafi hinum helga. Það var líka lítið borð í einu útskoti (þar sem allt var útskorið í steinvegginn og marmari á gólfinu) þar sem maður gat sest við kertaljós í friði og ró til að skrifa niður bæn á miða. Þetta fannst mér alveg rosalega sniðugt og greinilegt að margir nota þetta til að létta á hjarta sínu. Svo var risastór kapella (var byggð árið 1150) sem búið er að tileinka þeim sem létust í síðari heimsstyrjöldinni. Þar var mikið um fallega sálma tengt stríðinu og minnisvarðar. Svo var að sjálfsögðu fyrsta biblían á norskri tungu í glerkassa í einni kapellunni (hver kapella er líklega á stærð við Hafnarfjarðarkirkju). Í meginsal kirkjunnar má finna 2 altari. Ef þú kemur inn um aðalinganginn og gengur til hægri er því eins og ein risa kirkja með stóru altari og orgeli sem fær pípuorgelið í Hallgrímskirkju til að blikna í samanburði og svo til vinstri er önnur RISA kirkja með meginaltarinu, en það er ekki hægt að ganga upp að sjálfu altarinu, bara hringinn í kring (altarið stendur inni í steinilögðum sal, útskorinn með ýmsum fallegum myndum). Undir þessu aðal altari á gröf Ólafs hins helga að vera. Ég get eiginlega ekki skilið hvernig norsku "víkingarnir" voru með byggingar af þessu tagi, á meðan við bjuggum í torfbæjum (á sama tíma).


Dómkirkju-kastalinn



Útskorna hlið kirkjunnar

Takið eftir, allar þessar styttur eru ca. 180cm á hæð og eru skornar í steininn utaná kirkjunni
Ráðhúsið í Þrándheimi
Frímúrarahúsið í þrándheimi
Ólafur Tryggvason stendur hátt uppi á miðju Trondheim torginu. Á jörðu niðri er búið að búa til skautasvell.
Það byrjaði að snjóa að kvöldi til (tekið út um annann gluggann minn)
Allt komið á kaf í snjó, enn snjóar mikið
Búin að kaupa fóðruð kuldastígvél svo ég verð ekki framar blaut og köld í fæturna. Takk Jói :o)


Yfir og út að kvöldi 11 dags í Þrándheimi.

16 nóvember 2008

Um Þrándheim.

Ég ákvað að gefa ykkur smá upplýsingar og innsýn inn í bæinn Þrándheim.

Þrándheimur er í syðri Þrændalögum. Áin Niður rennur um bæinn og þaðan dregur bærinn sitt gamla nafn: Niðarós. Niðarós var á sínum tíma fyrsti höfuðstaður Noregs og segir sagan að Ólafur Tryggvason hafi stofnað bæinn við endimörk Niðar (Nidelva) árið 997. Fornleifafræðingar hafa hinsvegar sýnt fram á að fólk hafi búið á þessu svæði mun fyrr en 997. Konungur Ólafur Haraldsson (Ólafur hinn helgi) var með hugmyndir um stærðarinnar kirkju sem reisa ætti í Niðarósi. Bygging kirkjunar hófst loks árið 1070 og heitir kirkjan Niðarós dómkirkja (sem ég hef sagt ykkur frá áður og gefið myndir af). Eins og flest ykkar líklega vita, þá dó Ólafur hinn helgi árið 1030 í mikilli baráttu og var gerður að dýrling einungis einu ári eftir að hann lést. Sagan segir að Altari kirkjunar standi beint yfir gröf hans. Árin 1153 til 1537 var Þrándheimur erkibiskupasetur fyrir Noreg, Ísland, Grænland, Færeyjar og Orkneyjar.

Í dag er Þrándheimur titlaður sem þriðji stærsti bær Noregs, með 166.708 íbúa (1. júlí 2008). Bærinn er þekktur sem skólabær með merkan háskóla, NTNU (stofnað sem NTH árið 1910), og eitt stærsta sjálfstæða rannsóknarfyrirtæki Evrópu, SINTEF. Einnig er í bænum einn stærsti rannsóknarspítali í heiminum, St. Olavs University Hospital. Þrátt fyrir að íbúar bæjarins séu um 166 þúsund, þá má segja að á veturna aukist íbúafjöldinn all verulega, en talið er að um sjötti hver íbúi sé nemandi. Skv. upplýsingum á heimasíðu Þrándheimar, þá er hægt að telja um 180þús. íbúa í bænum, séu allir nemendur meðtaldir. Því má segja að bærinn sé fullur af lífi áhugafólks um rannsóknir og vísindi.

Veðurspáin fyrir þessa aðra viku mína í Þrændalögum er eftirfarandi:
Sunnudagur: slydda 1°C
Mánudagur- miðvikudagur: rigning 2°C
Fimmtudagur: Sjókomma -1°C

Til að finna meira um Þrándheim bendi ég á heimasíðu bæjarins: http://www.trondheim.com/

Nú ætla ég að koma mér af stað upp í SINTEF og reyna að vinna svolítið það sem eftir er dagsins.

Yfir og út frá Niðarósi

13 nóvember 2008

Dagur 6 í Noregi

Þá er dagur 6 upp runninn hérna norðurfrá.
Svo ég byrji nú á því að taka saman frá síðustu færslu, þá verð ég að segja að norskt julebrus á ekkert skylt með íslensku jólaöli og þá meina ég að það íslenska hefur algerlega vininginn. Svo dömur mínar og herrar, ég mæli ekki með norsku julebrus. En síðan síðast hef ég nú prófað tvær norskar vörur til viðbótar. Fyrir það fyrsta, þá spurði ég niðri í vinnu hvað væri það fyrsta sem þeim dytti í hug þegar verið væri að tala um NORSKA matvöru. Allavega þrír svöruðu: BRUN OST. svo ég fór að sjálfsögðu í búðina og keypti mér brun ost. Þetta er semsagt rjóma-mysings-ostur. Eins og mér skildist þá er brun ost talið algert lostæti og í vinnunni borða þeir heitar hráar vöfflur bara með brun ost sneið á. Osturinn lítur alveg eins út og venjulegur ostur, fyrir utan litinn.....sem er brúnn en ekki gulur. Ef einhver veit hvernig mysingur smakkast, þá er þetta mjög svipað, bara í hörðu formi (ekki svona smjörformi). En þar sem að ég hef aldrei verið mikið fyrir mysing, þá var ég alls ekki fyrir þennan brun ost (varð að drekka STÓRT glas af ávaxtasafa til að losna við bragðið). Hitt sem ég keypti smakkast hinsvegar MJÖG vel. Það var nefnilega þannig í búðinni í gær, að ég var að rölta um og sjá hvað er í boði hérna norðurfrá og haldiði þá ekki að ég hafi séð draumsýn í brauðhillunni.......þarna sá ég pakka með FLATKÖKUM. Ójá alveg eins og íslensku flatkökurnar okkar (mmmmmmummmm.....ég sakna þeirra). Þessar flatkökur nefnast Lomper og smakkast alveg ofsalega vel.

Í dag og undanfarna tvo daga hef ég tekið eftir mjög merkilegum þrifum. Eitthvað sem ég væri sko alveg til í að taka upp heima í garðinum mínum. Það hafa nefnilega verið 5 menn í fullu starfi alla dagana með blásara að ganga um umhverfið í kringum kirkjuna og blása saman laufblöðum í langa stróka á göngustígunum. Svo hafa verið 3 litlir bílar sem sópa þessum laufum saman og safna því svo saman upp í litla vörubíla sem taka laufið í burtu. Mjög flott athöfn og ótrúlega áhrifarík. Verð að fá mér svona blástursgræju til að safna laufunum í garðinum heima. Það gengur hræðilega illa með þessari ljótu laufhrífu sem tekur minnst af laufum og mest af grasi.

