08 febrúar 2007

Snjór snjór snjór

Úti er alltaf að snjóa, ekki gráta elskan mín þó þig vanti vítamín. Þú færð í magann þinn mjóa, melónur og vínber fín.

Já ég verð að segja að nú á þessi skemmtilegi lagatexti mjög vel við :o) Loksins kominn snjór aftur (sem ég er búin að bíða og bíða eftir afþví ég lennti bara í rigningu á Íslandi) og þá er ég veik og sit enn í rúminu :o( En vonandi getur allavega Gunnar Máni fengið að leika sér svolítið í snjónum með pabba sínum og notið þess.

Jæja ég fór í skoðun aftur í gærmorgun, fékk þessa líka yndislegu og æðislegu ljósu. Ekkert smá heppin. Þetta er ung stelpa sem er meira að segja búin að fara í ferð til Íslands til að kynna sér Hreyðrið í Reykjavík og MFS kerfið. Hún varð alveg brjáluð yfir því að læknarnir mínir skyldu ekki strax hafa sent mig áfram í svokallaða ælumeðferð sem er víst í boði hérna í Danaveldinu. Þetta virkar þannig að þú getur fengið að fara til þeirra 2 í viku svona 30-60mín í senn til að fá næringu í æð og þarft ekkert að leggjast inn eða neitt vesen. Henni fannst ekki gott að ég þyrfti að fara í frí til Íslands til að fá hjálp við uppköstunum og fannst ég vera búin að léttast alltof mikið. En sem betur fer var ég ekki búin að léttast núna síðan ég fór til læknisins heima en á móti heldur ekki búin að þyngjast aftur, stend bara í stað c.a. 3-4 kg undir því sem ég var þegar ég varð ólétt. En það er þó loksins komin smá kúla, svo það er hægt að sjá framan á mér að ég er ekki lengur kona einsömul :o) Allavega þá var æðislegt að komast til svona frábærrar ljósu og hún verður ljósan mín fram að fæðingu. Hún upplýsti mig líka um það að hérna á spítalanum er í boði að eiga í vatni og miðað við vatnsköttinn mig og hversu mikið ég notaði karið þegar ég var að eiga GM þá hugsa ég að ég láti slag standa og prófi vatnsfæðingu ;o)

Jæja nóg um það í bili. En semsagt er farið að kólna töluvert hjá okkur. Það er nú samt sem betur fer ekki neitt nístingskalt en verður þó kalt í íbúðunum þar sem Danir eru ekki jafn sniðugir og Íslendingar í húsabyggingum og steinullarnotkun. Þá hafa kertin komið sér vel því það er alveg ótrúlegt hversu vel og fljótt nokkur sprittkerti geta hitað upp eitt hús. Það er ágætt að sjá snjóinn þar sem ég á víst að verða gömul í næstu viku og hef aldrei á minni ævi upplifað snjólausan afmælisdag, heldur ekki eftir að ég flutti til Danmerkur ;o) Það verður spennó að sjá hvort snjórinn haldist svo lengi í þetta skiptið.

Frá skólamálum er voða lítið að frétta. Bara nóg að gera í lestri og undirbúningi. Lokaverkefnið er í samvinnu við fyrirtæki hérna sem heitir Energinet.dk og sér um allar háspennulínur og gaskerfi í Danmörku. Áhugasamir geta að sjálfsögðu kynnt sér málið inni á www.energinet.dk En verkefnið gengur semsagt út á svokallað State estimation sem við eigum að setja upp í SCADA kerfinu þeirra. Þar sem þetta er nokkuð þekkt vöktunarleið til að nota Scöduna, þó svo það sé ekki til staðar hérna í Danmörku, þá munum við reyna að bæta þetta kerfi sem er notað í dag með því að bæta við mögulegum mælingum frá svokölluðum PMU mælieiningum sem notaðar eru í sambandi við Wide Area Protection (WAP). Þessi mælitæki eru glæný og ætlum við að reyna að notast við complex mælingar á spennugildum í þeim stöðum sem mögulegt er og ætti það að gefa okkur möguleika á að bæta við hornaestimati fyrir spennuna í kerfinu í state estimation kerfinu í Scödunni. Þetta eru nýjar hugmyndir sem eru uppi til að fyrirbyggja collapse á stórum kerfum eins og gerðist í USA 2004 og í Evrópu 2006. Búið er að skrifa örfáar greinar á IEEE um hugmyndafræðina á bakvið þetta og vonumst við til að geta notfært okkur þær hugmyndir og reynt að koma þessu í framkvæmd þannig að þetta virki. Með þessu ætti að vera mögulegt að sjá fyrir þegar spennuhornin í hinum mismunandi rafölum byrjar að "drífa" frá hvort öðru, þ.e. fjarlægjast og mismunahornið að stækka meir og meir, sem er fyrsta merki um að eitthvað er að fara úrskeiðis í netinu. Því ætti að vera hægt að nota þær upplýsingar til að senda merki til annarra rafala á nærlyggjandi svæði og segja þeim að framleiða meira eða minna, eftir því hvort mismunahornið er jákvætt eða neikvætt. Allavega þá er þetta MEGA spennó og felur í sér GEÐVEIKA vinnu. State estimation er nefnilega ekkert nema stórir fylkjareikningar út frá mæligildum sem við þurfum að setja upp í MATLAB og koma svo inn í DIgSILENT. Sem sagt, spennó spennó vetur framundan :o)

Úff þetta er sko orðin frekar löng færsla í þetta skiptið, en ég ætla nú að enda þetta á því að benda ykkur á að kíkja á þessa hjartnæmu mynd og grein á Morgunblaði allra landsmanna: http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1252234 Takið eftir að þessir elskendur eru búnir að haldast í hendur í 5-6 ÞÚSUND ár. Hver segir svo að steinaldarmenn hafi bara dregið konurnar sínar á hárinu og barið þær með kylfum?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Uff já ég er sko innilega sammála þér með kuldann í húsunum. Um þessar mundir sit ég heima og læri og er að krókna úr kulda :p. En farðu nú að láta þér batna stelpa...þetta gengur ekki lengur ;).

Kveðja frá okkur á móti