23 ágúst 2008

Loksins smá fréttir

Jæja, ætli það sé ekki kominn tími á smá fréttir héðan frá Danaveldi.

Það hefur verið í nógu að snúast hjá okkur litlu fjölskyldunni undanfarið. Prinsarnir eru duglegir á leikskólunum sínum á meðan við foreldrarnir eyðum dögunum í lærdóm og vinnu. Jóhann fór á námskeið í meðhöndlun og ræktun baktería, á meðan ég sit dögunum saman inni í tilraunastofunni minni og leik mér með hin ýmsu mælitæki, háspennugjafa, gps-staðsetningartæki og að sjálfsögðu smá kapalstubb. Framundan hjá mér eru mælingarnar um næstu helgi, en ég hef þrjá sólarhringa til að framkvæma allar þær mælingar sem ég yfir höfuð mögulega get náð. Kapalkerfið í Gistrup sem fæðir meðal annars Aalborg Øst verður aftengt á næstkomandi föstudag og tengt aftur á sunnudagskvöldið, og á þeim tíma hef ég nánast frjálsar hendur til að leika mér með háspennukapla. Fæ sem betur fer 2 menn frá Energinet.dk til að mæla með mér svo ég nái meiru. Fór meðal annars þangað niðureftir um daginn til að halda fyrirlestur um mælingarnar mínar og hvað ég ætla mér að gera, svo þeir sem verða með mér í þeim viti hvað þeir eiga að gera og viti hvernig allar uppsetningarnar eru.
Þar sem ég hef bara þessa þrjá daga, þá sit ég í tilraunastofunni öllum dögum núna og prófa uppsetningarnar og öll mælitækin svo ég sé nú viss um að allt sé eins og það á að vera þegar að stóra deginum kemur.



Fyrir utan allar þessar mælingar, þá er það líka að frétta að ég er á leið til Þrándheima í Noregi. Mér bauðst það frábæra tækifæri að koma þangað og vinna í 3 vikur með sérfræðing í geiranum mínum, en það er maðurinn sem bjó til líkanið sem ég vinn með: Frequency dependent phase model, oft nefnt The Gustavsen model. En líkanið hans Björns Gustavsen er sagt það besta í kapalfræðum í dag, og ég hef fengið boð frá honum sjálfum um að koma og vera hjá þeim í SINTEF. Þeir útvega mér skrifstofu, tölvubúnað og allt sem á þarf að halda, fyrir þessa þriggja vikna dvöl.
Þar að auki á á prjónunum ráðstefna í Kyoto, Japan, í Júní næstkomandi og dvöl í Kanada í 3 mánuði á næsta ári (en það kemur nú allt betur í ljós síðar, segi ykkur frá því þegar allt er frágengið þar).

En svona fyrir utan nám og vinnu, þá get ég sagt ykkur frá því að ég keypti mér nýtt hjól um daginn. Alveg geggjað Kildemose hjól, alvöru stelpuhjól: bleikt með blómum, nafninu mínu í silfurlituðum stöfum, bastkörfu og stórum breiðum hnakk. Það er engu líkt að hjóla á því, svo nú reyni ég að forðast bílinn að mestu og kem mér áfram á milli staða á hjólinu. Reyndar er Jóhann líka farinn að hjóla, svo bíllinn stendur mest bara í hvíld :o)

Annars er ég búin að setja myndir frá ferðalaginu á Íslandi inn á barnaland, svo ef einhver hefur áhuga á því, þá er bara að kíkja inn á heimasíðu prinsanna minna.

Jæja best að fara að hvíla sig í bili,
það er víst nóg að gera framundan.

Engin ummæli: