13 nóvember 2008

Dagur 6 í Noregi

Þá er dagur 6 upp runninn hérna norðurfrá.
Svo ég byrji nú á því að taka saman frá síðustu færslu, þá verð ég að segja að norskt julebrus á ekkert skylt með íslensku jólaöli og þá meina ég að það íslenska hefur algerlega vininginn. Svo dömur mínar og herrar, ég mæli ekki með norsku julebrus. En síðan síðast hef ég nú prófað tvær norskar vörur til viðbótar. Fyrir það fyrsta, þá spurði ég niðri í vinnu hvað væri það fyrsta sem þeim dytti í hug þegar verið væri að tala um NORSKA matvöru. Allavega þrír svöruðu: BRUN OST. svo ég fór að sjálfsögðu í búðina og keypti mér brun ost. Þetta er semsagt rjóma-mysings-ostur. Eins og mér skildist þá er brun ost talið algert lostæti og í vinnunni borða þeir heitar hráar vöfflur bara með brun ost sneið á. Osturinn lítur alveg eins út og venjulegur ostur, fyrir utan litinn.....sem er brúnn en ekki gulur. Ef einhver veit hvernig mysingur smakkast, þá er þetta mjög svipað, bara í hörðu formi (ekki svona smjörformi). En þar sem að ég hef aldrei verið mikið fyrir mysing, þá var ég alls ekki fyrir þennan brun ost (varð að drekka STÓRT glas af ávaxtasafa til að losna við bragðið). Hitt sem ég keypti smakkast hinsvegar MJÖG vel. Það var nefnilega þannig í búðinni í gær, að ég var að rölta um og sjá hvað er í boði hérna norðurfrá og haldiði þá ekki að ég hafi séð draumsýn í brauðhillunni.......þarna sá ég pakka með FLATKÖKUM. Ójá alveg eins og íslensku flatkökurnar okkar (mmmmmmummmm.....ég sakna þeirra). Þessar flatkökur nefnast Lomper og smakkast alveg ofsalega vel.

Í dag og undanfarna tvo daga hef ég tekið eftir mjög merkilegum þrifum. Eitthvað sem ég væri sko alveg til í að taka upp heima í garðinum mínum. Það hafa nefnilega verið 5 menn í fullu starfi alla dagana með blásara að ganga um umhverfið í kringum kirkjuna og blása saman laufblöðum í langa stróka á göngustígunum. Svo hafa verið 3 litlir bílar sem sópa þessum laufum saman og safna því svo saman upp í litla vörubíla sem taka laufið í burtu. Mjög flott athöfn og ótrúlega áhrifarík. Verð að fá mér svona blástursgræju til að safna laufunum í garðinum heima. Það gengur hræðilega illa með þessari ljótu laufhrífu sem tekur minnst af laufum og mest af grasi.

Annars er veturkonungur kominn hérna norðurfrá. Það er frost á hverri nóttu og hvern morgun og frostið verður meira með hverjum deginum sem líður. Seinni partinn í gær rigndi örlítið (í fyrsta skipti síðan ég kom) og svo fraus í nótt og í morgun. Svo þegar ég var á leiðinni í vinnuna í morgun átti ég í mestu erfiðleikum því það var alveg flughált. Hjólreiðafólkið er komið á nagladekk eins og bílarnir, svo það var ekki að sjá á umferðinni (hvorki hjóla né bíla) að það væri glersvell yfir götunum. Hinsvegar voru tásurnar mínar á góðri leið með að sameinast svellinu og frjósa saman. Ég er nefnilega vön að vera í ullasokkum og gönguskónum mínum þá sárafáu daga sem þess þarf í Danmörku. Svo ég hugsaði ekki einu sinni út í almennilegan skófatnað þegar ég fór og tók bara með mér þunnu strigaskóna mína. Svo nú hugsa ég að um helgina fari ég og fjárfesti í kuldaskóm, enda hef ég ekki átt þess háttar skó í áraraðir. Svo vonandi verða tærnar mínar ekki frosnar fastar í skósólana áður en ég kemst í skóbúð :o)

Annars gengur fínt hjá mér hérna í Þrándheimi. Vinnan skotgengur og er ég nú þegar komin mun lengra en ég hafði búist við. Er mögulega komin með lausn á því hvað er að líkaninu sem ég ætla að betrumbæta og byrjaði í dag að gera smá tilraunir og rannsóknir á kenningum mínum varðandi það. Hef fengið mjög góðar niðurstöður þar sem mæliniðurstöður mínar og hermanir passa ótrúlega vel saman, alveg upp að ákveðnum punkti sem er það sem ég var búin að sjá fyrir að væri vandamál (það sem ég ætla að einbeita mér að betrumbæta næstu 2 árin.) Hinsvegar er einmannaleikinn alveg farinn að segja til sín og er ég farin að sakna fjölskyldu og vina alveg ótrúlega mikið. Það er frekar óþægileg tilfinning að standa algerlega einn á báti þegar manni líður illa eða eitthvað er að hrjá mann. Þetta væri örugglega auðveldara ef ég hefði einhvern sem ég þekkti nálægt, en það er jú enginn hér nema ég, svo ef eitthvað er þá er eina leiðin til að létta á sér í gegnum síma við sína nánustu sem eru nokkur hundruðir kílómetra í burtu. Þetta gerir mig ótrúlega viðkvæma eitthvað og væmiltítulega. En sem betur fer á ég ofsalega góðann eiginmann og frábæra stráka sem reyna að létta mér einveruna með löngum internetsamtölum hvert einasta kvöld. Og svo er bara að reyna að hugsa jákvætt þegar eitthvað bjátar á. Þetta er jú alveg einstakt tækifæri sem býðst ekki aftur og þegar ég kem aftur heim á ég örugglega eftir að kunna enn betur að meta litlu fjölskylduna mína :o)
Svo ég ætla að reyna að vera bara glöð, hugsa jákvætt og láta allt annað lönd og leið. Enda óþarfi að láta áhyggjur heimsins eyðileggja fyrir sér þegar eitthvað gengur vel. Og svo eru bara 16 dagar þar til ég get knúsað börnin mín og manninn minn aftur :o)

Brosum í gegnum tárin og verum góð við hvert annað.
Álaborgarstellan segir yfir og út héðan frá Þrándheimi

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl!
Ég sendi þér mörg hugskeyti á dag og vona að einhver þeirra komist alla leið. Mér finnst líka frábært að þið getið borðað saman kvöldmatinn. Frábært að heyra og lesa að vinnan gengur svona vel. Bjóst heldur ekki við öðru þar sem kjarnorkukona er um að ræða. Hafðu það nú sem best, Sigrún úr rigningunni á Íslandi

Nafnlaus sagði...

Þú færð líka hugskeyti héðan úr sveitinni. Tíminn er ótrúlega fljótur að líða og fyrr en varir verður þú með þá alla þrjá að knúsa. Knús og meira knús frá Frúnni