17 maí 2007

Jói í lögguævintýri

Já, hann Jóhann fékk sko svolítið ævintýri hérna í gærkvöldi. Það var nú bara svoleiðis að við lánuðum Írisi og Björgvin bílinn okkar til að skreppa í bíó, á meðan ég sat og lærði heima hjá þeim svo krakkarnir væru nú ekki einir. Allavega þegar þau koma úr bíó þá láta þau mig vita að það sé greinilega búið að brjótast inn í einn bíl uppi á bílastæði, því það var búið að brjóta rúðuna í skottinu.

Ég sagði Jóhanni frá þessu þegar ég kom heim, og eins löghlýðinn og tillitsamur og hann er, þá gat hann ekki hugsað sér að fara að sofa án þess að hringja á lögguna og láta vita. C.a. 10mín seinna hringir löggan til baka í hann og spyr hvort hann geti ekki hitt sig uppi á bílastæði til að benda sér á bílinn (þetta var um hálftólf í gærkvöldi). Allavega hann fór upp á bílastæði og sá þá að búið var að brjóta rúðu í öðrum bíl (sem betur fer ekki okkar) og ákvað nú að bíða við þann bíl, sem var nær innkeyrslunni á bílastæðið og alveg í hinum endanum miðað við hvar fyrri bíllinn var staðsettur.

Á meðan hann stendur þarna og bíður eftir löggunni, þá sér hann hettuklæddan dreng ganga í áttina að bílnum sem hann stóð við, en í því keyrir lögreglan inn á planið og strákurinn tekur til fótanna og felur sig á milli bílskúra. Jóhann var nú ekki að pæla í þessu og sýnir lögreglumönnunum fyrri bílinn. Svo sér hann strákinn koma aftur úr felum og vera að flýta sér í áttina á fyrri bílnum og segir þá lögreglunni að þessi strákur hafi nú verið að labba í áttina til sín og flúið þegar þeir mættu á svæðið. Annar lögregluþjóninn hleypur þá að stráknum og fer að yfirheyra hann.

Allavega, á meðan biður hinn lögregluþjónninn Jóhann um að sýna sér hinn bílinn sem brotist hafði verið inn í (þann sem Íris og Björgvin höfðu séð) og ganga þeir saman af stað þvert yfir bílastæðið í áttina að bílnum. Þegar þeir byrja að nálgast fer stefnuljósið að blikka og gerði Jói ráð fyrir því að eigandinn væri mættur og væri að opna bílinn með fjarstýringunni. En svo þegar þeir komu nær bílnum fóru öll ljósin að blikka til skiptis og sitt á hvað, frekar undarlega. Svo Jóhann bendir löggunni á bílinn og segir eitthvað um að það líti út fyrir að einhver sé í bílnum. Löggan stoppar hann og hleypur sjálf af stað í átt að bílnum og fyrr en varir er hún búin að snúa niður tvo stráka og festa hendur þeirra fyrir aftan bak.

Þá voru þessir strákar inni í bílnum í fullri vinnu við að reyna að starta bílnum með því að tengja saman víra undir stýrinu (ekta bíómyndabílþjófnaður). Svo þarna var búið að handtaka tvo gaura og sá þriðji, frekar grunnsamlegur, í yfirheyrslu. Ekki vill betur til en svo að fleiri drengi ber að garði, sem fara að rífa kjaft við lögguna og spyrja hvað þeir séu að gera við litla bróður sinn og að þeir eigi ekkert með að vera að handtaka þá sem þá sátu, með hendur fyrir aftan bak, á götunni. Löggan sagði þeim að þetta kæmi þeim ekki við, en þeir hefðu verið að stela bíl og hinir ættu bara að koma sér í burtu.

Á þessum tímapunkti hafði Jóhann sem betur fer vit á því að setjast á hækjur sér í hvarfi við bílskúrana (enda var hann líka með hundinn sem þurfti að róa í öllum látunum). Á augabragði eru nefnilega enn fleiri komnir að, fullir og vitlausir krakkar sem greinilega eru að gera eitthvað af sér, og eru einhverjir farnir að atast í löggunni. Allavega vill ekki betur til en svo, að löggan kallar á aukabíl til aðstoðar og handtekur tvo gaura til viðbótar. En þar sem ekki var hægt að færa sönnur á að sá grunsamlegi sem var í yfirheyrslu hefði verið að gera eitthvað við hinn bílinn, þá varð að sleppa honum.

Svo þessi sakleysislega hjálp Jóa að hringja á lögguna, svo hún gæti nú hringt í eigendur bílanna, ef það skildi nú fara að rigna um nóttina (afþví rúðurnar voru mölbrotnar og bíllinn myndi rennblotna) endaði með því að hann kom upp um ekki bara skemmdarvarga heldur líka bílaþjófa, sem leiddi til útkalls tveggja lögreglubíla og handtöku fjögurra manna.

Sem betur fer komst betri helmingurinn minn nú vel frá þessu öllu og enginn af þessum gaurum uppgötvaði að hann ætti sjálfur bíl þarna á bílastæðinu, né hvar við búum. Þ.a. ekki ættu þeir að geta hefnt sín á bílnum okkar eða komið heim til okkar. Hinsvegar eru meiri líkur en minni, á að þeir þori ekki að mæta hingað í bráð og láti bílana á planinu í friði, þar sem nágrannavarslan er orðin svona góð :o)

Anyways, Jói góði samverjinn er hetja gærdagsins.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

jiminn eini tad er ekkert annad, gott ad joi slapp heill ur tessu ollu saman!
Loggukvedjur,
Magga

Nafnlaus sagði...

Vá, það er nú aldeilis. Unnur Stella, gafstu honum nokkuð hetjubúðing í kvöldmatinn?
Bara hasar og læti og alles.
Kv. Andrea.