16 janúar 2009

Lífið er dásamlegt

Ég eeeeeeeeelska vinnuna mína. Það er svo margt annað sem ég gæti verið að gera og myndi skila inn mun fleiri aurum, en ég myndi án þess að blikna fara í gegnum erfiðari kreppu og eiga enn minna en ég á í dag, bara ef ég gæti verið í þeirri vinnu sem ég er í. Hver dagur gefur mér eitthvað nýtt að kljást við og ný ævintýri gerast í hverri viku. Ég þeytist á milli landa, hef möguleika á að fljúga með þyrlum og hitta nýtt fólk alls staðar að úr heiminum. Deila mínum hugleiðingum og læra af færasta fagfólkinu. Láta aðra hlusta á heimsku hugmyndirnar mínar, sannfæra fólk um að það sé sniðugt að eyða fjármunum og tíma í að rannsaka það sem mér finnst spennandi og svo nýt ég þeirra forréttinda að taka þátt í að leysa hugmyndir og vinna að verkefnum sem snjöllustu samtímamenn mínir finna upp á. Ég eyði deginum í að grúska og blanda saman aldagömlum reglum og hefðum saman við nýjar hugleiðingar og greinar sem jafnvel eru óútgefnar. Ég hef möguleika á að vinna við hluti sem enginn hefur áður skoðað og ég hef möguleika á að strita við vandamál sem menn hafa kljást við í tugir jafnvel hundruðir ára. Þegar vel gengur, get ég verið ein af þeim sem finna upp hluti eða verið ein af þeim sem vinna að lausnum til að betrumbæta heiminn okkar. Aftur og aftur undanfarið hef ég verið að koma með hinar undarlegustu hugmyndir og skrítnar getgátur og fólk um allan heim er farið að hlusta og velta spurningum mínum fyrir sér og búið er að ákveða að nota gríðarlega fjármuni og marga menn í að reyna að leysa getgátu sem ég kom með nú í lok síðasta árs. Það er ekkert skemmtilegra og hvern dag nýt ég þeirra forréttinda að vakna, kyssa dásamlegu fjölskylduna mína og láta mér hlakka til að mæta í vinnuna. Langflesta daga er svo gaman að ég algerlega gleymi mér í heimi bóka og spennandi fræðirita svo verður að minna mig á hádegismatinn og oft þarf ég að setja ámynningu í tölvuna þegar klukkan fer að nálgast lok vinnudags, annars gæti ég stundum einfaldlega setið endalaust án þess að borða, drekka eða sofa. Ég vona af öllu mínu hjarta að ég geti að lokinni doktorsgráðu haldið áfram þessum ferli mínum sem áhugagrúskari og vandamálauppfinnandi :o)

Svona í dapurleika vetrarins og þunglyndi kreppunnar, þá verð ég að deila með ykkur hversu lífið er dásamlegt. Munið bara öll að hugsa ekki um hversu erfiðir tímarnir eru eða hversu svart útlitið er. Hugið frekar að góðu hlutunum og hvert öðru.

Ég er nefnilega ekki nema 28 ára og ég verð að segja að ég á næstum hið fullkomna líf (þrátt fyrir kreppu og peningaleysi). Ég ELSKA vinnuna mína og mér finnst gaman að vakna á morgnana og takast á við nýjan vinnudag. Vegna þessa áhuga míns tel ég sjálfri mér trú um að mér takist ágætlega upp í því sem ég tek mér fyrir hendur og er nokkuð kát með árangur hvers vinnudags.

Ég á mér æðislegt áhugamál sem ég get notað til að sýna mínum nánustu hversu vænt mér þykir um þá. Mér finnst gaman að sitja og búa til hluti í höndunum og ég reyni að nýta lausu tímana til þess að baka brauð fyrir fjölskylduna svo allir séu sáttir og saddir og til að hanna og sauma eitthvað skemmtilegt bæði til að gleðja mitt hjarta og minna nánustu.

Ég á yndislegasta mann í heiminum. Hann er tilbúinn til að fórna öllu og gera ALLT bara svo ég geti látið mína drauma rætast (og hann setur eiginlega alltaf niður klósettsetuna). Hann var tilbúinn að hætta í vinnu sem hann var ánægður í og flytja með frumburðinn burt frá sínum nánustu, bara svo ég gæti lært það sem mig langaði til. Hann sýndi mér allan stuðning og hjálpaði ólýsanlega mikið þegar mig langaði í áframhaldandi meira nám með einungis 4 vikna gamalt barn (og hann sjálfur kominn í erfitt verkfræðinám). Hann spurði einskis og brosti þegar ég þurfti að fara frá í 3 vikur og skilja hann einann eftir með börnin tvö, mitt í mikilli verkefnavinnu hjá honum. Honum fannst það ekkert nema sjálfsagt og hann er alltaf tilbúin að styðja við bakið á mér og veita mér alla þá hjálp og þá aðstoð sem á þarf að halda þegar mér dettur í hug að ferðast eða gera eitthvað annað starfstengt og hann biður aldrei um neitt í staðin, er bara til staðar þegar ég þarf á því að halda. Ég get alltaf stólað og treist á hann og hann fylgir mér í einu og öllu alveg sama hverju ég tek upp á. Ég á fallegasta og besta mann sem til er.

Ég á tvo dásamlegustu syni sem nokkur móðir getur óskað sér. Í mínum augum eru þeir fallegustu og gáfuðustu börn í öllum heiminum. Þeir eru óendanlega þolinmóðir gagnvart útrásasemi móðurinnar og eftir langar fjarverur er ekki spurt hversvegna ég fór frá þeim, heldur er sagt "en hvað við erum glaðir að sjá þig aftur".

Ég á bestu foreldra sem nokkur getur hugsað sér. Í gegnum alla mína súru og sætu stundir hafa þau alltaf verið til staðar og stutt mínar furðulegustu ímyndanir. Hrósað mér þegar ég gat klappað, huggað mig þegar ég fékk skrámu, kysst mig þegar ég gat skrifað, hlustað á mig þegar ég gat talað og spurt ENDALAUST, hughreyst mig þegar ég mér leið illa, þolað mig í öllu mínu prófstressi og prófpirring, tekið utan um mig þegar eitthvað bjátaði á og montað sig af mér þegar vel gekk. Foreldrar mínir eru ótrúlegir og eiga mikið hrós skilið fyrir uppeldið á okkur systkinunum, sem eigum öll frábært líf og höfum öll með tölu látið okkur farnast vel sem ég er ekki í nokkrum vafa um að er að stórum hluta okkar æsku og okkar uppeldi að þakka.

Ég á sterkustu og bestu stóru bræður sem nokkur stelpa getur átt. Alltaf hafa þeir verið til staðar. Alltaf hafa þeir treist mér fyrir öllu, meira að segja augasteinunum, börnunum, sínum. Þeir myndu gera allt til að vernda litlu systur og eiga miklar þakkir skildar fyrir að þola litlu systur sína og fyrir að standa við bakið á mér alla tíð. Fyrir að vernda mig og fyrir að sýna mér hversu stórir og sterkir þeir eru. Þeir eru bestu bræður í heiminum.

Ég á fallegustu og ljúfustu systur í heimi. Það eru ekki til fegurri konur en stóru systur mínar. Þær hafa alltaf verið til að kenna mér um undraheim kvenna og reyna að hjálpa mér að finna kvennlegu hliðina í nördaheimi mínum. Þær pössuðu upp á að ég fengi háhælaða skó þegar mamma taldi mig of unga, þær kenndu mér að mála mig og þær tóku mér opnum örmum sem ungling að ferðast um hinn stóra heim. Þær hafa alltaf stutt mig og verið til staðar þegar á þarf að halda. Þær eru bestu systur í heiminum.

Ég á frábæra tengdafjölskyldu. Aldrei hef ég fundið það sem alltaf er gert grín af með tengdafjölskyldur og alltaf hefur mér verið tekið opnum örmum. Ég á algerlega heima í tengslaböndum tengdafjölskyldunnar og hún hefur tekið mér sem annarri dóttur, en ekki sem eiginkonu mannsinns míns.

Ég á hjálpsömustu vini sem til eru. Ég á vini sem eru tilbúnir að hlaupa undir bagga hvenær sem er og hjálpa til þó það þýði að þeirra föstudagshvíld þarf að bíða í heila viku í viðbót. Ég á vini sem alltaf eru í kallfæri þegar á bjátar eða einveruleikinn er á næsta leiti og ég á vini sem alltaf muna eftir að spyrja hvernig gangi og hvernig okkur líður. Ég á vini sem ekki er hægt að lýsa og sem ganga í fjölskyldustað í þeirri fjarlægð sem er á milli okkar og okkar ástkærustu á Íslandi.

Ég á ótrúlega stóra og góða fjölskyldu og frábærann vinahóp þar sem allir leggja sitt af mörkum til að mér líði sem best og eru alltaf tilbúnir að fyrirgefa þegar ég haga mér asnalega. Mér líður vel, mig skortir ekkert og ég er ríkasta persóna í öllum heiminum í tölum kærleika vina og vandamanna og í ofanálag er vinnan mín áhugamálið mitt og líf mitt og yndi.

ER HÆGT AÐ HUGSA SÉR MEIRI HAMINGJU EÐA BETRI TÍMA?
Takk elsku fjölskylda og takk elsku vinir fyrir allt.

11 janúar 2009

Helgin liðin

Þá er enn ein helgin liðin og styttist í að þessi fyrsti mánuður ársins 2009 sé hálfnaður. Við fjölskyldan á Blákelduveginum höfum notað helgina í leti og afslöppun. Fyrripartur laugardagsins fór í allsherjarþrif þar sem skápar, veggir og loft voru þrifin. Og baðherbergin tekin algerlega í gegn. Prófaði smá heimagerða blöndu til að þrífa baðherbergisveggi og glugga; blandaði ediki, sítrónu og heitu vatni. Þetta alveg svínvirkaði og nú er glugginn við sturtuna tandurhreinn loksins :o)
Restin af laugardeginum fór svo í smá verslunarleiðangur þar sem verslaðar voru útsölubuxur á frumburðinn okkar og svo ísskápurinn fylltur. Föstudagskvöldið var reyndar „hygge“ dagur með Mánanum okkar þar sem við tókum mynd með Dr. Seuss, „Horton hears a Who“. Við sátum þrjú (sá minnsti fór í rúmið) með súkkulaði m&m og horfðum saman á vídeó. Honum fannst það alveg geggjað og fór þreyttur og glaður í rúmið um 20:30. Mjög gott kvöld. Laugardagskvöldið var svo „hygge“ dagur fyrir okkur hjónin og fóru því drengirnir báðir í rúmið um 19 eins og venjulega. Okkur langaði nú pínulítið út að skemmta okkur en sökum barnapíuleysis þá létum við bara skemmtilegheitin koma til okkar og blönduðum okkur margarítu og dreyptum á hvítvíni yfir spilum. Planið var að spila Settlers enn eina ferðina en þar sem Jóhanni hefur gengið afskaplega illa í því spili (hihihihi ég hef ALLTAF unnið hann) þá var samið um að spila Hringadrottinsspilið í staðin. Svo Jóhann fékk að vera Fróði og ég lék Sám. Spilið gekk mjög vel, þartil við komum í Mordor, en þá fékk Sauron hringinn og við urðum að sætta okkur við tapið enn eina ferðina :o) Við hættum því bara spilamennsku eftir þetta tap okkar gegn myrkrahöfðingjanum og settum nýjustu seríuna með Battlestar Galactica í sjónvarpið. Kvöldið var alveg frábært og það voru mjög þreytt og sátt hjón sem skriðu inn í rúm seint og um síðir :o)Annars, ef það er einhver að velta fyrir sér afmælisgjöfum á þessu árinu. Þá er hæst á óskalistunum okkar bæði Dagvagtin og nýlegt Trivial Pursuit. Viljum ekki kaupa spurningaspil á dönsku :o)
Annars eru í þessari vikunni liðin heil 4 ár síðan við fluttumst til Danaveldis, til þess að dvelja hér í 2 ár á meðan ég lyki við masterinn minn. Ég man það að um þessar mundir fyrir 4 árum síðan vorum við hjón með litla 2 mánaða prinsinn okkar flutt heim til mömmu og pabba og búin að koma búslóðinni okkar í gám til brottferðar örfáum dögum síðar. Við vissum ekkert um Álaborg eða íbúðina sem við vorum að flytja í. Höfðum séð grunnteikningu á heimasíðu á internetinu og vorum með heimilisfangið skrifað niður á blað. Við þekktum engan sem bjó hérna í Álaborg og höfðum ekki hugmynd um hvar skólann væri að finna. Vorum með 70kg farangur fyrir okkur 3 til að nýta fyrstu 2 vikur dvalar okkar á nýjum stað, næstum allt barnadót fyrir litla prinsinn en einnig tvenn sængurver (ekki sængur) og tvo kodda auk uppblásanlegrar dýnu sem reyndist svo vera með gati, svo við sváfum á gólfinu þar til við gátum keypt okkur ódýran svefnsófa til að nota þartil búslóðin okkar kæmi. Svo var það vagninn sem Máninn okkar fékk að sofa í, en fyrsti hluturinn sem við keyptum í litlu íbúðina okkar í miðbæ Álaborgar var barnarúm með öllu tilheyrandi (kostaði næstum því aleiguna okkar) :o) Þegar við mættum í íbúðina okkar var ekki til klósettpappír og einungis ljós yfir speglinum á baðinu og yfir eldavélinni. Það var heldur enginn stóll, svo ég sat á klósettinu í brjóstagjöf. Það var ca. 8 gráðu frost og myrkur þegar við stigum úr lestinni í Álaborg og við vorum næstum því ótalandi á dönskunni. Við vorum ekkert búin að borða næstum allan daginn, því það er ekki hægt að kaupa neinn almennilegan mat í lestinni frá Kaupmannahöfn og sú lestarferð tók okkur um 6 klukkustundir. Svo það voru stressaðir, þreyttir, svangir og hræddir ungir foreldrar sem gengu í 2 klst seint að kvöldi til um allt nánasta nágrenni til þess að finna Statoil bensínstöð þar sem hægt var að kaupa klósettpappír, brauð og ávaxtasafa. Þrátt fyrir allar mótbárur á þeim tíma, þá höfðum við nú hvert annað og reyndum að brosa gegnum tárin, enda voru það bara fyrstu 2 vikurnar sem reyndust erfiðar. Þegar bjartsýnin hafði komið okkur í gegnum þessa fyrstu 14 daga, þá var öll okkar tilvera upp á við eftir það. Aðstæður okkar hafa breyst allverulega síðan þessa fyrstu daga, en í dag eigum við yndislega vini (bæði danska og íslenska) hérna úti og höfum gert okkur gott heimili, þekkjum umhverfið mjög vel og erum ágætlega spræk í tungumálinu. Enda erum við mjög sátt og hamingjusöm, þó við séum einnig mjög viss á því að halda heim þegar við loks fáum nægju okkar af skólabókum (hvenær sem það nú verður) :o)
Nú er víst kominn tími á hvíld þar sem morgundagurinn er fullbókaður með prófayfirsetu. Ég þarf að sitja yfir í munnlegu prófi hjá 15 fyrstu annar mastersnemum í háspennuverkfræðinni.
Svo yfir og út frá okkur hérna á Blákelduveginum






Stofan okkar á fyrsta íverustað í Álaborg


Máni rétt rúmlega 2 mánaða

Fína rúmið fyrir prinsinn, keypt fyrir aleigu foreldranna (hefur nýst mjög vel, enda notar litli prinsinn nú þetta rúm og sá eldri er komin í enn fínna rúm)


Mamman að gefa brjóst í stólalausri íbúð (nú er allt yfirfullt af stólum hjá okkur svo stundum veit ég ekki hvar á að koma þeim fyrir. Er meira að segja með 8 auka stóla úti í geymslu. Ætli maður hafi litast af stólaleysinu fyrstu vikurnar)

09 janúar 2009

Vikan brátt á enda


Héðan frá Danaveldi er allt það fínasta að frétta. Árið hjá okkur byrjaði með smávegis snjó. Svo kom mikið frost (8 gráðu frost í tvo daga). Þar á eftir kom aftur smá snjór en í dag er bara blautt og leiðinlegt.

