23 júlí 2009

Tími á smá vinnupásu

Þar sem ég hef nú setið hér án pásu og rýnt í stærðfræðiformúlu, matlab-forritunarkóða og hermikúrvur, þá er kominn tími á að líta aðeins upp úr fræðinni og segja ykkur frá því sem á daga okkar hefur drifið.

Við erum sumsé komin með lífið hérna í Winnipeg í nokkuð fastar skorður. Þrátt fyrir mikla vinnu og stress sem er að hellast yfir mig vegna margra verkefna og lítils tíma, þá höfum við reynt að vera dugleg að ferðast aðeins um og gera skemmtilega hluti saman. Við fórum t.d. til Toronto yfir eina helgi þegar við áttum brúðkaupsafmæli og það var alveg frábært. Ég fór af stað á fimmtudagskvöldi í boði fyrirtækis í Toronto, þar sem ég hafði verið boðin að koma í atvinnuviðtal og heimsókn í fyrirtækið. Viðtalið gekk mjög vel og flutti ég einni smá fyrirlestur um þá vinnu sem ég er að gera í verkefninu mínu. Í vikunni á eftir fékk ég svo staðfestingu á velgengni viðtalsins, þar sem ég fékk tilboð sent frá fyrirtækinu. Óneitanlega mjög spennandi.
Á föstudeginum komu svo drengirnir mínir og gengum við fjögur saman vítt og breytt um borgina. Fórum í safnaleiðangur og stóðum á glergólfi í tæplega 450 metra hæð. Það er nokkuð ljóst að þessi litla fjölskylda á ekki við lofthræðslu að stríða, þar sem varla var hægt að sjá hverjum fannst gólfið meira spennandi – mömmunni eða prinsunum. Þessi helgi var yndileg og áttum við margar góðar stundir saman. Fórum fínt út að borða og létum margt gott eftir okkur.

Undir lok júlí þurfti ég svo að fara í vinnuferð til Calgary, þar sem ég var heila viku í burtu á ráðstefnu og alþjóðlegum vinnugrúppufundi. Það var mjög gaman, þó ég hafi óneitanlega saknað strákanna minna þriggja. Ég skapaði mörg sambönd. Fékk boð um vinnu í Noregi og ræddi við fleiri sem nú einnig hafa boðið mér vinnu. En nú hef ég tvö atvinnutilboð til viðbótar hér í Kanada. Svo þegar mér loksins tekst að ljúka verkefninu ætti varla að vera skortur á atvinnu, þar sem ég er nú með 1 fast tilboð (með launatölu), 3 munnleg tilboð og 2 boð um vinnu víðsvegar um heiminn. Ætli stærsta ákvörðunin á næstu mánuðum verði ekki hvar okkur langar að búa og hvað sé best fyrir drengina okkar. Það mun nú allt koma í ljós. Fyrsta ákvörðun er allavega að fresta öllum ákvörðunum fram á vorið, þar sem öll atvinnutilboð mín miðast við næsta haust og allir eru meira en viljugir að bíða eftir mér í heilt ár eða svo (meðan ég klára doktorinn). Það er bara afskaplega gott að vera þó örugg með vinnu þegar ég lýk náminu, einu áhyggjufarginu af mér létt.


Um verslunarmannahelgina lögðum við svo aftur land undir fót og fórum á Íslendingahátíð í Gimli. Við gistum á frábæru hóteli rétt utan við bæinn. Vorum með stórt herbergi með arin. Baðherbergið okkar var með 2 manna jacuzzi baðkari og stórri sturtu. Svo voru bakdyr á herberginu okkar út í garðinn, sem var við vatnið. En fyrir utan hurðina okkar var bekkur með borði undir tré. Svo á sunnudagskvöldið settum við prinsana í rúmið, höfðum hurðina opna og við hjónakort settumst saman út á bekkinn við vatnið með verðlaunarauðvín og ostabakka, þar sem við spjölluðum saman fram á nótt undir ljúfum tónum frá fína iPodnum mínum :o) Það gerist nú varla betra...


Í gær ákváðum við að nenna ekki að elda mat og fórum í fyrsta skipti (hér í norður ameríku) fyrir strákana á Mc. Donalds. Ég hef nú ekki viljað fara þangað en við ákváðum að gera þetta fyrir drengina og völdum þar að auki stærsta staðinn, hvað leiktæki varðar. Það var nokkuð ljóst að prinsarnir voru ánægðir með þetta uppátæki okkar og skemmtu þeir sér konunglega. Sérstaklega Mánalingurinn okkar sem var snöggur að ná sér í leikfélaga og var alveg í essinu sínu. Hann fór líka algerlega á kostum þegar við komum út af staðnum og hann fór að segja okkur frá leiknum. Hann sagði okkur sko að nú kynni hann sko alveg þessa ensku. Það þyrfti sko enginn að kenna honum hana.


