26 maí 2008

Eurovision liðin.

Já það má með sanni segja að tíminn líður hratt á gervihnattaöld.
Nú er Maí senn á enda og enn skín sólin hérna hjá okkur í Danaveldi. Nú bíðum við bara eftir því að rigningarnar byrji, því Jóhann skilaði verkefninu sínu í morgun og ég er sjálf með árskvartal skil á morgun. Eins og flestir sem einhverntíman hafa setið á skólabekk vita, þá skín sólin alltaf í heiði á meðan allur tími fer í innanhússvinnu og lærdóm og svo um leið og skólastriti er lokið, þá tekur rigningin við.

Ég verð nú samt að segja að við erum vongóð um að fá einhverja sólarglætu þar sem spáin næstu daga er eftirfarandi:

Annars hefur nú aldeilis verið nóg að gera hjá okkur undanfarið, svona í félagslífinu líka. Jóhann ákvað að taka þátt í karnivali í fyrsta skipti og klæddi sig upp sem flughetja úr myndinni Top Gun. Hann var nú svo flottur, að það má með nærri segja að hann hafi verið jafnoki eins sem áður var á LISTANUM mínum (Friends aðdáendur, þið skiljið hvað ég á við), hans Tom Cruise. Þó það má með sanni segja að Jóhann standi leikaranum mörgum skrefum framar hvað varðar hæfileika og gáfur. Enda hefur sá hinn sami hrunið af listanum vegna einstaklega barnalegra yfirlýsinga og aðild að mjög svo lágkúrulegri hreyfingu að nafni Vísindakirkjan.
En hvað sem því öllu nú líður, þá var hann Jóhann minn alveg einstaklega flottur og er ég mjög glöð yfir að hann keypti búninginn sem nú er kyrfilega geymdur inni í skáp í hjónaherberginu ;o)

Laugardagskvöldið var sigurkvöld fyrir Íslendinga á svo marga vegu. Í fyrsta lagi, við komumst upp fyrir 20. sæti í Eurovision og í öðru lagi, við vorum líka ofar en 16. sæti. Þar fyrir utan þá enduðum við ofar heldur en bæði Danmörk, Svíþjóð og Finnland og er það vel af sér vikið. Hinsvegar verð ég að segja að ég hafi nú ekki verið neitt einstaklega hrifin af Rússneska laginu, en hvað veit ég óprúttinn svikari kostninganna sem notaði öll mín atkvæði í að kjósa íslenska lagið, og hefði gert það sama hvernig lagið sjálft væri. Svo ég held að með sjálfa mig og mína nánustu sem dæmi, það ætti að koma aftur með dómnefndir og hætta þessari símakostningu. .....En allavega, við héldum smá samkomu hérna heima hjá okkur sem hófst með léttu spjalli og grilli. Dóra kom yfir með Rafn Kristinn og svo komu sjónvarpslausu vinirnir okkar frá Fjellerad færandi hendi, hlaðin af hamborgurum og kjúkling. Svo það var aldeilis kátt á hjalla og eldri börnin (sem þó eru ekki nema 3 ára) fengu að vaka langt fram eftir og miklu lengur en þau sjálf gátu ;o)

Takk fyrir æðislegt kvöld, við verðum að endurtaka þetta aftur að ári.







18 maí 2008

Sumarið er tíminn...

...til að njóta sólarinnar, eyða tíma með vinum og njóta lífsins. En sumarið er einnig tíminn til að fara á ströndina og sleikja sólina í efnislitlum fatnaði og sýna sig og sjá aðra. Þar sem ég hlakka sjálf mikið til að flatmaga á ströndum Norður Jótlands, þá er víst líka kominn tími til að reyna að lagfæra formið þannig að maður passi í það minnsta í þau efnislitlu föt sem hugurinn girnist. Svo nú er bara allt komið á flug í bikiníátakinu :o)

Allavega þá er ég búin að fara og fjárfesta í rosa góðum línuskautum til að reyna að æfa dálítið MRL og fá örlítið kvennmannlegri vöxt. Ég verð að segja að nú er ég orðinn forfallinn fíkill þess að svífa um göturnar á 8 hjólum. Gerði reyndar enn betur í dag og sveif á 11 hjólum. 4 hjól undir hverjum fót og svo þrjú til viðbótar til að flytja drengina mína með á milli staða. Við Dóra ákváðum nefnilega að fara línandi í mömmó. En þar sem ég er svo rík að eiga tvö börn, varð ég að notast við hjólavagninn (sem er líka kerra). Ég verð að segja að það var alveg frábært að keyra hjólavagninn svona........þegar búið var að koma lofti í dekkin. Málið er nefnilega að vagninn hefur ekki verið notaður síðan fyrir bílakaup og voru því dekkin orðin algerlega flöt. Mér tókst ekki með mínum hangandi roast beef að koma lofti í dekkin með handpumpu að vopni. Svo ég gerði mér lítið fyrir og línaði með drengina á 2 loftlausum dekkjum og 1 pínulitlu alla leið heiman frá mér og í Sohngårdsholmsparken. Fyrir þá sem ekki þekkja vegalengdir, þá tók þetta 40 mínútur af erfiði og stanslausu átaki til að koma kerrunni áfram. Á bakaleiðinni voru dekkin svo full af lofti þar sem Ríkey darling kom til bjargar og lofaði mér að nota loftpumpuna sem fylgir skólagörðunum hjá henni. Svo á bakaleiðinni sveif ég á léttu skýi upp í móti :o)


Læt nokkrar myndir frá síðustu dögum fylgja með að gamni.

