28 september 2007

Óþverrafólk

Já því miður er til alltof mikið af óþverrafólki í þessum annars ágæta heimi.

Dagurinn í gær var ósköp venjulegur og skemmtilegur dagur að mörgu leiti. Það óvanalega var að ég var með bílinn þar sem við Mummi vorum á leið í mömmó til Fríðu sem býr í litlum bæ hérna rétt fyrir sunnan Álaborg, annars er Jói venjulega akandi og ég labbandi með vagninn. En þennan daginn fórum við í mömmó og skemmtum okkur konunglega. Það var myndatökudagur í mömmó svo ég var með myndavélina mína með og tókst að klára rafhlöðuna í öllu myndavélastússinu. Svo þegar ég kom heim tók ég rafhlöðuna úr vélinni og skellti í hleðslu. Svo fór ég að gefa litla prinsinum mjólk í mallann sinn og Máni minn var að leika sér á meðan. Við vorum heima að dúlla okkur þrjú saman alveg til klukkan 17:00 þegar við fórum af stað til að sækja heimilisföðurinn. Rétt rúmum klukkutíma síðar runnum við öll fjölskyldan í hlað og ætluðum okkur að setjast niður við rólega og skemmtilega kvöldmáltíð. En það var nú ekki svo einfalt. Við komum heim, í okkar eina traustasta athvarf, að opnu húsi. Það voru einhverjir óþokkar búnir að spenna upp glugga í gestaherberginu og brjótast inn í okkar hús, okkar athvarf.

Ég get ekki einu sinni líst því hversu óþægileg tilfinning það er, að vita af einhverjum gaurum inni hjá þér og búnir að fara í gegnum dótið þitt. Það var búið að opna alla skápa og skúffur og fara í gegnum öll fötin okkar, meira að segja nærföt og sængurföt. Það var meira að segja búið að fara í gegnum rúmið okkar. Þessir óprútnu gaurar höfðu á brott með sér að minsta kosti 2 fartölvur frá okkur, digital myndavélina okkar (með kortinu með myndunum frá mömmuklúbbnum), vídeókameruna okkar, sparibaukana hans Gunnars Mána og ALLA skartgripina okkar. Já þeir tóku meðal annars fermingarhringana mína, hálsfestina sem Jói keypti handa mér í siglingunni á Karabíska hafinu og ég var með í brúðkaupinu okkar, morgungjöf Jóa frá mér sem var gamaldags gullúr með keðju áletrað með nöfnunum okkar og brúðkaupsdagsetningu, ásamt miklu fleiri tilfinningalegra skartgripa sem verður aldrei bætt.

Ég hringdi í tryggingafélagið í morgun og komst að því að við erum sem betur fer að fullu tryggð og þurfum bara að fylla út eyðublað með öllu því sem vantar og hefur verið tekið.

Svo nú erum við skíthrædd og þorum ekki að skilja húsið eftir autt ef þeir skildu koma aftur til að sækja það sem þeir náðu ekki að hafa með sér á brott. Sperrur verða settar á alla glugga í dag ásamt öryggiskerfi.

Set inn stolna mynd frá Dóru, þar sem ég á engar myndir frá mömmó.

Kveðja frá Unni Stellu varnarlausu


Frá vinstri: Eiríkur, Helen María, Halldór, Emelía, Katla María, Baldvin Már, Rafn Kristinn, Reynir Þór og Guðmundur Magnús

16 september 2007

Á döfinni

Á þriðjudag fengum við mæðginin frábæra heimsókn frá Fríðu vinkonu og co. Fríða kom færandi hendi með teygjuviklu til að lána okkur Mumma, svo nú er drengurinn vel geymdur alla daga framan á smjörlíkismaga mömmunnar. Hulda (sem er 2 ára) og Gunnar Máni skemmtu sér konunglega og fundu uppá skemmtilegum skápaleik, þar sem mörgum sinnum þann daginn krónprinsinn á heimilinu bæði var inni í skápnum og kom útúr skápnum....hmmmmmm.....erfitt að ákveða sig. Á meðan slefuðu Reynir og Mummi í kór og mamman reyndi fyrir sér í kaffigerð handa gestinum.....þarf að fara á kaffigerðarnámskeið. Annars var Gunnar Máni svo ánægður með hana Huldu sína að hún Á að koma í afmælið hans.....ásamt nokkrum fleirum, prinsinn er farinn að semja gestalista.

Á miðvikudagsmorgun fór hele familien í leiðangur á Børnehaven Venøsundvej. Það var ofsalega gaman að sjá staðinn og spjalla við fóstrurnar. Leikskólinn er með alveg RISA stórum garði sem býður upp á allskonar möguleika, skógarferðir og fleira. Stóri prinsinn er orðinn mjög spenntur fyrir leikskólastarti. Eftir skoðunarferðina stungu mamman og Mumminn af í mömmó og nutu eftirmiðdagsins í góðum félagsskap og hámuðu í sig veisluföng og brjóstamjólk.

Þvottavélin kom loks á miðvikudag og er búið að útjaska henni, svo nú fær þvottavélin frí þar til hættir að rigna aftur (hvenær ætli verði fjárfest í þurrkara líka?).

Næsti dagur þar á eftir, fimmtudagurinn var draumadagur í lífi fjölskyldunnar á Blåkildevej 34. Þann dag renndi STÓR sendiferðabíll í hlað með NÝJA RÚMIÐ OKKAR (hvar fæ ég 210x210 teygjulök? Búin að leita allsstaðar og finn stærst 180x200). Síðan þá hefur varla verið staðið upp úr rúminu. Rúmið er formlega orðið að svefnstað, sófa, leiksvæði, mjólkurgjafarstað. Vantar bara uppá klósettið, en það er í smíðum hugarheima heimilisföðursins.
Bakið er batnað, svo nú er engin afsökun lengur, strangt aðhald í hjólaferðum og kraftgöngum tekur við eftir helgi, úfffffff......púffff....eins gott að komast í gírinn og missa smjörlíkismagann og bjórvömbina fyrir skírn.

Föstudagurinn fór í skólalæti, þar sem mamman og Mumminn eyddu nánast öllum deginum í háskólanum. Mumminn svaf og drakk í sig doktorsþekkinguna á meðan mamman hélt fund með annarri af tveimur grúppunum sínum og lék sér í súpervæsór leik. Gekk voða vel og doktorsneminn hefur enn sem komið er getað svarað öllum spurningum og leiðbeint grúppunni.....spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Laugardagurinn fór í leti, þar sem mamman á heimilinu sat föst í rúminu og reis ekki úr rekkju fyrr en klukkan fór að nálgast ÞRJÚ. Jesús hvað það er langt síðan sú gamla hefur verið svona sjálfselsk og bara legið í leti. Eftirmiðdagurinn fór svo í verslunarferð og veislumatargerð þar sem við fengum frábæra gesti í kvöldmat. Erna og Margeir komu ásamt Helen prinsessu og spiluðu foreldrarnir undir hvítvínsglösum og bjórþambi fram á rauða nótt, á meðan börnin sváfu sínu værasta. Doktorsnemanum tókst að standa undir nafni og leiddi Fimbulfambið og er ofsalega stolt af því ;o) Klár í remach any time. Fullorðna fólkið hámaði í sig þrírétta málsverð með sykurbombu í lokin, sem algerlega hefur passað upp á að mamman losni ekki við smörlíkismagann.

Sunnudagurinn hefur farið í vinnu, leik og spil. Pabbinn og krónprinsinn skelltu sér í sund og svömmluðu um Nørresundby í rigningunni, á meðan mamman og örverpið sátu heima og reyndu að lesa og henda saman einhverjum fyrirlestri í power point, afþví mamman er að fara að halda fyrirlestur niðri í Frederecia á þriðjudag......og er kominn með framsagnarmagafiðringinn í kjölfarið. Kvöldið mun svo fara í rafmagnsefnalíflesireiknifræði.....mikið fjör og mikið gaman.


Mamman fæst ekki framúr risarúminu

Íverustaður örverpisins er á smjörlíkismaga mömmunnar

Ummmmm......gott að borða

Humm.......einhverjir að tapa þarna? ;o)

Prinsessan vaknaði þegar verið var að leggja af stað heim

10 september 2007

Slett úr klaufunum

Haldiði ekki bara að maður hafi skellt sér út í fyrsta skipti síðan drengurinn fæddist. Það var nú ekkert djamm á kellunni, heldur var bara skroppið í bíó með vinkonunum á föstudagskvöldið. Við fórum saman stelpurnar að sjá grínmyndina "Knocked up" og það var algert æði. Þetta var barasta fyrsta fríið síðan Mumminn minn fæddist og var ég því svona hálfsmeik við það að fara út, en samt ánægð með að skella mér. Þegar myndin var búin og ég á leiðinni heim var ég komin með nístandi verk í bæði brjóstin þar sem ég er vön að gefa drengnum mínu ofurmikið að drekka á kvöldin og brjóstin því orðin algerlega yfirfull. Þannig að þegar heim kom fékk sá stutti VEL að drekka og svo var bætt á mjólkina í frystinum.

