10 október 2008

Enn eitt bloggið í fjármálaumræðuna

Já er það ekki mál málanna í dag, fjármálakreppan á Íslandi. Hérna í háskólanum er þetta allavega mjög heitt mál og ég er búin að upplifa ansi mörg merkileg, skrítin og stórfurðuleg “comment”. En ég verð nú að segja að mér finnst umræðan hjá mörgum Íslendingum (sem betur fer minnihluta, en of mörgum þó) bæði heima og heiman vera mjög ómálefnaleg og til þess gerð að skaða enn frekar þá slæmu ímynd og það ástand sem orðið er. Fólk er farið að grípa slæman fréttaflutning á lofti og ræða þessháttar málefni sín á milli og segja öðrum fáfróðari frá. Væri ekki skynsamlegra að fólk settist aðeins niður, dregði djúpt andann og hugsaði sinn gang áður en það fer að bera út sögur sem eru hálfsannar og eru með til þess að gera enn erfiðara fyrir hjá þeim sem eru að reyna allt sitt til að bjarga málunum eins og hægt er.

En svona svo ég fái að vera aðeins með í því að benda á sökudólgi og reyna að finna blóraböggul þá langar mig til að spyrja, hvar eru þeir sem hafa eytt öllum peningum þjóðarinnar? Hvers vegna höfum við ekki heyrt eitt orð frá þeim sem hafa undanfarin ár keypt risafyrirtæki erlendis á lánum? Hversvegna höfum við ekkert heyrt í þeim mönnum sem hafa undanfarin misseri verið með margar milljónir í laun á mánuði og himinháa bónusa í ofanálag? Hvernig væri að athyglinni væri aðeins beint að þessum mönnum í stað þess að tala illa um íslenska ríkisstjórn og ráðherra sem þessa dagana vinna 24 stundir sólarhringsins hvern einasta dag til að leysa úr vandamálum sem örfáir ofurlauna-galgopar hafa skapað. Ég veit ekki betur en fyrir ca. einu ári síðan hafi Davíð Oddson sett út á þá Baugsfeðga fyrir ofurkaup í Bretlandi og varað við útrásinni. Þá var hann sagður svartsýnismaður og ofvarkár og það eina sem honum kæmi til væri að skemma fyrir aumingjans Jón Ásgeiri. Hann var hrópaður niður og skrifaðar endalausar greinar um hann í Baugsblöðunum, um það hversu ósanngjarn og vondur hann væri. Hvað er svo að gerast í dag? Það er því miður að koma í ljós að hann hafði rétt fyrir sér og þar af leiðandi er ríkisstjórn Íslands ásamt æðstu fjármálastofnunum að reyna að þrífa skítinn af gólfinu eftir skó ofurkaupmanna og oflaunafólks. En þrátt fyrir þetta eru alltof margir sem enn hrópa að honum og skamma hann fyrir að hafa ekki tekið hattinn ofan af fyrir þessum mönnum og lánað þeim hundruðir milljóna til að borga skuldir, sem hefði ekki dugað nema til örfárra vikna og þar með lofa þessum mönnum að komast enn lengar með áform sín um að græða allt sem hægt væri á okkur hinum.

Hversvegna er það, að menn sem hafa verið með milljónir í laun á mánuði og bónusa þar í ofanálag segja ekki orð þegar á öllu þessu stendur? Hvar eru allir þeir peningar sem þeir hafa tekið sér í laun? Ekki eru þeir á Íslandi, svo eitthvað hljóta þessir menn að hafa flutt af íslenskum peningum erlendis. Hvernig stendur á því að þegar lífeyrissjóðir og saklausir borgarar missa hálfu og heilu aleigurnar vegna nauðsynlegra ráðstafana ríkisins í uppkaup bankanna, þá standa þessir menn enn þann dag í dag moldríkir með stórar eignir í erlendum bönkum og fasteignum? Hversvegna eru þessir menn ekki látnir bera ábyrgð á gjörðum sínum og teknir til saka fyrir það sem þeir hafa gert? Hversvegna er ráðist á þá sem eyða öllum sínum tíma og allri sinni orku í það að reyna að bjarga þjóðinni frá gjaldþroti, en enginn virðist þora að spyrja spurninga um fyrrverandi bankastjóra og eigendur stórfyrirtækja eins og Baug? Eru allir strax búnir að gleyma hverjir það raunverulega voru sem eyddu peningunum okkar og tóku lán í nafni Íslands? Sem dæmi um erlenda fréttamiðla sem EKKI eru búnir að gleyma, þá er hér stórskemmtilegt viðtal norskrar fréttastöðvar við Má Másson forstöðumann kynningarmála Glitnis.




Til að rifja enn frekar upp, þá er hér enn eitt myndband um ofurjörfana og þeirra framkomu gagnvart íslenskum fyrirtækjum. Mér finnst persónulega að þetta myndband sýnir einkar vel hvernig hugsunarháttur þessara manna er og hversu mikið þeir hugsa um rassinn á sjálfum sér og ekkert annað.



