26 febrúar 2007

Kynjakosning og smá samanburður

Enn snjóar í Álaborg, þó það hafi nú átt að rigna í dag. En svona að gamni fyrst ég var að setja upp mynd af 20 vikna hvalnum í síðustu færslu, þá ætla ég að setja upp smá samanburðarmynd til að hugga mig við að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég er eins og HVALUR ;o)
Ætli þetta bumbukríli verði minna en Gunnar Máni (hann var rúmlega 4 kg og 54 cm). Annars fyrir þá sem hafa gaman af ágiskunum, þá er hann Gunnar Máni búinn að ákveða að þetta sé stelpa, ekki veit ég hversvegna. En við erum ekki búin að fara í sónar (þar sem tímanum mínum síðasta fimmtudag var frestað vegna ófærðar), þannig að við höfum ekki hugmynd. Svo nú er kosningaborðið opnað og endilega baulið ykkar ágiskun :o)

Samanburður: 20 vikur nú til vinstri og 20 vikur Gunnar Máni til hægri.

25 febrúar 2007

20 vikna hvalur á landi

Jæja þá er maður komin 20 vikur og hálfnaður með meðgönguna (óformlega ætla ég mér samt að eiga daginn sem ég er komin 38 vikur, svo miðað við það er ég rúmlega hálfnuð ;o) )

Allavega í tilefni þess sagði ég bless við dökkbrúna háralitinn (sem raunverulega var orðinn að íslenskum gangstéttarlit) og tók upp fullkomlega svartan lit. Ágætlega ánægð með það, enda verður maður að reyna að gera eitthvað fyrir útlitið þegar maður er á góðri leið með að breytast í fituhlunkahval :o( (Aldrei get ég verið ánægð, fyrst var ég ósátt við það að léttast bara og grennast verandi komin fram í 4 mánaða meðgöngu, og nú finnst mér ég bara vera að breytast í hval)

Anyways, læt eina mynd af svarthærða hvalnum fylgja með, auk fína snjóhússins okkar (fleiri snjómyndir má finna á heimasíðu prinsins)



23 febrúar 2007

Ég er SVOOOOOOO heppin

Já það virðist ekkert lát á sjókommunni hérna í Álaborg og nágrenni. Skv. þeim fréttum sem ég hef séð og heyrt þá er ástandið víst verst hérna á norðausturströnd Jótlands, svo það eru vonandi ekki mikið fleiri stórborgir en Álaborg og Árósar sem hafa orðið svona illa úti. Það sem ég hef heyrt af fréttum hérna í nágrenninu, er að eitt banaslys hefur orðið í umferðinni sökum veðursins og allavega tvær konur hér í Álaborg fengu að eiga börnin sín í sjúkrabílum í gær sökum þess að sjúkrabílarnir sátu fastir í snjónum en hvorki konunum né börnunum varð víst meint af, sem betur fer ætti að vera kominn 30 stiga hiti og sól þegar von er á mínu barni ;o)

Annars er vel hægt að segja að heppni fylgi mér hvert fótmál. Eins og þeir sem hafa fylgst með blogginu vita, varð ég ansi illa fyrir barðinu á veðrinu í fyrradag þegar mér tókst að detta á grindina í snjónum og koma þar með grindargliðnun af stað (Jeiiiii!!!!). Í gær snjóaði svo enn alveg brjálæðislega mikið og kom annar stormur uppúr miðjum degi, svo við litla fjölskyldan héldum okkur bara heima við og drukkum heitt kakó og nutum þess að vera saman innan dyra í þessu. Í morgun ákvað ég svo (enn íslenska þrjóskan) að drífa mig í skólann. Var ekkert að hafa fyrir að hlusta á fréttir en dreif mig út í strætóskýli og ætlaði að freista gæfunnar, það fór svo að strætó kom ekki. Gunnar Máni fór þó á snjóþotunni til dagmömmunnar, en snjóþotan er eini mögulegi ferðamátinn fyrir litla fætur (sumsstaðar á göngustígunum eru snjóskaflarnir á við mína hæð svo það þarf að skríða yfir þá). En nóg um það, mér tókst hinsvegar í snjónum og á svellinu að detta AFTUR á hausinn. Í þetta skiptið var ég hinsvegar viðbúin og ætlaði ekki að detta á grindina, mjöðmina, magann eða neitt annað sem gæti haft versnandi áhrif á grindarástandið, eða á barnið. Svo viti menn.......ég datt á öklann. Yes, lucky me. Nú sit ég heima með lappir upp í loft, eða réttara sagt eina venjulega löpp og eina fílalöpp. Ég má ekki stíga í vinstri fótinn því það eru möguleikar á að mér hafi tekist að bráka beinið. Talaði við lækninn áðann, fóturinn er samt svo bólginn að það er ekkert hægt að gera (nota bene, ég er ófrísk og má ekki taka bólgueyðandi líkt og íbúfen, parkódín eða annað. Einungis panódíl í boði fyrir mig). Það er ekki hægt að mynda fótinn á meðan hann er svona bólginn, fyrir utan að við eigum ekki bíl til að komast á slysastofuna (og myndum heldur ekki komast þangað ættum við bíl), strætó keyrir ekki, leigubílar keyra ekki og sjúkrabílar eru einungis notaðir í neyð þar sem þeir eru líka að festast og því verða þeir allir að vera tilbúnir komi eitthvað alvarlegt fyrir. Svo ég sit með fótinn upp í loft eins og áður sagði, kælipoka á honum, grenjandi af sársauka (djísús hvað ég þoli ekki að vera ófrískur þegar svona kemur fyrir, maður er gjörsamlega berskjaldaður fyrir þessum helv.#$%#$% hormónum sem þó eru yfirleitt ekki vandamál, nema ef eitthvað er að) og bryðjandi panódíl til að reyna að minnka sársaukann (mæli ekki með því, panódíl virkar ekki rassgat).
En það er allavega eitt á hreinu, nú hvorki get ég, né vil, reyna að halda áfram með þessa íslensku þrjósku mína. Það er bara mikill snjór og mikil hálka og við getum líka slasað okkur, þó svo allir Danir segi að ég sé Íslendingur og eigi að vera viðbúin svona löguðu og blablabla. Á Íslandi kunnum við líka að MOKA götur og göngustíga þegar byrjar að snjóa!!!!!!!!!!!!
Ég vonast þó til að bólgan og veðurofsinn minnki um helgina svo ég komist sem fyrst í myndatöku og geti gengið frá því að þetta er bara slæm tognun og aumingjaskapur í mér að bíta ekki bara á jaxlinn og stíga í fótinn.

Kveðjur frá slösuðu grenjuskjóðunni í rúminu á Næssundvej 78.

21 febrúar 2007

Getur snjóað í útlöndum?

Í morgun þegar ég vaknaði var ágætur reykvískur snjóstormur hérna í Álaborg. Svo ég ákvað nú að þrjóskast við og klæddi okkur mæðgin og setti hjálm á drenginn og lagði svo af stað á hjólinu. Ég komst nú fljótt að því að þetta væri meira en ágætur stormur og endaði með því að ég þurfti að leiða hjólið, með mína tösku (nýþunga) á bakinu, hans tösku í körfunni og hann sjálfann í stólnum. Það sem venjulega tekur mig 5mín að bruna á hjólinu niður brekkuna og til hennar Lone dagmömmu tók mig nú 25 mínútur (íkjulaust). Svo þegar þangað kom og búið að klæða drenginn úr öllum vetrarbúningnum ákvað ég nú að fyrst ég komst þetta þá gæti þetta varla verið verra og hjólaði af stað sem leið lá niður í skóla. Sem betur fer er betur hugsað um okkur háskólanemana en fólkið í hverfinu mínu, svo það var að töluverðu leiti búið að ryðja snjóinn (fyrir utan það sem kom strax útaf snjókommu), svo ég gat nú hjólað megnið af leiðinni, í 1. gír. Loks u.þ.b. klukkutíma eftir að ég hafði lagt af stað að heiman var ég komin í skólann (tekur mig venjulega 15-20mín með því að skila Gunnari Mána og klæða hann úr og kyssa bless). Svo leið dagurinn og ég var nú ekkert að velta neinu veðri fyrir mér heldur var önnum kafin við lærdóminn. Svo fór að líða að því að klukkan yrði þrjú og ég tók eftir því að veðrið var búið að versna um allan helming, svo ég ákvað nú að vera svolítið sniðug og leggja af stað um þrjú svo ég yrði nú örugglega komin fyrir fjögur að sækja barnið. Ég lagði af stað út og ætlaði að setjast á reiðhjólahestinn og viti menn, gleymdi hjólalyklunum í vasanum á jakkanum sem ég var í í gær. Svo ekki þýddi að taka hjólið, sem kannski var ágætt því ég hefði ALDREI komist heim klakklaust með hjólið í eftirdragi. Allavega ég lagði af stað á tveimur jafnfljótum. Það gekk svona prýðilega í storminum (sem var alltaf að versna) þangað til mér tókst að FLJÚGA (í bókstaflegri merkingu) á hausinn. Ekki tókst nú betur til en svo að það heyrðist og ég fann mjög óþægilegt *klikk* í grindinni sem í minni síðustu meðgöngu fór frekar illa í grindargliðnun. Úff, það var svolítið erfitt að standa upp, en að byrja að leggja af stað heim labbandi omg. djös. helv. grindin komin í klessu og ég að drepast. Anyways, afþví ég er nú alltaf svo vitur fyrirfram, enginn strætó að ganga útaf veðrinu og hjólið læst (og hefði ekki komist áfram í sköflunum og hálkunni) þá labbaði ég af stað, en hugsaði þó út í það að ég gæti ekki borið drenginn upp brekkuna í þessu veðri og þar sem skaflarnir voru að hrannast upp og næðu honum að öllum líkindum nánast upp í mitti, þá hringdi ég í minn ástkæra eiginmann sem sat veikur heima. Hann tók sig til og dúðaði sig allan upp, tók snjóþotuna og hundinn og lagði af stað á móti mér. Ég komst svo að lokum "nánast" klakklaust til Lone (rétt náði klukkan 4), klæddi drengin í öll föt og aukaföt sem hann var með og lagði af stað heim á leið. Hann gat að sjálfsögðu ekki labbað (og varla andað útaf veðrinu) svo ég varð að klöngrast með hann og tvær töskur í fanginu, að drepast í grindinni og bakið að gefa sig líka, yfir alla snjóskaflana og á móti storminum sem alltaf var að aukast. LOKSINS sá ég þessa líka ÆÐISLEGU sjón, maðurinn minn mættur í miðri hríðinni með snjóþotuna í höndinni. Hann tók barnið og dró það á þotunni (sem varði sig með höndum í andlitinu þó svo hann væri með trefil vafðan fyrir öll vit), hundinn í hinni hendinni og setti töskuna mína á bakið. Svo klöngruðumst við saman af stað upp brekkuna. Það gekk bara vonum framar, fyrir utan grindina sem hefði frekar óskað sófasetu með lappir upp í loft, en að ég væri að klöngrast í hnéháum sköflum á móti stormi og upp í móti í þokkabót (stigar og brekkur). Komumst þó að lokum heim á leið og nú sit ég hérna með lappir LOKSINS upp í loft, væli yfir aumyngjanshættinum mínum í þessari $%#$%"$% grind og sé ekki einu sinni heim til Írisar fyrir veðrinu (það er einn skitinn sandkassi á milli okkar).



Var síðan að frétta núna að herinn er á fullu hérna á svæðinu að hjálpa fólki og er kominn með snjóplóga framan á alla skriðdrekana sína til að reyna að stemma stigu við snjónum. Það á nota bene að snjóa fram að helgi.



Svo gott fólk, jú það getur sko vel snjóað í Danmörku líka.



Íris býr í húsinu með ljósinu



10 eftir að Jói mokaði að ruslinu. Þetta á að heita BORÐ þarna undir snjóskaflinum

19 febrúar 2007

Matarát og spilakvöld

Tókst að eyða öllum afmælispeningunum og gott betur :o)

Keypti mér tvennar buxur og 4 boli, ekki amalegt. Síðan dró ég Írisi líka í Bilka og eyddi dálitlu af aurum þar einnig (samt ekki í mig, aðallega heimilið og litla snáðann). Annars fórum við í æðislegt matarboð á laugardagskvöldið til þeirra hinum megin við sandkassann, enduðum með að spila Trivial til TVÖ um nóttina. Rosa gaman. Við vorum orðin svo þreytt undir lokin að við gátum ekki lesið spurningarnar lengur og gátum þaðan af síður svarað nokkru ;o) Spilið var alveg rosalega skemmtilegt, nýjar spurningar. Fyndið samt hvað maður gat svarað miklu meira í gömlu spurningunum sem snérust um hluti sem áttu sér stað áður en við fæddumst, heldur en í þessum nýju þar sem verið er að spyrja um ártölin 2004-2006, takk aftur Íris æðislega fyrir okkur :o)

Anyways, gott kvöld og endaði vel, verður áframhald hjá okkur í næsta mánuði.
Gærdagurinn fór svo í bollubakstur og rólóferðir með litla prinsinn. Síðan hefur dagurinn í dag farið í bolluát og yfirát ;o) Hugsa að ég sé búin að næra mig og magakrílið út þessa öld. Verkefni vikunnar eru síðan lærdómur og ekkert nema lærdómur auk einnar ferðar í 20vikna sónar á fimmtudaginn, spennó spennó ;o)

Well enough for now,
see ya later, aligater.

NAMMI......NAMM

15 febrúar 2007

Á leið í HM

Yes, nú er ég líka orðin gömul.

Er á leið í HM á laugardaginn með 700DKK inneignarnótu í veskinu ;o)
Anyone care to join me?

See ya

14 febrúar 2007

Fastelavn er mitt navn

Já nú styttist í fastelavn hérna hjá okkur í Danaveldinu. Upphitun fyrir herlegheitin er nú þegar farin af stað og höfum við hérna á Næssundvej 78 t.d. nú þegar prófað tvær mismunandi tegundir fastelavnbolla úr bakaríinu :o)
Þeir sem ekki muna eftir dönskukennslunni í grunnskóla þá getið þið ímyndað ykkur blöndu af öskudegi, bolludegi og halloween, sett það saman í einn dag og staðsett hann í vikunni fyrir okkar bolludag :o) Nema hérna er söngglöðum börnum ekki einungis gefið gotterí, heldur peninga í baukinn. Ekki slæmur díll það ;o)


Annars hélt litli prinsinn minn upp á fastelavn í dag í legestuen og fékk að vera í ljónabúning. Í fyrra var hann í fótboltabúning svo nú varð hann að fá eitthvað nýtt. Við erum svo að hugsa um að skjótast í bæinn á laugardaginn með hann uppdressaðann og kannski versla eina síðbúna afmælisgjöf eða svo til handa eiginmanni mínum. Orsakir þessarar frekar mikið síðbúnu afmælisgjafar er útivistarleysi. Ég hef barasta ekki komist í búð eða bæinn síðan fyrir jól eða svo. Fyrst nóg að gera í skólanum, svo farið til Íslands og loks búin að liggja í pest síðan við komum aftur út. En nú verður breyting þar á. Ætlum að skjótast í bæinn og storcenter og gera okkur glaðan dag ;o) Svo ætlum við að ljúka deginum með því að fá pössun fyrir drenginn og skreppa í góðan mat, spil og góðgæti hjá þeim hinum megin við sandkassann, svo lengi sem heilsan þar á bæ leyfir, hún er því miður ekki búin að vera sú besta hjá þeim síðustu daga.


Anyways, nóg að gera. 20v sónar í næstu viku svo kannski segi ég eitthvað skemmtilegt þegar því er lokið.

See ya all ;o)

Músarlegt ljón

11 febrúar 2007

18 vikur og loksins komin bumba

Jæja bara svona að gamni gert ætla ég að setja inn eina mynd eða svo af bumbunni sem ég er svo ánægð að loksins er komin. Nú er ég víst komin 18 vikur svo ekki nema rétt 2 vikur í að ég verð hálfnuð með þessa meðgöngu (thank god).

Anyways take care. Segi ykkur eitthvað meira skemmtilegt seinna.

08 febrúar 2007

Snjór snjór snjór

Úti er alltaf að snjóa, ekki gráta elskan mín þó þig vanti vítamín. Þú færð í magann þinn mjóa, melónur og vínber fín.

Já ég verð að segja að nú á þessi skemmtilegi lagatexti mjög vel við :o) Loksins kominn snjór aftur (sem ég er búin að bíða og bíða eftir afþví ég lennti bara í rigningu á Íslandi) og þá er ég veik og sit enn í rúminu :o( En vonandi getur allavega Gunnar Máni fengið að leika sér svolítið í snjónum með pabba sínum og notið þess.

Jæja ég fór í skoðun aftur í gærmorgun, fékk þessa líka yndislegu og æðislegu ljósu. Ekkert smá heppin. Þetta er ung stelpa sem er meira að segja búin að fara í ferð til Íslands til að kynna sér Hreyðrið í Reykjavík og MFS kerfið. Hún varð alveg brjáluð yfir því að læknarnir mínir skyldu ekki strax hafa sent mig áfram í svokallaða ælumeðferð sem er víst í boði hérna í Danaveldinu. Þetta virkar þannig að þú getur fengið að fara til þeirra 2 í viku svona 30-60mín í senn til að fá næringu í æð og þarft ekkert að leggjast inn eða neitt vesen. Henni fannst ekki gott að ég þyrfti að fara í frí til Íslands til að fá hjálp við uppköstunum og fannst ég vera búin að léttast alltof mikið. En sem betur fer var ég ekki búin að léttast núna síðan ég fór til læknisins heima en á móti heldur ekki búin að þyngjast aftur, stend bara í stað c.a. 3-4 kg undir því sem ég var þegar ég varð ólétt. En það er þó loksins komin smá kúla, svo það er hægt að sjá framan á mér að ég er ekki lengur kona einsömul :o) Allavega þá var æðislegt að komast til svona frábærrar ljósu og hún verður ljósan mín fram að fæðingu. Hún upplýsti mig líka um það að hérna á spítalanum er í boði að eiga í vatni og miðað við vatnsköttinn mig og hversu mikið ég notaði karið þegar ég var að eiga GM þá hugsa ég að ég láti slag standa og prófi vatnsfæðingu ;o)

Jæja nóg um það í bili. En semsagt er farið að kólna töluvert hjá okkur. Það er nú samt sem betur fer ekki neitt nístingskalt en verður þó kalt í íbúðunum þar sem Danir eru ekki jafn sniðugir og Íslendingar í húsabyggingum og steinullarnotkun. Þá hafa kertin komið sér vel því það er alveg ótrúlegt hversu vel og fljótt nokkur sprittkerti geta hitað upp eitt hús. Það er ágætt að sjá snjóinn þar sem ég á víst að verða gömul í næstu viku og hef aldrei á minni ævi upplifað snjólausan afmælisdag, heldur ekki eftir að ég flutti til Danmerkur ;o) Það verður spennó að sjá hvort snjórinn haldist svo lengi í þetta skiptið.

Frá skólamálum er voða lítið að frétta. Bara nóg að gera í lestri og undirbúningi. Lokaverkefnið er í samvinnu við fyrirtæki hérna sem heitir Energinet.dk og sér um allar háspennulínur og gaskerfi í Danmörku. Áhugasamir geta að sjálfsögðu kynnt sér málið inni á www.energinet.dk En verkefnið gengur semsagt út á svokallað State estimation sem við eigum að setja upp í SCADA kerfinu þeirra. Þar sem þetta er nokkuð þekkt vöktunarleið til að nota Scöduna, þó svo það sé ekki til staðar hérna í Danmörku, þá munum við reyna að bæta þetta kerfi sem er notað í dag með því að bæta við mögulegum mælingum frá svokölluðum PMU mælieiningum sem notaðar eru í sambandi við Wide Area Protection (WAP). Þessi mælitæki eru glæný og ætlum við að reyna að notast við complex mælingar á spennugildum í þeim stöðum sem mögulegt er og ætti það að gefa okkur möguleika á að bæta við hornaestimati fyrir spennuna í kerfinu í state estimation kerfinu í Scödunni. Þetta eru nýjar hugmyndir sem eru uppi til að fyrirbyggja collapse á stórum kerfum eins og gerðist í USA 2004 og í Evrópu 2006. Búið er að skrifa örfáar greinar á IEEE um hugmyndafræðina á bakvið þetta og vonumst við til að geta notfært okkur þær hugmyndir og reynt að koma þessu í framkvæmd þannig að þetta virki. Með þessu ætti að vera mögulegt að sjá fyrir þegar spennuhornin í hinum mismunandi rafölum byrjar að "drífa" frá hvort öðru, þ.e. fjarlægjast og mismunahornið að stækka meir og meir, sem er fyrsta merki um að eitthvað er að fara úrskeiðis í netinu. Því ætti að vera hægt að nota þær upplýsingar til að senda merki til annarra rafala á nærlyggjandi svæði og segja þeim að framleiða meira eða minna, eftir því hvort mismunahornið er jákvætt eða neikvætt. Allavega þá er þetta MEGA spennó og felur í sér GEÐVEIKA vinnu. State estimation er nefnilega ekkert nema stórir fylkjareikningar út frá mæligildum sem við þurfum að setja upp í MATLAB og koma svo inn í DIgSILENT. Sem sagt, spennó spennó vetur framundan :o)

Úff þetta er sko orðin frekar löng færsla í þetta skiptið, en ég ætla nú að enda þetta á því að benda ykkur á að kíkja á þessa hjartnæmu mynd og grein á Morgunblaði allra landsmanna: http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1252234 Takið eftir að þessir elskendur eru búnir að haldast í hendur í 5-6 ÞÚSUND ár. Hver segir svo að steinaldarmenn hafi bara dregið konurnar sínar á hárinu og barið þær með kylfum?

06 febrúar 2007

Aftur í Danaveldi

Jæja þá er fríið búið og alvaran tekin við á ný.
Mér tókst að slappa vel af og sofa og sofa og sofa hjá mömmu og pabba. Fór ekki í neinar heimsóknir og kíkti í eina skoðun. Fékk loksins lyf við uppköstunum, svo nú er ég hætt þessu veseni á næturna og er bara í þessu á morgnana, rosalega mikill munur að geta sofið megnið af nóttunni ;o)
Mér tókst nú samt að næla mér í flensu og ligg því heima í rúmi núna (ósofin again, bara vegna hóstakasta núna) og er að lesa mér til fyrir verkefnið (er að glugga í bók með nafninu Power System State Estimation).

Allavega, þá var alveg æðislegt að komast í smá frí. Við vorum í dekri frá degi til dags og reynt að moka ofan í okkur mat og góðgæti. Ég fór ansi oft í pottinn hjá mömmu og pabba og lá í rúminu til 10 á morgnana. Tókst að klára bókina sem Sammi brói gaf okkur í jólagjöf, Sér grefur gröf eftir Yrsu Sigurðardóttur og komst langt með fyrri bókina hennar Þriðja táknið sem mamma átti uppi í hillu hjá sér. Verst var þó hversu fáa ég náði að hitta afþví ég var bara heima í afslöppun, en ég átti víst ekki annarra kosta völ samkvæmt ljósunni (nema þá að leggjast inn sem ég var ekki alveg tilbúin að gera).
Við komum svo heim rétt um miðnætti á sunnudaginn og var alveg geggjað að Íris beib var búin að kveikja á öllum ofnum og svona fyrr um daginn svo það var líft í íbúðinni. Annars hefðum við að öllum líkindum frosið í hel við heimkomuna.

Well ætla að koma mér í lesturinn, ekki nema 279 blaðsíður sem þarf að klára fyrir mánudaginn, auk uppsetningar á latex fyrir ritgerðina sjálfa.

Smá lærdómur ef þið vissuð það ekki (ég er nefnilega svolítið sein að læra), maður á aldrei að ætla sér of mikið og ef manni líður illa, þá er best að fara til læknis þó svo maður hafi ekki tíma útaf skólanum. Þetta ætla ég að muna ef ég þori nokkru sinni á minni ævi að ganga í gegnum enn eina meðgöngu :o)