30 desember 2007

Hlaupandi flugferð

Sælir allir fjær og nær.
Já við "litla" fjölskyldan erum nú stödd í vellystingum á Íslandi og er ekki laust við að það verði þörf fyrir vel úti látna fitugjöf í lok þessarar jólahátíðar. Ég hugsa að við höfum bætt á okkur svona um það bil tíu smjörlíkisstykkjum um þessi jól, sem verða að fá að fjúka við fyrsta tækifæri. En fyrir það er nú eftir tvö kappátskvöld, nefnilega gamlárskvöld (eða trúlofunarafmæli okkar hjóna sem flestir íbúar plánetu okkar eru svo góðir að fagna fagmannlega með tilheyrandi kampavínssulli og sprengjulátum) og svo nýárskvöld sem er víst fyrsta mistakakvöld nýja ársins.

Annars erum við búin að hafa það alveg einstaklega notalegt og gott hérna á LANDINU góða. Við fengum alveg dýrindis hvít jól og var splæst í snjóþotu og svo farnar óendanlega margar salibunur niður brekkuna hérna við hliðina á húsinu hjá mömmu og pabba. Ég er alls ekki viss um það hver skemmti sér best, sú elsta, sá í miðjunni eða sá yngsti (sá allra yngsti fékk bara að horfa á í þetta skiptið, hann fær að renna með á næsta ári). Snjórinn hefur verið hérna hjá okkur alveg þar til í dag (daginn fyrir gamlárs) en þá byrjaði að rigna.

En svo við segjum nú söguna í réttri röð og byrjum á ferðahlaupunum ógurlegu ;o)

20. desember klukkan 16:00 lögðum við af stað sem leið lá á flugvöllinn í Álaborg. Sú ferð gekk einstaklega vel og tókst okkur að tékka öll 82kg okkar inn (við máttum vera með 85kg og þurftum að fara fyrr um daginn í Salling til að kaupa okkur nýja tösku undir allan farangurinn). Jæja við tékkuðum okkur inn í góðum tíma og settumst svo og fengum okkur súkkulaði að drekka og eina litla köku til að hita upp fyrir jólaátið á Íslandi. Meðan við sátum makindalega og hámuðum góðgætið í okkur kom upp örlítil seinkunn á flugvélinni okkar, þetta voru nú bara 15 mínútur í seinkun svo við vorum ekkert að hafa áhyggjur af þessu og enduðum með að fara í gegnum öryggishliðið og setjast fyrir innan og horfa á flugvélarnar. Það var engin vél sem beið okkar þar inni og því settumst við niður og spjölluðum við mjög skemmtileg hjón frá Þýskalandi með tvö börn á sama aldri og okkar. Þessi hjón eru að fara að flytjast til Álaborgar og voru mjög spennt að hitta Íslendinga sem bjuggu þar fyrir og var mikið rætt og hlegið. Svo leið og beið og engin mætti flugvélin til að flytja okkur til Kaupmannahafnar. Loks mörgum tímum síðar komumst við þó í loftið í flugvél merktri Spánarflugi með spænsku flugteimi sem talaði enga dönsku og bjagaða ensku. Okkur tókst þó að lenda á Kastrupflugvelli, en á svo góðum tíma að þegar við vorum að bíða eftir töskunum okkar voru heilar 25 mínútur í að flugið okkar til Íslands og við áttum eftir að fá töskurnar okkar 5, fara með strætó frá terminal 1 til terminal 3, tékka okkur inn og komast í gegnum security athugunina. Þegar töskurnar loks komu var strætóinn farinn og við þurftum að bíða eftir næsta vagni. Okkur tókst að komast inn í terminal 3 og hlupum eins hratt og við gátum með 2 börn og 5 töskur frá strætó og inn í terminal 3 sem var pakkfullt af fólki og að sjálfsögðu með rosalegri röð í tékkið. Svo ég tróð mér framfyrir og í saga class hjá SAS og fékk þar loks tékkinn fyrir okkur 10mínútum fyrir flug. Allar töskurnar á priority og beint út í vél og við hlupum með sitthvort barnið í fanginu sem fætur toguðu í öryggishliðið, biðum þar í röð afþví gaurinn var í fýlu og sagði að enn væru 10mín í flug og ekki komið að fluginu. Komumst loks í gegnum öryggishliðið c.a. mínútu fyrir flug og hlupum í gegnum bygginguna. Komið á skiltið, gate closed, og við hlaupandi út í vél. Ég varð að láta Jóhann fá Guðmund þar sem það var að líða yfir mig af hungri og hlaupaálagi (ein ekki alveg í nógu góðu formi). En okkur rétt tókst að ná í skottið á flugfreyjunum og öskra að ekki mætti loka vélinni því við værum að koma. Fengum meira að segja að fara um borð í vélina og vorum síðust að setjast (skemmtilega sveitt og vel lyktandi eftir öll hlaupin). Allavega við komumst um borð og loks þegar við vorum öll sest sagði stóri duglegi strákurinn okkar: "mamma, núna erum við ekki sein meira".

