28 september 2007

Óþverrafólk

Já því miður er til alltof mikið af óþverrafólki í þessum annars ágæta heimi.

Dagurinn í gær var ósköp venjulegur og skemmtilegur dagur að mörgu leiti. Það óvanalega var að ég var með bílinn þar sem við Mummi vorum á leið í mömmó til Fríðu sem býr í litlum bæ hérna rétt fyrir sunnan Álaborg, annars er Jói venjulega akandi og ég labbandi með vagninn. En þennan daginn fórum við í mömmó og skemmtum okkur konunglega. Það var myndatökudagur í mömmó svo ég var með myndavélina mína með og tókst að klára rafhlöðuna í öllu myndavélastússinu. Svo þegar ég kom heim tók ég rafhlöðuna úr vélinni og skellti í hleðslu. Svo fór ég að gefa litla prinsinum mjólk í mallann sinn og Máni minn var að leika sér á meðan. Við vorum heima að dúlla okkur þrjú saman alveg til klukkan 17:00 þegar við fórum af stað til að sækja heimilisföðurinn. Rétt rúmum klukkutíma síðar runnum við öll fjölskyldan í hlað og ætluðum okkur að setjast niður við rólega og skemmtilega kvöldmáltíð. En það var nú ekki svo einfalt. Við komum heim, í okkar eina traustasta athvarf, að opnu húsi. Það voru einhverjir óþokkar búnir að spenna upp glugga í gestaherberginu og brjótast inn í okkar hús, okkar athvarf.

Ég get ekki einu sinni líst því hversu óþægileg tilfinning það er, að vita af einhverjum gaurum inni hjá þér og búnir að fara í gegnum dótið þitt. Það var búið að opna alla skápa og skúffur og fara í gegnum öll fötin okkar, meira að segja nærföt og sængurföt. Það var meira að segja búið að fara í gegnum rúmið okkar. Þessir óprútnu gaurar höfðu á brott með sér að minsta kosti 2 fartölvur frá okkur, digital myndavélina okkar (með kortinu með myndunum frá mömmuklúbbnum), vídeókameruna okkar, sparibaukana hans Gunnars Mána og ALLA skartgripina okkar. Já þeir tóku meðal annars fermingarhringana mína, hálsfestina sem Jói keypti handa mér í siglingunni á Karabíska hafinu og ég var með í brúðkaupinu okkar, morgungjöf Jóa frá mér sem var gamaldags gullúr með keðju áletrað með nöfnunum okkar og brúðkaupsdagsetningu, ásamt miklu fleiri tilfinningalegra skartgripa sem verður aldrei bætt.

Ég hringdi í tryggingafélagið í morgun og komst að því að við erum sem betur fer að fullu tryggð og þurfum bara að fylla út eyðublað með öllu því sem vantar og hefur verið tekið.

Svo nú erum við skíthrædd og þorum ekki að skilja húsið eftir autt ef þeir skildu koma aftur til að sækja það sem þeir náðu ekki að hafa með sér á brott. Sperrur verða settar á alla glugga í dag ásamt öryggiskerfi.

Set inn stolna mynd frá Dóru, þar sem ég á engar myndir frá mömmó.

Kveðja frá Unni Stellu varnarlausu


Frá vinstri: Eiríkur, Helen María, Halldór, Emelía, Katla María, Baldvin Már, Rafn Kristinn, Reynir Þór og Guðmundur Magnús

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já það leynist sko ömurlegt lið innan um alla ljúflingana, hrikalegt að lenda í þessu.

Nafnlaus sagði...

Þetta er alveg ömurlegt.

Vonandi nær löggann þjófunum fljótt. Bara verst hvað þessir andsk.... eru fljótir að losa sig við þýfið, því ekki er hægt að bæta tilfinningalegahluti eins og skartgripi og myndir svo ég tali nú ekki um miklivæg gögn í tölvunni :(

Það er þó smá sárabót að þið fáið bætt úr tryggingunum.

Kv. Andrea.

Nafnlaus sagði...

Þúveist, HALLÓ!! -sparibauka- Hversu mikill bjáni þarf maður að vera til að stela sparibauk frá litlum krakka?!

Nafnlaus sagði...

Þvílíkir aumingjar. Þetta á bara ekki að geta skeð. Aumingja þið. Gott að þið fáið þetta bætt úr tryggingunum þó að það bæti auðvitað ekki upp það sem glataðist eins og öryggistilfinninguna. Ég vona samt að hún komi til baka sem fyrst.
Bestur kveðjur Inga frænka

Nafnlaus sagði...

Æi þetta er hrikalegt að heyra. Þótt tryggingarnar bæti fjárhagslegan skaða þá hafa hlutirnir tilfinningalegt gildi sem aldrei verður bætt og fyrir utan öryggistilfinninguna sem er horfin, eins og þú minnist á. Knús til ykkar allra.

Nafnlaus sagði...

Jesús!!
Þetta er hrikalegt!

Nafnlaus sagði...

Ótrúlega leiðinlegt að þið lentuð í þessu. Ég get ekki ímyndað mér hve ógeðslegt það væri að eitthver bófi rótaði í öllu dótinu mínu. Ég vorkenni ykkur mikið, þetta er allveg hrikalegt.
En gangi ykkur allt í haginn.
kveðja Guðrún Rósa