Já því miður er til alltof mikið af óþverrafólki í þessum annars ágæta heimi.
Dagurinn í gær var ósköp venjulegur og skemmtilegur dagur að mörgu leiti. Það óvanalega var að ég var með bílinn þar sem við Mummi vorum á leið í mömmó til Fríðu sem býr í litlum bæ hérna rétt fyrir sunnan Álaborg, annars er Jói venjulega akandi og ég labbandi með vagninn. En þennan daginn fórum við í mömmó og skemmtum okkur konunglega. Það var myndatökudagur í mömmó svo ég var með myndavélina mína með og tókst að klára rafhlöðuna í öllu myndavélastússinu. Svo þegar ég kom heim tók ég rafhlöðuna úr vélinni og skellti í hleðslu. Svo fór ég að gefa litla prinsinum mjólk í mallann sinn og Máni minn var að leika sér á meðan. Við vorum heima að dúlla okkur þrjú saman alveg til klukkan 17:00 þegar við fórum af stað til að sækja heimilisföðurinn. Rétt rúmum klukkutíma síðar runnum við öll fjölskyldan í hlað og ætluðum okkur að setjast niður við rólega og skemmtilega kvöldmáltíð. En það var nú ekki svo einfalt. Við komum heim, í okkar eina traustasta athvarf, að opnu húsi. Það voru einhverjir óþokkar búnir að spenna upp glugga í gestaherberginu og brjótast inn í okkar hús, okkar athvarf.
Ég get ekki einu sinni líst því hversu óþægileg tilfinning það er, að vita af einhverjum gaurum inni hjá þér og búnir að fara í gegnum dótið þitt. Það var búið að opna alla skápa og skúffur og fara í gegnum öll fötin okkar, meira að segja nærföt og sængurföt. Það var meira að segja búið að fara í gegnum rúmið okkar. Þessir óprútnu gaurar höfðu á brott með sér að minsta kosti 2 fartölvur frá okkur, digital myndavélina okkar (með kortinu með myndunum frá mömmuklúbbnum), vídeókameruna okkar, sparibaukana hans Gunnars Mána og ALLA skartgripina okkar. Já þeir tóku meðal annars fermingarhringana mína, hálsfestina sem Jói keypti handa mér í siglingunni á Karabíska hafinu og ég var með í brúðkaupinu okkar, morgungjöf Jóa frá mér sem var gamaldags gullúr með keðju áletrað með nöfnunum okkar og brúðkaupsdagsetningu, ásamt miklu fleiri tilfinningalegra skartgripa sem verður aldrei bætt.
Ég hringdi í tryggingafélagið í morgun og komst að því að við erum sem betur fer að fullu tryggð og þurfum bara að fylla út eyðublað með öllu því sem vantar og hefur verið tekið.
Svo nú erum við skíthrædd og þorum ekki að skilja húsið eftir autt ef þeir skildu koma aftur til að sækja það sem þeir náðu ekki að hafa með sér á brott. Sperrur verða settar á alla glugga í dag ásamt öryggiskerfi.
Set inn stolna mynd frá Dóru, þar sem ég á engar myndir frá mömmó.
Kveðja frá Unni Stellu varnarlausu
