11 janúar 2009

Helgin liðin

Þá er enn ein helgin liðin og styttist í að þessi fyrsti mánuður ársins 2009 sé hálfnaður. Við fjölskyldan á Blákelduveginum höfum notað helgina í leti og afslöppun. Fyrripartur laugardagsins fór í allsherjarþrif þar sem skápar, veggir og loft voru þrifin. Og baðherbergin tekin algerlega í gegn. Prófaði smá heimagerða blöndu til að þrífa baðherbergisveggi og glugga; blandaði ediki, sítrónu og heitu vatni. Þetta alveg svínvirkaði og nú er glugginn við sturtuna tandurhreinn loksins :o)
Restin af laugardeginum fór svo í smá verslunarleiðangur þar sem verslaðar voru útsölubuxur á frumburðinn okkar og svo ísskápurinn fylltur. Föstudagskvöldið var reyndar „hygge“ dagur með Mánanum okkar þar sem við tókum mynd með Dr. Seuss, „Horton hears a Who“. Við sátum þrjú (sá minnsti fór í rúmið) með súkkulaði m&m og horfðum saman á vídeó. Honum fannst það alveg geggjað og fór þreyttur og glaður í rúmið um 20:30. Mjög gott kvöld. Laugardagskvöldið var svo „hygge“ dagur fyrir okkur hjónin og fóru því drengirnir báðir í rúmið um 19 eins og venjulega. Okkur langaði nú pínulítið út að skemmta okkur en sökum barnapíuleysis þá létum við bara skemmtilegheitin koma til okkar og blönduðum okkur margarítu og dreyptum á hvítvíni yfir spilum. Planið var að spila Settlers enn eina ferðina en þar sem Jóhanni hefur gengið afskaplega illa í því spili (hihihihi ég hef ALLTAF unnið hann) þá var samið um að spila Hringadrottinsspilið í staðin. Svo Jóhann fékk að vera Fróði og ég lék Sám. Spilið gekk mjög vel, þartil við komum í Mordor, en þá fékk Sauron hringinn og við urðum að sætta okkur við tapið enn eina ferðina :o) Við hættum því bara spilamennsku eftir þetta tap okkar gegn myrkrahöfðingjanum og settum nýjustu seríuna með Battlestar Galactica í sjónvarpið. Kvöldið var alveg frábært og það voru mjög þreytt og sátt hjón sem skriðu inn í rúm seint og um síðir :o)Annars, ef það er einhver að velta fyrir sér afmælisgjöfum á þessu árinu. Þá er hæst á óskalistunum okkar bæði Dagvagtin og nýlegt Trivial Pursuit. Viljum ekki kaupa spurningaspil á dönsku :o)
Annars eru í þessari vikunni liðin heil 4 ár síðan við fluttumst til Danaveldis, til þess að dvelja hér í 2 ár á meðan ég lyki við masterinn minn. Ég man það að um þessar mundir fyrir 4 árum síðan vorum við hjón með litla 2 mánaða prinsinn okkar flutt heim til mömmu og pabba og búin að koma búslóðinni okkar í gám til brottferðar örfáum dögum síðar. Við vissum ekkert um Álaborg eða íbúðina sem við vorum að flytja í. Höfðum séð grunnteikningu á heimasíðu á internetinu og vorum með heimilisfangið skrifað niður á blað. Við þekktum engan sem bjó hérna í Álaborg og höfðum ekki hugmynd um hvar skólann væri að finna. Vorum með 70kg farangur fyrir okkur 3 til að nýta fyrstu 2 vikur dvalar okkar á nýjum stað, næstum allt barnadót fyrir litla prinsinn en einnig tvenn sængurver (ekki sængur) og tvo kodda auk uppblásanlegrar dýnu sem reyndist svo vera með gati, svo við sváfum á gólfinu þar til við gátum keypt okkur ódýran svefnsófa til að nota þartil búslóðin okkar kæmi. Svo var það vagninn sem Máninn okkar fékk að sofa í, en fyrsti hluturinn sem við keyptum í litlu íbúðina okkar í miðbæ Álaborgar var barnarúm með öllu tilheyrandi (kostaði næstum því aleiguna okkar) :o) Þegar við mættum í íbúðina okkar var ekki til klósettpappír og einungis ljós yfir speglinum á baðinu og yfir eldavélinni. Það var heldur enginn stóll, svo ég sat á klósettinu í brjóstagjöf. Það var ca. 8 gráðu frost og myrkur þegar við stigum úr lestinni í Álaborg og við vorum næstum því ótalandi á dönskunni. Við vorum ekkert búin að borða næstum allan daginn, því það er ekki hægt að kaupa neinn almennilegan mat í lestinni frá Kaupmannahöfn og sú lestarferð tók okkur um 6 klukkustundir. Svo það voru stressaðir, þreyttir, svangir og hræddir ungir foreldrar sem gengu í 2 klst seint að kvöldi til um allt nánasta nágrenni til þess að finna Statoil bensínstöð þar sem hægt var að kaupa klósettpappír, brauð og ávaxtasafa. Þrátt fyrir allar mótbárur á þeim tíma, þá höfðum við nú hvert annað og reyndum að brosa gegnum tárin, enda voru það bara fyrstu 2 vikurnar sem reyndust erfiðar. Þegar bjartsýnin hafði komið okkur í gegnum þessa fyrstu 14 daga, þá var öll okkar tilvera upp á við eftir það. Aðstæður okkar hafa breyst allverulega síðan þessa fyrstu daga, en í dag eigum við yndislega vini (bæði danska og íslenska) hérna úti og höfum gert okkur gott heimili, þekkjum umhverfið mjög vel og erum ágætlega spræk í tungumálinu. Enda erum við mjög sátt og hamingjusöm, þó við séum einnig mjög viss á því að halda heim þegar við loks fáum nægju okkar af skólabókum (hvenær sem það nú verður) :o)
Nú er víst kominn tími á hvíld þar sem morgundagurinn er fullbókaður með prófayfirsetu. Ég þarf að sitja yfir í munnlegu prófi hjá 15 fyrstu annar mastersnemum í háspennuverkfræðinni.
Svo yfir og út frá okkur hérna á Blákelduveginum






