08 nóvember 2008

Komin til Noregs

Þetta hefur verið langur og erfiður dagur í dag.

Nóttin fór að mestu í þrif og aðhlinningu að stóra prinsinum okkar honum Mána. En hann er nú eins og pabbi sinn búinn að smitast af gubbupest sem var að hrjá Mumma í vikunni. Ég er því nú sú eina sem hefur sloppið við gubbuvesen í þetta skiptið.

Við Mummi vöknuðum svo snemma í morgunsárið að venju og lékum okkur saman og knúsuðumst. Enda var mikil þörf á því hjá mömmunni, þar sem hún vissi í hvað stefndi þegar líða tæki á daginn (þó sá stutti hafði ekki hugmynd um að móðir hans væri að fara að yfirgefa hann í heila 21 daga). Þegar hádegi rann upp, þá var öllu stóðinu komið út í bíl ásamt farangrinum mínum og lagt af stað í ferðalag til Noregs. Drengirnir mínir fylgdust með mér fara í flugvélina á flugvellinum og horfðu á eftir vélinni fljúga burt. Ég var svo heppin að hafa glugga sæti flugstöðvarmegin, svo ég gat fylgst með þeim í glugganum og horft á þá á meðan verið var að klára vélina og keyra okkur af stað. Svo hóf vélin sig á loft og persónulegt atvinnuævintýri mitt hófst.

Fyrst flaug ég til Kaupmannahafnar og svo þaðan til Osló. Þegar ég var að koma inn til lendingar í Osló blasti við mér fyrsta skemmtilega sýn dagsins. Í fyrsta sinn í dag fann ég mig brosa í stað þess að klökkna af söknuði yfir börnunum mínum og manninum. Þetta gerðist þegar ég sá góðkunnugan og langþráðan snjó og fjallgarð. Það er ótrúlegt hvað maður getur saknað margra einfaldra og sjálfsagðra hluta eins og brúns/guls strágrass, fjalla, snjós og fleira þegar maður hefur ekki búið á Íslandinu í góða í nær 4 ár. En snjórinn tók sumsé á móti mér á Oslóarflugvelli. Það byrjaði reyndar að rigna stuttu eftir lendingu, en það skipti engu. Ég var búin að sjá snjó og vonir mínar um að komast á skíði meðan á dvöl minni hér stendur fengu byr undir báða vængi.

Frá Osló tók ég svo þriðju flugvélina alla leiðina til Þrándheima, þar sem ég mun dvelja næstu 3 vikurnar. Þrándheimur frískaði einnig upp á Íslandsminnið, þar sem ég keyrði í rútunni frá flugvellinum í ca. 20 mín (eins og frá Leifsstöð og inn í Hafnarfjörð) í gegnum 3 göng um fjallgarðinn sem umlykur fjörðinn sem Þrándheimur stendur við. Að sjá fjörðinn og húsin í fjallshlíðinni hér allt í kring, myrkrið svo snemma um kvöld, gulu stráin, birkitré um allt (með engin lauf) og grenitré þar við hliðina, ég get vel skilið að ættfeður okkar hafi fundið sig heima þegar þeir lögðu að landi á Íslandi :o)

Nú er ég sumsé komin inn á hótelið mitt, sem er ágætlega stórt herbergi, lítið eldhús og meðalstórt baðherbergi í sjálfri miðborginni. Morgundagurinn mun fara í að kynnast miðbænum og umhverfinu og finna gönguleiðina til NTNU og SINTEF. Á mánudaginn ætla ég svo að hitta Bjørn Gustavsen og hefja vinnutímabilið sem er nú ástæðan fyrir þessu ævintýri mínu öllu saman.
Ég skal reyna að vera dugleg að uppfæra fréttir af þessu ferðalagi mínu hérna inn og segja ykkur frá því sem á daga mína drífur.

En Álaborgastellan segir yfir og út frá Þrændalögum í bili.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Velkomin til Noregs og "break a leg" með verkefnið.

Kveðja Andrea.