Hvað varð um alla fjármunina sem tengdust FL group og þeim Baugsfeðgum, ég bara spyr?

Er ekki kominn tími til að við hættum að benda á ríkisstjórnina og Seðlabankastjórnina og reynum að eyða kröftum okkar í að sýna stuðning og samstöðu á hörðum tímum og reynum að sýna NATO þjóðunum, USA og öðrum þjóðum sem ekki vilja rétta hjálparhönd hversu sterk við raunverulega erum og að við erum enn harskeyttir víkingar sem látum ekki bugast þó aðeins á móti blási.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jess. Hvenær ætlarðu að bjóða þig fram? Bara svo maður geti kosið þig.
Ég bíð allaveganna spennt. ég held nú að fólk sé ekki búið að ná sér af sjokkinu því það sögðu allir ekki bara stjórnmálamenn að allt væri í lagi.Ég meina bankinn minn Landsbankinn sagði manni ekki neitt. Davíð Oddson sagði nú hlutina á mjög auðskýranlegan máta og þannig að maður skildi það sem Sseðlabankinn sagði. En það er allveg rétt að það ætti að tala meira um þá sem þegja þunnu hljóði og hafa flutt peningana okkar úr landi.
Kveðja Inga frænka

Nafnlaus sagði...

Mikið er ég sammála þessu bloggi Unnur, sagðir allt sem ég vildi sagt hafa og gott betur en það :).
Ég held að margir ættu alla vega að kynna sér málin betur áður en þeir í hamagangi gera þetta að persónuárás á Davíð og einstaklinga í ríkisstjórn sem vinna hörðum höndum þessa daganna til að bjarga því sem bjargað verður. Málið er bara að það er svo auðvelt að vera á móti án þess að vera málefnalegur.
kv. Íris

Nafnlaus sagði...

Ég verð nú bara að senda smá comment aftur. Núna á áðan þá sendi las ég það sem Björgólfur sendi starfsfólki Landsbankans og það sem fráfarandi bankastjóri Landsbankans sendi starfsfókinu. Björgólfur sagði að stjórnvöld hefðu ekki brugðist við nógu fljótt en bankastjórinn sem ég sá reyndar í viðtali í Kastljósi sagði að þetta hefðu verið margir hlutir en aðallega það að það var ekki nægilegur gjaldeyrisforði til í landinu. Manni virðist þetta vera svona eins og eins og dominos. Þeir hafa treyst á að geta tekið lán og fjármagna það svo með öðru láni. En HALLÓ er það ekki einmitt það sem ekki á að gera samkv. þessum spekingum?
Svo er Jón Ásgeir bara kominn til landsins með einhvern forríkan breta og það fer bara öll fjölskyldan ásamt honum í viðtal til viðskiptaráðherrans. Gott ef börnin hans og afi og amma og restin af familíunni var ekki með líka eða þannig. Humm. Jæja Unnur þá er maður búinn að ausa úr sér. En eitt enn. Svei mér þá ef maður hlustar á fréttamannafundinn með blessuðum forsætisráðherranum en þykir ykkur ekki gáfulegra það sem útlendingarnir spyrja um heldur en ísl. fréttamennirnir?

Kveðja Inga frænka

Nafnlaus sagði...

já, ég sá í dag viðtal í Silfri Egils við Jón Ásgeir (n.b. hann var sá eini af öllum stórlöxunum sem þorði að mæta, hinir voru of uppteknir) og mér bara blöskraði. Maðurinn vildi meina það að hann hefði bara stundað heiðarlega viðskiptahætti og hann bæri ekki (ásamt nokkrum fleirum) ábyrgð á því ástandi sem væri nú við lýði og byrjaði að nefna Freddie og Franny fasteignasjóðina í USA sem fóru á hausinn. Auðvitað veit ég að það var ekki honum að kenna, en ef þessir moldríku ævintýramenn hefði ekki verið að gambla með peningana, þá væri ástandið margfalt skárra hérna í dag. Það er ekki eingöngu hægt að kenna heimskreppunni um það sem er í gangi hérna. Annars er alveg ferlega sárt að sjá allan sparnaðinn manns fjúka út í veður og vind á nokkrum dögum. Allavega er það þannig að ef einhver stelur frá skattinum þá er hann settur í fangelsi, en því miður virðast sömu reglur ekki gilda um þá sem stálu frá allri þjóðinni, þ.á.m mér. Vildi helst sjá þessa gauka dúsa í jail-inu í smátíma svo þeir gætu hugsað sinn gang. Já og því miður heyrir maður alltaf fleiri fréttir af sjálfsvígum út af ástandinu og það er bara hryllilegt að fólk skuli ekki sjá aðra leið út úr þessu en að taka sitt eigið líf (og láta jafnvel sína nánustu um að sitja í súpunni í staðinn). Virkilega sorglegt.

Kveðja Andrea frænka, en er búin að kaupa sér rósrauð gleraugu og ætlar að reyna að vera eins jákvæð og mögulegt er.