22 júní 2006

Nýtt útlit

Jæja þá fékk ljósa hárið og krullurnar loks að fjúka. Veit ekki í hversu mörg ár ég er búin að vera ljóska ;o)

Endilega baulið og látið mig vita hvernig ykkur líst á nýja útlitið mitt :o)

21 júní 2006

Styttist í lokin

Já nú styttist óðum í lok þessarar annar. Ekki nema 8 dagar í vörnina og jafnmargir þar til við Gunnar Máni förum í flug. Hinsvegar eru 9 dagar þar til aumingja Jóhann er búinn og 11 dagar þar til hann flýgur af stað til Íslands.

Ég er á fullu í undirbúningi fyrir vörnina og er búin að búa til glærurnar í power point fyrir fyrirlesturinn minn svo nú er bara að setjast niður og lesa fræðina bakvið það sem við notum, svo maður geti nú svarað einhverju af viti í sjálfu prófinu.

Annars er loksins aðeins farið að kólna, og má alveg segja að það hafi verið kærkomið. Hitinn núna er ekki nema 20-25 stig sem er mun betra en þessi endalausi hiti. Það kom líka hitaskúr í gær með þrumum og eldingum og svo mikilli rigningu að miðborg Álaborgar fór á kaf í vatn og það var foss af húsþakinu okkar. Það var líka ágætt þar sem allt grænt og gróandi í garðinum okkar var gjörsamlega að skrælna og drepast. Við Jóhann erum bæði búin að brenna og flagna og verða rauð og brún aftur, svo okkur finnst ágætt aðeins að losna við sólina. Svona sól og hiti er algjört æði þegar maður er í fríi, en næstum óþolandi þegar maður er að vinna sín daglegu störf og gera hitt og þetta. Ég ætlaði varla að geta hjólað útaf hita. Svo ég verð nú að segja að nú hef ég mun betri skilning á ciesta suður Evrópu landanna ;)

Jæja best að koma sér í lesturinn.

17 júní 2006

Gleðilega þjóðhátíð

Já nú eru loks liðin 62 ár síðan við fengum langþráð frelsi frá vinum okkar Dönum. Að sjálfsögðu höldum við hér í Danaveldi þennan merka og frábæra dag hátíðlegan, líkt og Íslendingar allir. Við börðumst í mörg ár fyrir þessu frelsi okkar og eigum að vera stolt og hróðug af því að geta kallað okkur lýðveldið Ísland og standa bakvið draum okkar merkasta manns, þess sem var sverð okkar og skjöldur þegar við mest þurftum á að halda og eyddi fjöldamörgum ævidögum sínum hér í Danaveldinu. Að sjálfsögðu er ég að tala um þann merka mann Jón Sigurðsson sem var fæddur á þessum degi þann 17. júní 1811 á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Við eigum ekki að eyðileggja það sem við uppskárum eftir langa og stranga baráttu með því að "gefa" stóru þjóðunum í Evrópu auðlyndir okkar og land og ganga í Evrópubandalagið. Ísland hefur staðið sig frábærlega án þess hingað til og hefur mikla sérstöðu sem lítið velferðarríki í Evrópu. Hversvegna að gefa Englendingum sem við börðumst svo lengi við leyfi til að veiða okkar fisk og stela frá okkur lifibrauði okkar. Við eigum að standa vörð um það sem við höfum áunnið á síðustu 62 árum og njóta þess sjálf og lofa börnum okkar og barnabörnum að njóta þess líka, án afskipta annarra stórvelda. Því stend ég hnarreyst og stolt, í framandi landi, á þessum merka degi og hrópa húrra fyrir mínu landi, ÍSLANDI, og segi nei við Evrópusambandinu.