Fyrsta vinnuvikan eftir langt jólafrí hefur lagst á okkur af fullum þunga. Heil vinnuvika eftir 2vikna frí, ægilegt að þurfa að byrja að vera duglegur aftur, vakna á morgnana, klæða sig úr náttfötunum í fötin og svo það allra versta:hætta að borða allt nammið og drekka gosið.
Þetta hefur nú samt allt gengið eftir bestu óskum og eftir örfáa tíma höfum við öll lifað af þessa viku. Jóhann hefur nú líklega verið í mesta stressinu, en hann var í prófi á mánudaginn sem gekk bara nokkuð vel og svo er hann í prófi ákkúrat núna sem hann var svo stressaður fyrir að hann svaf varla nokkuð og var farinn í skólann klukkan 6 í morgun. Vona að það gangi betur en hann þorði sjálfur að vona og að hann geti lagt sig eftir prófið. Því í kvöld, morgun og á sunnudag erum við öll fjölskyldan saman í fríi (næsta próf, og jafnframt það síðasta, hjá honum er ekki fyrr en 16. janúar).
Ég er lagst á fullt í lestur og sit nú daginn út og daginn inn og les greinar og bækur og reyni að finna einhvern botn í þessi vandamál mín sem mér tekst alltaf að búa mér til (kann mér bara ekkert vandamálahóf). En það er allt saman mjög spennandi og gaman og er ég að lesa efni alveg aftur til 1870 takk fyrir (frá ÞARSÍÐUSTU öld) :o)

Drengirnir standa sig eins og hetjur í vinnunni sinni og Mummi heldur áfram að sjarma alla, börn og fullorðna, með knúsum sínum og keleríi. Hann er algjör knúsikarl og ef hann kemst upp í fangið á einhverjum (sem hann gerir oft því hann er með ómótstæðilegt augnaráð) þá vefur hann litlu höndunum sínum um hálsinn á þeim sama og breytir steini í smjör. Hann er líka farinn að tala SVO mikið og skilur næstum allt. Hann hermir allt upp sem maður segir og svo getur hann komið orði á næstum allt sem hann vill eða sér, sem dæmi:
bibi (fugl)
sisa (kisa)
atn (vatn)
mlk (blanda af mjólk og mælk)
gekka (drekka)
maaad (mad á dönsku)
matttt (matur á íslensku, mjög sterkt t hjá honum)
mamma
pabbi
Náni (Gunnar Máni)
Amma
Afa
ími (sími)
lala (tala)
hallo
bess (bless)
falell (farvel, bless á dönsku)
Ingid (Ingrid, fóstran hans á vöggustofunni)
mmmma (Emma, vinkona hans á vöggustofunni)
bíll
nanani (banani)
NAMMI (þetta kann hann MJÖG vel)
inn
út
leija (blanda af leika og lege)
klóttið (klósett)
kúka
issa (pissa)
Honum fannst þó merkilegast um daginn þegar ég benti á tunglið og sagði að þetta væri máninn. Hann hló og hló endalaust og benti til skiptis á Mána og tunglid og sagði Náninn Náninn.

....og svona gæti ég talið endalaust (enda talar hann endalaust). Þegar ég sagði mömmu frá því (og sýndi) hvernig hann talar non-stop allan daginn þá horfði hún bara á mig og spurði "og hvaðan heldurðu að hann fái það". Ég skildi ekkert í þessu skoti hennar og er viss um að stóru systkini mín skilji heldur ekkert í svona skotum á mig :o)

