09 nóvember 2008

Dagur 2 í Niðarósi

Jæja þá er fyrsta nóttin liðin og dagur 2 senn á enda.

Ég hefði nú heldur átt að sleppa allri umræðu um magakveisur í færslunni í gær, þar sem mér hefndist fyrir. Ég vaknaði síðastliðna nótt alein langt í burtu frá öllu og öllum sem ég þekki, komin með gubbupest og magakveisu. Við hérna norður frá erum nú svosem vön smá mótbyr og því var ákveðið að láta þetta ekki skemma upphaf ferðarinnar og um leið og ég var orðin nógu hress dreif ég mig á lappir og kom mér út í göngutúr til að litast um í mínu næsta nágrenni og finna SINTEF. Þetta var að sjálfsögðu eftir að ég var búin að tala við drengina mína alla þrjá með webcaminu í gegnum netið. Alveg unaðslegt að geta séð prinsana mína og manninn minn og meiri háttar að fá viðbrögðin frá þeim stuttu þegar þeir gátu talað við mig og séð í tölvunni :o)

Þar sem ísskápurinn var alveg tómur þá var fyrsti áfangastaður minn kaffihús nokkurt á brautarstöðinni þar sem ég fékk mér eina brauðsneið með grænmeti og eitt glas af ávaxtasafa. Þar skipulagði ég svo daginn, setti mér verkefni og ákvað hvert göngunni skyldi heitið. Fyrsta mál á dagskrá var að finna búð til að versla einhvern mat inn á heimilið.

Ekki tókst nú vel að finna opna búð. Ég rambaði að sjálfsögðu á nokkrar 7-11 búðir en ákvað að láta það vera síðasta valmöguleikann og reyna að finna eitthvað ódýrara til að versla. Norðmenn hafa þann siðinn á að halda öllu lokuðu á sunnudögum, líkt og gert er í Danaveldi. Fyrir ykkur sem nutu hrollvekjuferðar með mér til Amsterdam forðum daga, þá get ég upplýst ykkur um það að fyrsta dag í Þrándheimi, á sunnudagslokunardegi, er ekki hægt að líkja við Amsterdamshryllinginn. Bærinn er mjög skemmtilegur, þó allt sé lokað og lífið í lágmarki. Reyndar var sól og þurrt hjá mér í dag (samt rosalega kalt) og ekki hellidemba eins og forðum daga. Svo sjálfsagt hefur það eitthvað spilað með þar sem við Íslendingar erum þekktir fyrir að hafa mjög veðursveigjanlegt skap og veðurbreytanlega sýn á lífið og tilveruna :o)



Þrátt fyrir búðarleysið þá tókst mér nú að fara í 3 klukkutíma kraftgöngu um borgina. Ég sá hvernig þrátt fyrir allt bankavesen á Íslandi, við Íslendingar höfum litað heiminn








og það gladdi mitt litla hjarta mikið að sjá fánann okkar dreginn að húni ásamt öðrum fánum í miðbænum. Það er greinilegt að þrátt fyrir allan orðstý um þjófnað og peningagræðgi þá eigum við enn vini úti í hinum stóra heimi, svona eins og Færeyingar og Pólverjar hafa sýnt okkur.


Umhverfi Þrándheims er allt í brekkum og eru húsin byggð í hlíðunum líkt og heima





Það má líka segja að hérna sé enn brattara heldur en heima og sá ég allnokkrar íbúðagötur sem láta Lindarbergsbrekkuna blikkna í samanburði










Haustlitirnir í umhverfinu eru einnig unaðslegir, enda eru brekkurnar skógi vaxnar frá toppi til sjávar, svona fyrir utan þar sem búið er að höggva og reisa hús.


Á leið minni varð ég einnig vitni að því hversu ríkir Norðmenn raunverulega eru. Það er nefnilega einn risastór spítali hérna rétt hjá með öllum nýjasta og flottasta búnaði. Það er verið að vinna í stækkun og betrumbótum á spítalanum og mátti meðal annars sjá risa þyrlupall uppi á einu af nýju húsunum.


Eftir langa og lærdómsríka skemmtigöngu kom ég loks að NTNU skólasvæðinu þar sem ég fann SINTEF höfuðstöðvarnar. En þar mun ég á morgun fá afhenta skrifstofu og aðstöðu til að vinna að verkefninu mínu næstu 3 vikurnar.


Skólinn sjálfur er líka ekkert slor og sýnir hversu ríka og gamla sögu Norðmenn hafa í lærdómsmenningu og byggingalist.

Ég tók að lokum þá ákvörðun að fara stystu leið heim aftur, sem var meðal annars framhjá fyrrverandi dómkirkju okkar Íslendinga, Dómkirkjunni í Niðarósi





Þessari kirkju mun ég ganga framhjá daglega næstu 20 dagana á leið minni til vinnu og hef ég tekið þá ákvörðun að stoppa þar innandyra áður en ég sný aftur til Álaborgar. Enda ekki hægt annað en að skoða upphafssetur kristni á Íslandi.

Þegar heim kom var ég orðin dauðþreytt og enn algerlega matarlaus. Svo ég skrapp á næstu bensínstöð til að svala sárasta hungrinu (enda ekkert búin að borða nema eina brauðsneið og búin að vera á klósettinu alla nóttina og allan morguninn). Þegar ég hafði svo hvílt mig um hríð, búið til tímaplan fyrir vinnuna næstu vikurnar og unnið svolítið tölti ég út í næstu 7-11 búð og keypti mér tómatsúpu til að elda í kvöldmatinn. Á morgun verður svo gerð önnur tilraun til matarinnkaupa í lágvöruverslun :o)

Svona til gamans, þá er hér mynd af miðborginni og gönguleið dagsins.

En nú er víst kominn tími á að halla sér svo ég geti verið sprækur eins og lækur á fyrsta vinnudeginum.

Yfir og út í annað sinn frá Þrændalögum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta hefur verið þrusu göngutúr, ég hefði sko ekki meikað hann með magakveisu og alles :D
Þú ert dugnaðarforkur ástin mín :D