Skemmtilega ferðin endaði nú ekki þarna, þó við kæmumst öll klaklaust til Íslands. Því þegar við loksins komumst út úr flugvélinni og að töskufæribandinu, þá voru bara 2 töskur og enginn barnabílstóll. Við biðum og biðum og ekki kom meira af farangrinum okkar. Svo uppúr miðnætti að íslenskum tíma (semsagt eftir klukkan 1 að okkar líkamstíma) þá stóðum við og vorum að búa til skýrslu vegna þess farangurs sem vantaði. Svo keyrðum við löturhægt til Hafnarfjarðar þar sem ég varð að sitja undir Guðmundi Magnúsi vegna bílstólaleysis. Við fengum þó að vita að það ætti önnur vél að koma seint um nóttina og líklega væri farangurinn okkar í henni. Ein af töskunum sem vantaði var fatataskan okkar og önnur var taskan með jólagjöfinni hans Gunnars Mána, restin var svo dótarí og jólagjafir fyrir aðra fjölskyldumeðlimi. En við semsagt komumst heim til mömmu og pabba og ég setti fötin mín í þvott, því þau voru vægast sagt illa lyktandi af hlaupunum á vellinum. Svo daginn eftir var ég fatalaus og spígsporaði um allt á náttsloppnum hennar mömmu. Þegar komið var framyfir hádegi gat ég ekki meir og fór í eldgamla pilsdragt af mömmu sem ég passaði í. Við þurftum nefnilega að fara út í snúninga til að versla fyrir skírnina. Það heppnaðist og loksins í eftirmiðdaginn kom allur farangurinn nema ein taska, loks kom þó barnabílstóllinn. En þessi eina taska sem ekki kom innihélt jólagjöfina hans Gunnars Mána. Við hringdum daglega útaf töskunni og loks á Þorláksmessukvöld var hringt í okkur frá Kastrup og okkur tilkynnt að þar væri ein taska merkt okkur. Við gáfum að sjálfsögðu upp skýrslunúmerið okkar og fengum við að vita að líklega hefði konan í SAS sagaklass dótinu gleymt að setja hvíta strimilinn á töskuna og hún því aldrei komist í flug. En sem betur fer voru 2 flug eftir seint um kvöldið og um nóttina svo laust fyrir hádegi á aðfangadag kom jólagjöf barnsins okkar í hús, svo hann gat nú fengið eitthvað frá mömmu og pabba undan jólatrénu ;o)

Allavega þá er ferðin búin að vera alveg frábær. Jólin voru full af pakkagleði og við fórum í kirkju og nutum okkar í botn í snjónum. Annar í jólum fór í skírn sem var alveg einstaklega vel heppnuð og gaman að sjá alla sem mættu í veisluna. Og svo nú líður senn að lokum þessa skemmtilega og virðburðaríka árs 2007. Það verður gaman að vita hvaða ævintýr árið 2008 ber í skauti sér.

