25 maí 2007

Verkefni næstu vikurnar

Jæja þá eru gömlurnar mínar mættar á staðinn og sældarlíf tekið við. Eða það er, við gátum farið algerlega áhyggjulaus í skólann í morgun, án þess að þurfa að hugsa um litla prinsinn, getum bæði tvö setið eins lengi og við þurfum í skólastofunni og þurfum ekki að huga að kvöldmat :o)

Við hjónakornin ætlum reyndar að reyna að taka okkur eins mikið frí og við getum á morgun, þar sem það er síðasti dagurinn okkar með litla englinum okkar í heilan mánuð, úff hvað það er langur tími. En síðan taka 24 tíma lærdómsdagar við á sunnudaginn. Enda eru nú rétt tæpar 2 vikur í skil á lokaverkefninu, sem ég get með sanni sagt að er VÆGAST sagt frekar viðamikið. Við erum nú þegar komin með 250 blaðsíður og kennarinn okkar segir að það sé ekkert í því sem komið er, sem við getum sleppt, því allt sé þetta mjög “relevant” og greinilegt að við höfum unnið mikið í vetur (enda höfum við að meðaltali unnið í 10 tíma á dag, 7 daga vikunnar, í allan vetur).

Svo erum við krakkarnir í skólanum að skipuleggja “haldauppáskil” ferð þann 9. júní. En ef veður verður gott, hugsa ég að við skjótumst saman í dagsferð á ströndina í Blokhus eða Løkken (glöggir lesendur muna kannski að á síðasta ári skruppum við í strandferð til Skagen sem heppnaðist með eindæmum vel og komum við öll vel rauð úr þeirri ferð). Að þeirri ferð lokinni tekur svo við stífur undirbúningur fyrir mastersvörnina, en hún hefst þriðjudaginn 19. júní klukkan 08:30 :o)

Eftir þann 19. júní er svo frí og afslöppun og leti, þar til 29. júní, en þá set ég víst upp húfu og fæ afhendan skírteinispappír ;o)
Við Jóhann stefnum á að ná okkur í pínu ponsu frí saman (áður en prinsinn kemur) og svo lengi sem ég verð ekki farin upp á fæðingardeild, ætlum við okkur að skjótast til Köben 26-28. júní og njóta lífsins (og sækja drenginn okkar og foreldra mína á flugvöllinn þann 28. júní).

Jæja þá er dagskrá næstu vikurnar komin í loftið, svo best að halda áfram í skrifunum. Vona að ég hafi nú tíma svona endrum og eins (þegar ég á að vera að læra) til að skella inn einhverjum skemmtilegum fréttum. En yfir og út að sinni.

Engin ummæli: