17 júní 2006

Gleðilega þjóðhátíð

Já nú eru loks liðin 62 ár síðan við fengum langþráð frelsi frá vinum okkar Dönum. Að sjálfsögðu höldum við hér í Danaveldi þennan merka og frábæra dag hátíðlegan, líkt og Íslendingar allir. Við börðumst í mörg ár fyrir þessu frelsi okkar og eigum að vera stolt og hróðug af því að geta kallað okkur lýðveldið Ísland og standa bakvið draum okkar merkasta manns, þess sem var sverð okkar og skjöldur þegar við mest þurftum á að halda og eyddi fjöldamörgum ævidögum sínum hér í Danaveldinu. Að sjálfsögðu er ég að tala um þann merka mann Jón Sigurðsson sem var fæddur á þessum degi þann 17. júní 1811 á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Við eigum ekki að eyðileggja það sem við uppskárum eftir langa og stranga baráttu með því að "gefa" stóru þjóðunum í Evrópu auðlyndir okkar og land og ganga í Evrópubandalagið. Ísland hefur staðið sig frábærlega án þess hingað til og hefur mikla sérstöðu sem lítið velferðarríki í Evrópu. Hversvegna að gefa Englendingum sem við börðumst svo lengi við leyfi til að veiða okkar fisk og stela frá okkur lifibrauði okkar. Við eigum að standa vörð um það sem við höfum áunnið á síðustu 62 árum og njóta þess sjálf og lofa börnum okkar og barnabörnum að njóta þess líka, án afskipta annarra stórvelda. Því stend ég hnarreyst og stolt, í framandi landi, á þessum merka degi og hrópa húrra fyrir mínu landi, ÍSLANDI, og segi nei við Evrópusambandinu.

Engin ummæli: