29 janúar 2008

Ammmmmmli......

Játs......
í dag er haldið upp á fæðingardag mannsins míns. Jói spói er 27 ára í dag.

Til hamingju með daginn

Kveðjur frá frú skólakonu

27 janúar 2008

Blóðugt horn og talíbanar

Já hvernig geta nú blóðug horn, talíbanar og ég átt samleið.

Jú það gerðist nú í dag að leið okkar lá saman.
Eins og þeir sem þekkja mig vel vita, þá get ég verið alveg einstaklega klaufsk og óheppin með mig. Þetta reyndist sannað enn einu sinni í dag, þegar mér tókst að næla mér í gat á hausinn, í fyrsta skipti á ævinni (og alveg að verða 28 ára gömul). Jæja þetta var nú bara þannig að ég var að taka dót upp af gólfinu inni hjá honum Mána mínum og þegar ég reis upp, þá með einhverjum óskiljanlegum klaufahætti mínum lukkaðist það hjá mér að skalla hornið á vegghillunni inni hjá drengnum þannig að það sprakk fyrir og lak blóð niður eftir andlitinu. Aumingjans stóra stráknum mínum leist nú ekki á það að sjá allt blóðið sem lak í stríðum straumi niður andlitið á mömmu sinni, en sem betur fer er pabbinn á heimilinu handlaginn heimilisfaðir og tókst með undrafljótum hætti að hefta skurðinn saman og setja blóðstoppandi plástur á ennið á mömmunni og fallegan bangsímon plástur á ennið á prinsinum, svona til að lækna sálarsárið hans. Svo nú göngum við um húsið í stíl, ég og hann Máni minn, og státum fögru plástrahöfuðpríði. Mínum plástri fylgir nú hinsvegar bæði ljótt mar og risa stórt horn, sem hann Máni minn hefur sem betur fer ekki (enda er sárið hans ekki sjáanlegt hið ytra þar sem það fyrirfinnst á sálinni en ekki höfðinu).
Jæja, þannig var nú það með blóðuga hornið, sem vonandi verður horfið áður en drengirnir mínir gifta sig (spekingurinn hann pabbi minn sagði alltaf við mig að sárin mín myndu gróa áður en ég gifti mig, en það gengur víst ekki lengur).

Þá að talíbanaumræðunni.....
við Jóhann gerðum okkur nefnilega glatt kvöld og skruppum að sjá hreyfimynd á tjaldi. Við komumst að því að þessháttar hreyfimyndir innihalda nú bæði hljóð og er varpað á tjaldið í öllum regnbogans litum. En þar sem það er svo langt um liðið síðan við gátum síðast brugðið svona undir okkur betri fætinum, þá höldum við að á þeim tíma hafi hreyfimyndir verið í svörtum og hvítum lit með texta á milli atburða, í stað talsetningar ;o)

Allavega, við fórum að sjá myndina Drageløberen, eða flugdrekahlauparinn, og verð ég að segja að sú mynd er alveg frábær. Þetta er mynd um dreng/mann sem er fæddur í Kabúl, en varð að flýja ásamt föður sínum til Bandaríkjanna ungur að aldri, eða þegar Rússar réðust inn í Afganistan. Þetta er ofsalega átakamikil saga og segir frá breytingum sem urðu við það að fyrst Rússar og svo talibanir tóku völd í Afganistan. Þessi mynd er byggð á samnefndri bók eftir höfundinn Khaled Hosseini. Heimasíðu myndarinnar má finna hér. Ég mæli eindregið með því að fólk fari og sjái þessa frábæru mynd, en ég vara við hún er frekar átakamikil á tímabili.

Jæja þá hafið þið fengið allt að heyra um horn á heimilinu og bíóferðir okkar skötuhjúa, svo það er kominn tími til að skríða undir sæng og kyssa karl.
Kveðjur frá frú klaufabárði

24 janúar 2008

Próflok, matarát og saumaskapur

Halló halló kalló ;o)

hérna er allt fína í fréttum.

Jóhann er fastur með svuntu á BAKVIÐ eldavélina, eins og merkismaðurinn Guðni Ágústson orðar það, og reiðir fram dýrindis ítalska rétti sem væru samboðnir konungsfjölskyldu þó ekki meira sé sagt.

