26 september 2008

Fréttir frá Álaborg

Það má með sanni segja að haustið sé komið hjá okkur á nóttunni og morgnana. Dagarnir eru enn mjög fínir með sól og 15-20 gráða hita, en nóttin og morgnarnir eru farin að vera dálítið köld. T.d. var ekki nema 3 gráðu hiti í fyrrinótt. Svo við erum búin að taka fram hluta af vetrarfötunum og öll kertin að sjálfsögðu. Mér finnst það reyndar alltaf svo kósí og skemmtilegur tími, kertatíminn. Það er svo gaman að hafa kertaljós um allt hús og sitja og slappa af (eða sauma/vinna/læra og slappa af).

Drengirnir okkar eru alltaf samir við sig, algjörir prinsar og hjartaknúsarar. Máninn minn er farinn að telja upp að 30 bæði á íslensku og dönsku. Hann kann líka stafrófssönginn á íslensku og syngur hann stoltur alltaf þegar hann er að leika sér. Ég frétti það líka í leikskólanum að hann hafi tekið sig til og sungið íslenska stafrófið (nýja sönginn með a, á, b, d, ð og s.frv.) fyrir flestar fóstrurnar, að sjálfsögðu við mikinn fögnuð og hrifningu :o)
Hann er bara með óendanlega mikinn áhuga bæði á spilum og svo stöfunum. Við erum með svona langar stangir með seglum á ísskápnum og hann er alltaf að búa til hina og þessa stafi þar og svo kallar hann stoltur…….mamma koddu sjáðu ég var að búa til A eða T eða hvað það nú er. Uppáhaldsspilið hans í augnablikinu er minnisspil, enda er hann snillingur í því. Við eigum tvö mismunandi og hann vill helst bara setja þau saman og vera með RISA spil yfir allt borðið og spila þannig. En hann spilar líka oft við okkur bæði Ludo og slönguspilið (við eigum þau tvö bara í svona lítilli mini-segla-útgáfu). Hann er alveg búinn að læra á teninginn og situr stundum við borðið á meðan við erum að bardúsa eitthvað og kastar teningnum bara til að reyna að fá töluna 6 :o)

Mumminn okkar er farinn að labba út um allan bæ. Honum finnst hann líka svo duglegur þegar hann labbar og hann er svo stoltur af sjálfum sér að við liggjum oft í hláturskasti yfir stoltinu hans. Annars er hann alltaf sama ljúfa barnið. Hann getur svoleiðis dundað sér og leikið sér alveg lon og don. Svo dýrkar hann að sjálfsögðu stóra bróður sinn, sem lofar honum að leika inni í herberginu sínu. Máni var nú líka svo snjall, þegar Mummi var farinn að vesenast í því sem Máni var að leika með, þá fór Máni inn í herbergið hans Mumma og sótti píanó og eitthvað smá dót og setti inn í sitt herbergi. Svo nú leika þeir saman sáttir inni hjá Mána :o)
Annars er Mummi líka farinn að tala heilmikið. Hann segir að sjálfsögðu bæði mamma og pabbi. Uppáhaldsorðið er samt namm namm eða matur (enda borðar hann alveg endalaust mikið). En svo er hann aðeins kominn í dönskuna og í stað þess að setja þetta (eða etta) þegar hann bendir á hluti, þá segir hann bara hvad det (hvad er det). Svo þessa dagana erum við endalaust að svara og segja ísskápur, eldavél, ljós, sófi,……………

