31 maí 2007

Komið að kveðjustund


Elsku amma okkar.

Innilegar þakkir fyrir öll þau dásamlegu ár sem við höfum átt með þér og fyrir allt það sem þú hefur gert fyrir okkur. Við eigum eftir að sakna þín mikið, en vitum að nú loksins færðu að hvílast og láta þér líða vel eftir langa og erfiða baráttu. Nú loksins færðu að faðma hann Hjört afa aftur og hann Kjartan frænda, ásamt öllum hinum sem við öll elskum og söknum. Elsku amma okkar, gangi þér vel í þinni hinstu ferð og megi englarnir vaka yfir þér og leiða þig til himins. Við erum öll óskaplega þakklát fyrir alla þína ást og alla þá orku sem þú deildir með okkur og sýndir okkur í þínu merka og stórkostlega lífi. Það eru fáar manneskjur jafn indælar og góðviljaðar og þú og við erum þakklát fyrir að þú snertir líf okkar.

Megi góður Guð fylgja þér elsku amma Guðrún og kysstu nú alla hina englana frá okkur.

25 maí 2007

Verkefni næstu vikurnar

Jæja þá eru gömlurnar mínar mættar á staðinn og sældarlíf tekið við. Eða það er, við gátum farið algerlega áhyggjulaus í skólann í morgun, án þess að þurfa að hugsa um litla prinsinn, getum bæði tvö setið eins lengi og við þurfum í skólastofunni og þurfum ekki að huga að kvöldmat :o)

Við hjónakornin ætlum reyndar að reyna að taka okkur eins mikið frí og við getum á morgun, þar sem það er síðasti dagurinn okkar með litla englinum okkar í heilan mánuð, úff hvað það er langur tími. En síðan taka 24 tíma lærdómsdagar við á sunnudaginn. Enda eru nú rétt tæpar 2 vikur í skil á lokaverkefninu, sem ég get með sanni sagt að er VÆGAST sagt frekar viðamikið. Við erum nú þegar komin með 250 blaðsíður og kennarinn okkar segir að það sé ekkert í því sem komið er, sem við getum sleppt, því allt sé þetta mjög “relevant” og greinilegt að við höfum unnið mikið í vetur (enda höfum við að meðaltali unnið í 10 tíma á dag, 7 daga vikunnar, í allan vetur).

Svo erum við krakkarnir í skólanum að skipuleggja “haldauppáskil” ferð þann 9. júní. En ef veður verður gott, hugsa ég að við skjótumst saman í dagsferð á ströndina í Blokhus eða Løkken (glöggir lesendur muna kannski að á síðasta ári skruppum við í strandferð til Skagen sem heppnaðist með eindæmum vel og komum við öll vel rauð úr þeirri ferð). Að þeirri ferð lokinni tekur svo við stífur undirbúningur fyrir mastersvörnina, en hún hefst þriðjudaginn 19. júní klukkan 08:30 :o)

Eftir þann 19. júní er svo frí og afslöppun og leti, þar til 29. júní, en þá set ég víst upp húfu og fæ afhendan skírteinispappír ;o)
Við Jóhann stefnum á að ná okkur í pínu ponsu frí saman (áður en prinsinn kemur) og svo lengi sem ég verð ekki farin upp á fæðingardeild, ætlum við okkur að skjótast til Köben 26-28. júní og njóta lífsins (og sækja drenginn okkar og foreldra mína á flugvöllinn þann 28. júní).

Jæja þá er dagskrá næstu vikurnar komin í loftið, svo best að halda áfram í skrifunum. Vona að ég hafi nú tíma svona endrum og eins (þegar ég á að vera að læra) til að skella inn einhverjum skemmtilegum fréttum. En yfir og út að sinni.

