20 febrúar 2006

Takk fyrir mig

Ég fékk heilmargar og skemmtilegar gjafir og kveðjur á afmælisdagin og vil bara nýta tækifærið til að segja eitt stórt takk ;o)

Annars er voða lítið að frétta núna. Nánast engir kúrsar í skólanum þessa vikuna vegna vetrarfrís og við nýtum því tækifærið til að vinna í verkefninu okkar. Ætlum að fara í heimsókn í Aalborg Energitechnic fyrirtækið sem kostar verkefnið á miðvikudagsmorgunin. Það verður eflaust mjög fróðlegt og skemmtilegt. Annars er ég alveg orðin frekar þreytt og langar í pínu frí. Var næstum að fara yfirum í dag mér leiddist svo og var ekki að nenna þessu. En sem betur fer er ég að komast yfir það og ætla að reyna að njóta morgundagsins :o)
Hlakka samt rosalega mikið til um helgina. Við erum nefnilega að fara til Köben á laugardagsmorgunin og ætlum ekki að koma aftur til baka fyrr en um miðnætti á sunnudagskvöldið. Ohhh.....hvað það verður æðislegt að komast pínulítið í annað umhverfi og komast ÚT að gera eitthvað. Við Jóhann verðum að fara að gera eitthvað í þessum barnapíumálum okkar svo við komumst nú í bíó eða eitthvað pínu frá, þó ekki væri nema 1 kvöld í mánuði.

Hérna er ennþá allt á kafi í snjó og ekkert bólar á vorinu. Ég vona samt að snjórinn hverfi bara á meðan við verðum í Köben og komi ekki neitt meir fyrr en í desember á þessu ári. Það væri ægilega notalegt. Hlakka til að fá sumar og sól þannig að maður geti farið að hjóla í pilsi í skólann og svona. Úff hvað það verður æðislegt.

Jæja ég ætla ekki að hafa þetta meira í bili. Búin að kvarta nóg og kveina :o)


Huggulegheit á laugardagskvöldi

15 febrúar 2006

Blómvöndur og skemmtilegheit

Jæja það var nú meiri dagurinn í gær :o)

Haldiði ekki að þegar við Gunnar Máni komum hjólandi heim hafi beðið þessi risa stóri og flotti blómvöndur á tröppunum hjá okkur. Þegar ég fór að skoða það nánar kom í ljós að hann var sending frá mínum ástkæra eiginmanni í tilefni Valentínusardagsins ;o) Ægilega sætur við mig. Við sem höldum ekki einu sinni upp á daginn. Allavega þá var ég sko bara ánægð og glöð með að fá blóm ;o)

Annars er annar skemmtilegur dagur í dag þar sem ég er hundgömul í dag, alveg 26 ára gömul. Ég fékk vöfflur í morgunmat þegar ég vaknaði og svo fékk ég pakka frá mömmu og pabba og líka frá Jóhanni og Gunnari Mána, þannig að ekki byrjar það nú illa :o)

Ég bakaði líka kökur fyrir krakkana í skólanum, smá nördagrín þar sem við erum að hanna liðavernd í verkefninu okkar þá tók ég mig til og bakaði eina köku sem lítur út eins og yfirspennuliði og aðra köku sem lítur út eins og "differential"-liði. Vekur eflaust mikla lukku ;o)

Jæja best að koma sér að lærdómnum,
stxxxxx sex, ekkert stress og bless kex.

Valentínusarblómvöndurinn

Afmælis-liða-kökurnar

Afmælisgjöfin frá Gunnari Mána

10 febrúar 2006

Lára búin að klukka mig

4 vinnur sem ég hef unnið um ævina:

1. Unglingavinnan
2. Eldhúsð á Hrafnistu í Reykjavík
3. Vaktstjóri hjá Olís
4. Fyrst rafmagnsverkstæðið og svo tæknideildin hjá ISAL


4 bíómyndir sem ég hef horft á aftur og aftur:

1. Pretty Woman (ahhhhh besta mynd í heimi, kann hana utanað)
2. Hringadróttinssaga
3. Dirty Dancing (úff hvað þau eru flott)
4. Star Wars (ég veit ég verð að viðurkenna það, ég er NÖRD)


4 staðir sem ég hef búið á:
1. Drangagata 1 í Hafnarfirði
2. Lindarberg 88 í Hafnarfirði
3. Álfholt 2c í Hafnarfirði (fyrsta íbúðin)
4. Næssundvej 78 í Aalborg

hef reyndar búið líka í breiðholtinu og á Blégkilde Allé í Aalaborg.

4 sjónvarpsþættir sem ég fíla:

1. Friends-Friends-Friends-Friends, á þá alla og hef horft 365 sinnum á ári á a.m.k. einn þátt :o)
2. Lost
3. Stargate
4. CSI (með Grissom)

Úff enn og aftur, ég er ALLTOF mikill nörd.

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

Æji má bara nefna 4. Það eru svo margar frábærar minningar frá hinum ýmsu stöðum ;o)

1. Portúgal, útskriftarferð í MR.
2. Útskriftarferðin í Háskólanum; Sigling í Karabískahafið þar sem við heimsóttum Cozumel, Cayman Island og Jamaica, ásamt því að dvelja í Miami og Boston.
3. Bakpoka/rútu ferðalag okkar Jóhanns um Bretland sumarið 1998.
4. Króatía og Ítalía í sumar með ALLRI stórfjölskyldunni.

4 síður sem ég skoða daglega:

1. Háskólasíðan
2. google
3. Bloggsíður alls þess frábærlega skemmtilega fólks sem ég þekki
4. mogginn

4 matarkyns sem ég held upp á:

1. Innbakaða nautalundin hennar mömmu, ummmmm það besta við að koma til Íslands
2. Súkkulaðibúðingur, þeir sem þekkja mig vel vita að þetta er nauðsynlegur hluti af mínu lífi.
3. Kartöflumús, namminamminamm.
4. nammi nammi nammi og meira nammi

4 staðir sem ég vildi helst vera á núna:

1. Heima hjá Beggu systur að knúsa hana og styðja.
2. Í Karabíska hafinu með Jóhanni og GM.
3. Í heita pottinum hjá mömmu og pabba .....ohhhh mig langar í bað (á bara sturtu)
4. Á einhverjum brjálæðislega rómantískum stað bara með honum Jóa mínum :o)

4 bloggarar sem ég klukka:

1. Sveinbjörg í Svíalandinu
2. Magga í Boston
3. Sæunn Sunna ofurskutla
4. Jóhann lélegasti bloggari í heimi

03 febrúar 2006

Ryksugan á fullu....

Neinei enginn tími í neitt svoleiðis. Gerist samt vonandi um helgina, svona áður en þetta fer að nálgast hættumörk hjá okkur ;o)

Annars er allt komið á flug aftur. Ég er byrjuð á fullu í skólanum aftur með alveg geggjað spennandi verkefni sem snýr að pura háspennu stýringu, motorstýringu, háspennukerfisverndun og fleiru og fleiru. Jóhann er byrjaður líka á fullu í háskólanum og er í skólanum bara alla daga frá 8 til hálffimm og Gunnar Máni er kominn enn á ný í fulla gæslu hjá henni Lone okkar. Semsagt nóg að gera á þessum bæ.

Fyrir áhugasama rafmagnsverkfræðinga og nema þá er verkefnið okkar í samvinnu við fyrirtæki sem heitir AET (Aalborg Energi Technik). Þeir eru búnir að búa til nýja dreifistöð í Austurríki, bænum Litz nákvæmlega, og eigum við að rannsaka og hanna liðavernd fyrir þessa dreifistöð. Reyndar er það ekki svo auðvelt því við ætlum að hanna líka stýringu á mótor sem þeir eru með þarna og svo ætlum við ekki bara að reikna liðaverndunargildi og kaupa svo kassa frá ABB heldur verður þetta mun meira spennó þar sem við ætlum að búa til verndina sjálf, alveg frá grunni. Við semsagt byrjum á að finna öll nauðsynleg verndunargildi fyrir hin og þessi "failure" sem geta komið upp (meðal annars líka í stator og rotor vindingum á mótornum) og svo ætlum við að forrita microcontroller til að stýra liðum sem við smíðum sjálf sem leysa út við mismunandi aðstæður. Við erum ekki alveg búin að ákveða gerðina á microcontrollernum en á síðustu önn notuðum við og forrituðum Texas Instruments microcontroller sem virkaði fínt, gat allavega stýrt SPMSM mótornum í bílnum okkar, svo ég hugsa að við notum bara dýrari og stærri útgáfu af þeirra tækni. Ægilega spennó allt saman, hlakka rosa mikið til.

Planið á morgun er samt að fara í bæinn og eyða peningunum sem Jóhann fékk í afmælisgjöf frá familíunni, hann ætlar að kaupa sér nýja þráðlausa mús, mp3 spilara og eitthvað fleira skemmtó. Ég fæ að fara í mjög langþráðan leiðangur í fatabúð (samt að sjálfsögðu fyrir mína eigin fjármuni) og kaupa mér eitthvað ægilega skemmtilegt (ekki veitir af) þar sem síðasta fitutakmarki er náð. Nú er bara næsta takmark, undir 50 kg og þá verður þetta orðið flott. Vonandi verður það komið fyrir vorið svo ég geti keypt mér bikiní og flottheit fyrir sumarið á dönsku ströndunum :o) Það ætti vonandi ekki að vera neitt óraunhæft, innan við annarrar handar tala :D

En svona fyrir áhugasama lágspennu og fjarskiptaverkfræðinema þá langar mig svona að segja ykkur í lokin að við vorum að leika okkur að ganni með nokkra 100 kV spenna, 10000 pF þétta og háspennulínur og vorum að leika okkur að overlasta þetta til að sjá hversu mikið það þoldi áður en það sló út kerfinu ;o) Mikið gaman mikið fjör.