16 júní 2006

Ströndin og Skagen

Síðustu dagana í fríinu mínu nýtti ég alveg út í það besta. Áfram geggjað veður (er reyndar rétt núna farið að kólna. Hitinn um 25 gráður, loksins). Á sunnudag fórum við í Aalborg friluftsbad hérna niðri í bæ og nutum alltof alltof mikils hita. Mér tókst að brenna all svaðalega á bakinu og Jói var í peysu allan tímann því hann brann svo illa á laugardeginum. Á mánudag vorum við heima og gerðum ekki neitt, nema liggja í leti og forðast sólina. Á þriðjudag fór GM aftur til Lone dagmömmu, Jóhann byrjaði að læra dönskuna sína og ég fór til Skagen með grúppunni minni. Það var brjálað fjör á Skagen. Við vorum með fullar töskur af öl, að dönskum sið, og lékum okkur á ströndinni með flugdreka og fleira. Skemmtum okkur alveg frábærlega vel. Fórum af stað með lestinni klukkan 07:09 um morguninn og vorum komin á Skagen um 9 um morguninn. Við löbbuðum 1000 km held ég næstum og settumst inn á milli til að sötra Carlsberg og Tuborg. Okkur tókst öllum að brenna frekar mikið (enda var hitastigið 32 gráður í skugga) og syntum í sjónum. Alveg ólýsanleg ferð, en set nokkrar myndir með ;o)

Litli kútur kominn í sjóinn


Illa brunnið bak


Thomas, Kim og Louise


Per


Uffe


Skál


Loks náðist ég á mynd


Per á HM


Mikill flugdrekaáhugi


Louise grafin lifandi og nær ekki í ölið


Louise og Uffe að synda


Allir orðnir svangir





Allir orðnir rauðir og bleikir eftir skemmtilegan dag

10 júní 2006

Geggjaður dagur

Algerlega ólýsanlegur. Ég hef varla kynnst öðru eins veðri, nema bara á bestu sólarströndum. Hitinn á mælinum okkar fór yfir 28 gráður og er mælirinn staðsettur í skugga undir skyggni. Hitinn í sólinni var pottþétt yfir 30 gráðum.

Við byrjuðum daginn á því að leika okkur og njóta lífsins á dýnu í garðinum. Tókum svo saman nesti og teppi ásamt fötu og skóflu og hlóðum á okkur sjálf og hjólin. Við vissum að það ætti að vera einhver svona smáströnd og skógur hérna einhversstaðar í Aalborg Øst svo við hjóluðum af stað. Og omg. ég vissi að Álaborg væri falleg en ég hef aldrei komið í þessi frábæru hverfi hérna í útjarðrinum. Við hjóluðum í gegnum Utrup og eitthvað annað smáhverfi sem bæði hafa bara svona risa stór gamaldags hús. Í sama stíl og Amalíuborgarhöllin. Svona 3-4 stór löng hús á 1 hæð sem eru byggð í U eða í lokaðan hring. Yfirleitt hvít. Inni í miðju er risastórt plan með gosbrunni í miðjunni og svo þvílíkir garðar í kring. Með risa risa risa risa stórum trjám og blómum og rósarunnum og ég veit ekki hvað. Og það var ekki eins og það væri 1 eða 2 svona svaka stór og flott hús, heldur bara öll húsin í hverfinu. Alveg geggjað. Svo voru listigarðar í hverfunum með litlu vatni og göngubrú (svona eins og í grasagarðinum) og þessum svaka flottu eldgömlu trjám og blómum. Leiksvæði, afslöppunarsvæði og fullt af borðum til að sitja við auk rjóðra með grillum til að nota. Við eigum sko pottþétt eftir að hjóla þarna oftar og eyða sumardögum.
Þegar við hjóluðum útúr Utrup þá vorum við komin út úr Álaborg, sem er að sjálfsögðu borg úti á landi. Þá hjóluðum við á hellulögðum stígum á milli bóndabæja og kornakra. Svo komum við að Hesteskov sem er rétt fyrir norðaustan okkur (Tók okkur um 2 tíma að hjóla með þessum útúrsnúningum í hverfin, tók ekki nema 30 mín að hjóla heim). Þetta er svona skógur alveg við Limafjörðinn, svo við gátum vaðið í sjónum (margir að synda, frekar heitur sjórinn) svo borðuðum við nestið okkar. Þarna er líka tjaldstæði og hægt að grilla og að sjálfsögðu bekkir og borð útum allt. Vorum þarna til ca. 17 en þá hjóluðum við heim á leið til að elda. Grilluðum svo í algerri steik og borðuðum úti, og ég sit enn úti. Sólin er komin á bakvið húsið hennar Írisar (sem hún flytur í í sumar) og þessvegna er orðið svo kalt að ég var tilneydd að fara í stuttermabol :o)
Annars dæmi um það hvað er heitt hjá okkur, við grilluðum í gærkvöldi, um klukkan hálfsjö, og svo áðan þegar við ætluðum að grilla hreinsuðum við auðvitað og hentum gömlu kolunum í poka, sem kviknaði í því það var ennþá glóð í kolunum frá í gærkvöldi (sólarhring seinna).
Stefnum mögulega á ströndina í Blokkhus á morgun.