20 maí 2007

Vinnudagurinn mikli

Jæja nú er sko búinn að vera frábær dagur. Veðrið var alveg himneskt, hlýtt og gott og notalegt í garðinum. Þar að auki hef ég átt bara einn af mínum bestu grindardögum í dag. Því var um að gera að nýta daginn vel og fórum við hjónakornin í heilmiklar garðaðgerðir. Við byrjuðum á því að skjótast út í havecenter í Bilka og versla okkur eins og eitt eða tvö blóm ;o) (held þau hafi verið eitthvað um 42) auk ýmissa áhalda sem okkur vantaði (meðal annars hjólbörur). Fengum öll herlegheitin fyrir ekki nema 600DKK, og vorum við með fullan bíl af blómum, skóflum, ýmsum öðrum áhöldum og mold. Jóhann sló allan blettinn og svo skipti hann um mold í blómabeðunum sem naumast hefur verið hægt að greina, meðfram blettinum okkar. Ég setti svo niður öll sumarblómin á meðan þeir feðgar drösluðust með hjólbörurnar fram og tilbaka, fullar af mold útúr garðinum og fullar af viðarspæni inn í garðinn. Viðarspónninn fór svo í beðið hjá hekkinu okkar. Þegar þessu öllu saman var lokið og við komin með rosa fínan lystigarð á bakvið hús, ákvað eiginmaðurinn að skella sér með eitt stykki bílhlass í sorpu og tæmdi þarmeð báðar geymslurnar okkar. Svo nú er bara um að gera að byrja að fylla allt aftur :o)

Annars er bara búið að vera nóg að gera í lærdómi. Ég hef ekkert annað gert en að læra undanfarið, tók mér reyndar pínu frí á föstudagskvöldið til að sinna eiginmanninum sem fengið hefur að sitja á hakanum alltof lengi, og lágum við yfir imbanum saman og borðuðum snakk og nammi, ekki slæmt það. Verkefninu fer nú að ljúka og ekki nema 18 dagar í skil. Ég hlakka ofsalega mikið til að ljúka þessum skilum af, enda verður hvíld í örfáa daga, þar sem sjálft prófið er ekki fyrr en þann 19. júní. Annars verður víst frekar einmannalegt hérna síðustu dagana í stressinu, þar sem mamma og pabbi (sem eru í Frakklandsreysu núna) koma við hérna á fimmtudag eða föstudag til að stela litla prinsinum okkar. En hann fær að vera aleinn í heilan mánuð hjá þeim á Íslandi, að leika við alla ættingjana og láta dekra við sig. Djísús hvað það á eftir að vera erfitt, ég dauðkvíði þessum tíma, þó ég viti að þetta er langbest fyrir hann þessa elsku, þar sem foreldrarnir hafa afskaplega takmarkaðan tíma í júní til að hugsa um hann og sinna honum.

Skelli inn einhverjum myndum frá afreki dagsins.

17 maí 2007

Jói í lögguævintýri

Já, hann Jóhann fékk sko svolítið ævintýri hérna í gærkvöldi. Það var nú bara svoleiðis að við lánuðum Írisi og Björgvin bílinn okkar til að skreppa í bíó, á meðan ég sat og lærði heima hjá þeim svo krakkarnir væru nú ekki einir. Allavega þegar þau koma úr bíó þá láta þau mig vita að það sé greinilega búið að brjótast inn í einn bíl uppi á bílastæði, því það var búið að brjóta rúðuna í skottinu.

Ég sagði Jóhanni frá þessu þegar ég kom heim, og eins löghlýðinn og tillitsamur og hann er, þá gat hann ekki hugsað sér að fara að sofa án þess að hringja á lögguna og láta vita. C.a. 10mín seinna hringir löggan til baka í hann og spyr hvort hann geti ekki hitt sig uppi á bílastæði til að benda sér á bílinn (þetta var um hálftólf í gærkvöldi). Allavega hann fór upp á bílastæði og sá þá að búið var að brjóta rúðu í öðrum bíl (sem betur fer ekki okkar) og ákvað nú að bíða við þann bíl, sem var nær innkeyrslunni á bílastæðið og alveg í hinum endanum miðað við hvar fyrri bíllinn var staðsettur.

Á meðan hann stendur þarna og bíður eftir löggunni, þá sér hann hettuklæddan dreng ganga í áttina að bílnum sem hann stóð við, en í því keyrir lögreglan inn á planið og strákurinn tekur til fótanna og felur sig á milli bílskúra. Jóhann var nú ekki að pæla í þessu og sýnir lögreglumönnunum fyrri bílinn. Svo sér hann strákinn koma aftur úr felum og vera að flýta sér í áttina á fyrri bílnum og segir þá lögreglunni að þessi strákur hafi nú verið að labba í áttina til sín og flúið þegar þeir mættu á svæðið. Annar lögregluþjóninn hleypur þá að stráknum og fer að yfirheyra hann.

Allavega, á meðan biður hinn lögregluþjónninn Jóhann um að sýna sér hinn bílinn sem brotist hafði verið inn í (þann sem Íris og Björgvin höfðu séð) og ganga þeir saman af stað þvert yfir bílastæðið í áttina að bílnum. Þegar þeir byrja að nálgast fer stefnuljósið að blikka og gerði Jói ráð fyrir því að eigandinn væri mættur og væri að opna bílinn með fjarstýringunni. En svo þegar þeir komu nær bílnum fóru öll ljósin að blikka til skiptis og sitt á hvað, frekar undarlega. Svo Jóhann bendir löggunni á bílinn og segir eitthvað um að það líti út fyrir að einhver sé í bílnum. Löggan stoppar hann og hleypur sjálf af stað í átt að bílnum og fyrr en varir er hún búin að snúa niður tvo stráka og festa hendur þeirra fyrir aftan bak.

Þá voru þessir strákar inni í bílnum í fullri vinnu við að reyna að starta bílnum með því að tengja saman víra undir stýrinu (ekta bíómyndabílþjófnaður). Svo þarna var búið að handtaka tvo gaura og sá þriðji, frekar grunnsamlegur, í yfirheyrslu. Ekki vill betur til en svo að fleiri drengi ber að garði, sem fara að rífa kjaft við lögguna og spyrja hvað þeir séu að gera við litla bróður sinn og að þeir eigi ekkert með að vera að handtaka þá sem þá sátu, með hendur fyrir aftan bak, á götunni. Löggan sagði þeim að þetta kæmi þeim ekki við, en þeir hefðu verið að stela bíl og hinir ættu bara að koma sér í burtu.

Á þessum tímapunkti hafði Jóhann sem betur fer vit á því að setjast á hækjur sér í hvarfi við bílskúrana (enda var hann líka með hundinn sem þurfti að róa í öllum látunum). Á augabragði eru nefnilega enn fleiri komnir að, fullir og vitlausir krakkar sem greinilega eru að gera eitthvað af sér, og eru einhverjir farnir að atast í löggunni. Allavega vill ekki betur til en svo, að löggan kallar á aukabíl til aðstoðar og handtekur tvo gaura til viðbótar. En þar sem ekki var hægt að færa sönnur á að sá grunsamlegi sem var í yfirheyrslu hefði verið að gera eitthvað við hinn bílinn, þá varð að sleppa honum.

Svo þessi sakleysislega hjálp Jóa að hringja á lögguna, svo hún gæti nú hringt í eigendur bílanna, ef það skildi nú fara að rigna um nóttina (afþví rúðurnar voru mölbrotnar og bíllinn myndi rennblotna) endaði með því að hann kom upp um ekki bara skemmdarvarga heldur líka bílaþjófa, sem leiddi til útkalls tveggja lögreglubíla og handtöku fjögurra manna.

Sem betur fer komst betri helmingurinn minn nú vel frá þessu öllu og enginn af þessum gaurum uppgötvaði að hann ætti sjálfur bíl þarna á bílastæðinu, né hvar við búum. Þ.a. ekki ættu þeir að geta hefnt sín á bílnum okkar eða komið heim til okkar. Hinsvegar eru meiri líkur en minni, á að þeir þori ekki að mæta hingað í bráð og láti bílana á planinu í friði, þar sem nágrannavarslan er orðin svona góð :o)

Anyways, Jói góði samverjinn er hetja gærdagsins.

09 maí 2007

30 vikna skoðun

Jæja þá er ég búin að fara í 30 vikna skoðunina.
Allt lítur vel út, nema ég er víst aðeins of þreytt og reyni of mikið á mig (eins og venjulega). En ef ég tek mig ekki á núna á ég víst á hættu að koma fæðingu af stað (sem er ekki leyfilegt fyrr en eftir 19. júní vegna prófanna). Svo nú á ég að hætta að hjóla og ganga eitthvað minna og í hvert skipti sem ég fæ samdrætti verð ég að setjast niður, loka augunum og róa hugann, eða leggjast niður í rúmið ef hitt virkar ekki. Ef samdrættirnir fara svo ekki að minnka við þetta, þá er eitthvað stopplyf og sjúkrahúslega sem á að koma í veg fyrir ótímabæra fæðingu, en við ætlum nú ekkert að láta fara út í það, svo núna sit ég bara og læri, eða ligg með tölvuna uppi í rúmi. Mér finnst þetta nú líka frekar fyndið, þar sem ég geri ekki annað en að sitja allan daginn í skólanum og hreyfi mig ekki spor, hef nú ekki einu sinnihjólað síðan í síðustu viku. Ætli það endi ekki með því að ég verð á fullu fram yfir vörnina að vinna í að halda í mér, og svo loksins þegar ég má fara að fæða, þá hættir barnið bara við og ég geng fram yfir eins og síðast. Miðað við mína heppni kæmi það mér ekki á óvart.

