10 júní 2006

Geggjaður dagur

Algerlega ólýsanlegur. Ég hef varla kynnst öðru eins veðri, nema bara á bestu sólarströndum. Hitinn á mælinum okkar fór yfir 28 gráður og er mælirinn staðsettur í skugga undir skyggni. Hitinn í sólinni var pottþétt yfir 30 gráðum.

Við byrjuðum daginn á því að leika okkur og njóta lífsins á dýnu í garðinum. Tókum svo saman nesti og teppi ásamt fötu og skóflu og hlóðum á okkur sjálf og hjólin. Við vissum að það ætti að vera einhver svona smáströnd og skógur hérna einhversstaðar í Aalborg Øst svo við hjóluðum af stað. Og omg. ég vissi að Álaborg væri falleg en ég hef aldrei komið í þessi frábæru hverfi hérna í útjarðrinum. Við hjóluðum í gegnum Utrup og eitthvað annað smáhverfi sem bæði hafa bara svona risa stór gamaldags hús. Í sama stíl og Amalíuborgarhöllin. Svona 3-4 stór löng hús á 1 hæð sem eru byggð í U eða í lokaðan hring. Yfirleitt hvít. Inni í miðju er risastórt plan með gosbrunni í miðjunni og svo þvílíkir garðar í kring. Með risa risa risa risa stórum trjám og blómum og rósarunnum og ég veit ekki hvað. Og það var ekki eins og það væri 1 eða 2 svona svaka stór og flott hús, heldur bara öll húsin í hverfinu. Alveg geggjað. Svo voru listigarðar í hverfunum með litlu vatni og göngubrú (svona eins og í grasagarðinum) og þessum svaka flottu eldgömlu trjám og blómum. Leiksvæði, afslöppunarsvæði og fullt af borðum til að sitja við auk rjóðra með grillum til að nota. Við eigum sko pottþétt eftir að hjóla þarna oftar og eyða sumardögum.
Þegar við hjóluðum útúr Utrup þá vorum við komin út úr Álaborg, sem er að sjálfsögðu borg úti á landi. Þá hjóluðum við á hellulögðum stígum á milli bóndabæja og kornakra. Svo komum við að Hesteskov sem er rétt fyrir norðaustan okkur (Tók okkur um 2 tíma að hjóla með þessum útúrsnúningum í hverfin, tók ekki nema 30 mín að hjóla heim). Þetta er svona skógur alveg við Limafjörðinn, svo við gátum vaðið í sjónum (margir að synda, frekar heitur sjórinn) svo borðuðum við nestið okkar. Þarna er líka tjaldstæði og hægt að grilla og að sjálfsögðu bekkir og borð útum allt. Vorum þarna til ca. 17 en þá hjóluðum við heim á leið til að elda. Grilluðum svo í algerri steik og borðuðum úti, og ég sit enn úti. Sólin er komin á bakvið húsið hennar Írisar (sem hún flytur í í sumar) og þessvegna er orðið svo kalt að ég var tilneydd að fara í stuttermabol :o)
Annars dæmi um það hvað er heitt hjá okkur, við grilluðum í gærkvöldi, um klukkan hálfsjö, og svo áðan þegar við ætluðum að grilla hreinsuðum við auðvitað og hentum gömlu kolunum í poka, sem kviknaði í því það var ennþá glóð í kolunum frá í gærkvöldi (sólarhring seinna).
Stefnum mögulega á ströndina í Blokkhus á morgun.

Læt nokkrar myndir frá deginum fylgja með

Lystigarður í Utrup

Við mæðgin að vaða

Litli snáðinn að moka sand

Grillað heima að loknum góðum degi


Bruninn kolaruslapoki

2 ummæli:

Lara Gudrun sagði...

Geggjað! Frábært að heyra að ykkur líður vel :)
Sendið endilega sól í poka heim til íslands... hérna rignir og rignir.. bara ekki nota brennda kolapokann.. þá lekur sólin öll úr :)

Unnur Stella sagði...

puha já ég skal sko alveg senda smá af þessari sól og þessum hita til ykkar. Við erum að deyja og meikum ekki meir. Gæfi mikið fyrir bara 25 gráðu hita. Þetta yfir 30 stig í marga daga í röð er ekki alveg að gera sig. Við erum öll orðin rauð og bleik og flekkótt að lit. Þó svo maður noti sólarvörn númer 30. Og ég skal nota þann þéttasta og besta poka sem ég get fundið til að senda ykkur svona c.a. 5 gráður og sól ;o)