12 október 2008

...og enn meiri peningaumfjöllun

Mig langaði bara svona til gamans að deila með ykkur nýrri samantekt á fjármunum stærstu eiganda Glitnis undanfarin misseri.
Hversvegna þurfa fyrirtæki með milljarða í eignir að fá lán frá okkur til að bjarga einni af eigum sínum (Glitni)? Og hvernig voga þessir menn sér síðan að koma fram og saka menn um bankarán. Ætli málið sé ekki að það var allsherjar rán í uppsiglingu, þar sem ræningjarnir voru í raun stoppaðir í dyrum búðarinnar og þykjast nú vera alveg saklausir.

Er ekki kominn tími til að draga þessa menn fram í dagsljósið og láta þá svara fyrir það sem þeir hafa gert? Hversvegna sofa fjölmiðlar á verðinum og taka ekki auðveldismennina á rauða teppið líkt og þá sem eru að reyna að bjarga okkur frá falli vegna græðgi nokkurra einstaklinga?






Ég spyr því enn og einu sinni:
ER EKKI KOMINN TÍMI TIL AÐ VIÐ ÞÖKKUM RÁÐAMÖNNUM ÞJÓÐARINNAR OG SEÐLABANKANS FYRIR ALLANN ÞANN TÍMA OG ÞÁ ÞRAUTSEIGJU SEM ÞEIR ERU AÐ SÝNA OKKUR LANDSMÖNNUM? VIÐ VITUM JÚ ÖLL AÐ ÞEIR FARA EKKI FRAM Á MARGRA MILLJÓNA KRÓNA STARFSLOKASAMNING OG ERU LANGT FRÁ ÞVÍ AÐ VERA HÆST LAUNUÐUSTU STARFSMENN ÞJÓÐARINNAR.

HÆTTUM AÐ RÁÐAST Á BJARGVÆTTINN OG FINNUM BRENNUVARGINN!!!!!!!!

10 október 2008

Enn eitt bloggið í fjármálaumræðuna

Já er það ekki mál málanna í dag, fjármálakreppan á Íslandi. Hérna í háskólanum er þetta allavega mjög heitt mál og ég er búin að upplifa ansi mörg merkileg, skrítin og stórfurðuleg “comment”. En ég verð nú að segja að mér finnst umræðan hjá mörgum Íslendingum (sem betur fer minnihluta, en of mörgum þó) bæði heima og heiman vera mjög ómálefnaleg og til þess gerð að skaða enn frekar þá slæmu ímynd og það ástand sem orðið er. Fólk er farið að grípa slæman fréttaflutning á lofti og ræða þessháttar málefni sín á milli og segja öðrum fáfróðari frá. Væri ekki skynsamlegra að fólk settist aðeins niður, dregði djúpt andann og hugsaði sinn gang áður en það fer að bera út sögur sem eru hálfsannar og eru með til þess að gera enn erfiðara fyrir hjá þeim sem eru að reyna allt sitt til að bjarga málunum eins og hægt er.

En svona svo ég fái að vera aðeins með í því að benda á sökudólgi og reyna að finna blóraböggul þá langar mig til að spyrja, hvar eru þeir sem hafa eytt öllum peningum þjóðarinnar? Hvers vegna höfum við ekki heyrt eitt orð frá þeim sem hafa undanfarin ár keypt risafyrirtæki erlendis á lánum? Hversvegna höfum við ekkert heyrt í þeim mönnum sem hafa undanfarin misseri verið með margar milljónir í laun á mánuði og himinháa bónusa í ofanálag? Hvernig væri að athyglinni væri aðeins beint að þessum mönnum í stað þess að tala illa um íslenska ríkisstjórn og ráðherra sem þessa dagana vinna 24 stundir sólarhringsins hvern einasta dag til að leysa úr vandamálum sem örfáir ofurlauna-galgopar hafa skapað. Ég veit ekki betur en fyrir ca. einu ári síðan hafi Davíð Oddson sett út á þá Baugsfeðga fyrir ofurkaup í Bretlandi og varað við útrásinni. Þá var hann sagður svartsýnismaður og ofvarkár og það eina sem honum kæmi til væri að skemma fyrir aumingjans Jón Ásgeiri. Hann var hrópaður niður og skrifaðar endalausar greinar um hann í Baugsblöðunum, um það hversu ósanngjarn og vondur hann væri. Hvað er svo að gerast í dag? Það er því miður að koma í ljós að hann hafði rétt fyrir sér og þar af leiðandi er ríkisstjórn Íslands ásamt æðstu fjármálastofnunum að reyna að þrífa skítinn af gólfinu eftir skó ofurkaupmanna og oflaunafólks. En þrátt fyrir þetta eru alltof margir sem enn hrópa að honum og skamma hann fyrir að hafa ekki tekið hattinn ofan af fyrir þessum mönnum og lánað þeim hundruðir milljóna til að borga skuldir, sem hefði ekki dugað nema til örfárra vikna og þar með lofa þessum mönnum að komast enn lengar með áform sín um að græða allt sem hægt væri á okkur hinum.

Hversvegna er það, að menn sem hafa verið með milljónir í laun á mánuði og bónusa þar í ofanálag segja ekki orð þegar á öllu þessu stendur? Hvar eru allir þeir peningar sem þeir hafa tekið sér í laun? Ekki eru þeir á Íslandi, svo eitthvað hljóta þessir menn að hafa flutt af íslenskum peningum erlendis. Hvernig stendur á því að þegar lífeyrissjóðir og saklausir borgarar missa hálfu og heilu aleigurnar vegna nauðsynlegra ráðstafana ríkisins í uppkaup bankanna, þá standa þessir menn enn þann dag í dag moldríkir með stórar eignir í erlendum bönkum og fasteignum? Hversvegna eru þessir menn ekki látnir bera ábyrgð á gjörðum sínum og teknir til saka fyrir það sem þeir hafa gert? Hversvegna er ráðist á þá sem eyða öllum sínum tíma og allri sinni orku í það að reyna að bjarga þjóðinni frá gjaldþroti, en enginn virðist þora að spyrja spurninga um fyrrverandi bankastjóra og eigendur stórfyrirtækja eins og Baug? Eru allir strax búnir að gleyma hverjir það raunverulega voru sem eyddu peningunum okkar og tóku lán í nafni Íslands? Sem dæmi um erlenda fréttamiðla sem EKKI eru búnir að gleyma, þá er hér stórskemmtilegt viðtal norskrar fréttastöðvar við Má Másson forstöðumann kynningarmála Glitnis.




Til að rifja enn frekar upp, þá er hér enn eitt myndband um ofurjörfana og þeirra framkomu gagnvart íslenskum fyrirtækjum. Mér finnst persónulega að þetta myndband sýnir einkar vel hvernig hugsunarháttur þessara manna er og hversu mikið þeir hugsa um rassinn á sjálfum sér og ekkert annað.



Hvað varð um alla fjármunina sem tengdust FL group og þeim Baugsfeðgum, ég bara spyr?

Er ekki kominn tími til að við hættum að benda á ríkisstjórnina og Seðlabankastjórnina og reynum að eyða kröftum okkar í að sýna stuðning og samstöðu á hörðum tímum og reynum að sýna NATO þjóðunum, USA og öðrum þjóðum sem ekki vilja rétta hjálparhönd hversu sterk við raunverulega erum og að við erum enn harskeyttir víkingar sem látum ekki bugast þó aðeins á móti blási.

03 október 2008

Sælt veri fólkið

God dag, god dag
Álaborg hérna megin.

Hérna hjá okkur litlu familíunni er allt besta að frétta. Lífið gengur vel og allir hressir og kátir. Hér er enn sól, þó það sé farið að blása svolítið með. Það var reyndar 18 gráðu hiti á mælinum áðan, svo ekki er þetta neitt alslæmt hjá okkur.
Við Jóhann gerðum okkur glaðan dag um síðustu helgi og fórum út að borða og litum svo í bæinn eftirá. Við brugðum undir okkur betri fætinum af því tilefni að það voru 12 ár síðan við byrjuðum að vera saman. Við fengum góðar barnapíur til að passa litlu sofandi prinsana okkar og fórum á Restaurant Dahl hérna niðri í miðbæ. Þetta er mjög lítill og kósí staður með útsýni yfir tívolíinnganginn og maturinn var alveg geggjaður, hefði ekki getað verið betra. Eftirá fórum við svo í fyrsta skipti saman á pöbbarölt í miðbænum. Hittum nokkra góða félaga og sátum og spjölluðum til klukkan 3. Þetta var alveg frábær dagur og vel þegin hvíld frá amstri hversdagsins (sem teygir sig yfirleitt yfir helgarnar líka).

