30 apríl 2008

sjúkdómur vs. ávani

Jæja það hlaut að koma að því.....
....ég gerðist úber-tera-vinnualki í dag.

Þannig er, eins og flestir vita, þá er ég að fara í frí.......langt frí. Ég byrjaði nefnilega klukkan 16 í dag og á frí fram á þriðjudaginn 13. maí kl. 0800. Það er nú alveg eðlilegt að fólk taki sér frí inn á milli og slappi aðeins af.....en NEI ekki vinnualkinn ég. Ég er nefnilega búin að vera alla þessa viku að naga mig í handabökin yfir því að vera að fara í frí. Í fyrsta lagi er ég þá að skilja alla nemendurna eftirtirlitslausa í rúma viku bara mánuði fyrir skil og í öðru lagi er ég að yfirgefa verkefnið mitt í rúma viku.......djísús hvað ég er ekki að meika það. Anyhow, þetta var orðið svo slæmt að ég gat ekki setið róleg á stól og ekki sofið á nóttunni, svo það endaði með því að ég fór í dag og tryggði mér gsm-nettengingu (svona usb tengingu) svo ég geti komist á póstinn minn og helstu heimasíðurnar í fríinu (aðallega samt póstinn svo ég geti hjálpað krökkunum og unnið með viðhaldið mitt, strengjaverkefnið). Svo nú get ég andað rólegar því ég verð ekki tilneydd til að taka frí :o)

Ég vil samt hallast á það að þetta sé meðfæddur sjúkdómur og ekki bara ávani, þetta með að vera forfallinn vinnualki, því þetta tengist algerlega perfectionistanum í mér sem er alltaf til staðar þegar kemur að vinnu og lærdóm. T.d. er ég núna að leiðrétta eina ritgerðina mína í fjórða skiptið af því ég er alltaf að fá smá bakþanka og finna smá til viðbótar sem gæti hjálpað mér. En hinsvegar verður þetta dálítill vítahringur, því perfectionistinn og vinnualkinn í mér lifir á adrenalíni sem heitir velgengni og meðan ég stend mig að því að vinna myrkranna á milli og endurskoða allt sem ég geri, þá hefur það oftast endað með góðri einkunn eða viðurkenningu sem svo leiðir til þess að ég vil leggja ennþá harðar að mér til að standa undir mínum eigin ofurvæntingum sem svo leiðir til góðrar einkunnar eða viðurkenningar sem svo leiðir af sér enn meiri vinnu ...... og svo framvegis, þið skiljið hvað ég meina.
Svo líklega er þetta vítahringur sem alltaf verður verri og verri því með hverju jákvæðu skrefi set ég mér enn hærri væntingar.....jesús hvernig verður þetta orðið eftir örfá ár?
Eitt gott dæmi, Íris vinkona var að spjalla við mig núna fyrir fáeinum dögum um hvernig þetta gengi hjá mér og það opnaði aðeins augun á mér fyrir þessum ofurvæntingum og keyrslu hjá mér. Því eins og hún réttilega vissi náði ég rosa góðum árangri um daginn og vann mér inn fullt af tíma og gerði mun meira heldur en hafði verið búist við af mér. Svo hún spurði hvort þetta væri þá ekki bara rólegt hjá mér núna og ég gæti aðeins slakað á í vinnunni......en einhvernvegin vissi ég hvað hún var að tala um en vissi líka að það hefur ekkert slaknað á í vinnunni hjá mér og þá fór ég að velta því fyrir mér hvað hefði gerst. Og viti menn.....ég fór að rifja upp að ég hafði daginn eftir þennan góða árangur sest niður með sjálfri mér og búið mér til nýja tímatöflu og ný markmið til að klára fyrir lok maí, sem að sjálfsögðu eru enn meiri og enn hærri en það sem ég veit að ég á að vera búin með. En þetta orsakast líklega allt af mottóinu sem ég hef sett mér:

vertu alltaf komin einu skrefi á undan og mættu alltaf með meiri vitneskju/verkefni en þú átt að gera.

Þetta hefur að sjálfsögðu virkað mjög vel í náminu hingað til, en hversu háður svona mottói ætli maður verði. Kemst maður einhverntíman út úr vítahring fullkomleikans og samkeppninni við sjálfann sig?

Allavega, að þessum hugrenningum loknum ætla ég að kveðja í bili og líta í verkefnið mitt, þar sem morgundagurinn (frídagurinn) fer í að setja saman framsögn fyrir verðlaunaafhendinguna á þriðjudaginn.