Jóhann er á fullu í skólanum alla daga að vesenast í efnum, sýklum og hinum ýmsu gerlum og svo er hann nýbúinn að fá nýja tölvu, svo hún er testuð vel á kvöldin. Ég er farin að huga að jólunum, þar sem ég mun ekki vera hérna megnið af nóvember. Svo nú er ég byrjuð á flestum jólagjöfunum og búin með einhverjar, en nánast allar jólagjafir eru heimagerðar í ár. Mér finnst líka svo róandi og notalegt að losna aðeins frá bókunum og tölvunni og hugsa um eitthvað annað, svo ég sit við saumaskapinn þau kvöld sem ég nenni ekki að læra. Eitt kvöld í viku er alveg heilagt, en á miðvikudögum fer ég á saumanámskeið með Fríðu vinkonu og hitti fullt af skemmtilegum dömum sem ég spjalla við um allt milli himins og jarðar. Það er ofsalega gaman að komast aðeins út og tala um KONU-hluti þegar maður er í karlaveldi bæði á heimilinu og í vinnunni ;o)

En jæja nú er víst kominn tími til að útskýra FFT niðurstöður af mælingunum mínum og fara að reikna nákvæmni mælitækjanna.

En munið nú að kvitta fyrir ykkur.

19 september 2008

Helgarfrí

Jæja þá er það ákveðið.
Það verður almennilegt helgarfrí á morgun. Ég ætla skal ég bara að segja ykkur, að láta allar bækur, hugsanir, blöð, tölvuforrit og annað skólatengt liggja á hillunni ALLAN morgundaginn. Meira að segja líka á meðan Mummi sefur og Máni fær að nýta sinn klukkutíma í barnaefnið. Hef smá áhyggjur af því hvað ég eigi að gera á meðan, en ætli ég bara baki ekki eða saumi svolítið eða bara eitthvað annað skemmtilegt. En allavega á morgun er heilagur frídagur hjá okkur fjölskyldunni og við erum búin að lofa Mána þessu alla vikuna. Hann talar daglega um það hvað gera eigi á laugardaginn og ég held að hann ætli að spila við okkur þúsund spil, fara með okkur í 100 km hjólreiðaleiðangur, fara bæði í legoland og jumboland í einu og svo eigum við að sitja öll saman inni í stofu, borða og horfa á teiknimynd (og til að það sé á hreinu hverjir eru boðnir þar inn, þá taldi hann upp: Máni, Mummi, Mamma og pabbi).
Hann er sko alveg með það á hreinu hvað hann vill gera :o)
En í tilefni þess að það verður heilagur frídagur ALLAN daginn á morgun (líka annað kvöld þegar strákarnir eru farnir í rúmið), þá ætla ég að nýta tímann vel núna og klára nokkur gögn og vinna í kvöld þangað til ég get ekki meir. En annað kvöld ætlum við Jóhann að hafa það notó, borða góðan mat, spila og spjalla um ALLT annað en nám og skóla :o)

OG NOTA BENE, þetta verður líka SAMVISKUBITSLAUS dagur, þrátt fyrir lærdómsleysið.
Hljómar þetta ekki vel?

14 september 2008

Kryddaður lax, súkkulaðiheimur og prófessoraumræður

Það má með sanni segja að við höfum notið kvöldverðarins í kvöld í botn.

Við fengum rosalega góðan gest í kvöldmat alla leið frá Egyptalandi.

Þannig er nefnilega mál með vexti, að við erum svo heppin niðri á AAU Energi, að það er frægur egypskur prófessor sérhæfður í "transient states" sem er í heimsókn hjá okkur og verður næstu 6 mánuði. Hann er hingað kominn til að vinna að ýmsum rannsóknum og kenna doktorskúrs í deildinni (sem ég mun að sjálfsögðu sækja). Þar fyrir utan hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa hann innanhandar og mér til aðstoðar við það sem ég er að gera, þar sem honum finnst þetta kapalverkefni áhugavert og spennandi og þar sem allar mælingarnar mínar voru transient og ekki dynamic mælingar (sumsé hans sérhæfing). Allavega þá er hann búinn að fá flest af mínum gögnum og hefur verið svo hjálpsamur að hafa haft samband við vin sinn útaf verkefninu mínu (sem er nota bene einn af mínum guðum og heitir Ametani) sem er meðal annars chairmann fyrir ráðstefnuna sem ég er að fara á í Japan á næsta ári. Þar að auki hringdi hann í Gustavsen (sem er annar af guðunum mínum og er sá sem ég er að fara að heimsækja í Noregi nú í nóvember) og fékk hann til að senda doktorsritgerðina sína, gagngert fyrir mig svo ég gæti lesið hana. Ég er að vonum ofsalega ánægð með þessa miklu möguleika sem verða að hafa svona sérfræðing nálægt sér og skil eiginlega ekki hversu rosalega heppin ég hef verið í þessu verkefni mínu varðandi alls konar svona smáhluti með hina og þessa hjálpsömu sérhæfðu vitringa úti í hinum stóra heimi.
Þessi egypski maður heitir Mansour H. Abdel-Rahman og kemur frá Cairo. Eða eins og stendur skrifað um hann inni á IEEE:


Mansour H. Abdel-Rahman (M’79) was born in Egypt in 1947. He received the B.Sc. and M.Sc. degrees in electrical engineering from Cairo University in 1970 and 1975, respectively, and the Ph.D. degree in electrical engineering from the University of Manchester Institute of Science and Technology (UMIST), Manchester, U.K., in 1979.

Currently, he is a Full Professor at the University of El-Mansoura, El-Dakahlia, Egypt, where he has been since 1987. He spent visiting assignments teaching and researching at the University of Toronto, Toronto, ON, Canada; Windsor University, Wiindsor, ON, Canada; and the University of Cambridge, Cambridge, U.K., where he was a Fellow of Churchill College; University of Western Australia, Australia; Doshisha University, Japan; Helsinki University of Technology, Espoo, Finland; Jordan University, Jordan; and Kuwait University, Kuwait. His research interests include electromagnetic transients in power system networks and machines, steady-state and dynamic analysis of power systems, and the application of artificial intelligence in power systems.


Dr. Abdel-Rahman received the John Madsen Medal for the best paper submitted to the Institute of Engineers, Australia, in 1989; the IEEE Industry Application Society First Prize Paper in 1988; and the IEEE Industrial and Committee Prize Paper in 1987.




Svo það má með sanni segja að innan raforskuverkfræðinnar er þetta ágætlega þekktur og vel virtur maður. Hann hefur einu sinni heimsótt Ísland og var þá meðal annars gestaprófessor í Háskóla Íslands og náði að verða ástfanginn (að sjálfsögðu) af landinu okkar. Svo við höfum rætt mikið saman um Ísland og íslenska siði.


Svo nú í kvöld heiðraði hann okkur litlu fjölskylduna með heimsókn sinni og fékk hjá okkur lax og súkkulaðisælu í eftirrétt. Hann var mjög hrifinn af litlu prinsunum okkar og glaður með hversu þorinn hann Mummi er. Enda er hann óhræddur við flesta og leyfði honum algjörum ókkunugum manninum að halda á sér og leika við sig. Mána fannst mjög sérstakt að hitta mann heima hjá sér, sem hvorki talaði íslensku né dönsku. Ég held að honum hafi þótt svolítið skrítið þegar verið var að tala þriðja tungumálið inni á heimilinu. En við vorum hæstánægð og stollt af strákunum okkar báðum tveimur :o)



Svo nú eru drengirnir okkar búnir að hitta Egypta í fyrsta skipti og vonandi ekki það síðasta :o)

13 september 2008

Heimsókn til Íslands

Hérna hjá okkur í Álaborginni er allt á fullu eins og venjulega.
Við hjónin reynum að öðlast einhvern skilning á lífinu og tilverunni með höfuðin á kafi í skólabókum og prinsarnir okkar eru duglegir að stækka og dafna.

Annars er að byrja að hausta, þó það sé enn sól og hlýtt þá er farið að dimma á kvöldin sem þýðir að haustið fer að koma. Þar sem ég er farin að kveikja á kertum út um allt hús í myrkrinu á kvöldin, þá er maður nú aðeins farinn að hugsa til jólanna og hvernig þeim verður varið þetta árið. Það lítur þó allt út fyrir að jól og áramót verði dönsk í ár.
Upphaflega ætluðum við að verja jólum og áramótum á Íslandi, en komumst svo að því að það kostar okkur litlu fjölskylduna 240 þúsund að fljúga til Íslands fyrir þessa viku heimsókn. Með jólagjöfum og öllu því sem fylgir jólunum, værum við því að horfa á hálfrar milljóna króna jól, sem er aðeins of mikið fyrir námsmenn með tvö börn. Hins vegar vorum við að skoða ferð heim í lok janúar í staðin, þar sem við gætum mögulega stoppað í allt að tvær vikur og það kostar okkur einungis 137 þúsund. Svo eins og hlutirnir eru í dag, þá lítur allt út fyrir að við munum halda dönsk jól og áramót en skreppa í aðeins lengra og ódýrara ferðalag til Íslands í byrjun næsta árs. Annars ætlum við bara að fylgjast með tilboðum og flugi fram í lok nóvember og ákveða þá hvernig hlutirnir verða.

04 september 2008

Mælingum lokið og næstu spennandi verkefni tekin við

Jæja þá er þessum fyrsta stóra punkti í doktorsverkefninu mínu lokið. Mælingarnar tókust einstaklega vel alla þrjá dagana og nú er ég búin að taka saman niðurstöðurnar og sýna leiðbeinandanum mínum sem var mjög hrifinn og sagði að þetta hefði tekist svo vel, að nú tæki við hörð vinna við útgáfur því það væri svo margt í þessu sem hægt væri að skrifa greinar um.


Svona var veðrið meðan á mælingunum mínum stóð


Hér sést hvernig Energinet.dk hafði aftengt kaplana frá háspennulínunni. (Það er engin tenging upp í línuna á köplunum til hægri eins og er á köplunum til vinstri)

Í augnablikinu er ég nú að vinna að grein um lokaverkefnið mitt, en við stefnum á að senda eina grein á ráðstefnu í Seattle sem verður í Mars á næsta ári. Svo byrja ég í næstu viku að skrifa um eina mæliuppsetninguna (af þremur) en planið er að skrifa 2 greinar um þessa uppsetningu á 2 ráðstefnur og sameina það svo í lokin í 1 journal grein. Svo taka við hinar tvær mæliuppsetningarnar þar á eftir.



Í félagslífinu er það að frétta að við í stjórn foreldrafélags leikskólans héldum sommerfest í síðustu viku sem gekk alveg glimrandi vel og var mjög skemmtileg. Svo er ég víst að byrja í enn einni stjórninni, því stjórnarformaður félags doktorsnema við Aalborg Universitet hringdi í mig í gær til að ítreka að hann vildi endilega fá mig í stjórnina. Svo ég er að fara á upphafsfund starfsins fyrir þetta ár seinnipartinn í dag og mun þá byrja sem nýr stjórnarmeðlimur. (Djísús ég kann bara alls ekki að takmarka verkefnin mín).

Annars var ég heima allan daginn í gær því litli sæti frábæri 1 árs prinsinn minn komst í eitruð ber í fyrrakvöld og fór inn á spítala til að fá kolameðferð. Hann fékk að borða kol í ís og svo var bara beðið á spítalanum til að sjá hvort hann fengi í magann. Við vorum svo saman heima í gær og það gekk fínt og honum leið bara vel. Í gærkvöldi komu svo kolin loks í gegn og ég verð að segja að það var skrítnasta bleyja sem ég hef nokkru sinni skipt á, hrein kol. Prinsinn er alveg hress núna og ekkert amar að honum og engar áhyggjur að hafa, svo þetta er sem betur fer allt saman afstaðið.