Annars er veturkonungur kominn hérna norðurfrá. Það er frost á hverri nóttu og hvern morgun og frostið verður meira með hverjum deginum sem líður. Seinni partinn í gær rigndi örlítið (í fyrsta skipti síðan ég kom) og svo fraus í nótt og í morgun. Svo þegar ég var á leiðinni í vinnuna í morgun átti ég í mestu erfiðleikum því það var alveg flughált. Hjólreiðafólkið er komið á nagladekk eins og bílarnir, svo það var ekki að sjá á umferðinni (hvorki hjóla né bíla) að það væri glersvell yfir götunum. Hinsvegar voru tásurnar mínar á góðri leið með að sameinast svellinu og frjósa saman. Ég er nefnilega vön að vera í ullasokkum og gönguskónum mínum þá sárafáu daga sem þess þarf í Danmörku. Svo ég hugsaði ekki einu sinni út í almennilegan skófatnað þegar ég fór og tók bara með mér þunnu strigaskóna mína. Svo nú hugsa ég að um helgina fari ég og fjárfesti í kuldaskóm, enda hef ég ekki átt þess háttar skó í áraraðir. Svo vonandi verða tærnar mínar ekki frosnar fastar í skósólana áður en ég kemst í skóbúð :o)

Annars gengur fínt hjá mér hérna í Þrándheimi. Vinnan skotgengur og er ég nú þegar komin mun lengra en ég hafði búist við. Er mögulega komin með lausn á því hvað er að líkaninu sem ég ætla að betrumbæta og byrjaði í dag að gera smá tilraunir og rannsóknir á kenningum mínum varðandi það. Hef fengið mjög góðar niðurstöður þar sem mæliniðurstöður mínar og hermanir passa ótrúlega vel saman, alveg upp að ákveðnum punkti sem er það sem ég var búin að sjá fyrir að væri vandamál (það sem ég ætla að einbeita mér að betrumbæta næstu 2 árin.) Hinsvegar er einmannaleikinn alveg farinn að segja til sín og er ég farin að sakna fjölskyldu og vina alveg ótrúlega mikið. Það er frekar óþægileg tilfinning að standa algerlega einn á báti þegar manni líður illa eða eitthvað er að hrjá mann. Þetta væri örugglega auðveldara ef ég hefði einhvern sem ég þekkti nálægt, en það er jú enginn hér nema ég, svo ef eitthvað er þá er eina leiðin til að létta á sér í gegnum síma við sína nánustu sem eru nokkur hundruðir kílómetra í burtu. Þetta gerir mig ótrúlega viðkvæma eitthvað og væmiltítulega. En sem betur fer á ég ofsalega góðann eiginmann og frábæra stráka sem reyna að létta mér einveruna með löngum internetsamtölum hvert einasta kvöld. Og svo er bara að reyna að hugsa jákvætt þegar eitthvað bjátar á. Þetta er jú alveg einstakt tækifæri sem býðst ekki aftur og þegar ég kem aftur heim á ég örugglega eftir að kunna enn betur að meta litlu fjölskylduna mína :o)
Svo ég ætla að reyna að vera bara glöð, hugsa jákvætt og láta allt annað lönd og leið. Enda óþarfi að láta áhyggjur heimsins eyðileggja fyrir sér þegar eitthvað gengur vel. Og svo eru bara 16 dagar þar til ég get knúsað börnin mín og manninn minn aftur :o)

Brosum í gegnum tárin og verum góð við hvert annað.
Álaborgarstellan segir yfir og út héðan frá Þrándheimi

10 nóvember 2008

Dagur 3 að kvöldi kominn

Þá er fyrsti vinnudagurinn loks liðinn.
Ég mætti, eins og um hafði verið samið, rétt uppúr klukkan 9 í morgun í höfuðstöðvar SINTEF á NTNU skólasvæðinu. Þar tók Gustavsen brosandi á móti mér. Hann er alveg einstaklega elskulegur og hjálplegur náungi. Ég hef aldrei séð hann áður og miðað við alla vinnu og allar greinar sem hann hefur gefið út hafði ég ímyndað mér mann á milli 50 og 60 ára. En það reyndist nú ekki vera rétt hjá mér, því hann hefur líklega verið á aldri við Samma bróður, jafnvel yngri. Svo það er víst ekki hægt að mæla aldur fólks í afrekum þeirra. Ég var reyndar búin að heyra frá mörgum að hann væri alveg rosalega gáfaður og skarpur, svo ég hefði nú alveg getað lagt tvo og tvo saman og séð að hann gæti nú alveg hafa afrekað allt sem hann hefur gert þrátt fyrir ungan aldur.

Þegar ég mætti á svæðið þá byrjaði Gustavsen á því að kynna mig fyrir fólkinu á staðnum og sýna mér skrifstofuna mína. SINTEF höfuðstöðvarnar eru í 5 hæða húsi með alveg rosalega mikið af starfsfólki (mest verkfræðingar) í öllum hugsanlegum sérhæfingum innan orkugeirans.
Ég deili skrifstofu með öðrum gesti sem er Post Doc frá Genf og er hérna í heimsókn í 2 mánuði. Hann er einnig að vinna í samvinnu með Gustavsen. Ég komst reyndar ekki til að ræða verkefnið hans við hann svo á morgun verð ég að reyna að kynnast þessum skrifstofudeilanda mínum aðeins betur. Ég fékk aðgangskort að byggingunni sem virkar 24 tíma alla daga vikunnar svo vonandi ætti ég nú að geta komið einhverju í verk. Eftir að hafa hitt fólkið, skoðað bygginguna og fengið aðgangskortið héldum við Gustavsen fund og ræddum um það sem ég er búin að gera á þessu rúma ári mínu sem doktorsnemi og markmið mín fyrir þessa heimsókn hér í Þrándheimi. Hann gaf mér nokkur mjög góð ráð í samræmi við þau vandræði sem hann sjálfur upplifði þegar hann var að vinna að líkaninu sínu sem doktorsnemi og fékk ég nokkur mjög góð ráð sem ég er nú þegar farin að taka í notkun. Svo fór ég inn á skrifstofu og vann það sem eftir lifði dags.

Þegar klukkan fór loks að nálgast 4 fékk ég alveg rosalegt samviskubit og vissi ekki alveg hvað ég var að gera af mér. Mér fannst eins og ég væri orðin alltof sein og þyrfti að drífa mig frá öllum bókum og tölvunni og sækja Mána (því ég er vön að fara um 15:30 af stað á hjólinu að sækja hann í leikskólann). Ég var eiginlega ekki alveg í rónni fyrr en ég var búin að sjá að Jói var löngu farinn sjálfur af stað að sækja báða prinsana okkar og var kominn með þá heim. Þetta var bara svo skrítin tilfinning að sitja bara þarna og halda áfram að vinna þó svo það væri kominn tími á að sækja drenginn.
En ég vann semsagt áfram og alveg til rétt rúmlega 5, en þá dreif ég mig í búðina og svo heim til að ná í kvöldmat með strákunum mínum.

Ég tók eftir því í dag að Norðmenn eru jafn mikið hjólafólk eins og Danir. En ég gæti samt ALDREI notað hjólið mitt hérna norðurfrá. Það er nú þannig að Þrándheimur (og líklega Noregur allur) er ekkert nema brekkur og upp og niður hvert sem þú ferð, fyrir utan að veturinn er frekar kaldur og snjóþungur. Svo hérna ferðast allir um á fjallahjólum, enda hugsa ég að brekkurnar krefjist að minnsta kosti 21gíra hjóla. Ég hef líka enn sem komið er ekki hitt einn einasta Norðmann í yfirvigt. Enda allir sem ég sé annað hvort á göngu eða hjólandi (ég er ekki mikið að glápa inn í bílana sem keyra framhjá). En það er nokkuð ljóst, að fyrst hægt er að notast svo mikið við hjólið og tvo jafnfljóta hérna norðurfrá þá er ekki lengur ein einasta afsökun fyrir að ferðast allt um í bíl á Íslandinu. Ég var alltaf að telja mér trú um að við notuðumst alltaf við bíla og hjóluðum eiginlega ekkert því Ísland væri mun erfiðara yfirferðar en Danmörk, vegna allra brekknanna og snjósins. En það er alveg víst að þetta eru ekkert nema afsakanir einar og nú er það takmark mitt að þegar við flytjum aftur til Íslands, þá verður notast við hjólið eins mikið og mögulegt er (mun þó líklega endurnýja hjólið mitt og kaupa mér eitt stykki fjallahjól og nagladekk fyrir veturinn).

