16 nóvember 2008

Um Þrándheim.

Ég ákvað að gefa ykkur smá upplýsingar og innsýn inn í bæinn Þrándheim.

Þrándheimur er í syðri Þrændalögum. Áin Niður rennur um bæinn og þaðan dregur bærinn sitt gamla nafn: Niðarós. Niðarós var á sínum tíma fyrsti höfuðstaður Noregs og segir sagan að Ólafur Tryggvason hafi stofnað bæinn við endimörk Niðar (Nidelva) árið 997. Fornleifafræðingar hafa hinsvegar sýnt fram á að fólk hafi búið á þessu svæði mun fyrr en 997. Konungur Ólafur Haraldsson (Ólafur hinn helgi) var með hugmyndir um stærðarinnar kirkju sem reisa ætti í Niðarósi. Bygging kirkjunar hófst loks árið 1070 og heitir kirkjan Niðarós dómkirkja (sem ég hef sagt ykkur frá áður og gefið myndir af). Eins og flest ykkar líklega vita, þá dó Ólafur hinn helgi árið 1030 í mikilli baráttu og var gerður að dýrling einungis einu ári eftir að hann lést. Sagan segir að Altari kirkjunar standi beint yfir gröf hans. Árin 1153 til 1537 var Þrándheimur erkibiskupasetur fyrir Noreg, Ísland, Grænland, Færeyjar og Orkneyjar.

Í dag er Þrándheimur titlaður sem þriðji stærsti bær Noregs, með 166.708 íbúa (1. júlí 2008). Bærinn er þekktur sem skólabær með merkan háskóla, NTNU (stofnað sem NTH árið 1910), og eitt stærsta sjálfstæða rannsóknarfyrirtæki Evrópu, SINTEF. Einnig er í bænum einn stærsti rannsóknarspítali í heiminum, St. Olavs University Hospital. Þrátt fyrir að íbúar bæjarins séu um 166 þúsund, þá má segja að á veturna aukist íbúafjöldinn all verulega, en talið er að um sjötti hver íbúi sé nemandi. Skv. upplýsingum á heimasíðu Þrándheimar, þá er hægt að telja um 180þús. íbúa í bænum, séu allir nemendur meðtaldir. Því má segja að bærinn sé fullur af lífi áhugafólks um rannsóknir og vísindi.

Veðurspáin fyrir þessa aðra viku mína í Þrændalögum er eftirfarandi:
Sunnudagur: slydda 1°C
Mánudagur- miðvikudagur: rigning 2°C
Fimmtudagur: Sjókomma -1°C

Til að finna meira um Þrándheim bendi ég á heimasíðu bæjarins: http://www.trondheim.com/

Nú ætla ég að koma mér af stað upp í SINTEF og reyna að vinna svolítið það sem eftir er dagsins.

Yfir og út frá Niðarósi

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að fá að vita svona um þessa -borg-. Skemmtu þér vel við að læra á sunnudegi!

Þú ættir að hugsa með þér WWJD, eða What Would Jesus Do, áður en þú hugsar þér að fara að vinna á svona hvíldardegi kristinna manna. :D

Nafnlaus sagði...

Sæl elskan.
Fínn fróðleikur um Þrátheim, takk.
Yndislegt að heyra í þér og sjá þig á "skjánum" mínum í dag.
Ástarkveðjur til þín og strákanna þinna þriggja.
mamma og pabbi