30 apríl 2006

Bæjarráp í sumarsól

Það er búið að vera geggjað veður undanfarið. Fór svo að kólna í dag og var eiginlega bara skítkalt (ekki nema 10 stig). Við erum búin að taka garðinn í gegn (eigum bara eftir að slá) og komin með blóm í körfur utaná húsið að framan og í krukkur bæði að framan og á bakvið svo þetta er allt að verða alveg ægilega fínt. Gunnar Máni fær sandkassa á morgun svo hann verður með rólu, rennibraut og sandkassa í garðinum. Ætlum reyndar líka að kaupa busllaug fyrir hann og erum búin að kaupa svona bolta eins og eru í boltalandinu í Ikea. Þeir eru reyndar tímabundið núna í "fangelsinu" hans í stofunni en eiga að fara í uppblásnu busllaugina þegar hún kemur.

Við skruppum í bæinn í gær og fórum á alveg æðislega skemmtilegan útimarkað á Danmarksgade. Þar voru þeir að selja grænmeti og ávexti, fullt af blómum og svo var líka svona pínu ponsu flóamarkaður. Það er svo gaman að fara í bæinn og rölta og skoða þegar veðrið er svona gott. Enda nutum við þess út í ystu æsar og borðuðum utandyra á veitingastað og fengum okkur sitthvorn öllarann með (alveg nauðsynlegt að fá sér einn svoleiðis eða hvítvínsglas í svona sól og hita). Við vorum líka alveg ægilega dugleg að vera í bænum eiginlega allan daginn og versla bara nánast ekki neitt. Og Jóhann var enn duglegri á föstudaginn því þá fór hann með Jesper vini sínum alla leið til Árósa í Ikea þar sem Jesper verslaði heilt hús af húsgögnum og smádóti, en hann sjálfur keypti bara ekki nokkurn skapaðan hlut, enda vantar okkur svo sem ekkert.....
.....nema UPPÞVOTTAVÉL. Vá hvað okkur langar í uppþvottavél. Við höfum alltaf átt heima á Íslandi en ösnuðumst svo til að skilja hana eftir og þetta er bara ekki alveg að gera sig. Ég held ég viti bara ekkert leiðinlegra en að standa og vaska upp. Ef einhver á alveg fullt af peningum sem hann þarf að losna við þá væri uppþvottavél rosalega vel þegin :o) Við tökum svosem alveg líka bara við uppþvottavélinni sjálfri, þarf ekkert endilega að vera í formi peninga ;o)

Jæja nú eru ekki nema 30 dagar í skil svo best að koma sér að verki og reyna að hrista eitthvað sniðugt fram úr erminni.

24 apríl 2006

Síðbúin páskakveðja

Gleðilega páska, gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn og allt það :o)

Ég veit ég veit, aðeins of sein með þetta. Það er bara búið að vera brjálað að gera hjá okkur á Næssundvej síðustu vikur. Mamma og pabbi komu í heimsókn og við þvældumst ÚT UM ALLT. Fórum meira að segja til Svíþjóðar. Svo var ég í prófi sem gekk vel og það var nú nóg að gera í lestri fyrir það.

En jæja, þetta byrjaði semsagt á því að mamma og pabbi komu á föstudaginn langa. Á laugardeginum fórum við í VERSLUNARLEIÐANGUR með stórum stöfum. Keyptum held ég alla Bilka. Byrjuðum á að rölta með þau um miðbæinn og sýna þeim Álaborgarhöllina og allar litlu göturnar niðri í bæ og að sjálfsögðu búðirnar líka. Það var ofsalega gaman að rölta þetta því það var líka svo gott veður, enda er sumarið komið hérna í Álaborginni. Svo fórum við í Bilka og keyptum allt sem okkur vantaði og meira til.

Á páskadag röltil ég með þau um skólasvæðið og þar sem svæðið er ágætlega stórt tók það litla 3 klukkutíma. Síðan í eftirmiðdaginn fórum við í ísbíltúr til Blokkhus. Fundum húsið sem við leigðum á ströndinni þar þegar ég var bara 2 ára gömul og keyptum okkur danskan ís og komum við á útsölu í þessari þvílíkit sætu litlu búð. Ég keypti rosa flottan kertastjaka fyrir 1 stórt kerti og sand og fleira með og mamma keypti sér risa stóran standkertastjaka með kristöllum og öllu.

Á annan í páskum voru þau heima í afslappelsi og ég fór í skólann í próflestur. Á þriðjudeginum fór ég svo í próf á meðan þau skruppu í bíltúr norður til Frederikshavn. Miðvikudeginum eyddum við í Árósum, röltum um bæinn og skoðuðum hús og í búðir. Miðbær Árósa er geggjað flottur. Hann er tvískiptur, gamli bærinn sem er rosalega kósí og flottur og svo nýji bærinn sem er byggður upp nákvæmlega eins og Strikið í Köben, gatan heitir meira að segja Strøget.

Á fimmtudaginn fórum við í svoldið ferðalag saman. Keyrðum í rétt tæplega klukkutíma norður í Frederikshavn og tókum hraðferjuna þaðan til Gautaborgar í Svíþjóð (tók c.a. 2 tíma). Fórum í mat til Sigurgeirs bróður hans pabba og Siggu konunnar hans. Það var ofsalega gaman og við fengum líka að hitta Isak, Elias og Elinu sem er barnabörnin þeirra (Börnin hennar Hlífar fyrir þá sem hana þekkja) og Gunnar Máni lék sér aðeins við þau. Svo kíktum við í stutt stopp heim til Rönku sykstur hans pabba og Johans mannsins hennar. Fyrir þá sem þau þekkja þá eru þau búin að taka íbúðina sína þvílíkt flott í gegn og breyta miklu og bæta. Natali og Filip voru því miður ekki heima en ég fékk að skoða myndir af litla prinsinum hans Filips sem á að skíra 7. maí næstkomandi.

Jæja þetta var sumsé smá samantekt af vikuheimsókninni frá mömmu og pabba. En þetta eru nú samt ekki allar fréttirnar. Því Íris og Björgvin eru búin að fá staðfest að þau fá húsið og munu því í sumar verða okkar næstu nágrannar og flytja í 8 skrefa fjarlægð frá okkur. Svo byrjaði litli apinn minn að príla uppúr rúminu sínu á föstudagskvöldið og slapp með naumindum frá alvarlegum áverkum þar sem mér tókst að grípa hann í fallinu. Svo við litla fjölskyldan eyddum sunnudeginum í að finna nýtt barnarúm fyrir hann (af junior stærð) og tókum því strætó út í Bilka og röltum þar um allar húsgagnaverslanirnar og lölluðum okkur áfram og yfir í næsta bæ sem heitir Svenstrup. Fundum þar nýtt rúm í Baby Sam, ekki amalegt það.

Jæja nú er ég víst búin að láta gamminn geysa of mikið svo ég ætla að lofa ykkur að fá smá frí frá lestrinum. Annars er aðeins farið að skírast hvenær við komum til Íslands og verður það líklega 28-30 júní og 7. eða 9. til 17. júlí. Í millitíðinni ætlum við að skella okkur til Grænlands.
Læt fylgja með eina mynd af okkur Gunnari Mána á ströndinni í Blokkhus

10 apríl 2006

Prófastúss og íbúðarval

Nú er enn ein helgin liðin,
það er alveg ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Mér finnst bara næstum alltaf vera helgi.
Það er nú svosem ekki mikið búið að gerast hér á bæ síðustu daga. Ég fékk reyndar dekurkvöld á laugardagskvöldið. Jóhann nefnilega tók sig til og grillaði svínalund og grænmeti og bjó til sveppasósu og kartöflur og ég veit ekki hvað. Svo bakaði hann líka litlu syndina ljúfu sem eru svona litlar súkkulaðikökur sem eru fljótandi að innan og hann grillaði með því appelsíur og plómur. Alveg ægilega gott alltsaman og jafn óhollt :o) Litli guttinn fékk ekkert nema kjötbollur (sem hann reyndar elskar) og var svo sendur í rúmið þannig að foreldrarnir sátu einir að kræsingunum við kertaljós og hvítvínsglas.