28 apríl 2008

Er ekki kominn tími til að blogga

Þið verðið að fyrirgefa, en hérna hefur ekki verið bloggvænt veður undanfarið. Það er að segja, það hefur verið yfir 20 stiga hiti og sól sem þýðir útivera, útivera og meiri útivera (svona þegar maður er ekki í skólanum). Þar af leiðandi, hef ég ekki nennt að leggjast í tölvuna til að setja fréttir niður á netið :o)

Fyrst af öllu langar mig til að þakka fyrir allar kveðjurnar við síðasta bloggi. Það er rosalega gaman að sjá að einhver nennir að fylgjast með þessu þvaðri í mér hérna á veraldarvefnum ;o)

Svo langar mig til að pirra mig aðeins, svona afþví ykkur finnst svo gaman að lesa pirringinn í mér ;o)

Ég var nefnilega, eins og margir aðrir, tilbúin með tölvuskjáinn á matarborðinu hjá mér í kaffinu í gær og beið spennt eftir að bein útsending frá hæsta tindi Íslands hefðist á siminn.is. Anyhow, útsendingin hófst sem til stóð á hádegi og var þetta allt saman gert af hálfu símans til að kynna 3G kerfið á Íslandi, en starfsmenn símans tóku sig til og fóru upp á Hvannadalshnjúk með 3G símann sinn og ætluðu að senda myndir beint þaðan. Þetta fannst mér alveg stórsniðug hugmynd, að auglýsa 3G með þessum hætti og lofa þeim sem ekki hafa tök á (fallega sagt "nenna ekki") að keyra/kljúfa tindinn að sjá útsýnið og veðrið þarna uppi. Af myndunum að dæma þá hefði veðrið ekki getað verið betra, logn, frost og glampandi sól. En það sem mig langar hinsvegar til að pirra mig yfir, er að þeir duglegu starfsmenn símans, sem fóru upp á topp, voru svo ofsalega ánægðir með sjálfa sig að maður fékk ekki tækifæri á að sjá neitt nema þá sjálfa. Hversvegna ekki að auglýsa tæknina (eins og ég beið spennt eftir) með því að sýna okkur stórfenglegt útsýni og umhverfið þarna uppi frá, í stað þess að lofa okkur að horfa bara á þetta fólk þarna hoppandi og hlæjandi og öskrandi yfir því hvað þeir voru duglegir. Við getum alltaf séð þetta fólk niðri í bæ og í Reykjavík. En hinsvegar gætu þeir notað 3G til að sýna okkur eitthvað sem við getum ekki alltaf séð, Hvannadalshnjúk og umhverfið. Þá hefði verið hægt að auglýsa 3G sem tæknina sem færir okkur eitthvað sem við myndum annars ekki hafa tök á að sjá. Í stað þess að 3G færir okkur fólkið sem við getum alveg séð þó allir séu með venjulega farsíma...og hananú !!!!!! :o)


Smá myndir frá undanförnum dögum og kúnum að fljúga (fórum á síðustu helgi með Fríðu og co. að sjá kúnum hleypt út eftir veturinn).



16 apríl 2008

Loksins vann ég eitthvað :o)

Jæja haldiði ekki að mín sé bara á leið til Kaupmannahafnar í byrjun næsta mánaðar. Já ég ætla að skella mér í höfuðstaðinn til að sjá aðra og láta sjá mig. Annars er ég boðin til Kóngsins Köben til að mæta við einhverja rosa athöfn þar sem fólk vill endilega gefa mér peninga :o)

Hljómar furðulega en þetta er nú bara vegna þess að ég og Per félagi minn vorum tilnefnd til einhverra verðlauna fyrir mastersverkefnið okkar og vorum við að fá þær fréttir að við höfum verið valin til viðurkenningar fyrir velunnin störf. Eða eins og Danirnir orða þetta:

Kære Unnur Stella Gudmundsdottir
Det er mig en glæde at fortælle, at du, sammen med Per Balle Holst, er valgt som modtager af Kandidatprisen 2008, for Jeres afgangsprojekt "Tilstandsestimering på det Vestdanske 400 kV transmissionsnet".
Prisen er på 10.000 DKK sammenlagt, 5.000 kr til hver af Jer.

Svo þessvegna er ég á leiðinni til Kaupmannahafnar 6. maí til að vera viðstödd athöfn og svo kvöldverð ásamt nánustu fjölskyldu í boði IDA og ætli maður geri sér ekki bara líka glaðan dag og reyni að skoða sig aðeins um og njóta nokkurra daga í höfuðborginni, kemur í ljós. Annars er mér boðið ásamt nánustu fjölskyldu, svo aldrei að vita nema einhver sjái sér fært að hitta okkur í Köben?

Jæja langaði bara að láta ykkur vita.
Er farin að læra og læra og læra og læra

04 apríl 2008

Heimsókn í höll

Góðan daginn góðir hálsar.

Jæja best að reyna að koma með nýjan pistil um það sem hefur á daga mína drifið.
En eins og venjulega þá hefur verið alveg nóg að gera undanfarið.

Síðustu helgi fór ég í fyrsta skipti frá litla örverpinu mínu yfir nótt. Ég skrapp nefnilega í vinnu/skemmtiferð í kastalann Dronninglund Slot sem er hérna dálítið fyrir norðan Álaborg. Þetta var nú þannig að í janúar var sett á fót nýsköpunarkeppni. Fyrsta skref þá var að sækja um sem hópur (minnst 4 í hóp) þar sem þurfti að gefa upp meðmæli og hvernig nám og vinna hefur gengið undanfarin ár. Þetta gátu masters og doktorsnemar hvar sem er í Danmörku og í hvaða námi sem er sótt um, en þó var sagt að verkefnin miðuðust við stjórnun og stýringu stórfyrirtækja. Ævintýraþráin hérna á göngunum gerði vart við sig og ég, Uffe, Mihai og Loredana ákváðum að prófa að sækja um, þó við séum öll LANGT FRÁ viðskipta/stjórnunar/stýringar námi og kunnum afar lítið á því sviði. En til að gera langa sögu stutta, þá vorum við svo heppin ásamt 36 öðrum að vera valin úr 150 manna hóp til að fá að taka þátt í nýsköpunarkeppninni sjálfri, sem svo var haldin síðustu helgi í Dronninglund Slot.

