29 september 2006

26 september 2006

Tölvuhrakfarir dauðans

Púff, nú er ég sko búin að fá mig fullsadda af tölvuvandamálum. Ég var svo ægilega sniðug að kaupa mér þessa líka frábæru glænýju og RÁNDÝRU acer tölvu hjá Svar í fyrra. Kostaði mig rétt tæpar tvöhundruðþúsundkrónur, tölva með öllu. Ég var ekkert smá glöð og hrifin. Svo tókst litla gullinu mínu að hella örlitlu vatni yfir fartölvuna mína (þá var tölvan einungis 3 mánaða gömul). Tölvan sem er skráð með lyklaborð sem á að vera sérstaklega vökvaþolið fór í rúst og urðum við að hafa samband við Acer í Danmörku. Þar sem Danir hafa flestir vit á því að vera ekki að kaupa sér rusl eins og Acer, þá eru þeir ekki með þjónustu við tölvurnar hérna heldur verður að senda allt ruslið niður eftir til Þýskalands. Þetta gerðum við og þurfti að skipta um bæði lyklaborð og móðurborð. Þar sem þetta var nú eiginlega okkar sök þá ákváðum við að það væri alveg sanngjarnt þó svo þeir neituðu að hafa þetta í ábyrgð og borguðum Acer í Þýskalandi litlar fjörtíuþúsundkrónur fyrir þessa viðgerð og sendingarkostnað fram og til baka. Þá var verðið á tölvunni semsagt komið upp í ríflega tvöhundruðþúsundkrónur. Allavega tölvan virkaði svona ágætlega eftir þetta, uppfyllti okkar kröfur og keyrði matlab og miktex, sem er basically það sem ég nota svona dags daglega.

Svo kom vor og blóm í haga, með brjáluðum lærdómi, skrifum á fullu og skiladegi á verkefni…..
Þá tók tölvan upp á því að byrja að frjósa í tíma og ótíma, slökkva á sér og restarta. Ægilega skemmtilegt þegar maður er um miðja nóttina fyrir skil, á síðustu stundu eins og alltaf, að skrifa lokaniðurstöður….og tölvan slekkur á sér….bíddu var ég búin að save-a eða ekki, nei víst ekki. Af því ég var að flýta mér og gleymdi að ég yrði að save-a latex fælinn minn á hálfrarmínútu fresti af því tölvan mín er með skap.
Allavega við komumst í gegnum skilin og tölvan kláraði sitt, með naumindum, en við ákváðum að bíða aðeins. Svo var farið til Íslands og þá virkaði tölvan AUÐVITAÐ eins og hún átti að gera. Þegar komið var aftur til DK byrjaði hún að vera verri og verri og endaði með því að við hringdum í Svar til að athuga hvað þetta gæti verið. Jújú, þetta er örugglega bara software bilun. Auðvitað vorum við svo blind að trúa því, þar sem við erum bæði jafn ánægð með hann Bill Gates okkar allra þá ákváðum við að hreinsa harða diskinn og setja allt upp aftur. Semsagt diskurinn tómur, enduruppsettningardiskarnir frá Acer teknir upp úr lokuðum hulstrunum og 3 dagar í skólastart. Hvað gerist þá, haldiði ekki að diskarnir, sem aldrei hafa verið notaðir eða fjarlægðir úr hulstrunum, séu svo rispaðir að það er ekki hægt að setja þá upp. Við eigum auðvitað ekki fullt keypt windows heldur bara keypta uppfærslu, svo við höfum samband við Svar, enn einu sinni til að athuga hvort þeir geti hent image af diskunum upp á ftp eða lokaða heimasíðu svo við getum sótt það. En nei, við verðum að fá þá til að brenna diskana og senda okkur og þurfum sjálf að borga brúsann. Heilar fimmþúsundkrónur með sendingarkostnaði. Púff, rosalega er þetta nú að verða dýr pakki…..Allavega diskarnir lenda í Álaborg ríflega viku eftir að skólinn er byrjaður og ég að reyna að notast við penna og blað og reiknivél, hvað er það eiginlega, tölvulaus heimur?????
Diskarnir beinustu leið í drifið og setja upp tölvuna….bang….ekkert gerist. HVAÐ NÚ!!!!!!!!!!!!!!!!! Jújú, tölvan vill ekkert setja upp og allt í hassi. Við aftur í símann við Svar, jú við verðum bara að fá tölvuna til að kíkja á hana. Púff, hvað tekur þetta nú langan tíma. Allavega tölvan í póst og til Svar. Við hringjum svo daglega næstu 2 vikurnar til að athuga með tölvuna og hvernig gengur. Jú þeir komust nú að því á endanum að harði diskurinn væri bilaður og skipta þurfi um RAM. Jú þar sem tölvan er nú bara ársgömul þá er ákveðið að þetta fellur undir ábyrgð og þeir senda tölvuna svo til baka okkur að kostnaðarlausu, shjitt eins gott maður.
Jæja við fáum tölvuna loks, uppsetta, og nú er búið á einu ári að skipta um harðan disk, RAM, móðurborðið og lyklaborðið. Ekkert nema skjárinn og umgjörðin upprunaleg. Tölvan kom semsagt loks í síðustu viku, þegar 4 vikur eru liðnar af skólanum og ég að verða ANSI desperat yfir tölvuleysi. Svo að sjálfsögðu, einungis 3 dögum eftir að ég fékk tölvuna nýja og endurnærða, þá byrjar hún á sama bullinu. Slekkur á sér, kveikir á sér þegar henni sjálfri hentar og frýs ALLTAF þegar mér liggur á að finna útúr einhverju.