Nú fer brátt að líða að 4 ára afmælisdegi frumburðarins, en hann á víst afmæli í þarnæstu viku. Það er mikið verið að spá og spekúlera í afmælisveislum og afmæliskræsingum og það verður að segjast eins og er að prinsinn er frekar óákveðinn þetta árið (hann sem var svo ákveðinn bæði í fyrra og hitteðfyrra). En helst finnst mér hann oftast hallast á McQueen bílaköku. Það mun nú kannski breytast á næstunni.
Þetta árið erum við mikið að velta fyrir okkur hvort hann eigi að fá að bjóða heim gestum af leikskólanum, frekar en bara börnum vina okkar, en hann er búinn að eignast nokkra mjög nána og góða vini þar. Við ætlum svona allavega að spá í það hvað við gerum og hvað hann vill sjálfur.

Mummi er alltaf samur við sig og er algjört draumabarn. Hann er að byrja að hlaupa en hlýðir svona að mestu öllu sem sagt er og getur setið alveg lon og don kjurr með bók eða púsl eða bíl. Hann elskar bíla og skríður með þá um öll gólf og segir brrrrrrrrr brrrrrrrr, rosa gaman. Það er reyndar á dagsskránni að sauma ól í einn bílinn svo hann geti nú líka bara gengið með bílinn á eftir sér í stað þess að skríða alltaf með þá.

Ég er komin eitthvað áleiðis með jólagjafirnar og er líka búin að sauma afmælisgjöf fyrir hana Sunnevu Lind. Næst á dagskrá er afmælisgjöf handa Kristófer prins og svo að klára restina af jólagjöfunum. Ég hef sett mér takmark að vera búin með allar gjafirnar áður en ég fer til Noregs, en það styttist ískyggilega mikið í þá för, ekki nema rétt um mánuður þar til ég legg í hann. Svo það er eins gott að vera duglegur að nýta hverja lausa mínútu :o)

Við eigum von á heimsókn nú í lok mánaðarins, en tengdó ætlar að heiðra okkur með samveru sinni. Við hlökkum ofsalega mikið til að fá hana hingað til okkar, enda liðinn ansi langur tími síðan við sáum ættingja og vini á Íslandi síðast. Ætli við munum ekki líka nota ömmuna aðeins og skreppa svona eins og einu sinni í bíó :o)

Jæja, nú ætla ég að fara að byrja á föstudags-hygge með prinsunum mínum. Það er á planinu að spila og leira áður en við Máni förum að búa til föstudagspizzuna okkar.

Knús knús til ykkar allra héðan frá Álaborginni

Ps. Var klukkuð af Fríðu sætu, svo best að svara því :o)

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
Rannsóknarkona (Forskning)
Verkfræðideild ISAL
Rafvirkjadeild ISAL
Vaktstjóri hjá Olís


Fjórar kvikmyndir sem ég held upp:
Lord of the Rings
Pretty Woman
Star Wars
The Nightmare Before Christmas

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Hafnarfjörður
Garðabær
Reykjavík
Álaborg

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
Battlestar Galactica
LOST
Gilmore Girls
House

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Ísland
USA
England
Ítalía

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:
facebook.com
mbl.is
Kbbanki.is
iet.aau.dk

Fernt sem ég held upp á matarkyns:
Súkkulaði
Ís
Kjötbollur með kartöfflumúsinni hans pabba
Íslenskt lambakjöt að hætti mömmu

Fjórar bækur sem ég les oft:
Electromagnetics
High voltage underground cables
Transient simulations in HV systems
Anna í Grænuhlíð

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna:
Að renna með Mána í snjónum á Íslandi
Með mömmu í pottinum á Íslandi
Með strákunum mínum í sundi
Á leið útúr fyrirlestrarsalnum eftir að hafa varið doktorsverkefnið mitt

Fjórir bloggarar sem ég ætla að klukka:
Anna Júlía
Raggi&Agnes
Íris
Erna