Duglegasti Máninn minn er orðinn alltof stór. Ég vildi óska að hann gæti bara verið litla barnið mitt alltaf hreint, en það er víst ekki hægt. Hann eeeeelskar að spila og ég get sko alveg montað mig af því að hann er langt á undan sínum aldri í spilaleikjum. Enda fékk ég að vita í leikskólanum í gær að hann fær alltaf að spila spilin fyrir stóru krakkana og vinnur þau oftast nær líka. Það er helst að þær fullorðnu vinni hann, en honum tekst nú samt ansi oft að vinna þær líka. Honum finnst líka afskaplega gaman að vinna, en er sem betur fer ekki tapsár. Allavega ekki í spilum. Það er allt í fínu þó hann tapi í spilum og sumum leikjum, en hann má ALLS ekki tapa í kapphlaupi. Ef hann tapar því, þá er sko voðinn vís. Svo er hann orðinn mjög duglegur með stafina og er alltaf að byrja að lesa meira og meira. Hann er kominn með mikinn áhuga á stöfum, lestri, skrift og reikning. Svo við reynum að sjálfsögðu að ýta undir þessa lærdómsfíkn hans og sitjum með honum í Glóa geimveru tölvuleiknum (íslenskur lærðu að lesa leikur), lesum stafrófsbækurnar, erum með stafrófið hengt á ísskápinn, teljum fram og til baka upp í 100 bæði á íslensku og dönsku og reiknum hvað eru margir dagar eftir í næsta laugardag ef við sofum svona marga daga og hvað eru margir bitar á disknum hans og disknum hans Mumma til samans (plús að hann á reikningsbók sem hann elskar að skrifa í).

Núna erum við familían byrjuð á nýrri sparnaðaráætlun og tökum við fullorðnu nú líka nesti í skólann eins og Máninn okkar. En til að spara enn frekar (og gera nestið aðeins meira homee), þá er ég farin að baka öll okkar brauð og stend nú í brauðbakstri annaðhvert kvöld. Það er svosem ágætt, því brauðbakstur er að mestu bara bið og meðan ég bíð eftir að brauðið hefist eða bakist þá get ég nýtt tímann í smá lestur og lærdóm, enda fer brauðbakstur fram eftir að prinsarnir eru farnir í rúmið. Til að reyna að losna við aukakílóin, þá er ég líka að byrja í ræktinni hérna í skólanum (Unifittness) og er nú búin að skrá mig á byrjendatíma og svo á tíma með sérfræðing til að fara í gegnum mataræðið og tækin með mér. Búa til svona persónulegt prógram. Þessu get ég tekið þátt í sem fríðindi af því ég er að vinna hérna í háskólanum. Enda verð ég núna að vera dugleg að losna við aukakílóin, þar sem ég var beðin um að vera ökumaður í keppni í Þýskalandi í maí og bíllinn á að keyra eins langt og hægt er. Það er ekki hægt að láta vinningslíkurnar minnka með því að vera yfir í vigtinni :o) (engar áhyggjur mamma, ég má alveg við því að missa smá og svo er líka lágmarksþyngd á ökumönnum. Við megum víst ekki vera undir 52kg).


Jæja, nú er komið nóg af þvaðri í bili. Ég reyni að vera dugleg og segja ykkur fréttir helgarinnar þegar helgin er liðin :o)

Knús og kossar til allra frá okkur í Álaborginni

05 janúar 2009

Framundan á nýju ári

Góðan dag góðir hálsar og gleðilegt árið aftur.

Áramótin fóru afskaplega vel fram hérna hjá okkur í Álaborg. Við vorum svo heppin að fá mömmu og pabba í heimsókn yfir hátíðina og vorum við öll afskaplega dugleg við það að gera ekki neitt og njóta þess að vera saman. Afinn var saumaður fastur við spilastólinn og þar sat hann og spilaði ENDALAUST við Mánann sinn. Það var eiginlega alveg ótrúlegt að sjá hversu mikinn vilja hann hafði í að sitja með prinsinum okkar. Amman tók einnig í nokkur ludo spil með Mánanum og svo sá hún um að gefa litla matargatinu okkar að borða. Enda er Mummi litli afastrákur með matarást á ömmu sinni.

Jóhann hefur reyndar varað mestum tíma sínum yfir skólabókunum og var hann heima allan aðfangadag, allan jóladag og allan gamlársdag. Aðra daga hefur hann setið yfir lærdóm, enda er hann í fyrsta prófinu sínu núna í dag, öðru prófinu á föstudag og því síðasta þann 16. janúar.