Barnið er allavega búið að snúa sér og koma sér þægilega fyrir með höfuðið niður á við. Það er orðið 1 og hálft kíló að þyngd og c.a. 25-30cm. Gunnar Máni var rúm 4 kíló og 54 cm, og telur ljósan að miðað við stöðuna í dag verður þetta barn af svipaðri stærð. Ég skráði mig í vatnsfæðingu og á því von á dýrindis baðkari/sundlaug þegar ég mæti á fæðingarstofuna. En þar sem ég er vatnssjúk og það er ekkert í heiminum sem ég sakna meira en að eiga baðkar, þá er ég vonum mjög spennt að fá að prófa þetta ;o)
Mér hefur víst líka tekist ágætlega með kílóin, en ljósan sagði að miðað við þyngdina við upphaf meðgöngu, stærð barnsins og kúlunnar (með vatni og legköku) núna og þyngdar minnar í dag, þá hef ég sjálf misst einhver örfá kíló. En ætli það breytist nú ekki fljótt ef ég verð að hætta að hreyfa mig og gerast örkumla óléttusjúklingur. Vonum bara það besta, annars er hver sá sem nennir velkominn í þrekæfingar og vagnahlaup með mér í júlímánuði :o)

Allavega þar hafiði svolítil meðgöngu update, en ég er farin að leika mér í MATLAB, það er alveg ótrúlegt hvað það er gaman að vera til og að læra þegar hlutirnir manns eru farnir að virka og maður er bara að leika sér í að breyta og plata forritið :o)

Kveðja frá ólétta lærdómssjúklingnum

05 maí 2007

Tívolíferð í sólinni

Enn er sumar í Danaveldi. Það á víst ekki að fara að rigna fyrr en á mánudag held ég. En ég verð nú eiginlega að segja að ég hlakka pínu ponsu til, afþví það er svo hræðilega leiðinlegt alltaf að sitja inni yfir tölvunni og reiknivélinni þegar það er svona gott veður úti. Vona samt að það kólni ekki, bara komi pínu ský og kannski 1 eða 2 dropar :o)

Annars er ég búin að vera voðalega dugleg að hlýða og fara vel með mig og hef ekki hjólað í marga marga daga núna, alltaf bara keyrandi í bílnum. Sem er eiginlega hálf hallærislegt, afþví ég bý í 5mín hjólafjarlægð frá skólanum. En svona er nú það, ég verð þá bara að vera hálf hallærisleg ;o)

Mér var reyndar farið að líða svo vel í morgun að við ákváðum að skjótast í pínu göngutúr saman og fara í tívolí og vorum svo heppin að njósnararnir okkar hérna á móti (í nr. 59) voru í sömu hugleiðingum, þannig að við skelltum okkur bara öll saman í sumargöngu í tívolí. Það var ofsalega gaman og mikið fjör. Gunnar Máni og Rakel nutu sín alveg í botn og fóru í endalaust mörg tæki. Það gekk bara vel að rölta þetta niðureftir og uppeftir aftur, en ég hefði nú kannski samt sem áður átt að taka því aðeins meira rólega, þar sem grindin er aðeins lélegri og ég er með einhverja pínu seyðingssamdrætti. Ætla að liggja í leti í rúminu í kvöld til að þessir samdrættir verði ekki að neinu veseni. Ég hef ekki tíma í barneignir fyrr en eftir 19. júní :o)