Anyhow.....á fimmtudaginn síðasta fengum við verkefnið okkar og áttum við að vinna að verkefni fyrir Lego varðandi supply chain. Þeir þurfa að lagfæra supply chain hjá sér, því Lego er fyrirtæki sem selur 80% af varningnum yfir einungis 100 daga (síðustu 100 dagana fyrir jól). Þeir hanna, framleiða og pakka næstum allt sjálfir en eru þó með samning við eitt "supply" fyrirtæki sem sér um ísteypun og pökkun á nokkrum tegundum legokubba. Það sem Lego þarf samt að geta gert, er að geta séð fyrir strax í febrúar hvaða bíómyndir og fígúrur verða vinsælastar í desember, meira en hálfu ári síðar, til að geta framleitt allt saman í tíma fyrir jól. Þar sem þetta er ofsalega erfitt (allir sem eiga börn vita hversu fljótt áhugasvið barna breytist) vildu þeir geta lagað supply chain hjá sér, svo þeir þurfi ekki að hefja framleiðslu jafn snemma en geti framleitt meira magn á styttri tíma.

Á föstudagsmorguninn fórum við svo með rútu sem leið lá norður úr og vorum komin í Dronninglund Slot rétt um klukkutíma síðar. Við fengum öll svítur til afnota (enda vissu þeir hversu lítið yrði um svefn svo herbergin voru nú ekki mikið notuð). Fyrir utan frítt ferðalag, frí rosa flott herbergi fengum við líka frítt fæði sem samanstóð af morgunverðarhlaðborði, hádegisverðarhlaðborði, miðdegiskaffi með kökum, 3 rétta kvöldverð með gosi, hvítvíni og rauðvíni, kvöldkaffi og nætursnakki (nammi). Það voru haldnir margir skemmtilegir fyrirlestrar á vegum fólks í hinum ýmsu geirum. Þó voru flestir að kenna okkur að tala og ná áhuga fólks, því í enda helgarinnar áttum við að SELJA hugmyndina okkar með poster framsögn.

Allavega helgin gekk flott og við unnum myrkranna á milli (sem og allir aðrir keppendur). Okkur tókst nú ekki að vinna, enda voru sigurvegararnir útlærðir innan sviðsins og voru með ofsalega góðar supply chain hugmyndir fyrir sín fyrirtæki (Grundfoss, Bang & Olufsen, Velux). Við hinsvegar komumst ekki alveg úr verkfræðigírnum og einblíndum ekki bara á markaðsvandamálið, heldur komum með tillögu að nýrri "uppfærðri" tegund á legokubbum. Fyrirtækið sjálft var alveg brjálað í þessa hugmynd okkar (sem ég ætla ekki að útlista hér á hinum opna veraldarvef), þar sem Lego verður 50 ára á þessu ári og einkaleyfið er því á enda runnið. Þar sem í lok árs eða byrjun næsta allir verða farnir að framleiða legokubba eins og við þekkjum þá í dag, þá komum við með lausn sem Lego gæti vonandi nýtt sér sem "nýja" tæknihönnun til að halda yfirburðum, án þess þó að skemma útlitið á kubbunum (þ.e. nýju kubbarnir eiga að passa saman við þá gömlu, eins og alltaf hefur verið).

En sumsé þetta var alveg frábær helgi, þó það verði að viðurkennast að ég var ANSI þreytt þegar heim kom (enda var unnið til 3/4 á nóttunni og vaknað 6:30 til að byrja aftur). Drengirnir mínir stóðu sig vel einir hjá pabba og var brjóstanna minna ekkert saknað :o( Þó sá stutti var ansi glaður að fá mömmu og mjólkurbrjóstin aftur heim.

Fleira að frétta:
1 - Nei ég er ekki hætt í PhD námi (þetta var bara aprílgabb og ég náði að láta ANSI marga hlaupa apríl).
2 - Haldinn var mikill matar og skvaldurklúbbur í gær þegar saumaklúbburinn minn hittist heima hjá mér í alltof marga heita rétti, alltof margar kökur og alltof mikið nammi.
3 - Von er á góðum gesti síðar í dag, þegar hún Sæunn Sunna "litla" frænka kemur til að eyða nokkrum dögum með okkur. Mikil tilhlökkun þar og skipulag um hvað eigi að gera með þeirri ungu tilvonandi móður.


Dronninglund Slot

Eitt herbergjanna

Hópurinn og verkefnið

Kofi úr nágrenni hallarinnar

Lækur úr nágrenni hallarinnar

Hallarkirkjan