27 ágúst 2009

Hvað höfum við verið að bralla

Nú er ég ein eftir í Kanada. Jóhann er kominn til Danmerkur og prinsarnir okkar eru á Íslandi.

Mummi heillar ömmuna og litlu börnin með sjarma sínum í daggæslunni. Hann sýnir mikla hæfileika í myndlist og elskar að teikna ýmsar myndir. Hann er að æfa sig á koppnum og er því mikið bleyjulaus og pissar í koppinn, þó hann vilji helst enn gera númer 2 í bleyjuna. Hann er farinn að tala endalaust mikið af íslensku og þroskast mikið frá degi til dags. Hann er alger afastrákur og lætur víst ömmu sína og afa alveg vita af því. Við erum búin að finna dansskóla í Álaborg sem tekur börn alveg frá 2 ára aldri, svo örverpið okkar kemst í dansnám þegar við komum aftur til DK.

Mánalingurinn okkar er byrjaður í skóla og heillar alla í Kópavogsskóla upp úr skónum. Stóri duglegi strákurinn okkar er þegar búinn að eignast vini í skólanum og nýtur sín í botn. Fólk trúir því ekki að hann sé ekki 6 ára eins og hin börnin og gapir þegar þeim er sagt að hann er bara 4 ára. Hann er búinn að læra mikið af bókstöfum og var búinn að læra að skrifa suma þeirra áður en hann fór frá Kanada. Nú er hann byrjaður í heimilisfræði (bakaði möffins í dag), smíðum, stærðfræði, íslensku, leikfimi og fleiru og fleiru. Hann er alveg í essinu sínu og svo glaður og kátur í hvert skipti sem ég tala við hann og segir mér frá öllu því sem var að gerst hjá honum í dag. Það er því alveg augljóst að hann er tilbúinn að fá mun meiri og erfiðari viðfangsefni en venjulega. Þar sem hann mun fara aftur til baka í leikskólann þegar við komum til Danmerkur, þá erum við að skrá hann í sund, fimleika, dans og fótbolta auk einkakennslu í ensku til að viðhalda námi og enskukunnáttunni sem hann náði sér í meðan hann var í Kanada.

Pabbinn er á fullu að læra og er í lab-kúrs sem hann þarf til að geta unnið með ákveðin efni í vetur. Hann er aleinn í stóra húsinu í Álaborg og saknar látanna í litlu prinsunum. Sem betur fer er auðvelt að loka sig af frá minningum og upprifjun um drengina með því að sofa í gestaherberginu og nota stofuna og eldhúsið. Þetta fækkar þeim hlutum sem minna hann á fjölskylduna sem er svo langt í burtu. En sem betur fer líður tíminn hratt og styttist óðum í að við komum til DK aftur.

Mamman er MJÖG upptekin í vinnu og vann t.d. 74 klukkustundir bara í síðustu viku. Hún er líka að æfa fyrir hálft maraþon í vor, þar sem hún ætlar að keppa á tíma við einn félaga sinn. Nýjasti tíminn er 10 km á 50mín sem henni þykir bara ágætt :o)
Atvinnutilboðin streyma inn og ekkert lát verður á því. Svo næstu mánuðir fara í að velja hvar í heiminum fjölskyldan vill búa. Verkefnið skot gengur og er mamman loks farin að sjá upphafið að endinum og komin með nokkuð góða tilfinningu fyrir því sem gera skal og er nú þegar byrjuð að betrumbæta strengjalíkanið. Planið var upphaflega að ljúka allri vinnu í janúar og byrja að skrifa, en miðað við hvernig gengur í dag, þá er líklegt að allri vinnu ljúki í lok þessa árs svo skrif geti hafist fyrir áramót.
Þessa helgina verður ekkert unnið, þar sem mamman er á leið í 4 daga 65km göngu. Gengið verður um Mantario trail, sem er á mörkum Manitoba og Ontario (skýringin á nafninu). Ferðin verður farin með 4 ferðafélögum, 2 stelpum og 2 strákum. Lagt verður af stað frá Winnipeg kl. 7 á föstudagsmorgun og komið til baka seint á mánudagskvöld.
Annars eru allir mjög hressir. Tíminn líður hratt og nóg að gera eins og venjulega. Næstu fréttir verða vonandi fljótlega eftir gönguna, þar sem lofað er myndum frá Mantario trail :o)