Ég hóf saumaskapinn í gætkvöldi og er nú bæði búin að spreyta mig á overlock vél í skólanum sem og á overlockinu á minni eigin vél og tekst bara vel til. Innan fárra daga verða báðir drengirnir mínir búnir að eignast nýjar velúrbuxur og í næstu viku er stefnt á sjóræningjabúning handa Mána mínum fyrir fastelavn.

Jóhann kláraði prófin með glæsibrag á mánudaginn og er því kominn í frí alveg þar til á föstudag í næstu viku. Svo ég er dugleg að nýðast á honum og gera allt sem mig hefur langað til í allan vetur á meðan hann fær loksins að sitja með litlu prinsunum sínum og leika við þá.
Hann er því búinn með fyrstu önnina sem leiðir hann í átt til verkfræðingsins, svo loksins er farið að vera eitthvað vit í því sem hann gerir (segir stolti verkfræðingurinn sem hann er giftur).

Við höfum líka verið dugleg í fjárfestingum undanfarið og spekúlasjónum á enn meiri framtíðarfjárfestingar. Við keyptum okkur græjur (höfum ekki átt hljómflutningstæki síðan árið 2001) og nú hljóma undurfagrir tónar um allt húsið daginn út og inn, í stað falska gaulsins í mér. Einnig fjárfestum við í göngutryllitæki fyrir Guðmund litla og í bílstól fyrir þann stutta, þar sem við áttum aldrei millistærð af stól, sem er auðskiljanlegt því við jú áttum engan bíl fyrr en fyrir tæpu ári síðan :o)

En varðandi framtíðarplön þá erum við í draumaheimi og látum okkur dreyma um að kaupa lóð og byggja hús á Íslandinu fagra. Við erum farin að skoða hin ýmsu einingahús, en þau eru í miklum gæðaflokki framleidd bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Að sjálfsögðu eru einnig á markaðnum hin margumtöluðu Kanadísku hús, en skv. jarðskjálftamati þá eru þau íslensku og sænsku víst af betri gæðaflokki (Jóhann er handviss um að það eigi eftir að koma RISAjarðskjálfti fljótlega eftir að við flytjum til Íslands og vill helst byggja neðanjarðarbyrgi í stað húss). Annars er þetta nú bara á draumanótum ennþá, þar sem engir flutningar eru fyrirhugaðir fyrr en í allra fyrsta lagi að þremur árum liðnum.

Jæja nóg í bili,
yfir og út frá Álaborginni

14 janúar 2008

Gaman gaman

Jæja jájá við erum öll á lífi og löngu komin aftur til Álaborgar og komin á fullt í lærdóm og vinnu.

Svona í tilefni nýja ársins og þess að við höfum aldrei neitt að gera, þá erum við búin að ákveða að nýta fyrri hluta þessa árs til að fara hvort okkar eitt kvöld í viku í skemmtikúrsa. Þ.e. Jóhann er t.d. nú í þessum skrifuðu orðum að læra að gera ítalskan gúrmet mat, svo næstu daga og vikur verður ekkert annað en lostæti í matinn hjá mér, þar sem ég mun bara sitja og horfa á. Ég ætla hinsvegar að fara á skemmtisaumanámskeið og hefst það í lok mánaðarins (er einhvern sem langar með? kostar 745 dkk og er 1 sinni í viku, þetta er bæði byrjanda og fyrir lengra komna námskeið).

Annars er svosem ekki mikið að frétta hjá okkur. Jóhann er á fullu í prófum og ég held tvö munnleg próf, eitt þann 21. jan og annað þann 29. jan. Við erum reyndar að hugsa um að fara í dagsskemmtiferð til Köben. Bara svona rölta strikið, fara mögulega í dýragarðinn og njóta lífsins saman. Ætlum bara að fljúga, það er ódýrasta leiðin, og rölta um miðbæinn.

Jæja best að koma sér í móðurhlutverkið og sinna prinsunum.
Set vonandi fleiri fréttir inn í nánustu framtíð