04 apríl 2008

Heimsókn í höll

Góðan daginn góðir hálsar.

Jæja best að reyna að koma með nýjan pistil um það sem hefur á daga mína drifið.
En eins og venjulega þá hefur verið alveg nóg að gera undanfarið.

Síðustu helgi fór ég í fyrsta skipti frá litla örverpinu mínu yfir nótt. Ég skrapp nefnilega í vinnu/skemmtiferð í kastalann Dronninglund Slot sem er hérna dálítið fyrir norðan Álaborg. Þetta var nú þannig að í janúar var sett á fót nýsköpunarkeppni. Fyrsta skref þá var að sækja um sem hópur (minnst 4 í hóp) þar sem þurfti að gefa upp meðmæli og hvernig nám og vinna hefur gengið undanfarin ár. Þetta gátu masters og doktorsnemar hvar sem er í Danmörku og í hvaða námi sem er sótt um, en þó var sagt að verkefnin miðuðust við stjórnun og stýringu stórfyrirtækja. Ævintýraþráin hérna á göngunum gerði vart við sig og ég, Uffe, Mihai og Loredana ákváðum að prófa að sækja um, þó við séum öll LANGT FRÁ viðskipta/stjórnunar/stýringar námi og kunnum afar lítið á því sviði. En til að gera langa sögu stutta, þá vorum við svo heppin ásamt 36 öðrum að vera valin úr 150 manna hóp til að fá að taka þátt í nýsköpunarkeppninni sjálfri, sem svo var haldin síðustu helgi í Dronninglund Slot.

Anyhow.....á fimmtudaginn síðasta fengum við verkefnið okkar og áttum við að vinna að verkefni fyrir Lego varðandi supply chain. Þeir þurfa að lagfæra supply chain hjá sér, því Lego er fyrirtæki sem selur 80% af varningnum yfir einungis 100 daga (síðustu 100 dagana fyrir jól). Þeir hanna, framleiða og pakka næstum allt sjálfir en eru þó með samning við eitt "supply" fyrirtæki sem sér um ísteypun og pökkun á nokkrum tegundum legokubba. Það sem Lego þarf samt að geta gert, er að geta séð fyrir strax í febrúar hvaða bíómyndir og fígúrur verða vinsælastar í desember, meira en hálfu ári síðar, til að geta framleitt allt saman í tíma fyrir jól. Þar sem þetta er ofsalega erfitt (allir sem eiga börn vita hversu fljótt áhugasvið barna breytist) vildu þeir geta lagað supply chain hjá sér, svo þeir þurfi ekki að hefja framleiðslu jafn snemma en geti framleitt meira magn á styttri tíma.

Á föstudagsmorguninn fórum við svo með rútu sem leið lá norður úr og vorum komin í Dronninglund Slot rétt um klukkutíma síðar. Við fengum öll svítur til afnota (enda vissu þeir hversu lítið yrði um svefn svo herbergin voru nú ekki mikið notuð). Fyrir utan frítt ferðalag, frí rosa flott herbergi fengum við líka frítt fæði sem samanstóð af morgunverðarhlaðborði, hádegisverðarhlaðborði, miðdegiskaffi með kökum, 3 rétta kvöldverð með gosi, hvítvíni og rauðvíni, kvöldkaffi og nætursnakki (nammi). Það voru haldnir margir skemmtilegir fyrirlestrar á vegum fólks í hinum ýmsu geirum. Þó voru flestir að kenna okkur að tala og ná áhuga fólks, því í enda helgarinnar áttum við að SELJA hugmyndina okkar með poster framsögn.

Allavega helgin gekk flott og við unnum myrkranna á milli (sem og allir aðrir keppendur). Okkur tókst nú ekki að vinna, enda voru sigurvegararnir útlærðir innan sviðsins og voru með ofsalega góðar supply chain hugmyndir fyrir sín fyrirtæki (Grundfoss, Bang & Olufsen, Velux). Við hinsvegar komumst ekki alveg úr verkfræðigírnum og einblíndum ekki bara á markaðsvandamálið, heldur komum með tillögu að nýrri "uppfærðri" tegund á legokubbum. Fyrirtækið sjálft var alveg brjálað í þessa hugmynd okkar (sem ég ætla ekki að útlista hér á hinum opna veraldarvef), þar sem Lego verður 50 ára á þessu ári og einkaleyfið er því á enda runnið. Þar sem í lok árs eða byrjun næsta allir verða farnir að framleiða legokubba eins og við þekkjum þá í dag, þá komum við með lausn sem Lego gæti vonandi nýtt sér sem "nýja" tæknihönnun til að halda yfirburðum, án þess þó að skemma útlitið á kubbunum (þ.e. nýju kubbarnir eiga að passa saman við þá gömlu, eins og alltaf hefur verið).

En sumsé þetta var alveg frábær helgi, þó það verði að viðurkennast að ég var ANSI þreytt þegar heim kom (enda var unnið til 3/4 á nóttunni og vaknað 6:30 til að byrja aftur). Drengirnir mínir stóðu sig vel einir hjá pabba og var brjóstanna minna ekkert saknað :o( Þó sá stutti var ansi glaður að fá mömmu og mjólkurbrjóstin aftur heim.

Fleira að frétta:
1 - Nei ég er ekki hætt í PhD námi (þetta var bara aprílgabb og ég náði að láta ANSI marga hlaupa apríl).
2 - Haldinn var mikill matar og skvaldurklúbbur í gær þegar saumaklúbburinn minn hittist heima hjá mér í alltof marga heita rétti, alltof margar kökur og alltof mikið nammi.
3 - Von er á góðum gesti síðar í dag, þegar hún Sæunn Sunna "litla" frænka kemur til að eyða nokkrum dögum með okkur. Mikil tilhlökkun þar og skipulag um hvað eigi að gera með þeirri ungu tilvonandi móður.


Dronninglund Slot

Eitt herbergjanna

Hópurinn og verkefnið

Kofi úr nágrenni hallarinnar

Lækur úr nágrenni hallarinnar

Hallarkirkjan


Engin ummæli: