31 ágúst 2007

Góði samverjinn

Í gær vorum við Jóhann svo heppin að hitta góða samverjann hérna í Álaborg.

Við vorum svo ægilegir nördar að takast að týna töskunni minni í gær. Í töskunni var gemsinn minn, digital vídeókameran okkar og veskið mitt með öllum kortunum og meðal annars sygesikring kortinu mínu, hans Mána míns og hans Mumma. Svo við vorum að vonum miður okkar yfir þessu. En sem betur fer er nú enn til gott fólk í heiminum, því um það bil á sama tíma og við föttum að taskan er horfin hringir mamma í gemsann hans Jóa alveg miður sín um að eitthvað hafi komið fyrir.
Það var nefnilega svo sniðugt, að einstaklega úrræðagóður og heiðarlegur Dani hafði fundið töskuna mína og datt það snilldarráð í hug að fara í gegnum símanúmerabókina í gemsanum mínum. Að sjálfsögðu eru nánast öll nöfn á íslensku og erfitt fyrir einhvern Dana að finna hvað hann geti notað. En það var eitt orð sem hann þekkti. Ég hef nefnilega símann hjá henni móður minni vistaðan undir nafninu "mamma". Þó svo mamma sé ekki notað í dönsku, þá nota nágrannaþjóðir Dana þetta orð og sum ungabörn segja mamma á barnamáli áður en þeim hefur tekist að segja mor og far. Svo maðurinn hringdi í númerið merkt mamma og sagði við konuna sem svaraði að hann væri með veski dóttur hennar og hefði fundið það úti á götu í Danmörku. Mamma hélt nú fyrst að þetta væri einhver fábjáni og skellti á aumyngjans manngreyið (hún var úti í Bónus að versla þegar þetta gerðist) en fannst þetta svo eitthvað skrítið og fór að hafa áhyggjur af því að eitthvað hefði komið fyrir. Svo hún móðir mín tók nú upp símann og hringdi aftur í manninn og fékk að heyra aftur á dönsku, að maðurinn hefði fundið veski dóttur hennar úti á götu í Danmörku. Eftir smá samræður og útskýringar tókst þeim að skilja að ég hefði týnt töskunni minni og maðurinn hefði fundið hana og þekkt orðið mamma og ákveðið að hringja í það. Svo mamma fékk heimasímann hans og hringdi svo í gemsann hans Jóhanns til að láta okkur vita.

Þannig að bara hálftíma síðar var ég komin með veskið aftur í hendurnar og búin að hitta þennan indæla mann sem var svo góður að passa upp á veskið mitt og koma því í réttar hendur.

Svo mottó dagsins er: "Vertu góði samverjinn, skilaðu því sem þú finnur og notaðu heilann til að hringja í mömmu gömlu"

26 ágúst 2007

Garðvinna

Já þessa dagana er ekkert í fréttum nema vinna í nýja húsinu ;o)

Við vorum í garðinum í allan dag og með okkar frábæru grænu fingrum og töktum tókst okkur með einhverjum herkjum og ótrúlegri heppni að lagfæra garðinn aðeins. Við stefnum reyndar á mun meiri vinnu og ætlum hægt og bítandi að umbreyta garðinum. En dagurinn fór í að rífa upp nokkur tré með rótum, moka meðfram húsinu (þar ætlum við að setja svona litla gráa steina), hreinsa beð, setja niður snúrustaur, helluleggja, slá, raka og þrífa. Við nutum góðrar aðstoðar drengjanna okkar sem gerði verkið mun auðveldara og skemmtilegra ;o)

Annars erum við endanlega búin að ákveða íslandsför og skírn. Stefnt er á ferð heim um jólin og skírn á annan í jólum. Nú er bara að ná í prestinn okkar og sjá hvort hann geti lagt blessun sína yfir litla prinsinn þann dag.


Búið er að bjóða okkur hjónakornunum í danskt brúðkaup þann 3. nóvember næstkomandi og erum við búin að semja við Írisi um að líta eftir litla prinsinum og erum að vonast til að hún Bogga elskan okkar geti litið eftir þeim eldri, en hún er í mjög miklu uppáhaldi hjá honum og þá sérstaklega eftir að hún hringdi og bauð honum með sér í dýragarðinn um síðustu helgi. Það var algjör draumur og skemmtu þau sér konunglega. Allavega talar drengurinn enn um þessa ferð með henni Bonku sinni (eins og hann kallar hana).

Til að undirbúa bíóferð okkar í október og skemmtiferð í brúðkaup í nóvember leigði ég mér eitt stykki pumpu og núna sit ég öll kvöld í ruggustólnum tengd við rafmagnspumpu sem pumpar í takt við ruggið mitt ;o)


Jæja farin að horfa á imbann og tengja mig við mjaltavélina.

23 ágúst 2007

Komin tími á fréttir

Jæja nú erum við loksins flutt og erum langt komin með að koma okkur fyrir. Ég var víst allavega búin að lofa einhverjum fyrir/eftir myndum af herlegheitunum. Svo viðbúin, hérna koma örfáar myndir af afrekinu. Fleiri myndir er hægt að sjá inni á heimasíðu prinsanna.
Annars er lítið annað en vinna í fréttum. Ég eyði deginum í skrif og lestur og kvöldunum í heimilisstand. Jóhann var að ljúka efnafræðikúrsinum sínum í dag með glans og dúxaði með 10, svo nú er hann kominn í vikufrí þartil verkfræðin byrjar.
Njótið myndanna og hlakka til að fá ykkur í heimsókn hvert af öðru,
yfir og út


Eldhús fyrir

Eldhús eftir



Alrými fyrir

Alrými eftir


Stofa fyrir

Stofa eftir


Meiri stofa fyrir

Meiri stofa eftir

05 ágúst 2007

Framkvæmdir dag og nótt

Jæja, þessa dagana er brjálað að gera í framkvæmdum hjá okkur. Við erum búin að fá húsið okkar afhent og erum að vinna í að setja það í íbúðarhæft stand (að okkar mati). Jóhann er búinn að smíða eitt stykki grindverk (rosalega flott) og svo er hann byrjaður að sparsla og grunna veggi. Ég er búin að gróðursetja slatta af sumarblómum og er að vinna í að hreinsa garðinn og gera hann fínan. Svo erum við í heilmiklum baðherbergisframkvæmdum og er búið að henda út baðkarinu og grindinni undan því ásamt vaskinum og fleira drasli. Við keyptum okkur nýjan vask með skáp, tvö ný blöndunartæki og RISA sturtuhaus með tveimur strutubrúsum. Svo erum við að fara að ráðast í að taka gólfið þar inni í gegn. Það er búið að þrífa ljóta veggi og svo erum við búin að finna okkur nýja skápa í svefnherbergið, eldhúsið og á ganginn. Við ætlum síðan að opna eldhúsið aðeins betur og breyta. Svo það verður yfirdrifi nóg að gera hjá okkur næstu dagana í þessum breytingamálum ;o)

Lofa að setja inn fyrir/eftir myndir af herlegheitunum.
Bestu kveðjur frá framkvæmdaglaða fólkinu í Álaborg.