Allavega knús og kjass frá hlassinu í Næssundvej 78


03 maí 2007

Meðgönguvæl og skólaupdate

Jæja það hlaut að koma að því. Nú er ég víst búin að hafa nokkrar úberdúber góðar meðgönguvikur, og þá ákvað grindin að gefa sig aftur. Mögulega á ég sökina að einhverju leiti þar sem ég hef ekki verið alveg nógu dugleg að passa mig og kannski hjólað aðeins of mikið undanfarið, en eitthvað verður maður að gera til að halda aftur af kílóunum. Allavega þá er ég búin að vera að fara versnandi með degi hverjum síðan í fyrradag og er nú svo komið að ég get varla gengið í dag. Þetta er ekki bara útaf þessum ægilega skemmtilegu grindarverkjum sem ég þekkti svo vel síðast líka, heldur hefur eitthvað gengið til, því vinstri fóturinn bara vill ekki lyftast. Það er eins og beinið hafi færst eitthvað til, svo ég get bara lyft honum mjög takmarkað, þetta veldur að sjálfsögðu einkar fyndnu og skemmtilegu göngulagi hjá frúnni ;o)

Annars er ég að fara í 30 vikna skoðun þann 9. maí og ætla að láta tékka á því hvort þetta sé eitthvað óeðlilegt. Þetta er orðið svo miklu verra en síðast, en það var reyndar búið að vara mig við: “einu sinni grindargliðnun, alltaf grindargliðnun og versnandi með hverri meðgöngu”. Mér finnst bara verst hvað þetta heftir mig í hreyfingunni, vil helst ekki bæta mikið meira á mig (vigtaði mig í fyrradag og þá voru komin 7,5 kg). Eitt gott við þetta er þó, að ég fékk einkar góða afsökun fyrir að eyða morðfé í nýjan stól og sit ég því í kóngasæti í skólanum núna (tók nýja stólinn minn í skólann og tek hann svo bara heim í vor, afþví næsta haust mun ég hvorteðer sitja heima og vinna og þá er nú ekki verra að eiga kóngastól).

Annars er voðalega lítið að frétta hérna frá okkur í Álaborginni. Verkefnið gengur ágætlega og er orðið heilar 200 síður. Ég er búin með fyrsta hlutann minn sem snýr að observability analysis, en þar sem efnið og upplýsingarnar eru hernaðarleyndarmál og ritgerðin verður stimpluð í bak og fyrir sem leynilegt skjal (vegna upplýsinga frá fyrirtækinu), þá má ég ekki segja hvað niðurstaðan úr observability analysis gefur. Hinsvegar gekk það vel og teorían sem ég notaði virkaði vel til að framkvæma þessa analysis. Þar að auki tókst mér með einhverjum undraverðum hætti (einhver engill sat yfir mér þann daginn) að þróa nýja teoríu og betrun á algórithma til að finna critical measurements og fækka/eyða þeim. Svo við erum þegar komin með ákveðið nýtt í verkefnið. Per er að vinna við að setja upp state estimation í MATLAB og notumst við einnig við nýja leið þar, sem reyndar er ekki af okkar vegum heldur þróuð út frá statistical reikningum. Mjög skemmtilegur og einstaklega ruglandi method (allavega var ég lengi að koma mér inn í það sem hann var að gera). Ég er svo komin í verkefni númer tvö sem er að skoða möguleikana á að nota fasamælitæki í kerfinu til að bæta “state estimation” og það gengur bara vel. Ég er búin að finna frábæra grein sem útskýrir hvar best sé að staðsetja svona mælitæki þegar effect (P og Q) mælingar eru til staðar í netinu. En það er búið að skrifa svo margar greinar um það efni að við ákváðum að gera það ekki að umfangsefninu, heldur erum við aðeins að prófa ótroðnar slóðir og sjá hvernig við getum betrumbætt observability og state estimation með því að notast við 1-2 fasamælitæki. Það er rosalega spennandi að skoða og er ég búin að setja upp hermi í MATLAB fyrir IEEE 14-bus test kerfið og búin að sjá að þetta gefur mun betri niðurstöður en að notast við bara P og Q mælingar. Næsta skref er að prófa þetta á 400 kV netinu hérna á Jótlandi og Fjóni. Ég býst við að byrja á því í byrjun næstu viku. Þar á eftir er svo að byrja að testa og leika með herminn sem við erum að setja upp og sjá hvaða skemmtilegu niðurstöður við getum fengið ;o)

Við eigum að skila 7. júní og erum búin að fá vörnina okkar 19. júní, svo vonandi upp úr hádegi þann 19. júní ætti ég að vera orðin meistari (þó ég fái ekki sjálft skírteinið fyrr en 29. júní) :o) Gaman gaman.

Well, sorry með allar sletturnar, en ég er bara einfaldlega OFSALEGA léleg í íslenskum tækniorðum.

Farin út í sólina að borða ís.