19 nóvember 2008

Dvölin hálfnuð

Jæja þá er bara dvöl mín hérna í Þrændalögum rétt ríflega hálfnuð. Nú er ég búin að vera hér í 11 daga og fer heim að kyssa strákana mína (alla þrjá) eftir bara 10 daga.

Það er nú kominn meiri vetrarbragur yfir bæinn, þar sem allt er komið á kaf og búið að kveikja á hvítum ljósum í trjám miðbæjarins. Ég hef síðustu daga verið að missa tærnar, þar sem ég hef orðið rennblaut í fæturna á leiðinni í vinnuna á morgnana og svo setið með blautar fætur allan daginn. Svo ég tók mig nú til, hætti snemma í dag (fór af stað klukkan 16:00) og fór í skóbúð og keypti mér þessa rosa flottu fóðruðu vetrarskó. Svo nú er Jóhann búinn að gefa mér jólagjöfina mína (og hann hefur ekki einu sinni séð gjöfina) :o)

Annars hefur ýmislegt á daga mína drifið undanfarið. Á mánudag fékk ég gríðarlega merkilegar og skemmtilegar niðurstöður í því sem ég er að vinna við. Svo nú er ég byrjuð að sanka að efni í næstu grein (verður líklega journal eða IEEE transaction grein í þetta skiptið). Þessar niðurstöður voru þess efnis að ég er líklega búin að leysa hvað það er sem ég þarf að gera til að ljúka doktorsverkefninu mínu. Þó svo ég sé búin að bera kennsl á vandamálið (sem hefur tekið heilmikinn tíma) þá er enn langt í land, því ég þarf víst líka að leysa vandamálið sem ég mun nota næstu tæp 2 árin til. Svo nú hefur verkefnið mitt tekið fyrsta stóra kippinn sem bendir á lok þessa alls.
Á mánudagskvöldið kom svo einn frá Energinet.dk hingað til Trondheim og bauð mér og Bjørn Gustavsen út að borða á þvílíkt flottan veitingastað. Þetta var minn fyrsti viðskiptakvöldverður á ferlinum og samanstóð af 3 réttum, fordrykk, rauðvíni og bjór á pöbb eftir matinn. Í forrétt fengum við rjómalagaða villisveppasúpu, í aðalrétt fengum við léttsteikt hvalkjöt og í eftirrétt fékk ég þvílíka súkkulaðisælu með brómberjaís á meðan hinir fengu sér ostaveislu. Undir borðhaldinu ræddum við bæði um viðskiptaleg málefni og svo margt fleira til að efla tengslaböndin og kynnast fyrir viðskiptin. En á þriðjudag var minn fyrsti viðskiptalegi fundur, þar sem við vorum að ræða um mælingar og ýmislegt varðandi þær. Ástæðan er sú að við hjá Energinet.dk erum að hugsa um að kaupa mæliþjónustu fyrir nokkrar milljónir dkk hjá SINTEF :o)
Ég var nú fyrst hálf feimin á fundinum og þorði ekki mikið að segja þar sem ég var hálf hrædd við að segja einhverja vitleysu, en svo fóru karlarnir bara að spyrja mig tæknilegra spurninga og biðja mig um álit á hinu og þessu og það gekk alveg dæmalaust vel. Allavega voru allir mjög sáttir eftirá og nokkrar af mínum tillögum voru valdar og verður unnið áfram með þær. Svo ég er bara glöð með þennan fyrsta viðskiptafund minn.

Eitthvað hef ég nú verið að skoða umhverfið og fór meðal annars í gönguferð meðfram kanalnum sem rennur um miðbæinn og fór svo líka að skoða Niðarósar Dómkirkjuna að innan. Það mátti því miður ekki taka myndir innandyra, en ég held bara að ég hafi aldrei í lífinu séð jafn stóra og flotta kirkju. Ég hugsa að gólfflöturinn á Hallgrímskirkju kæmist svona 3-4 sinnum inn í þessa kirkju. Svo voru legsteinar hist og her inni í kirkjunni og stærsti minnisvarðinn að sjálfsögðu tileinkaður Ólafi hinum helga. Það var líka lítið borð í einu útskoti (þar sem allt var útskorið í steinvegginn og marmari á gólfinu) þar sem maður gat sest við kertaljós í friði og ró til að skrifa niður bæn á miða. Þetta fannst mér alveg rosalega sniðugt og greinilegt að margir nota þetta til að létta á hjarta sínu. Svo var risastór kapella (var byggð árið 1150) sem búið er að tileinka þeim sem létust í síðari heimsstyrjöldinni. Þar var mikið um fallega sálma tengt stríðinu og minnisvarðar. Svo var að sjálfsögðu fyrsta biblían á norskri tungu í glerkassa í einni kapellunni (hver kapella er líklega á stærð við Hafnarfjarðarkirkju). Í meginsal kirkjunnar má finna 2 altari. Ef þú kemur inn um aðalinganginn og gengur til hægri er því eins og ein risa kirkja með stóru altari og orgeli sem fær pípuorgelið í Hallgrímskirkju til að blikna í samanburði og svo til vinstri er önnur RISA kirkja með meginaltarinu, en það er ekki hægt að ganga upp að sjálfu altarinu, bara hringinn í kring (altarið stendur inni í steinilögðum sal, útskorinn með ýmsum fallegum myndum). Undir þessu aðal altari á gröf Ólafs hins helga að vera. Ég get eiginlega ekki skilið hvernig norsku "víkingarnir" voru með byggingar af þessu tagi, á meðan við bjuggum í torfbæjum (á sama tíma).


Dómkirkju-kastalinn



Útskorna hlið kirkjunnar

Takið eftir, allar þessar styttur eru ca. 180cm á hæð og eru skornar í steininn utaná kirkjunni
Ráðhúsið í Þrándheimi
Frímúrarahúsið í þrándheimi
Ólafur Tryggvason stendur hátt uppi á miðju Trondheim torginu. Á jörðu niðri er búið að búa til skautasvell.
Það byrjaði að snjóa að kvöldi til (tekið út um annann gluggann minn)
Allt komið á kaf í snjó, enn snjóar mikið
Búin að kaupa fóðruð kuldastígvél svo ég verð ekki framar blaut og köld í fæturna. Takk Jói :o)


Yfir og út að kvöldi 11 dags í Þrándheimi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Verði þér að góðu ástin mín. Þú færð nú samt líka pakka undir jólatréð, þótt hann verði kannski eins stór og hann hefði verið!

Nafnlaus sagði...

Jiii hvað snjómyndirnar eru huggulegar...finn bara hvað ég sakna þess að hafa ekki akkurat svona veður kringum jólin :þ.

Kv. Íris

Nafnlaus sagði...

Hæ Unna Stellan mín

Frábær frásögn hjá þér og skórnir eru voða flottir. Mikið er hann Jói minn góður við þig.

Þú skalt bara tala ófeimin og ákveðið við "business" kallasérfræðinga þína, þeir vita ekkert meira en þú. Svo er það líka í móðurættinni að stjórna, vertu ófeimin við, það fer þér vel.

ástarkveðjur

þinn pabbi