29 nóvember 2008

Heimferðadagur

Jæja þá er dvöl mín í Þrándheimi á enda komin. Taskan stendur tilbúin á stofugólfinu og flugmiði ásamt vegabréfi á sínum stað í vasanum.

Þessi tími hérna norðurfrá hefur verið alveg einstaklega lærdómsríkur. Þrátt fyrir mikinn söknuð til strákanna minna hefur ferðin verið hin besta í alla staði. Ég hef eignast frábæra "professional" vini, sem ég mun örugglega hafa ávinning af síðar á starfsferli mínum. Allur tíminn fór í mikla vinnu, en ég hef líka uppskorið vel, því nú stend ég töluvert mikið betur en ég gerði fyrir 3 vikum síðan.

Þrándheimur er alveg yndisleg borg og ef ég mögulega get, þá langar mig til að koma hingað aftur síðar, þá með manninn minn og drengina mína með mér. Sýn mín á Noreg hefur breyst algerlega og langar mig nú til að eyða einhverju fríi í það að keyra í gegnum Noreg og jafnvel heimsækja Svíþjóð (annað en bara Gautaborg sem ég hef nokkrum sinnum heimsótt).

Ferðaáætlunin í dag hefst á rútuferð klukkan 9:20. Sú rútuferð endar á flugvellinum. Þaðan verður flogið klukkan 11:30 beinustu leið til Kaupmannahafnar og áfram frá Kóngsins Köben til Álaborgar með áætluðum komutíma klukkan 15:20. Svo rétt um hálf fjögur í dag ætti ég að vera kominn í faðm fjölskyldunnar :o)

Því segi ég nú í síðasta sinn yfir og út frá Þrándheimi

ps. við heyrumst næst í Danaveldi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það held ég að fagnaðarfundirnir eigi eftir að vera miklir ljúfan. Njótið aðventunnar. Knús og kossar úr sveitinna á Snæfellsnesi.