22 nóvember 2008

Veturkonungur hefur tekið völd í Noregi og heimilisfaðirinn lifir sig vel inn í húsmóðurhlutverkin.


Það er nokkuð ljóst að veturinn er mættur í Þrándheim. Það snjóaði þungt án hléa frá þriðjudagskvöldi til föstudagseftirmiðdags. Þegar hætti að snjóa kólnaði all verulega og var 8 gráðu frost hér í gær og búið að spá 10 gráða frosti á mánudag. Það var því ekki alveg sjálfgefið að ganga niður brekkuna frá vinnunni þegar ég lagði af stað heim klukkan 19:30 í gærkvöldi. Munaði minnstu að ég hreinsaði alla brekkuna með rassinum á mér, en tókst með naumindum að grípa í næsta tré :o)

Hér er nóg að gera að venju. Dagurinn í dag fer þó í einhverja afslöppun og smá vinnu (og að sjálfsögðu endanleg jólagjafakaup handa húsbóndanum). Á morgun er stefnt á að taka lestina til Oppdal og skella sér á skíði :o)

Svona í tilefni þess að ég yfirgaf fjölskylduna og skildi þrjá stráka eftir eina í heilar þrjár vikur, þá verð ég nú bara að hrósa fjölskylduföðurnum. Hann hefur staðið sig rosalega vel í uppeldi drengjanna okkar og er t.d. Mummi litli orðinn ótrúlega flinkur með orðinn og segir mér nýjan hlut í hvert sinn sem ég tala við hann í gegnum vefmyndavélina. Frekar skrítið að sjá hann þroskast og dafna svona mikið þegar ég er svona rosalega langt í burtu. Máninn minn er líka ofsalega duglegur og leikur við bróður sinn og hjálpar pabba að hafa röð og reglu. En þetta er nú svosem ekkert nýtt, ég vissi hundraðprósent að heimilisfaðirinn myndi ráða við uppeldið og þessi venjulegu hússtörf án vandkvæða, enda er hann alveg vanur að sjá um þessa hluti. Hinsvegar þá kom heimilisfaðirinn mér bókstaflega mikið á óvart áðan og ekki átti ég von á að hann myndi lifa sig svona vel inn í húsmóðurhlutverkið. Hann fór nefnilega að hafa áhyggjur af jólakortunum. Hvernig það nú væri og hvenær ætti eiginlega að senda þau því ég kæmi ekki heim fyrr en eftir viku og hvort það væri þá orðið of seint. Svo hann Jóhann minn, duglegasta elskan, er greinilega farinn að hugsa um fleiri hluti en ég átti von á. Spurning hvort við sitjum ekki bara saman í ár og sleikjum umslög áður en þau fara til Íslands, Bretlands og fleiri staða. Kannski maður splæsi í ódýrt kreppuhvítvín í Nettó (Nettó er bónus danmerkur) og helli sér í staup yfir jólakortafrágang um næstu helgi :o)

Annað sem sýnir hversu mikil húsmóðir hann Jóhann minn er og hversu duglegur hann er í kreppuástandinu :o) Það slitnaði önnur festingin á vagnabeisli Mumma. Þessi beisli eru rosalega góð en þau kosta líka ca. 300dkk stykkið svo það er frekar dýrt að versla bara nýtt svoleiðis. En nei, húsfaðirinn á heimilinu lætur nú ekki svoleiðis stoppa sig. Hann veit af því að það eru tvær saumavélar á heimilinu sem þessi sem strauk til Noregs notar á hverju kvöldi. En þó hann sé frábær húsfaðir og farinn að lifa sig vel inn í húsmóðurhlutverkið, þá veit hann að ef hann reyndi við þessar flóknu vélar væru fingurnir í bráðri hættu. Þar sem heilir fingur eru frekar mikilvægir í barnauppeldi, þá ákvað hann að gera það skynsamlegasta sem hann hefði getað gert í stöðunni. Hann hringdi í Fríðu bjargvætt (góðan félaga og sam-sauma-unnanda strokukonunnar) og bað hana að hjálpa sér með að gera við beislið. Og að sjálfsögðu var Fríða boðin og búin að hjálpa og sauma nokkur spor í beislið fyrir hinn duglega heimilisföður :o)

En jæja, nú ætla ég að skríða út úr holunni minni, skreppa út í snjóinn og finna mér eitthvað spennandi að gera. Áður en ég sting af, nokkur orð til frábærra vina og ástmanns fyrir að gera þessa Noregsför mína auðveldari.

Takk Íris fyrir að bjóða strákunum mínum í mat
Takk Fríða fyrir að redda Jóhanni og hugsa til þeirra í einsemdinni
Takk Jóhann fyrir að vera frábærlega duglegur að sjá ALEINN bæði um duglegu drengina okkar og heimilið. Og engar áhyggjur, þú þarft ekki að hugsa um jólakortin ég skal redda þeim þegar ég kem aftur. Þú mátt mögulega opna hvítvínsflöskuna og hjálpa mér að tæma hana ;o)

Yfir og út frá Þrándheimi þegar bara 7 dagar eru í heimferð

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég sé að það er heitast í Reykjavík núna.
Þið eruð bara dugleg og getið bjargað ykkur í öllum aðstæðum.
Gott að verkefnið gengur vel og þú þarft sko ekki að vera feimin að ræða málin á viðskiftafundi.
Ég hef ekki efast um að "drengurinn" sé sjálfbjarga með drengina, hann er svo líkur okkur tveimur.
Gaman að þú getir farið á skíði en ég er bara fegin að snjórinn er annars staðar en hér. Heyrumst, hafðu það nú sem best og njóttu þín vel síðustu dagana. Sigrún

Nafnlaus sagði...

JESS!!! Ef það eina sem ég þarf að gera til að sleppa við jólakortin er að passa strákana einn í 3 vikur. . . then bring it on!!

:D