Nú er ég semsagt komin með alveg nóg og er búin að vera síðan í gær að reyna að ná í þá í Svar en auðvitað er viðgerðarmaðurinn veikur og ekkert hægt að gera. Ég ætla að hringja á 5 mín fresti þangað til ég fæ þessa rusl tölvu endurgreidda svo ég geti keypt mér nýja hérna úti (gæti fengið sömu tölvu hérna fyrir undir eitthundraðþúsundkrónur). Og eitt er víst

ÉG KAUP ALDREI Í LÍFINU AFTUR ACER og vona að þú lesandi góður hafir lært af minni reynslu og gerir það ekki heldur.

Vona að þið deyið ekki úr leiðindum af að lesa þetta alltof langa blogg, en ég bara varð að deila raunum mínum með ykkur. Farin að handreikna með TexasInstrument TI89 titanium reiknivélinni minni, þar sem ég get ekki komist í mitt elskaða matlab :o)


Ein mynd af okkur mæðginum aðeins til að hressa mig við og gleyma $#!$%"$#%!#$ tölvunni

14 september 2006

Úti að klappa rafalnum

Í dag fórum við Per ásamt Claus leiðbeinandanum okkar til Tjele til að hitta Energinet sem við vinnum verkefnið okkar þessa önnina fyrir, og klappa risa rafalnum sem við eigum að vinna með. Þessi rafall er hvorki meira né minna en eitt stykki 3 fasa, 160 MVA, 13 kV, 750 rpm rafall. Semsagt algert BJÚTÍ ;o)
Við fengum einnig að sjá fleiri spennandi hluti á staðnum og læt ég nokkrar flottar myndir fylgja. Ég verð nú að segja að ef að þetta er ekki nóg til að fá mann til að ELSKA háspennuna, þá veit ég ekki hvað er :o)


Ég og Claus komin á áfangastað



Ég, Claus og Jesper (sem sýndi okkur gripinn) að skoða þennan RISA stóra rafal (risa stóri grái klumpurinn hægra megin á myndinni)



Gripurinn frá öðru sjónarhorni



Við Claus, Jesper og Hans Abilgaard að skoða týristora sem eru notaðar til að breyta 230 kV DC í 230 kV AC. Takið endilega eftir stærðinni miðað við okkur, það sést einungis í neðsta hluta týristorana.



Týristorarnir í allri sinni dýrð


12 september 2006

Margur er KLÁR þótt hann sé smár

Já þessi örlitla breyting á þessu vel þekkta máltæki á sko vel við í mínu tilfelli. Þannig er nefnilega að fyrir örfáum dögum síðan kom í ljós að litli drengurinn minn er farinn að taka vel eftir og veit hvað er í gangi í kringum hann. Haldiði ekki að litli pjakkurinn hafi barasta einn morguninn algerlega neitað að fara á hjólið til að hjóla af stað til Lone. Ekki það að hann vildi ekki fara til Lone, nei það var sko langt frá því. Málið var nú bara það að í hans heimi þá er BANNAÐ að hjóla án þess að vera með hjálm, og hann ákvað þennan annars ágæta dag að byrja að skilja það að ALLIR eiga að hafa hjálm. Svo litli pjakkurinn, sem bæþíway er ekki orðinn 2 ára gamall, neitaði algerlega að fara með mömmu sinni á hjólið nema mamman setti upp hjólahjálminn, eins og reglur gera ráð fyrir, og þar sem ég er nú búin að eyða öllum þessum tíma að hamra það inn í höfuðið á honum að hann verði að hafa hjálminn þegar við förum á hjólið og löggumennirnir og allir verði reiðir ef þeir sjá hann hjóla hjálmlausann, þá gat ég að sjálfsögðu ekkert gert nema kingt stoltinu og sett upp fína skínandi rauða hjálminn minn, við annars fína svarta flauelispilsið og dökka jakkann, kom ægilega vel út í stílnum :o) En allavega, nú hjóla ég sem sagt útum alla Álaborg með rauðan glampandi hjálm á höfðinu ;o)
Ég ákvað nú samt að líta ekki á þetta sem neitt diss á það hvernig ég stend mig í því að uppfylla öryggis- og gæðakröfur afburðarhjólamanna, heldur horfa stolt upp til himins og segja frekar við sjálfa mig ...MIKIÐ ROSALEGA ER HANN VEL UPP ALINN... ;o)

Héðan úr Álaborginni er annars allt fínt að frétta, veðráttan þannig að maður getur eiginlega ekki áttað sig á því hvort það sé vor, sumar eða haust. Dagatalið segir haust, hitinn á íslenskan mælikvarða segir hásumar og danski mælikvarðinn segir vor, farið að nálgast sumar. Því er ég aftur komin úr regngallanum og í stutta pilsið, hlýrabolinn og lágbotna skóna (með hjálminn í stingandi stíl við) og síhjólandi, með 100 kg á bakinu, um í 25-28 stiga hita og glampandi sól. Sem betur fer á þetta eitthvað að haldast næstu vikuna alla vega, þannig að á haustgrilli okkar DIFNara á laugardaginn ætti að verða glatt á hjalla yfir frábærum mat og góðu skapi.

Farin í rúmið, með rauða hjálminn enn á hausnum.

Ps. Ólöf hvað ertu að bralla? Frétti að þú hefðir farið til NY en hef ekki séð þig neitt inni á msn. Hvernig var með bloggið sem þú lofaðir þegar þú myndir flytja til USA? Ef þú Ólöf lest þetta, eða einhver veit e-mail hjá henni núna, endilega skella því á mig í mailnum, svo maður geti nú verið up to date í öllu sem er að gerast hjá þessarri reisustelpugrúppu okkar ;o)

10 september 2006

Rosalega getur maður verið grænn

Það er alveg ótrúlegt, nú erum við búin að búa hérna í meira heldur en eitt ár (þá meina ég sko Næssundvej 78, ekki Danmörku) og við vorum að komast að því fyrst í dag að það er alveg GEGGJAÐUR staður hérna rétt hinum megin við Budumvej. Við erum alltaf að fara í einhverja hjólaleiðangra lengst í burtu til að fara í picknick með fínu nestistöskuna okkar, eða fara með hana í dýragarðinn eða Sohngårsholms garðinn. Á meðan er í einungis 2 mín. göngufjarlægð alveg frábært útivistarsvæði. Við svosem vissum af þessu svæði og höfum oft labbað þarna í dalnum um hjóla/göngugötuna á leið heim eða í einhverjum göngutúrnum. Svo áðan ákváðum við að fara með prinsinn í boltaleik með nýja fótboltann hans og fara í sleðabrekkuna sem við höfum oft séð þarna hinum megin. Svo svona til að stytta okkur leið förum við beinustu leið yfir Budumvej (sem Næssundvej stendur við) og komum að þessu svaka flotta túni. Þarna eru einhverjir merktir staurar og við skiljum ekki upp né niður í neinu, svo gönum við rétt upp brekkuna og þá barasta blasir við þvílíkt stórt og flott svæði með 20 af þessum staurum útum allt (þá meina ég sko útum allt og yfir svona kannski 500m langt svæði með skógi á milli og vatni og öllu). Þessir staurar eru semsagt þarna fyrir ákveðinn frispíleik sem virkar eitthvað svipað og golf. Komast í sem fæstum höggum á milli stauranna, c.a. 100-200 m á milli staura og mislangt, örugglega fyrir konur og karla. Vorum meira að segja svo heppin að sjá einn stóran hóp af fólki að leika sér í þessum leik og sáum þar þvílík frispíköst. Bein köst, ekki út til hliðar (sem hefði líka þá endað inni í skógi) kannski svona 80 - 120 m hvert kast. Mér varð nú hugsað til frispíhæfileika minna á ströndinni í vor, náði kannski að kasta 2 m fram fyrir mig og þá langt á ská, en oftast í hausinn á mér eða aftur fyrir mig ;o)
Allavega þetta var rosalega flott. Og þarna getum við sko farið í picknick eða með Kubb spilið okkar eða krokket eða bara name it......við eigum alveg örugglega eftir að eyða einhverjum helgunum í þessum skemmtielgheitum, fyrir utan það að þarna er náttlega aðal hverfis sleðabrekkan......svona þegar snjórinn kemur aftur. Dæmi um hversu góður septembermánuður er hjá okkur núna....við vorum að enda við að klára að borða úti undir berum og al-heiðskýrum himni, ég í pilsi og stuttermabol og á tánum í inniskónum...ekki slæmt það, enda 20 gráður á mælinum sem var í skugga í allan dag, og klukkan að verða sjö :o)

Well ætla að drífa mig með alltof þykku bókina mína út að lesa, hún er einungis 1166 blaðsíður og ég er komin í blaðsíðu 93 ;o)

08 september 2006

Brjálað að gera

Já það má segja að það sé brjálað að gera þessa dagana. T.d. erum við Per (við erum bara 2 í grúppu núna) bókuð í þrjá mismunandi hluti á sama tíma á miðvikudaginn næsta, fyrirlestrar allan daginn, fundur með verkefnisleiðbeinandanum og myndataka fyrir hönd verkfræðideildar í AAU fyrir einhverja auglýsingaheimasíðu fyrirtækja í Danmörku. Á fimmtudag förum við svo í heimsókn til Energinet í Tjele (töluvert sunnarlega á Jótlandi) útaf þessu verkefni sem það fyrirtæki bauð okkur að vinna fyrir sig í vetur og á mánudag eða föstudag fer ég til fyrirtækisins AET að kynna fyrir það niðurstöður úr verkefninu frá síðasta misseri. Þess á milli þarf ég að lesa 200 blaðsíðu og 5 greinar fyrir verkefnið sem við erum að byrja á og skrifa eitt stykki abstract og grein fyrir ráðstefnuna sem ég á að halda kynningu á í júní á næsta ári (Skilafrestur á abstract er eftir 22 daga). Svo það er víst enginn tími til að læra eða gera eitthvað af viti ;o)

Annars er ég búin að vera ægilega dugleg, allar myndirnar eru komnar í albúm og ég er á fullu á kvöldin að skrifa texta við myndirnar. Geggjað gaman að skoða myndir frá siglingunni og fleiru gömlu og góðu eins og vísindaferðum, sumartjaldútilegu VIRara, ættarmót Bæjarættar og fleira og fleira ;o)
Svo er ég líka á leiðinni til Þýskalands í lok október. Ætla að fara að skoða kjarnorkuver, vatnsorkuver og vindorkuver með nokkrum úr skólanum og verkfræðingafélagi Danmerkur, www.ida.dk Það verður örugglega alveg geggjað gaman.

Well best að koma sér að verki. Allir endilega velkomnir í myndashow og boðið í heimsókn (fargjald því miður ekki innifalið).