Annars er ég bara búin að vera að læra á fullu. Er að fara í próf þriðjudaginn eftir páska og það verður ekki mikið lært um páskana þar sem mamma og pabbi eru að koma á föstudaginn og verða í viku. Það verður alveg geggjað að fá þau í heimsókn, hlakka óendanlega mikið til.

Gerðist reyndar eitt alveg meiriháttar skemmtilegt á fimmtudaginn. Íris og Björgvin fengu fyrsta íbúðartilboðið frá Himmerland hérna úti, og viti menn haldiði ekki að þau hafi fengið tilboð í húsið bara beint á móti okkur. Ekki amalegt það, ef það gengur upp þá geta þau alltaf fylgst með því hvort við séum að elda eitthvað spennó og droppað "óvart" í heimsókn á kvöldmatartíma ef þeim líkar vel við það sem er á boðstólnum ;o) Við eigum reyndar eftir að tékka á húsinu (sem er endaraðhús eins og okkar, bara á 3 hæðum og nokkrum fm stærra). Er búin að hringja í kallinn og fer vonandi bara á eftir að líta á þetta fyrir þau.

Jæja nú er víst að koma kvöldmatartími svo það er best að drífa sig í eldamennskuna og halda síðan áfram lestrinum í "optimal control".

02 apríl 2006

Galakvöld og matarboð

Jæja það er nú búið að vera nóg að gera hjá okkur þessa helgina.
Á föstudagskvöldið vorum við bara heima í góðum fíling og nutum þess að vera öll þrjú saman. Á laugardaginn fórum við í bæinn til að fá dagslinsur fyrir mig og láta mæla í mér sjónina sem að sjálfsögðu er búin að versna enn meira og er mjög líklegt að aukning hausverkja stafi af því að gleraugun eru ekki nógu sterk. Á laugardagskvöldið fór ég á galakvöld með Áladívunum sem var alveg geggjað fjör.

Allavega á laugardagskvöldið var farið á kastalann Store Restrup Herregaard og borðað. Fyrst var farið í vínkjallarann í vínsmökkun og svo upp í sal sem við vorum með og borðað. Allar stelpurnar voru að sjálfsögðu þvílíkt flottar og í rosa góðu skapi. Eftir matinn og heilmikið spjall var haldið í Götuna og tjúttað aðeins og trallað á Hr. Nielsen.

Í dag var svo rosalega hlýtt og gott að ég kíkti í garðinn í morgun og skellti mér síðan með henni Öldu í Jysk til að undirbúa sumarið. Keypti eitt stykki grill og svo rúm fyrir mömmu og pabba sem eru að koma í heimsókn eftir tæpar 2 vikur. Þetta er svona uppblásanlegt gestarúm, ógó sniðugt. Allavega síðan komu Alda og Ingó í kvöldmat með hana Brynju Láru sína og við vígðum nýja fína grillið sem virkaði líka svona rosalega vel.

Á morgun byrjar svo stritið að nýju, enda er ég að deyja úr spenning það er svo gaman í skólanum núna. Ég og Per erum að berjast við að búa til lausn á vandamáli sem ekki hefur verið prófað fyrr nema með ákv. annmörkum og ætlum okkur að finna út úr því svo við verðum með eitthvað alveg glænýtt. Allavega ef einhver hefur áhuga þá ætla ég að skella ritgerðinni upp á heimasíðuna mína á morgun, það vantar að sjálfsögðu helling í hana þar sem við eigum ekki að skila fyrr en undir lok maí, en það bætist alltaf við.

Jæja best að koma sér í sófann fyrir framan imbann og slappa pínu af. Það fylgja með nokkrar myndir frá Galakvöldinu.


Vínsmökkunin hafin.



Forréturinn mættur á borðið



Selma og Alda.



Olga og Elva í góðum gír