Stofan okkar á fyrsta íverustað í Álaborg


Máni rétt rúmlega 2 mánaða

Fína rúmið fyrir prinsinn, keypt fyrir aleigu foreldranna (hefur nýst mjög vel, enda notar litli prinsinn nú þetta rúm og sá eldri er komin í enn fínna rúm)


Mamman að gefa brjóst í stólalausri íbúð (nú er allt yfirfullt af stólum hjá okkur svo stundum veit ég ekki hvar á að koma þeim fyrir. Er meira að segja með 8 auka stóla úti í geymslu. Ætli maður hafi litast af stólaleysinu fyrstu vikurnar)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ, var að kíkja á síðuna en hef ekki kíkt í dálítinn tíma og svo segistu vera löt að blogga þegar það er fullt fullt af nýjum færslum. Ekki er ég svona dugleg að blogga fyrir synina mína. Reyndar er ég að reynda að flokka marga mánuði af myndum og vonandi tekst mér að losna við gömlu syndirnar í janúar (já ég er að flokka maí 2008, en ég hf það líka mér til málsbóta að ég gat lengi vel ekki sett inn myndir því síðan var biluð og svo eyðilagðist tölvan mín þannig að myndirnar sem ég var búin að flokka týndust - en sem betur fer ekki upprunalegu myndirnar sem voru geymdar annars staðar).

En allavega gangi þér vel í ræktinni og ég held að þú þurfir ekki að kvarta undan bloggleysi.

Gleðilegt nýtt ár.
Andrea og strákarnir.

Nafnlaus sagði...

Já þið hafið aldeilis komið ykkur vel fyrir í Álaborg og ekki annað hægt en að brosa nú að sögunni um fyrstu dagana þar. Minnir svolítið á fyrstu daga mína í Florida, en sem betur fer upplifðum við þetta ekki hér í Edinburgh. Best finnst mér þó að heyra að þið eruð enn jafn staðföst að fara heim til Íslands að loknu námi. Því að þótt að okkar "ástkæru pólítíkusar og auðmenn" hafi nánast sett landið á hausinn, og ekki enn axlað ábyrgð, þá er það landið okkar og í raun hvergi betra að vera.