En jæja, aftur að sögunni....Búðin var sem sagt opin í þetta skiptið og gat ég verslað inn á tóma heimilið mitt, svo nú á ég brauð, álegg, mat, drykkjarvöru, morgunkorn og hitt og þetta nauðsynlegt. Ég keypti mér líka eina flösku af einhverju sem heitir "JULEBRUS" (jólagos) og verður spennandi að sjá hvort þetta sé eitthvað svipað og jólaölið okkar. Þegar heim kom tók ég fram afganginn af tómatsúpunni frá í gærkvöldi, bætti í hana kartöfflum, kjötbollum og lauk og borðaði ágætis tómatrétt. Ég var rétt að klára að elda þegar drengirnir mínir voru að byrja að borða og hringdu í mig til að borða með mér....

Miðað við afganginn í dag verður líklega pasta í kvöldmatinn á morgun með sósu búna til úr tómatsúpu, kjötbollum, kartöfflum og lauk.

.....Drengirnir mínir að borða með mér segi ég og við sem erum mörg hundruð kílómetra í burtu frá hvert öðru :o)
Jæja það er nú svo að klukkan hérna er sú sama og klukkan í DK. Svo við höfum haft þann háttinn á í gær og í kvöld að við eldum matinn á sama tíma, svo kveikjum við á tölvunni og notum skype vídeó (bæði hljóð og mynd) og höfum kveikt á því meðan við borðum (þ.e. ég í Noregi og litla fjölskyldan mín í Álaborg). Með þessari frábæru tækni komumst við því aðeins nær hvert öðru og getum notið kvöldmatarins saman og spjallað um daginn og ég fylgst með því sem prinsarnir eru að bardúsa, hvernig þeim líður og hvernig þeir stækka og dafna. Þetta er alveg frábært fyrirkomulag og gerir lífið fjarri þeim mun auðveldara og viðráðanlegra. Þó ég nefni nú ekki að við höldum áfram þeim sið okkar að gera kvöldmatartímann heilagan fjölskyldutíma þar sem allir sitja saman við borðið og njóta máltíðarinnar í sameiningu :o)

Nú er svo planið fyrir kvöldið að vinna til svona 9. Ég ætla að reyna að leiðrétta eina grein sem ég var að skrifa um daginn og er fyrir ráðstefnuna í Kyoto í júní á næsta ári, en abstraktið mitt var samþykkt um daginn og síðasti skiladagur á fullri grein er 14. nóvember. Eftir þetta ætla ég svo að leggjast niður með jólagosið mitt og sjá hvort ég geti kominst í smá jólafíling yfir James Bond sem á að sýna í sjónvarpinu (Die another day var í gær og ég held það sé Casino Royale í kvöld).

Svo nú á þessum þriðja degi í Þrándheimi segir Álaborgarstellan enn einu sinni yfir og út :o)

ps:munið svo að kvitta fyrir ykkur svo ég viti nú hvort einhver sé að lesa allt þetta raus í mér ;o)

09 nóvember 2008

Dagur 2 í Niðarósi

Jæja þá er fyrsta nóttin liðin og dagur 2 senn á enda.

Ég hefði nú heldur átt að sleppa allri umræðu um magakveisur í færslunni í gær, þar sem mér hefndist fyrir. Ég vaknaði síðastliðna nótt alein langt í burtu frá öllu og öllum sem ég þekki, komin með gubbupest og magakveisu. Við hérna norður frá erum nú svosem vön smá mótbyr og því var ákveðið að láta þetta ekki skemma upphaf ferðarinnar og um leið og ég var orðin nógu hress dreif ég mig á lappir og kom mér út í göngutúr til að litast um í mínu næsta nágrenni og finna SINTEF. Þetta var að sjálfsögðu eftir að ég var búin að tala við drengina mína alla þrjá með webcaminu í gegnum netið. Alveg unaðslegt að geta séð prinsana mína og manninn minn og meiri háttar að fá viðbrögðin frá þeim stuttu þegar þeir gátu talað við mig og séð í tölvunni :o)

Þar sem ísskápurinn var alveg tómur þá var fyrsti áfangastaður minn kaffihús nokkurt á brautarstöðinni þar sem ég fékk mér eina brauðsneið með grænmeti og eitt glas af ávaxtasafa. Þar skipulagði ég svo daginn, setti mér verkefni og ákvað hvert göngunni skyldi heitið. Fyrsta mál á dagskrá var að finna búð til að versla einhvern mat inn á heimilið.

Ekki tókst nú vel að finna opna búð. Ég rambaði að sjálfsögðu á nokkrar 7-11 búðir en ákvað að láta það vera síðasta valmöguleikann og reyna að finna eitthvað ódýrara til að versla. Norðmenn hafa þann siðinn á að halda öllu lokuðu á sunnudögum, líkt og gert er í Danaveldi. Fyrir ykkur sem nutu hrollvekjuferðar með mér til Amsterdam forðum daga, þá get ég upplýst ykkur um það að fyrsta dag í Þrándheimi, á sunnudagslokunardegi, er ekki hægt að líkja við Amsterdamshryllinginn. Bærinn er mjög skemmtilegur, þó allt sé lokað og lífið í lágmarki. Reyndar var sól og þurrt hjá mér í dag (samt rosalega kalt) og ekki hellidemba eins og forðum daga. Svo sjálfsagt hefur það eitthvað spilað með þar sem við Íslendingar erum þekktir fyrir að hafa mjög veðursveigjanlegt skap og veðurbreytanlega sýn á lífið og tilveruna :o)



Þrátt fyrir búðarleysið þá tókst mér nú að fara í 3 klukkutíma kraftgöngu um borgina. Ég sá hvernig þrátt fyrir allt bankavesen á Íslandi, við Íslendingar höfum litað heiminn








og það gladdi mitt litla hjarta mikið að sjá fánann okkar dreginn að húni ásamt öðrum fánum í miðbænum. Það er greinilegt að þrátt fyrir allan orðstý um þjófnað og peningagræðgi þá eigum við enn vini úti í hinum stóra heimi, svona eins og Færeyingar og Pólverjar hafa sýnt okkur.


Umhverfi Þrándheims er allt í brekkum og eru húsin byggð í hlíðunum líkt og heima





Það má líka segja að hérna sé enn brattara heldur en heima og sá ég allnokkrar íbúðagötur sem láta Lindarbergsbrekkuna blikkna í samanburði










Haustlitirnir í umhverfinu eru einnig unaðslegir, enda eru brekkurnar skógi vaxnar frá toppi til sjávar, svona fyrir utan þar sem búið er að höggva og reisa hús.


Á leið minni varð ég einnig vitni að því hversu ríkir Norðmenn raunverulega eru. Það er nefnilega einn risastór spítali hérna rétt hjá með öllum nýjasta og flottasta búnaði. Það er verið að vinna í stækkun og betrumbótum á spítalanum og mátti meðal annars sjá risa þyrlupall uppi á einu af nýju húsunum.


Eftir langa og lærdómsríka skemmtigöngu kom ég loks að NTNU skólasvæðinu þar sem ég fann SINTEF höfuðstöðvarnar. En þar mun ég á morgun fá afhenta skrifstofu og aðstöðu til að vinna að verkefninu mínu næstu 3 vikurnar.


Skólinn sjálfur er líka ekkert slor og sýnir hversu ríka og gamla sögu Norðmenn hafa í lærdómsmenningu og byggingalist.

Ég tók að lokum þá ákvörðun að fara stystu leið heim aftur, sem var meðal annars framhjá fyrrverandi dómkirkju okkar Íslendinga, Dómkirkjunni í Niðarósi





Þessari kirkju mun ég ganga framhjá daglega næstu 20 dagana á leið minni til vinnu og hef ég tekið þá ákvörðun að stoppa þar innandyra áður en ég sný aftur til Álaborgar. Enda ekki hægt annað en að skoða upphafssetur kristni á Íslandi.

Þegar heim kom var ég orðin dauðþreytt og enn algerlega matarlaus. Svo ég skrapp á næstu bensínstöð til að svala sárasta hungrinu (enda ekkert búin að borða nema eina brauðsneið og búin að vera á klósettinu alla nóttina og allan morguninn). Þegar ég hafði svo hvílt mig um hríð, búið til tímaplan fyrir vinnuna næstu vikurnar og unnið svolítið tölti ég út í næstu 7-11 búð og keypti mér tómatsúpu til að elda í kvöldmatinn. Á morgun verður svo gerð önnur tilraun til matarinnkaupa í lágvöruverslun :o)

Svona til gamans, þá er hér mynd af miðborginni og gönguleið dagsins.

En nú er víst kominn tími á að halla sér svo ég geti verið sprækur eins og lækur á fyrsta vinnudeginum.

Yfir og út í annað sinn frá Þrændalögum.

08 nóvember 2008

Komin til Noregs

Þetta hefur verið langur og erfiður dagur í dag.

Nóttin fór að mestu í þrif og aðhlinningu að stóra prinsinum okkar honum Mána. En hann er nú eins og pabbi sinn búinn að smitast af gubbupest sem var að hrjá Mumma í vikunni. Ég er því nú sú eina sem hefur sloppið við gubbuvesen í þetta skiptið.

Við Mummi vöknuðum svo snemma í morgunsárið að venju og lékum okkur saman og knúsuðumst. Enda var mikil þörf á því hjá mömmunni, þar sem hún vissi í hvað stefndi þegar líða tæki á daginn (þó sá stutti hafði ekki hugmynd um að móðir hans væri að fara að yfirgefa hann í heila 21 daga). Þegar hádegi rann upp, þá var öllu stóðinu komið út í bíl ásamt farangrinum mínum og lagt af stað í ferðalag til Noregs. Drengirnir mínir fylgdust með mér fara í flugvélina á flugvellinum og horfðu á eftir vélinni fljúga burt. Ég var svo heppin að hafa glugga sæti flugstöðvarmegin, svo ég gat fylgst með þeim í glugganum og horft á þá á meðan verið var að klára vélina og keyra okkur af stað. Svo hóf vélin sig á loft og persónulegt atvinnuævintýri mitt hófst.

Fyrst flaug ég til Kaupmannahafnar og svo þaðan til Osló. Þegar ég var að koma inn til lendingar í Osló blasti við mér fyrsta skemmtilega sýn dagsins. Í fyrsta sinn í dag fann ég mig brosa í stað þess að klökkna af söknuði yfir börnunum mínum og manninum. Þetta gerðist þegar ég sá góðkunnugan og langþráðan snjó og fjallgarð. Það er ótrúlegt hvað maður getur saknað margra einfaldra og sjálfsagðra hluta eins og brúns/guls strágrass, fjalla, snjós og fleira þegar maður hefur ekki búið á Íslandinu í góða í nær 4 ár. En snjórinn tók sumsé á móti mér á Oslóarflugvelli. Það byrjaði reyndar að rigna stuttu eftir lendingu, en það skipti engu. Ég var búin að sjá snjó og vonir mínar um að komast á skíði meðan á dvöl minni hér stendur fengu byr undir báða vængi.

Frá Osló tók ég svo þriðju flugvélina alla leiðina til Þrándheima, þar sem ég mun dvelja næstu 3 vikurnar. Þrándheimur frískaði einnig upp á Íslandsminnið, þar sem ég keyrði í rútunni frá flugvellinum í ca. 20 mín (eins og frá Leifsstöð og inn í Hafnarfjörð) í gegnum 3 göng um fjallgarðinn sem umlykur fjörðinn sem Þrándheimur stendur við. Að sjá fjörðinn og húsin í fjallshlíðinni hér allt í kring, myrkrið svo snemma um kvöld, gulu stráin, birkitré um allt (með engin lauf) og grenitré þar við hliðina, ég get vel skilið að ættfeður okkar hafi fundið sig heima þegar þeir lögðu að landi á Íslandi :o)

Nú er ég sumsé komin inn á hótelið mitt, sem er ágætlega stórt herbergi, lítið eldhús og meðalstórt baðherbergi í sjálfri miðborginni. Morgundagurinn mun fara í að kynnast miðbænum og umhverfinu og finna gönguleiðina til NTNU og SINTEF. Á mánudaginn ætla ég svo að hitta Bjørn Gustavsen og hefja vinnutímabilið sem er nú ástæðan fyrir þessu ævintýri mínu öllu saman.
Ég skal reyna að vera dugleg að uppfæra fréttir af þessu ferðalagi mínu hérna inn og segja ykkur frá því sem á daga mína drífur.

En Álaborgastellan segir yfir og út frá Þrændalögum í bili.

12 október 2008

...og enn meiri peningaumfjöllun

Mig langaði bara svona til gamans að deila með ykkur nýrri samantekt á fjármunum stærstu eiganda Glitnis undanfarin misseri.
Hversvegna þurfa fyrirtæki með milljarða í eignir að fá lán frá okkur til að bjarga einni af eigum sínum (Glitni)? Og hvernig voga þessir menn sér síðan að koma fram og saka menn um bankarán. Ætli málið sé ekki að það var allsherjar rán í uppsiglingu, þar sem ræningjarnir voru í raun stoppaðir í dyrum búðarinnar og þykjast nú vera alveg saklausir.

Er ekki kominn tími til að draga þessa menn fram í dagsljósið og láta þá svara fyrir það sem þeir hafa gert? Hversvegna sofa fjölmiðlar á verðinum og taka ekki auðveldismennina á rauða teppið líkt og þá sem eru að reyna að bjarga okkur frá falli vegna græðgi nokkurra einstaklinga?






Ég spyr því enn og einu sinni:
ER EKKI KOMINN TÍMI TIL AÐ VIÐ ÞÖKKUM RÁÐAMÖNNUM ÞJÓÐARINNAR OG SEÐLABANKANS FYRIR ALLANN ÞANN TÍMA OG ÞÁ ÞRAUTSEIGJU SEM ÞEIR ERU AÐ SÝNA OKKUR LANDSMÖNNUM? VIÐ VITUM JÚ ÖLL AÐ ÞEIR FARA EKKI FRAM Á MARGRA MILLJÓNA KRÓNA STARFSLOKASAMNING OG ERU LANGT FRÁ ÞVÍ AÐ VERA HÆST LAUNUÐUSTU STARFSMENN ÞJÓÐARINNAR.

HÆTTUM AÐ RÁÐAST Á BJARGVÆTTINN OG FINNUM BRENNUVARGINN!!!!!!!!

10 október 2008

Enn eitt bloggið í fjármálaumræðuna

Já er það ekki mál málanna í dag, fjármálakreppan á Íslandi. Hérna í háskólanum er þetta allavega mjög heitt mál og ég er búin að upplifa ansi mörg merkileg, skrítin og stórfurðuleg “comment”. En ég verð nú að segja að mér finnst umræðan hjá mörgum Íslendingum (sem betur fer minnihluta, en of mörgum þó) bæði heima og heiman vera mjög ómálefnaleg og til þess gerð að skaða enn frekar þá slæmu ímynd og það ástand sem orðið er. Fólk er farið að grípa slæman fréttaflutning á lofti og ræða þessháttar málefni sín á milli og segja öðrum fáfróðari frá. Væri ekki skynsamlegra að fólk settist aðeins niður, dregði djúpt andann og hugsaði sinn gang áður en það fer að bera út sögur sem eru hálfsannar og eru með til þess að gera enn erfiðara fyrir hjá þeim sem eru að reyna allt sitt til að bjarga málunum eins og hægt er.

