26 september 2008

Fréttir frá Álaborg

Það má með sanni segja að haustið sé komið hjá okkur á nóttunni og morgnana. Dagarnir eru enn mjög fínir með sól og 15-20 gráða hita, en nóttin og morgnarnir eru farin að vera dálítið köld. T.d. var ekki nema 3 gráðu hiti í fyrrinótt. Svo við erum búin að taka fram hluta af vetrarfötunum og öll kertin að sjálfsögðu. Mér finnst það reyndar alltaf svo kósí og skemmtilegur tími, kertatíminn. Það er svo gaman að hafa kertaljós um allt hús og sitja og slappa af (eða sauma/vinna/læra og slappa af).

Drengirnir okkar eru alltaf samir við sig, algjörir prinsar og hjartaknúsarar. Máninn minn er farinn að telja upp að 30 bæði á íslensku og dönsku. Hann kann líka stafrófssönginn á íslensku og syngur hann stoltur alltaf þegar hann er að leika sér. Ég frétti það líka í leikskólanum að hann hafi tekið sig til og sungið íslenska stafrófið (nýja sönginn með a, á, b, d, ð og s.frv.) fyrir flestar fóstrurnar, að sjálfsögðu við mikinn fögnuð og hrifningu :o)
Hann er bara með óendanlega mikinn áhuga bæði á spilum og svo stöfunum. Við erum með svona langar stangir með seglum á ísskápnum og hann er alltaf að búa til hina og þessa stafi þar og svo kallar hann stoltur…….mamma koddu sjáðu ég var að búa til A eða T eða hvað það nú er. Uppáhaldsspilið hans í augnablikinu er minnisspil, enda er hann snillingur í því. Við eigum tvö mismunandi og hann vill helst bara setja þau saman og vera með RISA spil yfir allt borðið og spila þannig. En hann spilar líka oft við okkur bæði Ludo og slönguspilið (við eigum þau tvö bara í svona lítilli mini-segla-útgáfu). Hann er alveg búinn að læra á teninginn og situr stundum við borðið á meðan við erum að bardúsa eitthvað og kastar teningnum bara til að reyna að fá töluna 6 :o)

Mumminn okkar er farinn að labba út um allan bæ. Honum finnst hann líka svo duglegur þegar hann labbar og hann er svo stoltur af sjálfum sér að við liggjum oft í hláturskasti yfir stoltinu hans. Annars er hann alltaf sama ljúfa barnið. Hann getur svoleiðis dundað sér og leikið sér alveg lon og don. Svo dýrkar hann að sjálfsögðu stóra bróður sinn, sem lofar honum að leika inni í herberginu sínu. Máni var nú líka svo snjall, þegar Mummi var farinn að vesenast í því sem Máni var að leika með, þá fór Máni inn í herbergið hans Mumma og sótti píanó og eitthvað smá dót og setti inn í sitt herbergi. Svo nú leika þeir saman sáttir inni hjá Mána :o)
Annars er Mummi líka farinn að tala heilmikið. Hann segir að sjálfsögðu bæði mamma og pabbi. Uppáhaldsorðið er samt namm namm eða matur (enda borðar hann alveg endalaust mikið). En svo er hann aðeins kominn í dönskuna og í stað þess að setja þetta (eða etta) þegar hann bendir á hluti, þá segir hann bara hvad det (hvad er det). Svo þessa dagana erum við endalaust að svara og segja ísskápur, eldavél, ljós, sófi,……………

Jóhann er á fullu í skólanum alla daga að vesenast í efnum, sýklum og hinum ýmsu gerlum og svo er hann nýbúinn að fá nýja tölvu, svo hún er testuð vel á kvöldin. Ég er farin að huga að jólunum, þar sem ég mun ekki vera hérna megnið af nóvember. Svo nú er ég byrjuð á flestum jólagjöfunum og búin með einhverjar, en nánast allar jólagjafir eru heimagerðar í ár. Mér finnst líka svo róandi og notalegt að losna aðeins frá bókunum og tölvunni og hugsa um eitthvað annað, svo ég sit við saumaskapinn þau kvöld sem ég nenni ekki að læra. Eitt kvöld í viku er alveg heilagt, en á miðvikudögum fer ég á saumanámskeið með Fríðu vinkonu og hitti fullt af skemmtilegum dömum sem ég spjalla við um allt milli himins og jarðar. Það er ofsalega gaman að komast aðeins út og tala um KONU-hluti þegar maður er í karlaveldi bæði á heimilinu og í vinnunni ;o)

En jæja nú er víst kominn tími til að útskýra FFT niðurstöður af mælingunum mínum og fara að reikna nákvæmni mælitækjanna.

En munið nú að kvitta fyrir ykkur.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, þú trúir þessu aldrei en það er kominn snjór í Reykjavík og það er bara 3. okt.... Skrýtið.

Kveðja Andrea.