01 febrúar 2009

Fréttir af Blákelduveginum

Lífið hjá okkur á Blákelduveginum gengur sinn vanagang. Heimilisfaðirinn byrjar næstu önn á morgun, drengirnir eru duglegir í vinnunni sinni og heimilismóðirin hefur ekki tíma til að vera til sökum mikilla anna líkt og venjulega.

Jóhann átti tuttugasta og áttunda afmælisdag sinn fimmtudag í síðustu viku og fékk að halda upp á daginn aleinn með drengjunum okkar. Þeir gerðu sér afar glaðan dag og fóru saman á Mc. Donalds.....hhhhhmmmmm.........eeeeeeen þegar ég kom heim þá bjó ég nú til afmælisvöfflur með heitu súkkulaði, afmælisköku og fylltar kjúklingabringur með ferskum mozarella osti og parmaskinku. Svo hann fékk smá síðbúna afmælisveislu um helgina. Heimilisfaðirinn var bara nokkuð sáttur með afmælisgjafirnar, en að þessu sinni hlotnaðist honum einkar skemmtileg íslensk bók frá Beggu systur og við mæðgin færðum honum íslensku seríuna "Dagvaktin" og tvær seríur til viðbótar með David Attenborough (Planet Earth og Blue Planet).

Annars hafa allir á þessu heimili lagst í flensuveikina, á sitthvorum tímanum. Fyrstur var Mummi, sem svo smitaði Jóhann. Þar á eftir kom Máninn og síðast í röðinni var ég. En nú er öllum batnað og allir á leið í sína vinnu þegar nóttin er runnin á enda. Við stálumst reyndar aðeins saman útúr húsi í dag og skruppum örstutt í dýragarðinn. Þoldum afar stutt við enda var nýstingskalt og mikið frost. En við förum bara aftur síðar, það er kosturinn við að hafa árskort í dýragarðinn, maður er alls ekki bundinn við að eyða hálfum deginum eða að skoða öll dýrin því það kostar okkur ekkert að fara bara aftur eftir viku ;o)

Það er búið að bæta aðeins við á ferðaplanið mitt fyrir árið og til viðbótar því sem ég var búin að segja ykkur frá, þá er ég á leiðinni til Portúgal 4-6. apríl og svo Brasilíu þegar vetrar aftur hér í Evrópunni. (Allt sökum vinnu) Svo það má með sanni segja að ég muni að miklu leiti búa í flugvélum þetta árið.

Við hjónin erum bæði byrjuð á fullu í ræktinni og er planið hjá mér að nýta morgnana og mögulega hádegishléin (enda er ég ekki nema 2 mín að labba í ræktina frá skrifstofunni minni) og stefnir Jóhann á kvöldferðir ásamt tveimur íslenskum félögum sínum.

Annars gengur lífið bara sinn vanagang og allir eru hressir og kátir og duglegir að leika, læra, labba og tala (og tala og tala og tala og tala, held að miðað við margar sögur frá nánustu fjölskyldu þá sé nokkuð ljóst að hann Mummi minn sé sonur minn, hann syngur og talar STANSLAUST allan daginn út og inn).

Njótið lífsins og hvors annars.
Yfir og út í bili frá Blákelduveginum