En svona svo ég fái að vera aðeins með í því að benda á sökudólgi og reyna að finna blóraböggul þá langar mig til að spyrja, hvar eru þeir sem hafa eytt öllum peningum þjóðarinnar? Hvers vegna höfum við ekki heyrt eitt orð frá þeim sem hafa undanfarin ár keypt risafyrirtæki erlendis á lánum? Hversvegna höfum við ekkert heyrt í þeim mönnum sem hafa undanfarin misseri verið með margar milljónir í laun á mánuði og himinháa bónusa í ofanálag? Hvernig væri að athyglinni væri aðeins beint að þessum mönnum í stað þess að tala illa um íslenska ríkisstjórn og ráðherra sem þessa dagana vinna 24 stundir sólarhringsins hvern einasta dag til að leysa úr vandamálum sem örfáir ofurlauna-galgopar hafa skapað. Ég veit ekki betur en fyrir ca. einu ári síðan hafi Davíð Oddson sett út á þá Baugsfeðga fyrir ofurkaup í Bretlandi og varað við útrásinni. Þá var hann sagður svartsýnismaður og ofvarkár og það eina sem honum kæmi til væri að skemma fyrir aumingjans Jón Ásgeiri. Hann var hrópaður niður og skrifaðar endalausar greinar um hann í Baugsblöðunum, um það hversu ósanngjarn og vondur hann væri. Hvað er svo að gerast í dag? Það er því miður að koma í ljós að hann hafði rétt fyrir sér og þar af leiðandi er ríkisstjórn Íslands ásamt æðstu fjármálastofnunum að reyna að þrífa skítinn af gólfinu eftir skó ofurkaupmanna og oflaunafólks. En þrátt fyrir þetta eru alltof margir sem enn hrópa að honum og skamma hann fyrir að hafa ekki tekið hattinn ofan af fyrir þessum mönnum og lánað þeim hundruðir milljóna til að borga skuldir, sem hefði ekki dugað nema til örfárra vikna og þar með lofa þessum mönnum að komast enn lengar með áform sín um að græða allt sem hægt væri á okkur hinum.

Hversvegna er það, að menn sem hafa verið með milljónir í laun á mánuði og bónusa þar í ofanálag segja ekki orð þegar á öllu þessu stendur? Hvar eru allir þeir peningar sem þeir hafa tekið sér í laun? Ekki eru þeir á Íslandi, svo eitthvað hljóta þessir menn að hafa flutt af íslenskum peningum erlendis. Hvernig stendur á því að þegar lífeyrissjóðir og saklausir borgarar missa hálfu og heilu aleigurnar vegna nauðsynlegra ráðstafana ríkisins í uppkaup bankanna, þá standa þessir menn enn þann dag í dag moldríkir með stórar eignir í erlendum bönkum og fasteignum? Hversvegna eru þessir menn ekki látnir bera ábyrgð á gjörðum sínum og teknir til saka fyrir það sem þeir hafa gert? Hversvegna er ráðist á þá sem eyða öllum sínum tíma og allri sinni orku í það að reyna að bjarga þjóðinni frá gjaldþroti, en enginn virðist þora að spyrja spurninga um fyrrverandi bankastjóra og eigendur stórfyrirtækja eins og Baug? Eru allir strax búnir að gleyma hverjir það raunverulega voru sem eyddu peningunum okkar og tóku lán í nafni Íslands? Sem dæmi um erlenda fréttamiðla sem EKKI eru búnir að gleyma, þá er hér stórskemmtilegt viðtal norskrar fréttastöðvar við Má Másson forstöðumann kynningarmála Glitnis.




Til að rifja enn frekar upp, þá er hér enn eitt myndband um ofurjörfana og þeirra framkomu gagnvart íslenskum fyrirtækjum. Mér finnst persónulega að þetta myndband sýnir einkar vel hvernig hugsunarháttur þessara manna er og hversu mikið þeir hugsa um rassinn á sjálfum sér og ekkert annað.



Hvað varð um alla fjármunina sem tengdust FL group og þeim Baugsfeðgum, ég bara spyr?

Er ekki kominn tími til að við hættum að benda á ríkisstjórnina og Seðlabankastjórnina og reynum að eyða kröftum okkar í að sýna stuðning og samstöðu á hörðum tímum og reynum að sýna NATO þjóðunum, USA og öðrum þjóðum sem ekki vilja rétta hjálparhönd hversu sterk við raunverulega erum og að við erum enn harskeyttir víkingar sem látum ekki bugast þó aðeins á móti blási.

03 október 2008

Sælt veri fólkið

God dag, god dag
Álaborg hérna megin.

Hérna hjá okkur litlu familíunni er allt besta að frétta. Lífið gengur vel og allir hressir og kátir. Hér er enn sól, þó það sé farið að blása svolítið með. Það var reyndar 18 gráðu hiti á mælinum áðan, svo ekki er þetta neitt alslæmt hjá okkur.
Við Jóhann gerðum okkur glaðan dag um síðustu helgi og fórum út að borða og litum svo í bæinn eftirá. Við brugðum undir okkur betri fætinum af því tilefni að það voru 12 ár síðan við byrjuðum að vera saman. Við fengum góðar barnapíur til að passa litlu sofandi prinsana okkar og fórum á Restaurant Dahl hérna niðri í miðbæ. Þetta er mjög lítill og kósí staður með útsýni yfir tívolíinnganginn og maturinn var alveg geggjaður, hefði ekki getað verið betra. Eftirá fórum við svo í fyrsta skipti saman á pöbbarölt í miðbænum. Hittum nokkra góða félaga og sátum og spjölluðum til klukkan 3. Þetta var alveg frábær dagur og vel þegin hvíld frá amstri hversdagsins (sem teygir sig yfirleitt yfir helgarnar líka).

Nú fer brátt að líða að 4 ára afmælisdegi frumburðarins, en hann á víst afmæli í þarnæstu viku. Það er mikið verið að spá og spekúlera í afmælisveislum og afmæliskræsingum og það verður að segjast eins og er að prinsinn er frekar óákveðinn þetta árið (hann sem var svo ákveðinn bæði í fyrra og hitteðfyrra). En helst finnst mér hann oftast hallast á McQueen bílaköku. Það mun nú kannski breytast á næstunni.
Þetta árið erum við mikið að velta fyrir okkur hvort hann eigi að fá að bjóða heim gestum af leikskólanum, frekar en bara börnum vina okkar, en hann er búinn að eignast nokkra mjög nána og góða vini þar. Við ætlum svona allavega að spá í það hvað við gerum og hvað hann vill sjálfur.

Mummi er alltaf samur við sig og er algjört draumabarn. Hann er að byrja að hlaupa en hlýðir svona að mestu öllu sem sagt er og getur setið alveg lon og don kjurr með bók eða púsl eða bíl. Hann elskar bíla og skríður með þá um öll gólf og segir brrrrrrrrr brrrrrrrr, rosa gaman. Það er reyndar á dagsskránni að sauma ól í einn bílinn svo hann geti nú líka bara gengið með bílinn á eftir sér í stað þess að skríða alltaf með þá.

Ég er komin eitthvað áleiðis með jólagjafirnar og er líka búin að sauma afmælisgjöf fyrir hana Sunnevu Lind. Næst á dagskrá er afmælisgjöf handa Kristófer prins og svo að klára restina af jólagjöfunum. Ég hef sett mér takmark að vera búin með allar gjafirnar áður en ég fer til Noregs, en það styttist ískyggilega mikið í þá för, ekki nema rétt um mánuður þar til ég legg í hann. Svo það er eins gott að vera duglegur að nýta hverja lausa mínútu :o)

Við eigum von á heimsókn nú í lok mánaðarins, en tengdó ætlar að heiðra okkur með samveru sinni. Við hlökkum ofsalega mikið til að fá hana hingað til okkar, enda liðinn ansi langur tími síðan við sáum ættingja og vini á Íslandi síðast. Ætli við munum ekki líka nota ömmuna aðeins og skreppa svona eins og einu sinni í bíó :o)

Jæja, nú ætla ég að fara að byrja á föstudags-hygge með prinsunum mínum. Það er á planinu að spila og leira áður en við Máni förum að búa til föstudagspizzuna okkar.

Knús knús til ykkar allra héðan frá Álaborginni

Ps. Var klukkuð af Fríðu sætu, svo best að svara því :o)

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
Rannsóknarkona (Forskning)
Verkfræðideild ISAL
Rafvirkjadeild ISAL
Vaktstjóri hjá Olís


Fjórar kvikmyndir sem ég held upp:
Lord of the Rings
Pretty Woman
Star Wars
The Nightmare Before Christmas

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Hafnarfjörður
Garðabær
Reykjavík
Álaborg

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
Battlestar Galactica
LOST
Gilmore Girls
House

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Ísland
USA
England
Ítalía

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:
facebook.com
mbl.is
Kbbanki.is
iet.aau.dk

Fernt sem ég held upp á matarkyns:
Súkkulaði
Ís
Kjötbollur með kartöfflumúsinni hans pabba
Íslenskt lambakjöt að hætti mömmu

Fjórar bækur sem ég les oft:
Electromagnetics
High voltage underground cables
Transient simulations in HV systems
Anna í Grænuhlíð

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna:
Að renna með Mána í snjónum á Íslandi
Með mömmu í pottinum á Íslandi
Með strákunum mínum í sundi
Á leið útúr fyrirlestrarsalnum eftir að hafa varið doktorsverkefnið mitt

Fjórir bloggarar sem ég ætla að klukka:
Anna Júlía
Raggi&Agnes
Íris
Erna

26 september 2008

Fréttir frá Álaborg

Það má með sanni segja að haustið sé komið hjá okkur á nóttunni og morgnana. Dagarnir eru enn mjög fínir með sól og 15-20 gráða hita, en nóttin og morgnarnir eru farin að vera dálítið köld. T.d. var ekki nema 3 gráðu hiti í fyrrinótt. Svo við erum búin að taka fram hluta af vetrarfötunum og öll kertin að sjálfsögðu. Mér finnst það reyndar alltaf svo kósí og skemmtilegur tími, kertatíminn. Það er svo gaman að hafa kertaljós um allt hús og sitja og slappa af (eða sauma/vinna/læra og slappa af).

Drengirnir okkar eru alltaf samir við sig, algjörir prinsar og hjartaknúsarar. Máninn minn er farinn að telja upp að 30 bæði á íslensku og dönsku. Hann kann líka stafrófssönginn á íslensku og syngur hann stoltur alltaf þegar hann er að leika sér. Ég frétti það líka í leikskólanum að hann hafi tekið sig til og sungið íslenska stafrófið (nýja sönginn með a, á, b, d, ð og s.frv.) fyrir flestar fóstrurnar, að sjálfsögðu við mikinn fögnuð og hrifningu :o)
Hann er bara með óendanlega mikinn áhuga bæði á spilum og svo stöfunum. Við erum með svona langar stangir með seglum á ísskápnum og hann er alltaf að búa til hina og þessa stafi þar og svo kallar hann stoltur…….mamma koddu sjáðu ég var að búa til A eða T eða hvað það nú er. Uppáhaldsspilið hans í augnablikinu er minnisspil, enda er hann snillingur í því. Við eigum tvö mismunandi og hann vill helst bara setja þau saman og vera með RISA spil yfir allt borðið og spila þannig. En hann spilar líka oft við okkur bæði Ludo og slönguspilið (við eigum þau tvö bara í svona lítilli mini-segla-útgáfu). Hann er alveg búinn að læra á teninginn og situr stundum við borðið á meðan við erum að bardúsa eitthvað og kastar teningnum bara til að reyna að fá töluna 6 :o)

Mumminn okkar er farinn að labba út um allan bæ. Honum finnst hann líka svo duglegur þegar hann labbar og hann er svo stoltur af sjálfum sér að við liggjum oft í hláturskasti yfir stoltinu hans. Annars er hann alltaf sama ljúfa barnið. Hann getur svoleiðis dundað sér og leikið sér alveg lon og don. Svo dýrkar hann að sjálfsögðu stóra bróður sinn, sem lofar honum að leika inni í herberginu sínu. Máni var nú líka svo snjall, þegar Mummi var farinn að vesenast í því sem Máni var að leika með, þá fór Máni inn í herbergið hans Mumma og sótti píanó og eitthvað smá dót og setti inn í sitt herbergi. Svo nú leika þeir saman sáttir inni hjá Mána :o)
Annars er Mummi líka farinn að tala heilmikið. Hann segir að sjálfsögðu bæði mamma og pabbi. Uppáhaldsorðið er samt namm namm eða matur (enda borðar hann alveg endalaust mikið). En svo er hann aðeins kominn í dönskuna og í stað þess að setja þetta (eða etta) þegar hann bendir á hluti, þá segir hann bara hvad det (hvad er det). Svo þessa dagana erum við endalaust að svara og segja ísskápur, eldavél, ljós, sófi,……………

Jóhann er á fullu í skólanum alla daga að vesenast í efnum, sýklum og hinum ýmsu gerlum og svo er hann nýbúinn að fá nýja tölvu, svo hún er testuð vel á kvöldin. Ég er farin að huga að jólunum, þar sem ég mun ekki vera hérna megnið af nóvember. Svo nú er ég byrjuð á flestum jólagjöfunum og búin með einhverjar, en nánast allar jólagjafir eru heimagerðar í ár. Mér finnst líka svo róandi og notalegt að losna aðeins frá bókunum og tölvunni og hugsa um eitthvað annað, svo ég sit við saumaskapinn þau kvöld sem ég nenni ekki að læra. Eitt kvöld í viku er alveg heilagt, en á miðvikudögum fer ég á saumanámskeið með Fríðu vinkonu og hitti fullt af skemmtilegum dömum sem ég spjalla við um allt milli himins og jarðar. Það er ofsalega gaman að komast aðeins út og tala um KONU-hluti þegar maður er í karlaveldi bæði á heimilinu og í vinnunni ;o)

En jæja nú er víst kominn tími til að útskýra FFT niðurstöður af mælingunum mínum og fara að reikna nákvæmni mælitækjanna.

En munið nú að kvitta fyrir ykkur.

19 september 2008

Helgarfrí

Jæja þá er það ákveðið.
Það verður almennilegt helgarfrí á morgun. Ég ætla skal ég bara að segja ykkur, að láta allar bækur, hugsanir, blöð, tölvuforrit og annað skólatengt liggja á hillunni ALLAN morgundaginn. Meira að segja líka á meðan Mummi sefur og Máni fær að nýta sinn klukkutíma í barnaefnið. Hef smá áhyggjur af því hvað ég eigi að gera á meðan, en ætli ég bara baki ekki eða saumi svolítið eða bara eitthvað annað skemmtilegt. En allavega á morgun er heilagur frídagur hjá okkur fjölskyldunni og við erum búin að lofa Mána þessu alla vikuna. Hann talar daglega um það hvað gera eigi á laugardaginn og ég held að hann ætli að spila við okkur þúsund spil, fara með okkur í 100 km hjólreiðaleiðangur, fara bæði í legoland og jumboland í einu og svo eigum við að sitja öll saman inni í stofu, borða og horfa á teiknimynd (og til að það sé á hreinu hverjir eru boðnir þar inn, þá taldi hann upp: Máni, Mummi, Mamma og pabbi).
Hann er sko alveg með það á hreinu hvað hann vill gera :o)
En í tilefni þess að það verður heilagur frídagur ALLAN daginn á morgun (líka annað kvöld þegar strákarnir eru farnir í rúmið), þá ætla ég að nýta tímann vel núna og klára nokkur gögn og vinna í kvöld þangað til ég get ekki meir. En annað kvöld ætlum við Jóhann að hafa það notó, borða góðan mat, spila og spjalla um ALLT annað en nám og skóla :o)

OG NOTA BENE, þetta verður líka SAMVISKUBITSLAUS dagur, þrátt fyrir lærdómsleysið.
Hljómar þetta ekki vel?