Mummi sæti að leika með bíl



Mummi og Rafn að leika í sólinni



Flottir bræður tilbúnir í línuferðalag



Þeim leið vel á meðan mamman puðaði loftlaust



Hetjurnar



Dóra duglega



Ég með risakerruna, loks með loft



Mummi var bara þreyttur á ferðalaginu



Máni var hress að gera listaverk við heimkomuna

07 maí 2008

Allt fór vel fram og ég hrasaði ekki :o)

Jæja þá er athöfnin búin.
Þetta var alveg frábærlega gaman og skemmtileg upplifun. Herlegheitin byrjuðu með klukkutíma fyrilestri frá þekktum prófesor hérna úti um hönnun og notkun á hraðal í krabbameinsmeðferðum. Þá er hraðallinn notaður til að hraða jónum sem svo er skotið á hið illkynja æxli. Með þessari aðferð er hægt að ná til muna betri árangri, bæði þannig að jónirnar ráðast mun minna á heilbrigða vefi en bæði lyfjameðferð og geilsun gerir og með mun meira afli á krabbameinið, svo það þarf færri meðferðarskipti en er í dag. Stærð hraðalsins er hinsvegar alveg gígantísk og kostnaðurinn við einn spítala með svona tæki er ca. 11 milljarðar danskra króna. Það er nú þegar búið að byggja 3 í Evrópu og 5 eru í byggingu og búið er að ljúka við 5 í USA og 5 eru í byggingu. Svo vonandi mun þessi nýja tækni ná yfirráðum á fleiri stöðum og bæta líf tugþúsunda manna.

Eftir þennan frábæra fyrirlestur kom að sjálfri afhendingunni þar sem þrjú verkefni voru verðlaunuð á þremur mismunandi sviðum og sagði formaðurinn að verðlaunin gerði ekki vinningshafana ríka en þeir fengju hinsvegar plagg svart á hvítu sem segði að það árið væru þeir bestir, frekar djúpt í árina tekið og ekki líkt því sem ég er vön. Ég fékk nú að vita síðar um kvöldið að það eru 10-15 verkefni í hverri grein rafmagnsins tilnefnd til verðlaunanna og svo valið úr þeim hverjir fá viðurkenninguna, svo við vorum að vonum ofsalega glöð með það.

Við afhendinguna héldum við fyrirlestur um okkar verkefni sem var ca. 15 mín að lengd til að reyna að kynna og útskýra hvað það var sem við höfðum unnið að. Svo var boðið upp á hvítvín, rauðvín, bjór, vatn og gos ásamt smá snarli þar sem allir viðstaddir fengu rætt saman og spjallað á léttu nótunum. Að því loknu var okkur verðlaunahöfunum ásamt einum fylgimanni boðið til þriggja rétta kvöldverðar ásamt helstu framamönnum Danmerkur í hinum ýmsu verkfræðigreinum og stjórnarmönnum rafmagnsdeildar verkfræðingafélagsins. Það var alveg meiriháttar þar sem mörg skemmtileg tengsl mynduðust og maður fékk möguleika á að spjalla við þekkta sérfræðinga og rökræða hin ýmsustu vandamál og lausnir við þá og gera nafnið sitt aðeins þekkt innan sviðsins.

Svo í dag hef ég verið að fá fréttir úr ýmsum áttum vegna birtingar í dönskum blöðum og á heimasíðum varðandi verðlaunin. Má nefna Nord Jyske, Ida og Jern og maskin industrien.

Svo ég get bara sagt að öll þessi athöfn var hin skemmtilegasta í alla staði og dagurinn góður. Ég verð líka að segja takk við mömmu og pabba sem sáu sér fært um að koma til að vera viðstödd, hættu við fyrirætlaða Spánarferð og eru nú búin að eyða brátt heilli fríviku með mér og drengjunum hérna í Köben og til tengdó sem flaug til okkar á þriðjudagsmorgni og aftur til Íslands á miðvikudegi, bara til að vera viðstödd afhendinguna, takk ég er ofsalega rík að eiga svona góða að.

Þó verð ég að bæta við og monta mig dálítið af mínum frábæru drengjum. Þeir voru báðir viðstaddir fyrilestra, ræðuhöld og afhendingu, 2 tíma í það heila, annar 3 og 1/2 árs gamall og hinn 10 mánaða, og báðir stóðu þeir sig eins og hetjur. Þeir sátu stilltir og rólegir og ekki heyrðist eitt hljóð alla tvo tímana og hlustuðu þeir og sýndu hversu vel upp aldir þeir eru :o)


Svo þennan dag var ég allra mest stollt af litlu drengjunum mínum tveimur, sólargeislunum.




Formaðurinn lengst til vinstri og svo verðlaunahafarnir

Við Per með plöggin okkar


Verið að útskýra hversvegna okkar verkefni var valið




Loks komin með plaggið í hendur

Fríður hópur við kvöldverðinn eftir athöfnina. Jóhann mætti að sjálfsögðu sem minn fylgisveinn, enda fáum við hjónin ekki mörg tækifæri til að fara út saman, þar sem foreldrar og fjölskylda eru nokkur þúsund kílómetra í burtu, svo ekki er hlaupið að pössun þegar á þarf

Verðlaunaplaggið

Textinn fyrir þá sem skilja dönsku :o)

Greinin í Nord Jyske