10 nóvember 2008

Dagur 3 að kvöldi kominn

Þá er fyrsti vinnudagurinn loks liðinn.
Ég mætti, eins og um hafði verið samið, rétt uppúr klukkan 9 í morgun í höfuðstöðvar SINTEF á NTNU skólasvæðinu. Þar tók Gustavsen brosandi á móti mér. Hann er alveg einstaklega elskulegur og hjálplegur náungi. Ég hef aldrei séð hann áður og miðað við alla vinnu og allar greinar sem hann hefur gefið út hafði ég ímyndað mér mann á milli 50 og 60 ára. En það reyndist nú ekki vera rétt hjá mér, því hann hefur líklega verið á aldri við Samma bróður, jafnvel yngri. Svo það er víst ekki hægt að mæla aldur fólks í afrekum þeirra. Ég var reyndar búin að heyra frá mörgum að hann væri alveg rosalega gáfaður og skarpur, svo ég hefði nú alveg getað lagt tvo og tvo saman og séð að hann gæti nú alveg hafa afrekað allt sem hann hefur gert þrátt fyrir ungan aldur.

Þegar ég mætti á svæðið þá byrjaði Gustavsen á því að kynna mig fyrir fólkinu á staðnum og sýna mér skrifstofuna mína. SINTEF höfuðstöðvarnar eru í 5 hæða húsi með alveg rosalega mikið af starfsfólki (mest verkfræðingar) í öllum hugsanlegum sérhæfingum innan orkugeirans.
Ég deili skrifstofu með öðrum gesti sem er Post Doc frá Genf og er hérna í heimsókn í 2 mánuði. Hann er einnig að vinna í samvinnu með Gustavsen. Ég komst reyndar ekki til að ræða verkefnið hans við hann svo á morgun verð ég að reyna að kynnast þessum skrifstofudeilanda mínum aðeins betur. Ég fékk aðgangskort að byggingunni sem virkar 24 tíma alla daga vikunnar svo vonandi ætti ég nú að geta komið einhverju í verk. Eftir að hafa hitt fólkið, skoðað bygginguna og fengið aðgangskortið héldum við Gustavsen fund og ræddum um það sem ég er búin að gera á þessu rúma ári mínu sem doktorsnemi og markmið mín fyrir þessa heimsókn hér í Þrándheimi. Hann gaf mér nokkur mjög góð ráð í samræmi við þau vandræði sem hann sjálfur upplifði þegar hann var að vinna að líkaninu sínu sem doktorsnemi og fékk ég nokkur mjög góð ráð sem ég er nú þegar farin að taka í notkun. Svo fór ég inn á skrifstofu og vann það sem eftir lifði dags.

Þegar klukkan fór loks að nálgast 4 fékk ég alveg rosalegt samviskubit og vissi ekki alveg hvað ég var að gera af mér. Mér fannst eins og ég væri orðin alltof sein og þyrfti að drífa mig frá öllum bókum og tölvunni og sækja Mána (því ég er vön að fara um 15:30 af stað á hjólinu að sækja hann í leikskólann). Ég var eiginlega ekki alveg í rónni fyrr en ég var búin að sjá að Jói var löngu farinn sjálfur af stað að sækja báða prinsana okkar og var kominn með þá heim. Þetta var bara svo skrítin tilfinning að sitja bara þarna og halda áfram að vinna þó svo það væri kominn tími á að sækja drenginn.
En ég vann semsagt áfram og alveg til rétt rúmlega 5, en þá dreif ég mig í búðina og svo heim til að ná í kvöldmat með strákunum mínum.

Ég tók eftir því í dag að Norðmenn eru jafn mikið hjólafólk eins og Danir. En ég gæti samt ALDREI notað hjólið mitt hérna norðurfrá. Það er nú þannig að Þrándheimur (og líklega Noregur allur) er ekkert nema brekkur og upp og niður hvert sem þú ferð, fyrir utan að veturinn er frekar kaldur og snjóþungur. Svo hérna ferðast allir um á fjallahjólum, enda hugsa ég að brekkurnar krefjist að minnsta kosti 21gíra hjóla. Ég hef líka enn sem komið er ekki hitt einn einasta Norðmann í yfirvigt. Enda allir sem ég sé annað hvort á göngu eða hjólandi (ég er ekki mikið að glápa inn í bílana sem keyra framhjá). En það er nokkuð ljóst, að fyrst hægt er að notast svo mikið við hjólið og tvo jafnfljóta hérna norðurfrá þá er ekki lengur ein einasta afsökun fyrir að ferðast allt um í bíl á Íslandinu. Ég var alltaf að telja mér trú um að við notuðumst alltaf við bíla og hjóluðum eiginlega ekkert því Ísland væri mun erfiðara yfirferðar en Danmörk, vegna allra brekknanna og snjósins. En það er alveg víst að þetta eru ekkert nema afsakanir einar og nú er það takmark mitt að þegar við flytjum aftur til Íslands, þá verður notast við hjólið eins mikið og mögulegt er (mun þó líklega endurnýja hjólið mitt og kaupa mér eitt stykki fjallahjól og nagladekk fyrir veturinn).

En jæja, aftur að sögunni....Búðin var sem sagt opin í þetta skiptið og gat ég verslað inn á tóma heimilið mitt, svo nú á ég brauð, álegg, mat, drykkjarvöru, morgunkorn og hitt og þetta nauðsynlegt. Ég keypti mér líka eina flösku af einhverju sem heitir "JULEBRUS" (jólagos) og verður spennandi að sjá hvort þetta sé eitthvað svipað og jólaölið okkar. Þegar heim kom tók ég fram afganginn af tómatsúpunni frá í gærkvöldi, bætti í hana kartöfflum, kjötbollum og lauk og borðaði ágætis tómatrétt. Ég var rétt að klára að elda þegar drengirnir mínir voru að byrja að borða og hringdu í mig til að borða með mér....

Miðað við afganginn í dag verður líklega pasta í kvöldmatinn á morgun með sósu búna til úr tómatsúpu, kjötbollum, kartöfflum og lauk.

.....Drengirnir mínir að borða með mér segi ég og við sem erum mörg hundruð kílómetra í burtu frá hvert öðru :o)
Jæja það er nú svo að klukkan hérna er sú sama og klukkan í DK. Svo við höfum haft þann háttinn á í gær og í kvöld að við eldum matinn á sama tíma, svo kveikjum við á tölvunni og notum skype vídeó (bæði hljóð og mynd) og höfum kveikt á því meðan við borðum (þ.e. ég í Noregi og litla fjölskyldan mín í Álaborg). Með þessari frábæru tækni komumst við því aðeins nær hvert öðru og getum notið kvöldmatarins saman og spjallað um daginn og ég fylgst með því sem prinsarnir eru að bardúsa, hvernig þeim líður og hvernig þeir stækka og dafna. Þetta er alveg frábært fyrirkomulag og gerir lífið fjarri þeim mun auðveldara og viðráðanlegra. Þó ég nefni nú ekki að við höldum áfram þeim sið okkar að gera kvöldmatartímann heilagan fjölskyldutíma þar sem allir sitja saman við borðið og njóta máltíðarinnar í sameiningu :o)

Nú er svo planið fyrir kvöldið að vinna til svona 9. Ég ætla að reyna að leiðrétta eina grein sem ég var að skrifa um daginn og er fyrir ráðstefnuna í Kyoto í júní á næsta ári, en abstraktið mitt var samþykkt um daginn og síðasti skiladagur á fullri grein er 14. nóvember. Eftir þetta ætla ég svo að leggjast niður með jólagosið mitt og sjá hvort ég geti kominst í smá jólafíling yfir James Bond sem á að sýna í sjónvarpinu (Die another day var í gær og ég held það sé Casino Royale í kvöld).

Svo nú á þessum þriðja degi í Þrándheimi segir Álaborgarstellan enn einu sinni yfir og út :o)

ps:munið svo að kvitta fyrir ykkur svo ég viti nú hvort einhver sé að lesa allt þetta raus í mér ;o)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég væri mikið til í að kíkja aftur til Noregs :). Get trúað að það ylji manni aðeins um hjartarætur að sjá langslagið sem líkist Íslandinu góða. Það er svoldið kedeligt landslagið í DK, allt svona flatt og óspennandi.

Haltu áfram að hafa það gott í Norge.
kv. Íris

Nafnlaus sagði...

í framtíðinni verður það svo að íslendingar verða þekktir fyrir svona ofurheila eins og þig. Þá gleymist kannski bankaskandallinn!! Gangi þér vel, þá meina ég að vera í burtu frá körlunum þrem, sem er örugglega erfiðara en vinnan. Knús frá frúnni í sveitinni.

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ

Við erum að fylgjast með þér amk ég og stelpurnar. Raggi er alltaf upptekinn við að læra og vinna, þú þekkir það er það ekki???
Gangi þér vel í Noregi.

Kveðja frá Edinborg

Nafnlaus sagði...

Bara að kvitta fyrir innlitið. Ég kíki á þig reglulega. Aldeilis göngutúr sem þú fórst í.
Kveðja Andrea og co.