16 janúar 2009

Lífið er dásamlegt

Ég eeeeeeeeelska vinnuna mína. Það er svo margt annað sem ég gæti verið að gera og myndi skila inn mun fleiri aurum, en ég myndi án þess að blikna fara í gegnum erfiðari kreppu og eiga enn minna en ég á í dag, bara ef ég gæti verið í þeirri vinnu sem ég er í. Hver dagur gefur mér eitthvað nýtt að kljást við og ný ævintýri gerast í hverri viku. Ég þeytist á milli landa, hef möguleika á að fljúga með þyrlum og hitta nýtt fólk alls staðar að úr heiminum. Deila mínum hugleiðingum og læra af færasta fagfólkinu. Láta aðra hlusta á heimsku hugmyndirnar mínar, sannfæra fólk um að það sé sniðugt að eyða fjármunum og tíma í að rannsaka það sem mér finnst spennandi og svo nýt ég þeirra forréttinda að taka þátt í að leysa hugmyndir og vinna að verkefnum sem snjöllustu samtímamenn mínir finna upp á. Ég eyði deginum í að grúska og blanda saman aldagömlum reglum og hefðum saman við nýjar hugleiðingar og greinar sem jafnvel eru óútgefnar. Ég hef möguleika á að vinna við hluti sem enginn hefur áður skoðað og ég hef möguleika á að strita við vandamál sem menn hafa kljást við í tugir jafnvel hundruðir ára. Þegar vel gengur, get ég verið ein af þeim sem finna upp hluti eða verið ein af þeim sem vinna að lausnum til að betrumbæta heiminn okkar. Aftur og aftur undanfarið hef ég verið að koma með hinar undarlegustu hugmyndir og skrítnar getgátur og fólk um allan heim er farið að hlusta og velta spurningum mínum fyrir sér og búið er að ákveða að nota gríðarlega fjármuni og marga menn í að reyna að leysa getgátu sem ég kom með nú í lok síðasta árs. Það er ekkert skemmtilegra og hvern dag nýt ég þeirra forréttinda að vakna, kyssa dásamlegu fjölskylduna mína og láta mér hlakka til að mæta í vinnuna. Langflesta daga er svo gaman að ég algerlega gleymi mér í heimi bóka og spennandi fræðirita svo verður að minna mig á hádegismatinn og oft þarf ég að setja ámynningu í tölvuna þegar klukkan fer að nálgast lok vinnudags, annars gæti ég stundum einfaldlega setið endalaust án þess að borða, drekka eða sofa. Ég vona af öllu mínu hjarta að ég geti að lokinni doktorsgráðu haldið áfram þessum ferli mínum sem áhugagrúskari og vandamálauppfinnandi :o)

Svona í dapurleika vetrarins og þunglyndi kreppunnar, þá verð ég að deila með ykkur hversu lífið er dásamlegt. Munið bara öll að hugsa ekki um hversu erfiðir tímarnir eru eða hversu svart útlitið er. Hugið frekar að góðu hlutunum og hvert öðru.

Ég er nefnilega ekki nema 28 ára og ég verð að segja að ég á næstum hið fullkomna líf (þrátt fyrir kreppu og peningaleysi). Ég ELSKA vinnuna mína og mér finnst gaman að vakna á morgnana og takast á við nýjan vinnudag. Vegna þessa áhuga míns tel ég sjálfri mér trú um að mér takist ágætlega upp í því sem ég tek mér fyrir hendur og er nokkuð kát með árangur hvers vinnudags.

Ég á mér æðislegt áhugamál sem ég get notað til að sýna mínum nánustu hversu vænt mér þykir um þá. Mér finnst gaman að sitja og búa til hluti í höndunum og ég reyni að nýta lausu tímana til þess að baka brauð fyrir fjölskylduna svo allir séu sáttir og saddir og til að hanna og sauma eitthvað skemmtilegt bæði til að gleðja mitt hjarta og minna nánustu.

Ég á yndislegasta mann í heiminum. Hann er tilbúinn til að fórna öllu og gera ALLT bara svo ég geti látið mína drauma rætast (og hann setur eiginlega alltaf niður klósettsetuna). Hann var tilbúinn að hætta í vinnu sem hann var ánægður í og flytja með frumburðinn burt frá sínum nánustu, bara svo ég gæti lært það sem mig langaði til. Hann sýndi mér allan stuðning og hjálpaði ólýsanlega mikið þegar mig langaði í áframhaldandi meira nám með einungis 4 vikna gamalt barn (og hann sjálfur kominn í erfitt verkfræðinám). Hann spurði einskis og brosti þegar ég þurfti að fara frá í 3 vikur og skilja hann einann eftir með börnin tvö, mitt í mikilli verkefnavinnu hjá honum. Honum fannst það ekkert nema sjálfsagt og hann er alltaf tilbúin að styðja við bakið á mér og veita mér alla þá hjálp og þá aðstoð sem á þarf að halda þegar mér dettur í hug að ferðast eða gera eitthvað annað starfstengt og hann biður aldrei um neitt í staðin, er bara til staðar þegar ég þarf á því að halda. Ég get alltaf stólað og treist á hann og hann fylgir mér í einu og öllu alveg sama hverju ég tek upp á. Ég á fallegasta og besta mann sem til er.

Ég á tvo dásamlegustu syni sem nokkur móðir getur óskað sér. Í mínum augum eru þeir fallegustu og gáfuðustu börn í öllum heiminum. Þeir eru óendanlega þolinmóðir gagnvart útrásasemi móðurinnar og eftir langar fjarverur er ekki spurt hversvegna ég fór frá þeim, heldur er sagt "en hvað við erum glaðir að sjá þig aftur".

Ég á bestu foreldra sem nokkur getur hugsað sér. Í gegnum alla mína súru og sætu stundir hafa þau alltaf verið til staðar og stutt mínar furðulegustu ímyndanir. Hrósað mér þegar ég gat klappað, huggað mig þegar ég fékk skrámu, kysst mig þegar ég gat skrifað, hlustað á mig þegar ég gat talað og spurt ENDALAUST, hughreyst mig þegar ég mér leið illa, þolað mig í öllu mínu prófstressi og prófpirring, tekið utan um mig þegar eitthvað bjátaði á og montað sig af mér þegar vel gekk. Foreldrar mínir eru ótrúlegir og eiga mikið hrós skilið fyrir uppeldið á okkur systkinunum, sem eigum öll frábært líf og höfum öll með tölu látið okkur farnast vel sem ég er ekki í nokkrum vafa um að er að stórum hluta okkar æsku og okkar uppeldi að þakka.

Ég á sterkustu og bestu stóru bræður sem nokkur stelpa getur átt. Alltaf hafa þeir verið til staðar. Alltaf hafa þeir treist mér fyrir öllu, meira að segja augasteinunum, börnunum, sínum. Þeir myndu gera allt til að vernda litlu systur og eiga miklar þakkir skildar fyrir að þola litlu systur sína og fyrir að standa við bakið á mér alla tíð. Fyrir að vernda mig og fyrir að sýna mér hversu stórir og sterkir þeir eru. Þeir eru bestu bræður í heiminum.

Ég á fallegustu og ljúfustu systur í heimi. Það eru ekki til fegurri konur en stóru systur mínar. Þær hafa alltaf verið til að kenna mér um undraheim kvenna og reyna að hjálpa mér að finna kvennlegu hliðina í nördaheimi mínum. Þær pössuðu upp á að ég fengi háhælaða skó þegar mamma taldi mig of unga, þær kenndu mér að mála mig og þær tóku mér opnum örmum sem ungling að ferðast um hinn stóra heim. Þær hafa alltaf stutt mig og verið til staðar þegar á þarf að halda. Þær eru bestu systur í heiminum.

Ég á frábæra tengdafjölskyldu. Aldrei hef ég fundið það sem alltaf er gert grín af með tengdafjölskyldur og alltaf hefur mér verið tekið opnum örmum. Ég á algerlega heima í tengslaböndum tengdafjölskyldunnar og hún hefur tekið mér sem annarri dóttur, en ekki sem eiginkonu mannsinns míns.

Ég á hjálpsömustu vini sem til eru. Ég á vini sem eru tilbúnir að hlaupa undir bagga hvenær sem er og hjálpa til þó það þýði að þeirra föstudagshvíld þarf að bíða í heila viku í viðbót. Ég á vini sem alltaf eru í kallfæri þegar á bjátar eða einveruleikinn er á næsta leiti og ég á vini sem alltaf muna eftir að spyrja hvernig gangi og hvernig okkur líður. Ég á vini sem ekki er hægt að lýsa og sem ganga í fjölskyldustað í þeirri fjarlægð sem er á milli okkar og okkar ástkærustu á Íslandi.

