30 ágúst 2008

Fyrsta mælidegi lokið

Langaði bara að deila með ykkur að fyrsta mælidegi af þremur er lokið. Þetta var mjög langur dagur, eða frá klukkan 7 um morguninn til klukkan hálftíu um kvöldið. Gekk samt mjög vel og ég fékk ofsalega góðar mæliniðurstöður úr þessu fyrsta prófi mínu. Dagurinn í dag byrjar núna klukkan 8, eða eftir klukkutíma. Veðrið er áfram frábært. En í gær var sól og 20 gráður og sama veðri er spáð í dag og á morgun.

Bíllinn minn var pakkfullur þegar ég lagði í hann til Gistrup

Mælibúðirnar í Gistrup

Horft inn í sjálfann bílinn

Mælibúðirnar í hinum enda kapalsins, Skudshale

Kvöldsólin þegar við hættum í gærkvöldi

25 ágúst 2008

Vinnumyndir

Bara svona til að gefa áhugasömum smjörþefinn af því sem ég er að gera þessa dagana, þá eru hér örfáar myndir frá tilraunauppsetningu minni í tilraunastofunni.

Þetta er sumsé impúls-test, þar sem ég er að setja upp mini-útgáfu af impúls tilrauninni sem er áætluð í raunveruleikanum, á sunnudaginn kemur. (Ég er með aðrar tilraunir áætlaðar bæði föstudag og laugardag).

Hér að neðan má sjá uppstillinguna eins og hún leggur sig, en hún samanstendur af:
Sendi hluti kapals - 3 sveiflusjár til mælinga - 1 omicron til að framkalla tímamerki (ásamt gps tæki til að gefa réttan tímapúls)- 1 tölva til að keyra omicron - 1 impúls rafall

Viðtökuhluti kapals - 3 sveiflusjár til mælinga - 1 omicron til að framkalla tímamerki (ásamt gps tæki) - 1 tölva til að keyra omicron

og í báðum endum er heill hellingur af spennupróbum og straumpróbum ásamt mörgum kílómetrum af mælisnúrum.



Fyrir miðju á myndinni hér fyrir neðan er prufukapallinn minn (Rauður að lit). Í hinum raunverulegu mælingum mun ég nota þrjá 7 km langa kapla, einn fyrir hvern fasa

Á næstu mynd má sjá hluta af mæliniðurstöðum í sendienda kapals. En spennan sem ég sendi á einn fasann er 5000 Volt, á meðan hinir fasarnir eru ótengdir. Þrátt fyrir að þeir séu ótengdir, þá mælist bæði straumur og spenna í þeim vegna áhrifa frá spennutengda fasanum. Þessvegna fást mæliniðurstöður á öllum þremur fösum.

Síðasta myndin að þessu sinni sýnir svo mæliniðurstöður í viðtökuenda kapalsins. En hafa verður í huga að þegar hinar raunverulegu mælingar eru framkallaðar verður allt þetta í mun stærra sniði. Það mætti kannski kalla þessar tilraunir mínar einhverskonar líkanagerð (líkt og arkitektar smíða af byggingum sem þeir hanna). Líkönin mín taka bara aðeins meira pláss ;o)

23 ágúst 2008

Loksins smá fréttir

Jæja, ætli það sé ekki kominn tími á smá fréttir héðan frá Danaveldi.

Það hefur verið í nógu að snúast hjá okkur litlu fjölskyldunni undanfarið. Prinsarnir eru duglegir á leikskólunum sínum á meðan við foreldrarnir eyðum dögunum í lærdóm og vinnu. Jóhann fór á námskeið í meðhöndlun og ræktun baktería, á meðan ég sit dögunum saman inni í tilraunastofunni minni og leik mér með hin ýmsu mælitæki, háspennugjafa, gps-staðsetningartæki og að sjálfsögðu smá kapalstubb. Framundan hjá mér eru mælingarnar um næstu helgi, en ég hef þrjá sólarhringa til að framkvæma allar þær mælingar sem ég yfir höfuð mögulega get náð. Kapalkerfið í Gistrup sem fæðir meðal annars Aalborg Øst verður aftengt á næstkomandi föstudag og tengt aftur á sunnudagskvöldið, og á þeim tíma hef ég nánast frjálsar hendur til að leika mér með háspennukapla. Fæ sem betur fer 2 menn frá Energinet.dk til að mæla með mér svo ég nái meiru. Fór meðal annars þangað niðureftir um daginn til að halda fyrirlestur um mælingarnar mínar og hvað ég ætla mér að gera, svo þeir sem verða með mér í þeim viti hvað þeir eiga að gera og viti hvernig allar uppsetningarnar eru.
Þar sem ég hef bara þessa þrjá daga, þá sit ég í tilraunastofunni öllum dögum núna og prófa uppsetningarnar og öll mælitækin svo ég sé nú viss um að allt sé eins og það á að vera þegar að stóra deginum kemur.