Jólahátíðin hefur að mestu farið í matar og sælgætisát ásamt setu og spilasýki. Við (þ.e. ég og prinsarnir) höfum svoleiðis notið þess í botn að vera bara í fríi og slappa af. Amman og afinn voru kvödd á föstudag og voru það sex rauðsprungin augu sem héldu heim frá brautarstöðinni eftir að kveðja ömmu og afa. Máninn var nú fyrst með smá stæla við ömmu sína og afa, en það kom nú í ljós á heimleiðinni að þeir stælar voru hans viðbrögð við því að vilja ekki kveðja og að hann vildi helst hafa ömmu sína og afa áfram hérna í Álaborg. En við erum búin að sættast á það að þegar sumarið er komið þá fái hann að sjá afa sinn og ömmu, hvar í heiminum sem það nú verður.

Hið nýhafna ár er frekar mikið bókað hjá mér í verkefnum og ferðalögum. Ætlunin er að hefja árið með því að losna við allt sælgætið, rjómasósurnar og beikonið af maga, rassi og lærum. Í janúar er ég að fara á stofnfund á fyrstu alheims háspennukapalgrúppunni hjá CIGRÉ. Í þessari grúppu eru ca. 20 manns allsstaðar að úr heiminum, allir með sérþekkingu í "transient" reikningum og háspennuköplum.
Stofnfundurinn verður haldinn í Danmörku og varir í 2 daga, svo ég þar eingöngu að ferðast suður til Fredericia til að komast á þennan fund.

Næsta ferðalag er svo áætlað í febrúar, en á afmælisdaginn minn held ég til Gautaborgar þar sem ég mun dvelja þar til þann 18. febrúar og sækja kúrs í "practical problems regarding high voltage cables". Takmarkið er að reyna að hitta nokkra ættingja og vini á meðan á þessari stuttu dvöl minni stendur.

Í maí er svo ferðinni heitið til Þýskalands þar sem ég hef verið beðin um að gerast ökuþór með meiru og mun taka þátt í keppni þar í landi og keyra heimagerðan bíl. Keppnin felst í því að keyra eins langt og hægt er á orku sem samsvarar því sem fæst úr 1 L af bensíni, en notast við annarskonar orkulind, svo sem rafmagn. Nokkrir aðilar hér í Álaborgarháskóla hafa sett saman bíl fyrir þessa keppni og fer ég með þeim niður til Þýskalands sem ökukappinn mikli :o)

Þegar júní loks rennur upp, mun ég hefja sumarið í Kyoto í Japan, þar sem ég er að fara á ráðstefnu hjá IPST (International Conference on Power System Transients). Ég á eina grein á þessari ráðstefnu, svo planið er að halda einn stuttan fyrirlestur og svara nokkrum spurningnum. Vonandi næ ég svo í örstutta skoðunarferð um nánasta nágrenni.

Síðar í júní er svo ferðinni heitið til Kanada og er planið að dveljast um hríð í Vancouver í vinnuheimsókn. Ég ætla að vera í 2 og 1/2 mánuð í Kanada og vinna við University of British Columbia. Maðurinn minn og drengirnir mínir munu halda mér félagsskap í þessari ferð, enda er ég komin með alveg nóg af ferðalögum þar sem ég þarf að eyða kvöldunum alein inni á hótelherbergi.

Í júlí mun ég ferðast aðeins innan Kanada og fara á IEEE PES (Power & Energy society) General Meeting sem haldin er 26-30 júlí í Calgary í Kanada.

Næsta haust, annaðhvort í september eða október er svo áætlaður annar fundur CIGRE kapalvinnuhópsins, en sá fundur verður haldinn einhversstaðar úti í hinum stóra heimi. Það er ekki endanlega búið að skipuleggja hvar og hvenær. Þetta verður ákveðið á fundinum nú í lok janúar.

Svo það má með sanni segja að árið 2009 verður mikið ferðaár og mun ég sjá ógrynni af flugvélasætum og ráðstefnuveggjum, en minna af hinum stóra heimi :o) Vonandi mun ég þó kynnast nýju og skemmtilegu fólki með sama áhugamál og sérsvið og ég.

Ég vona að ég muni eftir að skrifa inn einhverjar skemmtilegar fréttir af þessum ferðalögum og af öllum handaböndunum. Því ef einhver eru áramótaheitin þetta árið, þá er það að vera dugleg í ræktinni og mataræðinu og að vera DUGLEGRI að blogga.

Knús og kossar frá Álaborginni