Sko...ef maður dettur, þá segir maður bara heeeeeelp (sagt með miklum hreim). Ef maður er lengi og vill láta bíða þá segir maður Went på me (með mjög sterku tvöföldu vaffi) og ef maður skemmtir sér þá segir maður bara This is fun.


Við foreldrarnir hlógum og hlógum yfir útkýringum frumburðarins, sem augljóslega getur orðið bjargað sér nokkuð vel og er orðinn nægjanlega öruggur til að tala við aðra krakka.


Mummalingur fer líka algerlega á kostum. Hann talar nú enga ensku, en bara þeim mun meiri íslensku. Hann hermir orðið ALLT eftir bróður sínum, svo stundum má nú ofgera. Hann er búinn að taka ástfóstri við hundabangsann sinn (sem hann fékk í skírnargjöf) og má ekkert fara án þess að voffi komi með. Voffi er látinn drekka , borða og spjalla. Þar fyrir utan er hann að kenna voffa að ganga, svo brúðan er orðin frekar mikið skítug. Það þyrfti eiginlega að kaupa skó á bangsa...því það er varla hægt að fá hann lánaðann í rétt örfáar mínútur til að skella honum í þvottavélina. Ætli besta ráðið sé ekki bara að setja hann í bað með örverpinu og reyna að sápuþvo brúðuna þannig :o)


Við erum líka farin að undirbúa haustið örlítið, þar sem frumburðurinn er á leið í stutta skóladvöl á Íslandi. Því var farið í sérstaka ferð í Old Navy þar sem við fjárfestum í skólafatnaði á drenginn. Hann fékk tvennar fínar buxur og nokkur sett af síðerma bolum. Þessu var svo komið fyrir í tösku, þar sem þetta er klárt fyrir fyrsta skóladag. Ég verð að segja, að þó svo þetta sé ekki hans eiginlegi fyrsti skóladagur, þá er þetta samt fyrsti skóladagur í hans lífi og ég sé afskaplega mikið eftir því að ég mun missa af þessum merkisdegi :o( Máninn okkar er nefnilega orðinn afskaplega spenntur og við fórum í gegnum stafabókina eitthvað kvöldið, þar sem í ljós kom að hann þekkir núorðið flesta stafina. Nú vantar bara að hann læri að lesa og skrifa, því reikning kann hann og hefur kunnað síðan hann var 3 ára gamall. Það er nú ekki slæmt fyrir litla ærslabelginn okkar að geta talað 3 tungumál og kunna að lesa og skrifa á einu þeirra og kunna að reikna fyrir 6 ára aldur. Fyrir 7 ára aldur mun hann svo kunna að lesa og skrifa á 2 tungumálum :o)


Hvað varðar persónulegann þroska hans, þá erum við búin að finna sundnámskeið, fótboltaskóla og fimleika fyrir hann til að stunda í vetur í Álaborg og verður farið í að hringja á þessa staði í nótt til að skrá hann (já í nótt, því Danmörk er jú 7 klukkutímum á undan okkur). Svo erum við að vinna í að finna enskunám fyrir hann en það gengur eitthvað hægar, því það er víst ekki mikið svoleiðis í boði fyrir svona unga krakka. Ég hugsa að ég reyni að hafa samband við ameríska sendiráðið í DK til að finna lausn á því vandamáli.


En jæja nú er víst pásan orðin nægjanlega löng. Ég þarf að ná að klára ýmsa hluti áður en ég fer heim til að sækja strákana mína. Því við ætlum á róló. Planið var svo að elda fisk í kvöldmatinn, en þar sem það er 25 stiga hiti úti, þá hugsa ég að ég finni bara picknik og við borðum í Assiniboine garðinum og skreppum kannski í lestarferð :o)
Munið að kíkja inn á heimasíðu prinsanna til að skoða myndir. En þar inni hef ég sett inn fullt af myndum frá júlí og mun bæta við fleiri með kvöldinu.