Fyrir utan allar þessar mælingar, þá er það líka að frétta að ég er á leið til Þrándheima í Noregi. Mér bauðst það frábæra tækifæri að koma þangað og vinna í 3 vikur með sérfræðing í geiranum mínum, en það er maðurinn sem bjó til líkanið sem ég vinn með: Frequency dependent phase model, oft nefnt The Gustavsen model. En líkanið hans Björns Gustavsen er sagt það besta í kapalfræðum í dag, og ég hef fengið boð frá honum sjálfum um að koma og vera hjá þeim í SINTEF. Þeir útvega mér skrifstofu, tölvubúnað og allt sem á þarf að halda, fyrir þessa þriggja vikna dvöl.
Þar að auki á á prjónunum ráðstefna í Kyoto, Japan, í Júní næstkomandi og dvöl í Kanada í 3 mánuði á næsta ári (en það kemur nú allt betur í ljós síðar, segi ykkur frá því þegar allt er frágengið þar).

En svona fyrir utan nám og vinnu, þá get ég sagt ykkur frá því að ég keypti mér nýtt hjól um daginn. Alveg geggjað Kildemose hjól, alvöru stelpuhjól: bleikt með blómum, nafninu mínu í silfurlituðum stöfum, bastkörfu og stórum breiðum hnakk. Það er engu líkt að hjóla á því, svo nú reyni ég að forðast bílinn að mestu og kem mér áfram á milli staða á hjólinu. Reyndar er Jóhann líka farinn að hjóla, svo bíllinn stendur mest bara í hvíld :o)

Annars er ég búin að setja myndir frá ferðalaginu á Íslandi inn á barnaland, svo ef einhver hefur áhuga á því, þá er bara að kíkja inn á heimasíðu prinsanna minna.

Jæja best að fara að hvíla sig í bili,
það er víst nóg að gera framundan.

05 ágúst 2008

Brúðkaupsafmæli

Jæja nú erum við loks komin aftur heim til Álaborgar. Á meðan á dvöl okkar á Íslandi stóð áttum við hjónin hvorki meira né minna en 5 ára brúðkaupsafmæli (jesús hvað tíminn líður hratt). Við nýttum tækifærið og létum drengina okkar í öruggar hendur og stungum af út að borða og á hótel í eina nótt.


Í tilefni dagsins fengum við blómavönd í vasa. Vöndurinn hafði sömu tegund af rósum og brúðarvöndurinn minn og var skreyttur með borðanum sem festur var framan á bílinn sem við keyrðum um í fyrir 5 árum. Þar að auki fylgdu með trésleifar, en 5 ára brúðkaupsafmæli er einmitt trébrúðkaup.






Við gistum á sama hóteli og þegar við giftum okkur og fengum æðislegt herbergi á 6. hæð með frábæru útsýni yfir næsta nágrenni og Esjuna. Röltum um miðbæinn og fórum út að borða á Sjávarréttakjallarann. Þetta er alveg geggjaður staður sem ég mæli með að allir prófi að minnsta kosti einu sinni :o)



















Jóhann fékk sér Kobe kjöt í forrétt og ég fékk mér hörpudisk. Svo fékk Jóhann Skötusels bananasplit og ég fjall af humar. Allir réttir voru rosalega vel útilátnir og skreyttir með blómum og ýmsu öðru.




Í eftirrétt fékk ég frábæra súkkulaðitertu innpakkaða í sellófan Jóhann fékk súkkulaðimús með lakkrís og ís.
Þetta var semsagt alveg æðislegur dagur með frábæru veðri og besti veitingastaður sem ég hef nokkru sinni borðað á ;o)