14 september 2008

Kryddaður lax, súkkulaðiheimur og prófessoraumræður

Það má með sanni segja að við höfum notið kvöldverðarins í kvöld í botn.

Við fengum rosalega góðan gest í kvöldmat alla leið frá Egyptalandi.

Þannig er nefnilega mál með vexti, að við erum svo heppin niðri á AAU Energi, að það er frægur egypskur prófessor sérhæfður í "transient states" sem er í heimsókn hjá okkur og verður næstu 6 mánuði. Hann er hingað kominn til að vinna að ýmsum rannsóknum og kenna doktorskúrs í deildinni (sem ég mun að sjálfsögðu sækja). Þar fyrir utan hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa hann innanhandar og mér til aðstoðar við það sem ég er að gera, þar sem honum finnst þetta kapalverkefni áhugavert og spennandi og þar sem allar mælingarnar mínar voru transient og ekki dynamic mælingar (sumsé hans sérhæfing). Allavega þá er hann búinn að fá flest af mínum gögnum og hefur verið svo hjálpsamur að hafa haft samband við vin sinn útaf verkefninu mínu (sem er nota bene einn af mínum guðum og heitir Ametani) sem er meðal annars chairmann fyrir ráðstefnuna sem ég er að fara á í Japan á næsta ári. Þar að auki hringdi hann í Gustavsen (sem er annar af guðunum mínum og er sá sem ég er að fara að heimsækja í Noregi nú í nóvember) og fékk hann til að senda doktorsritgerðina sína, gagngert fyrir mig svo ég gæti lesið hana. Ég er að vonum ofsalega ánægð með þessa miklu möguleika sem verða að hafa svona sérfræðing nálægt sér og skil eiginlega ekki hversu rosalega heppin ég hef verið í þessu verkefni mínu varðandi alls konar svona smáhluti með hina og þessa hjálpsömu sérhæfðu vitringa úti í hinum stóra heimi.
Þessi egypski maður heitir Mansour H. Abdel-Rahman og kemur frá Cairo. Eða eins og stendur skrifað um hann inni á IEEE:


Mansour H. Abdel-Rahman (M’79) was born in Egypt in 1947. He received the B.Sc. and M.Sc. degrees in electrical engineering from Cairo University in 1970 and 1975, respectively, and the Ph.D. degree in electrical engineering from the University of Manchester Institute of Science and Technology (UMIST), Manchester, U.K., in 1979.

Currently, he is a Full Professor at the University of El-Mansoura, El-Dakahlia, Egypt, where he has been since 1987. He spent visiting assignments teaching and researching at the University of Toronto, Toronto, ON, Canada; Windsor University, Wiindsor, ON, Canada; and the University of Cambridge, Cambridge, U.K., where he was a Fellow of Churchill College; University of Western Australia, Australia; Doshisha University, Japan; Helsinki University of Technology, Espoo, Finland; Jordan University, Jordan; and Kuwait University, Kuwait. His research interests include electromagnetic transients in power system networks and machines, steady-state and dynamic analysis of power systems, and the application of artificial intelligence in power systems.


Dr. Abdel-Rahman received the John Madsen Medal for the best paper submitted to the Institute of Engineers, Australia, in 1989; the IEEE Industry Application Society First Prize Paper in 1988; and the IEEE Industrial and Committee Prize Paper in 1987.




Svo það má með sanni segja að innan raforskuverkfræðinnar er þetta ágætlega þekktur og vel virtur maður. Hann hefur einu sinni heimsótt Ísland og var þá meðal annars gestaprófessor í Háskóla Íslands og náði að verða ástfanginn (að sjálfsögðu) af landinu okkar. Svo við höfum rætt mikið saman um Ísland og íslenska siði.


Svo nú í kvöld heiðraði hann okkur litlu fjölskylduna með heimsókn sinni og fékk hjá okkur lax og súkkulaðisælu í eftirrétt. Hann var mjög hrifinn af litlu prinsunum okkar og glaður með hversu þorinn hann Mummi er. Enda er hann óhræddur við flesta og leyfði honum algjörum ókkunugum manninum að halda á sér og leika við sig. Mána fannst mjög sérstakt að hitta mann heima hjá sér, sem hvorki talaði íslensku né dönsku. Ég held að honum hafi þótt svolítið skrítið þegar verið var að tala þriðja tungumálið inni á heimilinu. En við vorum hæstánægð og stollt af strákunum okkar báðum tveimur :o)



Svo nú eru drengirnir okkar búnir að hitta Egypta í fyrsta skipti og vonandi ekki það síðasta :o)

13 september 2008

Heimsókn til Íslands

Hérna hjá okkur í Álaborginni er allt á fullu eins og venjulega.
Við hjónin reynum að öðlast einhvern skilning á lífinu og tilverunni með höfuðin á kafi í skólabókum og prinsarnir okkar eru duglegir að stækka og dafna.

Annars er að byrja að hausta, þó það sé enn sól og hlýtt þá er farið að dimma á kvöldin sem þýðir að haustið fer að koma. Þar sem ég er farin að kveikja á kertum út um allt hús í myrkrinu á kvöldin, þá er maður nú aðeins farinn að hugsa til jólanna og hvernig þeim verður varið þetta árið. Það lítur þó allt út fyrir að jól og áramót verði dönsk í ár.
Upphaflega ætluðum við að verja jólum og áramótum á Íslandi, en komumst svo að því að það kostar okkur litlu fjölskylduna 240 þúsund að fljúga til Íslands fyrir þessa viku heimsókn. Með jólagjöfum og öllu því sem fylgir jólunum, værum við því að horfa á hálfrar milljóna króna jól, sem er aðeins of mikið fyrir námsmenn með tvö börn. Hins vegar vorum við að skoða ferð heim í lok janúar í staðin, þar sem við gætum mögulega stoppað í allt að tvær vikur og það kostar okkur einungis 137 þúsund. Svo eins og hlutirnir eru í dag, þá lítur allt út fyrir að við munum halda dönsk jól og áramót en skreppa í aðeins lengra og ódýrara ferðalag til Íslands í byrjun næsta árs. Annars ætlum við bara að fylgjast með tilboðum og flugi fram í lok nóvember og ákveða þá hvernig hlutirnir verða.

04 september 2008

Mælingum lokið og næstu spennandi verkefni tekin við

Jæja þá er þessum fyrsta stóra punkti í doktorsverkefninu mínu lokið. Mælingarnar tókust einstaklega vel alla þrjá dagana og nú er ég búin að taka saman niðurstöðurnar og sýna leiðbeinandanum mínum sem var mjög hrifinn og sagði að þetta hefði tekist svo vel, að nú tæki við hörð vinna við útgáfur því það væri svo margt í þessu sem hægt væri að skrifa greinar um.


Svona var veðrið meðan á mælingunum mínum stóð


Hér sést hvernig Energinet.dk hafði aftengt kaplana frá háspennulínunni. (Það er engin tenging upp í línuna á köplunum til hægri eins og er á köplunum til vinstri)

Í augnablikinu er ég nú að vinna að grein um lokaverkefnið mitt, en við stefnum á að senda eina grein á ráðstefnu í Seattle sem verður í Mars á næsta ári. Svo byrja ég í næstu viku að skrifa um eina mæliuppsetninguna (af þremur) en planið er að skrifa 2 greinar um þessa uppsetningu á 2 ráðstefnur og sameina það svo í lokin í 1 journal grein. Svo taka við hinar tvær mæliuppsetningarnar þar á eftir.