Annars verð ég að segja að ég á bara einn sætasta og rómantískasta eiginmann sem til er. Allavega þegar ég var búin í bíó var fríkvöldið mitt sko ekki búið. Því þegar ég keyrði inn í innkeyrsluna á húsinu okkar tóku á móti mér kertaljós í luktunum við útidyrahurðina og þegar inn kom var húsið allt í kertaljósum. Alveg geggjað flott. En ekki nóg með það, því þegar búið var að fæða drenginn beið mín sjóðandi heitt froðubað með kertaljósum svo ég gat notið mín í vatninu. Algerlega geggjað og ég fór sko endurnærð í rúmið eftirá.

Hérna hjá okkur er búið að vera líf og fjör og í gær var hvorki meira né minna en 25 stiga hiti og skelltum við okkur því í lautarferð í skóg sem er rétt sunnan við Álaborg. Það var ofsalega gaman og við erum búin að ákveða að fara þarna aftur, enda skógurinn stór og við gátum rétt skoðað lítinn part af honum.


Annars varð óhuggulegur atburður hérna í gær þegar SAS vél frá Köben brotlenti á flugvellinum hérna í Áló. En við fljúgum yfirleitt með þessum SAS vélum til Köben þegar við komum til Íslands og ætlum einmitt að gera það nú í desember. Hérna má finna stutt fréttamyndband frá DR af slysinu.
Jæja farin að gera eitthvað af viti.

Yfir og út frá Áló

04 september 2007

Konan orðin kaupóð

Já það má með sanni segja að ég sé orðin algerlega kaupóð. Ekki það að ég sé vön að versla mikið eða eyða miklu, en undanfarið hef ég sko ekki gert annað en að eyða peningum. T.d. verslaði ég eitt stykki hjónarúm fyrir hvorki meira né minna en 32þús danskar (geri aðrir betur). Þetta er reyndar rosalega flott rúm. Sér smíðað fyrir okkur (við fáum sitthvora dýnuna svo það henti hvoru fyrir sig) og með fjarstýringu og öllu. Og hvorki meira né minna en af stærðinni 210*210 (núverandi rúm er 150*190). Síðan verslaði ég nýjar mubblur í stofuna ásamt bæði skenk og skáp í eldhúsið (seldi reyndar stofuhúsgögnin af gamla staðnum). Svo í dag setti ég punktinn yfir i-ið og gerðist þvottavélaeigandi með meiru. Yes, húsfreyjan á heimilinu dró alla 3 drengina út í búð að kaupa eitt stykki MIELE 6kg 1600 snúninga þvottavél með nýrri tromlu sem fer betur með fötin. Svo nú verður ekkert gert nema þvegið og þvegið og þvegið ;o) Fengum þessa vél reyndar á kostatilboði, þar sem hún kostar rúm 140þús ISK á Íslandi, en við fengum hana hérna á 8195 dkk. Ástæðan fyrir að ég veit nákvæmlega hvað hún kostar á Landinu góða, er sú að mamma var að kaupa sér svona svipaða vél fyrir bara rétt um mánuði síðan.

Annað í fréttum er það að nú er ég orðin leiðbeinandi/vejleder/supervisor. Yes, átti reyndar upphaflega að fá grúppu sem var að hefja nám á 7. önn og samanstóð einungis af útlendingum og fá svona örlítið léttari verkefni þar sem þetta er fólk á intro og hefur aldrei unnið svona hópvinnuverkefni áður. En þegar allt kom til alls vantaði frekar leiðbeinanda á aðra grúppu, svo ég fékk hvorki meira né minna en að verða leiðbeinandi á LOKAVERKEFNI hjá tveim dönskum nemendum. Svo nú verð ég fram að jólum í því að leiðbeina krökkum sem eru að klára námið sitt í raforkuverkfræði ;o)

Anyways, ætla að fara að leggjast og glápa á imbann.
Yfir og út
Unnur Stella súpervæsór