Ég á ótrúlega stóra og góða fjölskyldu og frábærann vinahóp þar sem allir leggja sitt af mörkum til að mér líði sem best og eru alltaf tilbúnir að fyrirgefa þegar ég haga mér asnalega. Mér líður vel, mig skortir ekkert og ég er ríkasta persóna í öllum heiminum í tölum kærleika vina og vandamanna og í ofanálag er vinnan mín áhugamálið mitt og líf mitt og yndi.

ER HÆGT AÐ HUGSA SÉR MEIRI HAMINGJU EÐA BETRI TÍMA?
Takk elsku fjölskylda og takk elsku vinir fyrir allt.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábært að lesa þetta. Var að enda við að lesa Polýönnu fyrir dóttirina og er ekki svo fjarri því að þú gætir leikið leikinn hennar. En ég mundu nú telja að þú sért kannski besta eiginkona, besta dóttir og systir, besta vinkona og besta tengdadóttir sem að hugsast getur. Við uppskerum eins og við sáum, segir máltækið. Og þegar að þú verður komin með nóbelsverðlaunin þá ætla ég sko að segja öllum að ég þekki þig. Kveðja frá Kreppulandi, nánar tiltekið úr sveitinni á Snæfellsnesi, þar sem að frúin stjórnar.

Nafnlaus sagði...

Já, á maður ekki bara að brosa fram í heiminn og njóta þess sem að vera með þeim sem maður á að. Í stað þess að vera niðursokkinn í vandamál hversdagsleikans.

Haltu áfram að vera þú sjálf.

Raggi
"litli-stóri" bróðir

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ Unnur Stella, frábært að rekast á bloggið þitt hér og sérstaklega þessa dásamlegu færslu :) Gleðilegt ár :)
Láttu mig vita þegar þú ætlar að koma heim, það vantar klárt fólk í Rafmagnsverkfræðina í Háskólann í Reykjavík, þar sem ég vinn núna. Mér verður alltaf hugsað til þín þegar talað er um það :)
Hafið það sem allra best áfram.
Bestu kveðjur
Jóhanna Fríða Dalkvist

Nafnlaus sagði...

Elsku, besta dóttir góð.
Dásamleg færsla hjá þér.
Þetta er allt rétt hjá þér.
Lífið er yndislegt og við eigum að vera þakklát fyrir það og allt hið góða sem hefur okkur hlotnast. Vertu áfram glöð og ánægð, hamingjan er það verðmætasta sem við eigum auk barna, systkina foreldra ofl. ofl.
Kysstu alla strákana þína þrjá frá okkur mömmu og enn og aftur til hamingju með prófið hans Jóa.
Ástarkveðjur frá okkur mömmu frá yndislega, sólskins landinu okkar Íslandi, landinu okkar sem við eigum svo mikið að þakka.
þinn pabbi

Nafnlaus sagði...

Mikið er þetta falleg færsla. Já þú átt sko góða að og sérstaklega góðan mann, því flestir eiginmenn láta sinn frama ganga framyfir frama eiginkvennanna en það hefur þinn maður ekki gert, heldur stutt þig vel í gegnum súrt og sætt.

Það er gott að eiga svo góðan mann. Annars held ég að maður þurfi að læra að líta aðeins á björtu hliðarnar, jafnvel þó lífið sé kannski ekki fullkomið, þá hlýtur að vera hægt að finna ljósan punkt e-s staðar.

Takk fyrir bloggið þitt. Ég býst ekki við að þú komir á klakann í bráð, en þegar það gerist, þá verðum við í bandi.

Kveðja Andrea.

Nafnlaus sagði...

jess. Ég er svo glöð að hafa Pollíönnu í minni fjölskyldu.
Takk fyrir að koma í mína fjölskyldu Unnur Stella. Við þökkum auðvitað öllum góðum góðum vættum fyrir að þú fannst hann Jóhann og áttir þessa yndislegu stráka ykkar.

Kveðja Inga frænka