Í félagslífinu er það að frétta að við í stjórn foreldrafélags leikskólans héldum sommerfest í síðustu viku sem gekk alveg glimrandi vel og var mjög skemmtileg. Svo er ég víst að byrja í enn einni stjórninni, því stjórnarformaður félags doktorsnema við Aalborg Universitet hringdi í mig í gær til að ítreka að hann vildi endilega fá mig í stjórnina. Svo ég er að fara á upphafsfund starfsins fyrir þetta ár seinnipartinn í dag og mun þá byrja sem nýr stjórnarmeðlimur. (Djísús ég kann bara alls ekki að takmarka verkefnin mín).

Annars var ég heima allan daginn í gær því litli sæti frábæri 1 árs prinsinn minn komst í eitruð ber í fyrrakvöld og fór inn á spítala til að fá kolameðferð. Hann fékk að borða kol í ís og svo var bara beðið á spítalanum til að sjá hvort hann fengi í magann. Við vorum svo saman heima í gær og það gekk fínt og honum leið bara vel. Í gærkvöldi komu svo kolin loks í gegn og ég verð að segja að það var skrítnasta bleyja sem ég hef nokkru sinni skipt á, hrein kol. Prinsinn er alveg hress núna og ekkert amar að honum og engar áhyggjur að hafa, svo þetta er sem betur fer allt saman afstaðið.

30 ágúst 2008

Fyrsta mælidegi lokið

Langaði bara að deila með ykkur að fyrsta mælidegi af þremur er lokið. Þetta var mjög langur dagur, eða frá klukkan 7 um morguninn til klukkan hálftíu um kvöldið. Gekk samt mjög vel og ég fékk ofsalega góðar mæliniðurstöður úr þessu fyrsta prófi mínu. Dagurinn í dag byrjar núna klukkan 8, eða eftir klukkutíma. Veðrið er áfram frábært. En í gær var sól og 20 gráður og sama veðri er spáð í dag og á morgun.

Bíllinn minn var pakkfullur þegar ég lagði í hann til Gistrup

Mælibúðirnar í Gistrup

Horft inn í sjálfann bílinn

Mælibúðirnar í hinum enda kapalsins, Skudshale

Kvöldsólin þegar við hættum í gærkvöldi

25 ágúst 2008

Vinnumyndir

Bara svona til að gefa áhugasömum smjörþefinn af því sem ég er að gera þessa dagana, þá eru hér örfáar myndir frá tilraunauppsetningu minni í tilraunastofunni.

Þetta er sumsé impúls-test, þar sem ég er að setja upp mini-útgáfu af impúls tilrauninni sem er áætluð í raunveruleikanum, á sunnudaginn kemur. (Ég er með aðrar tilraunir áætlaðar bæði föstudag og laugardag).

Hér að neðan má sjá uppstillinguna eins og hún leggur sig, en hún samanstendur af:
Sendi hluti kapals - 3 sveiflusjár til mælinga - 1 omicron til að framkalla tímamerki (ásamt gps tæki til að gefa réttan tímapúls)- 1 tölva til að keyra omicron - 1 impúls rafall

Viðtökuhluti kapals - 3 sveiflusjár til mælinga - 1 omicron til að framkalla tímamerki (ásamt gps tæki) - 1 tölva til að keyra omicron

og í báðum endum er heill hellingur af spennupróbum og straumpróbum ásamt mörgum kílómetrum af mælisnúrum.



Fyrir miðju á myndinni hér fyrir neðan er prufukapallinn minn (Rauður að lit). Í hinum raunverulegu mælingum mun ég nota þrjá 7 km langa kapla, einn fyrir hvern fasa

Á næstu mynd má sjá hluta af mæliniðurstöðum í sendienda kapals. En spennan sem ég sendi á einn fasann er 5000 Volt, á meðan hinir fasarnir eru ótengdir. Þrátt fyrir að þeir séu ótengdir, þá mælist bæði straumur og spenna í þeim vegna áhrifa frá spennutengda fasanum. Þessvegna fást mæliniðurstöður á öllum þremur fösum.

Síðasta myndin að þessu sinni sýnir svo mæliniðurstöður í viðtökuenda kapalsins. En hafa verður í huga að þegar hinar raunverulegu mælingar eru framkallaðar verður allt þetta í mun stærra sniði. Það mætti kannski kalla þessar tilraunir mínar einhverskonar líkanagerð (líkt og arkitektar smíða af byggingum sem þeir hanna). Líkönin mín taka bara aðeins meira pláss ;o)

23 ágúst 2008

Loksins smá fréttir

Jæja, ætli það sé ekki kominn tími á smá fréttir héðan frá Danaveldi.

Það hefur verið í nógu að snúast hjá okkur litlu fjölskyldunni undanfarið. Prinsarnir eru duglegir á leikskólunum sínum á meðan við foreldrarnir eyðum dögunum í lærdóm og vinnu. Jóhann fór á námskeið í meðhöndlun og ræktun baktería, á meðan ég sit dögunum saman inni í tilraunastofunni minni og leik mér með hin ýmsu mælitæki, háspennugjafa, gps-staðsetningartæki og að sjálfsögðu smá kapalstubb. Framundan hjá mér eru mælingarnar um næstu helgi, en ég hef þrjá sólarhringa til að framkvæma allar þær mælingar sem ég yfir höfuð mögulega get náð. Kapalkerfið í Gistrup sem fæðir meðal annars Aalborg Øst verður aftengt á næstkomandi föstudag og tengt aftur á sunnudagskvöldið, og á þeim tíma hef ég nánast frjálsar hendur til að leika mér með háspennukapla. Fæ sem betur fer 2 menn frá Energinet.dk til að mæla með mér svo ég nái meiru. Fór meðal annars þangað niðureftir um daginn til að halda fyrirlestur um mælingarnar mínar og hvað ég ætla mér að gera, svo þeir sem verða með mér í þeim viti hvað þeir eiga að gera og viti hvernig allar uppsetningarnar eru.
Þar sem ég hef bara þessa þrjá daga, þá sit ég í tilraunastofunni öllum dögum núna og prófa uppsetningarnar og öll mælitækin svo ég sé nú viss um að allt sé eins og það á að vera þegar að stóra deginum kemur.



Fyrir utan allar þessar mælingar, þá er það líka að frétta að ég er á leið til Þrándheima í Noregi. Mér bauðst það frábæra tækifæri að koma þangað og vinna í 3 vikur með sérfræðing í geiranum mínum, en það er maðurinn sem bjó til líkanið sem ég vinn með: Frequency dependent phase model, oft nefnt The Gustavsen model. En líkanið hans Björns Gustavsen er sagt það besta í kapalfræðum í dag, og ég hef fengið boð frá honum sjálfum um að koma og vera hjá þeim í SINTEF. Þeir útvega mér skrifstofu, tölvubúnað og allt sem á þarf að halda, fyrir þessa þriggja vikna dvöl.
Þar að auki á á prjónunum ráðstefna í Kyoto, Japan, í Júní næstkomandi og dvöl í Kanada í 3 mánuði á næsta ári (en það kemur nú allt betur í ljós síðar, segi ykkur frá því þegar allt er frágengið þar).

En svona fyrir utan nám og vinnu, þá get ég sagt ykkur frá því að ég keypti mér nýtt hjól um daginn. Alveg geggjað Kildemose hjól, alvöru stelpuhjól: bleikt með blómum, nafninu mínu í silfurlituðum stöfum, bastkörfu og stórum breiðum hnakk. Það er engu líkt að hjóla á því, svo nú reyni ég að forðast bílinn að mestu og kem mér áfram á milli staða á hjólinu. Reyndar er Jóhann líka farinn að hjóla, svo bíllinn stendur mest bara í hvíld :o)

Annars er ég búin að setja myndir frá ferðalaginu á Íslandi inn á barnaland, svo ef einhver hefur áhuga á því, þá er bara að kíkja inn á heimasíðu prinsanna minna.

Jæja best að fara að hvíla sig í bili,
það er víst nóg að gera framundan.