Læt nokkrar myndir frá deginum fylgja með

Lystigarður í Utrup

Við mæðgin að vaða

Litli snáðinn að moka sand

Grillað heima að loknum góðum degi


Bruninn kolaruslapoki

09 júní 2006

Veðurspá í fríinu

Loksins komin í frí. Jóhann búinn í bili og ég búin þar til 29. júní. Sem betur fer var fyrirfram ákveðið að vera saman (með litla pjakk) í fríi frá því í gær og þar til á miðvikudag, en veðurspáin þessa daga er hér að neða. Hún hljóðar svona:
byrjar með garðslætti og svo sólbaði, loks ís í bænum í dag
ströndin á morgun
farup sommerland á sunnudag
ströndin á mánudag
friluftsbad á þriðjudag
Skagen á miðvikudag


Mæli sérstaklega með því að þið lítið eftir hitastiginu á spánni ;)

05 júní 2006

Sumarið er komið aftur

Nú er sko komið sumar aftur með sól í haga. 20 stiga hiti heiður himinn og frábært. Ég er búin að blása lofti í vindsængina úti í garði og matarborðið einnig komið út. Getur ekki verið betra. Sit úti og læri fyrir prófið á miðvikudag.

Annars fórum við Jóhann út á lífið á laugardagskvöldið. Hún Myrra passaði fyrir okkur og Jói fór með Adgangskursus út að borða og svo pínu fest og að lokum í bæinn (hann kom heim um kl. 6). Ég fór í 25 ára afmæli hjá Thomasi vini mínum og það var alveg geggjað. Eini útlendingurinn eins og vanalega, en frábært að djamma með þessum dönum. Sátum og þömbuðum Jagermeister til klukkan 3:30. En þá var ég búin að bíða í 2 klukkutíma eftir leigubílnum mínum.

Við Gunnar Máni nutum svo veðursins í dýragarðinum í gær á meðan Jóhann sat heima og lærði eðlisfræði ;o)

Læt sólarmyndir úr garðinum fylgja með.

Heiður himinn í garðinum okkar


Hádegisverður í sólinni


Svo er um að gera að njóta lífsins

02 júní 2006

Til hamingju Lilja

Jæja þá er sú fyrsta úr stelpuhópnum víst búin að ljúka við mastersgráðuna sína. Hún Lilja tók þetta með trompi og náði sér í glæsieinkunnina 9,5 fyrir mastersritgerðina og vörnina. Til hamingju enn og aftur Lilja :o)

Annars er ég loksins komin í smávægilegt frí. Lauk við fyrsta SE prófið í dag og fer í næsta á miðvikudag í næstu viku. Ætla samt að vera í hálfgerðu fríi um helgina og njóta lífsins með Gunnari Mána á meðan Jóhann Gunnar lærir fyrir eðlisfræðiprófið sitt á fimmtudag. Nú fer að styttast í ferð okkar grúppunnar á Skagen og svo fer ég til Grænlands og síðan loks stutt stopp á Íslandi.

Það var karnival hér í bæ á síðustu helgi og var þemað exotic erotic. Fylgjandi eru nokkrar skemmtilegar myndir ;o)