Yfir og út frá Winnipeg


12 júlí 2009

Sumar og sól í Kanada

Þá er önnu helgin okkar hér í Kanada upp runnin. Fyrsta heila vikan á enda og tíminn flýgur áfram. Þriðjudagurinn snérist um yngsta fjölskyldumeðliminn þar sem hann átti 2 ára afmæli. Drengirnir voru vaktir með amerískum pönnukökum, hlynsírópi, súkkulaðitertu og blöðrum. Svo fór mamman í vinnuna en drengirnir þrír vörðu deginum á leiksvæði í garði einum hér rétt við okkur. Fimmtudag var svo fyrsta alvöru rigningin, þrumuveður með stormi. Sjónvarpið datt út á tímabili hérna heima og internetið í vinnunni. Það sló niður eldingu og kviknaði í hér í nágrenninu, svo Jóhann og drengirnir sáu fullt af slökkvibílum. Föstudagurinn var svo afskaplega fallegur og skruppu drengirnir í krókódíla dýragarð á meðan ég var í vinnunni og svo skruppum við öll saman í Asibione garðinn eftir vinnu. Um kvöldið var svo "quality" föstudagskvöld með frumburðinum þar sem við horfðum á Toy Story 2 saman eftir að Mummi var sofnaður. Mánalingurinn hefur séð þessa mynd áður og sagði okkur reglulega hvað væri næst á döfinni, svona til að vera viss um að við gætum fylgst almennilega með. Í dag höfum við eytt tímanum í enn öðrum garðinum þar sem eru sundlaugar og fengu prinsarnir okkar að busla að vild og leika heilmikið. Mánalingur hefur tekið enn meiri framförum í enskunni og er alls ekki feiminn við að tala við hina krakkana, þó svo hann skilji ekki alltaf. Eftir að hann hafði prófað bæði íslensku og dönsku á einn strákinn í lauginni, sem var með vatnsbyssu, þá kom hann hlaupandi glaður og sagði mamma hvernig segir maður má ég prófa á ensku. Og mamma ég gat sagt þeim hvað ég heiti. Það er bara ég name Gunnar. Eftir að ég hafði sagt honum hvernig hann gæti beðið um að prófa hljóp hann út í aftur og sagði hátt og snjallt can I please try også? og you prøve ball. Svo var strákurinn með boltann, Máni með vatnsbyssuna og allir hæstánægðir ;o)

Við erum auðvitað alveg ofsalega stollt af litla snillanum okkar.
Mummalingur er nú líka farinn að sýna snillahliðar. En í gærkvöldi vorum við að telja bitana fyrir hann Mána og þegar við vorum komin upp í fimm heyrðist allt í einu í þeim stutta: sess, sjö, átta, níííu og tíííu. Svo án þess að við vissum af, þá kann hann nú að telja upp í 10. Það hefur nú líka verið þannig með litla örverpið okkar að hann hefur aldrei verið að sýna sig fyrr en hann kann hlutina alveg. Hann var ekkert að tala fyrr en hann gat talað í heilum setningum og ekkert að sýna hvað hann kann eftir pöntunum heldur bara eftir hans hentisemi. Þeir bræður hafa t.d. verið að horfa á Skoppu og Skrítlu og nú situr Mummalingur oft í aftursætinu á bílnum og syngur sönginn um fingurna fyrir sjálfann sig. Ef við biðjum hann um að syngja fyrir okkur þá hættir hann. Nema í dag, þá kunni hann greinilega sönginn alveg og söng hann fyrir okkur og sýndi okkur fingurhreyfingarnar með. Algjör rúsínukarl.
Jæja við litla fjölskyldan biðjum að heilsa öllum heima á frónni.
knus og kram


Litli afmælisprinsinn

Mamma og Máni hjálpa prinsinum að blása á kertin tvö


Lítill súkkulaðikökustrákur



Máni apaköttur

Mummi farinn að príla eins og stóri bróðir

Verið að leika við útlensku krakkana

Góðir bræður að leika saman

Máni að lesa kvöldsögu og svæfa litla bróður sinn


Kominn í buslulaugina

Máni sundgarpur

Mamma kastar mæðinni eftir að hafa hlaupið 5 km

Risa drekafluga

Bless og góða helgi, á morgun ætlum við á ströndina :o)

06 júlí 2009

Fleiri fréttir frá Kanada

Fyrsta helgin okkar hér í Kanada hefur liðið í rólegheitum og góðu veðri. Ég er byrjuð á hlaupunum á fullu og er nú staðráðin í að taka þátt í hálfmaraþoni í Danmörku næsta vor, svo það er eins gott að vera duglegur :o)

Á laugardaginn sváfum við og kúrðum saman og fórum svo í bíltúr um bæinn og nágrenni Winnipeg í Manitoba. Ákváðum svo að gera okkur glaðan sunnudag og byrjuðum daginn á Pancake House. Fórum svo í dýragarðinn í frábærum garði hér í nágrenninu og nutum veðursins. Hitinn hérna er ca. 25 gráður, ekki skýhnoðri á himni. Frekar erfitt í hlaupunum á morgnana (hef samt farið um 8 til að vera á undan of miklum hita) en frábært á daginn þegar við erum á ferðinni.

Drengirnir eru mjög hressir og Gunnar Máni ótrúlegi er strax byrjaður að reyna við enskuna. Er sífellt að spyrja um hitt og þetta orð og prófar að heilsa fólki og þakka fyrir sig þegar það á við. Ég er alveg handviss um að það einfaldar tungumála aðlögun hans að hann hefur talað tvenn tungumál alveg frá byrjun. Við höfum líka ákveðið að setja hann í enskuskóla í vetur, þannig að vonandi ætti hann að vera nokkuð sleipur á 3 tungumálum næsta vor :o)
Jæja við reynum að vera dugleg að láta heyra í okkur og segja fréttir.
Yfir og út frá Winnipeg

Utan við Winnipeg

Laugardagskvöld var sushi kvöld











Máni myndasmiður

04 júlí 2009

Ferðasagan til Kanada

Jæja ætli það sé ekki kominn tími til að endurvekja bloggið :o)

Nú er enn eitt ævintýri fjölskyldunnar litlu hafið, þar sem við erum öll stödd saman í Winnipeg, Manitoba, Kanada.

Eftir yndislegan tíma á Íslandi í faðmi fjölskyldu og vina, þá flugum við saman fjögur til Toronto á þriðjudeginum 30. júní. Flugið gekk ofsalega vel og drengirnir voru nokkuð þægir og góðir. Ég hefði viljað láta þá sofa minna fyrr um daginn svo þeir hefðu lagt sig í flugvélinni, en hann Máni minn svaf ekki dúr alla leiðina og Mumminn ekki nema hálftíma. Við lenntum kl. 18:30 að staðartíma, en þá var klukkan orðin 22:30 að íslenskum tíma. Jóhann og strákarnir fóru inn á hótel, fengu sér að borða og svo beina leið í rúmið á meðan ég ferðaðist enn lengra inn í land og var lennt í Winnipeg kl. 23:15 að staðartíma, eða 04:15 að íslenskum tíma (Winnipeg er ekki í sama tímabelti og Toronto). Á flugvellinum í Winnipeg mætti mér hópur af frábæru fólki sem var gagngert komið seint að kvöldi á flugvöllinn til þess að taka á móti mér, og samt sem áður frídagur daginn eftir og flestir úti að skemmta sér þarna á þriðjudagskvöldinu. En þau aðstoðuðu mig með töskur og farangur (ég tók allan farangurinn svo strákarnir þyrftu ekki að hugsa um það daginn eftir), að fá bílaleigubílinn og komu með mér í íbúðina okkar þar sem kveikt var á ljósum og tónlist og búið að setja mat í ísskápinn og eldhússkápa. Þau höfðu komið með leikföng fyrir strákana sem voru komin inn í barnaherbergið. Sem sagt alveg ógleymanleg móttaka og frábært fólk.

Snemma þann 1. júlí fór ég af stað til þess að taka á móti Jóhanni og prinsunum á flugvellinum. Við slöppuðum svo aðeins af áður en við fórum á keyrslustúfa til þess að líta í kringum okkur í bænum. 1. júlí er þjóðhátíðardagur Kanada og er kallaður "Canada day", svo það var mikið um hátíðarhöld um allan bæinn. Við enduðum á mögnuðu svæði sem kallast "The Forks" þar sem allt var fullt af fólki og mikið um að vera. Þessi staður er einskonar útisafn, kallast "The Forks national Historic Site" og er hægt að finna þar t.d. minjar um indíána (sem þeir nota enn í dag fyrir samkomur), Manitoba theatre for young people, The historic rail bridge, Manitoba Children´s museum og fleira og fleira. Við eyddum öllum deginum þarna og nutum hitans, sólarinnar, fólksins og lífsins.

Á fimmtudeginum 2. júlí og föstudegium 3. júlí fór ég svo í vinnuna þar sem mér var ofsalega vel tekið og búið að setja upp fyrir mig vinnusvæði "cubicle". Ekki líkt því sem er í myndunum, því þessi týpa af cubicle lýkist mun meira rúmgóðri skrifstofu og það er ekkert ónæði af þeim sem eru í kringum þig. Drengirnir mínir fóru í gönguferð og skoðuðu sig um á fimmtudag en tóku því rólega í gær og slöppuðu af til að reyna að venjast tímanum endanlega og ná úr sér flugþreytunni. Við erum komin með ýmsar upplýsingar um sumarskóla og fleira fyrir litla krakka og meðal annars fótboltaskóla og verður farið í að skoða það um helgina og sjá hvort hann Máni minn geti ekki byrjað í einhverju skemmtilegu í næstu viku (sundnámskeiði, fótbolta, klifri eða einhverju öðru).