Bless kex og ekkert hlaupastress

12 desember 2007

Það ætti bara að skila ykkur

Já, ég er nú bara sár út í ykkur Íslendinga á Íslandi í dag.
Neðangreind frétt, tekin frá mbl.is, var víst í öllum fjölmiðlum heima í gær og það var ekki einn einasti maður sem hringdi í mig. En fyrir ykkur sem hafa gúbbífiskaminni þá heitir doktorsverkefnið mitt: "Comprehensive use of High Voltage AC cables in the Transmission Systems", eða "Umtalsverð notkun á riðstraums háspennustrengjum í raforku flutningskerfinu".
Svo nú er ég bara farin í fýlu :o)

Vilja móta stefnu um raflínur í jörð

Þingmenn, sem sitja í iðnaðarnefnd Alþingis, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að skipuð verði nefnd til að móta stefnu um hvernig leggja megi á næstu árum og áratugum raflínur í jörð sem nú eru ofan jarðar.
Í greinargerð með tillögunni segir, að á undanförnum árum hafi orkuframleiðsla á Íslandi aukist mjög og jafnframt gagnrýni á neikvæð umhverfisáhrif hennar. Umtalsverður hluti þeirra áhrifa sé sjónmengun af völdum háspennulína og hafi sú krafa orðið háværari að jarðstrengir séu nýttir í stað loftlína.
Jarðstrengir hafa m.a. þann kost umfram háspennulínur að vera óháðir veðurþáttum, svo sem ísingu, saltmengun og vindi. Slíkir þættir séu algengustu orsakir rafmagnsleysis og rafmagnstruflana. Því sé lagning jarðstrengja mikilvægt hagsmunamál dreifbýlisins. Þó verði að hafa í huga að viðgerðir jarðstrengja séu bæði dýrari og tímafrekari en á loftlínum.

05 desember 2007

Doktorskeila

Skrapp í keilu með doktorsnemunum á Energi (samansafn af nokkurm sérhæfingum, Face, Power electronics, Mechanics og High Voltage sem er mitt fag). Eins og sjá má er ekki mikið um kvennnemendur í doktorsnáminu.

Strákarnir tóku sig hinsvegar vel út á keilubrautinni. Mér tókst með undraverðum hætti að vera ekki alveg neðst í bæði skiptin, svo ég var bara nokkuð sátt.

Er ekki samt einhver þarna úti sem langar með mér í keilu við tækifæri? Það er rosalega gaman og ég er mjög góður andstæðingur, get garanterað að þú farir með vinninginn ;o)


04 desember 2007

Komin heim

Jæja þá er maður kominn aftur heim til Danaveldisins. Það var alveg geggjað að komast aðeins heim til Íslands og hitta nánustu vini og ættingja. Allir snérust í kringum okkur og sáu um drengina svo mér leið næstum eins og prinsessu (svona þegar ég var ekki að vinna). Annars var ég mikið á flakki með nemendurna og var í fullri vinnu með þeim alveg mánudag til fimmtudag og sat svo og skrifaði í mínu verkefni á föstudeginum.

Það var nú ósköp gott að koma aftur út til hans Jóa og knúsa hann dálítið, en ég hlakka samt ofsalega mikið til að fara aftur til Íslands. En næst förum við öll saman.....og það bara eftir 17 daga. GVÖÐ hvað ég hlakka til. Enda verð ég nú að segja að eftir þessa Íslandsför er mig farið að langa ansi mikið til að setjast að á landinu fagra......eeeeeeen það verður víst að bíða betri tíma.

Þar sem við lentum mjög seint á sunnudagskvöldið og vorum ekki komin í rúmið fyrr en rúmlega 2 um nóttina, fékk hann Máni minn að sofa út og vera í fríi heima í gær. Við mæðgin tókum okkur til og bökuðum jólasmákökur og settum upp næstum allt jólaskrautið okkar. Það er sumsé búið að setja seríur í flesta glugga og allt smádótið er komið upp, hingað og þangað um húsið, svo nú er orðið alveg afskaplega jólalegt hjá okkur :o)
Þar að auki ákvað ég að breyta til í stofunni því ég hef aldrei verið alveg nógu ánægð, svo ég snéri stofunni allri við og nú er ég mun sáttari. Þetta er miklu meira kósí eins og það er núna og mér líður betur að sitja kjurr þar inni með fæturna upp í loftið ;o)

Jæja, nú er víst best að koma sér í lærdóminn. Nóg eftir enn.
Jólafílingskveðjur frá Blákelduvegi