05 janúar 2009

Framundan á nýju ári

Góðan dag góðir hálsar og gleðilegt árið aftur.

Áramótin fóru afskaplega vel fram hérna hjá okkur í Álaborg. Við vorum svo heppin að fá mömmu og pabba í heimsókn yfir hátíðina og vorum við öll afskaplega dugleg við það að gera ekki neitt og njóta þess að vera saman. Afinn var saumaður fastur við spilastólinn og þar sat hann og spilaði ENDALAUST við Mánann sinn. Það var eiginlega alveg ótrúlegt að sjá hversu mikinn vilja hann hafði í að sitja með prinsinum okkar. Amman tók einnig í nokkur ludo spil með Mánanum og svo sá hún um að gefa litla matargatinu okkar að borða. Enda er Mummi litli afastrákur með matarást á ömmu sinni.

Jóhann hefur reyndar varað mestum tíma sínum yfir skólabókunum og var hann heima allan aðfangadag, allan jóladag og allan gamlársdag. Aðra daga hefur hann setið yfir lærdóm, enda er hann í fyrsta prófinu sínu núna í dag, öðru prófinu á föstudag og því síðasta þann 16. janúar.

Jólahátíðin hefur að mestu farið í matar og sælgætisát ásamt setu og spilasýki. Við (þ.e. ég og prinsarnir) höfum svoleiðis notið þess í botn að vera bara í fríi og slappa af. Amman og afinn voru kvödd á föstudag og voru það sex rauðsprungin augu sem héldu heim frá brautarstöðinni eftir að kveðja ömmu og afa. Máninn var nú fyrst með smá stæla við ömmu sína og afa, en það kom nú í ljós á heimleiðinni að þeir stælar voru hans viðbrögð við því að vilja ekki kveðja og að hann vildi helst hafa ömmu sína og afa áfram hérna í Álaborg. En við erum búin að sættast á það að þegar sumarið er komið þá fái hann að sjá afa sinn og ömmu, hvar í heiminum sem það nú verður.

Hið nýhafna ár er frekar mikið bókað hjá mér í verkefnum og ferðalögum. Ætlunin er að hefja árið með því að losna við allt sælgætið, rjómasósurnar og beikonið af maga, rassi og lærum. Í janúar er ég að fara á stofnfund á fyrstu alheims háspennukapalgrúppunni hjá CIGRÉ. Í þessari grúppu eru ca. 20 manns allsstaðar að úr heiminum, allir með sérþekkingu í "transient" reikningum og háspennuköplum.
Stofnfundurinn verður haldinn í Danmörku og varir í 2 daga, svo ég þar eingöngu að ferðast suður til Fredericia til að komast á þennan fund.

Næsta ferðalag er svo áætlað í febrúar, en á afmælisdaginn minn held ég til Gautaborgar þar sem ég mun dvelja þar til þann 18. febrúar og sækja kúrs í "practical problems regarding high voltage cables". Takmarkið er að reyna að hitta nokkra ættingja og vini á meðan á þessari stuttu dvöl minni stendur.

Í maí er svo ferðinni heitið til Þýskalands þar sem ég hef verið beðin um að gerast ökuþór með meiru og mun taka þátt í keppni þar í landi og keyra heimagerðan bíl. Keppnin felst í því að keyra eins langt og hægt er á orku sem samsvarar því sem fæst úr 1 L af bensíni, en notast við annarskonar orkulind, svo sem rafmagn. Nokkrir aðilar hér í Álaborgarháskóla hafa sett saman bíl fyrir þessa keppni og fer ég með þeim niður til Þýskalands sem ökukappinn mikli :o)

Þegar júní loks rennur upp, mun ég hefja sumarið í Kyoto í Japan, þar sem ég er að fara á ráðstefnu hjá IPST (International Conference on Power System Transients). Ég á eina grein á þessari ráðstefnu, svo planið er að halda einn stuttan fyrirlestur og svara nokkrum spurningnum. Vonandi næ ég svo í örstutta skoðunarferð um nánasta nágrenni.

Síðar í júní er svo ferðinni heitið til Kanada og er planið að dveljast um hríð í Vancouver í vinnuheimsókn. Ég ætla að vera í 2 og 1/2 mánuð í Kanada og vinna við University of British Columbia. Maðurinn minn og drengirnir mínir munu halda mér félagsskap í þessari ferð, enda er ég komin með alveg nóg af ferðalögum þar sem ég þarf að eyða kvöldunum alein inni á hótelherbergi.

Í júlí mun ég ferðast aðeins innan Kanada og fara á IEEE PES (Power & Energy society) General Meeting sem haldin er 26-30 júlí í Calgary í Kanada.

Næsta haust, annaðhvort í september eða október er svo áætlaður annar fundur CIGRE kapalvinnuhópsins, en sá fundur verður haldinn einhversstaðar úti í hinum stóra heimi. Það er ekki endanlega búið að skipuleggja hvar og hvenær. Þetta verður ákveðið á fundinum nú í lok janúar.

Svo það má með sanni segja að árið 2009 verður mikið ferðaár og mun ég sjá ógrynni af flugvélasætum og ráðstefnuveggjum, en minna af hinum stóra heimi :o) Vonandi mun ég þó kynnast nýju og skemmtilegu fólki með sama áhugamál og sérsvið og ég.

Ég vona að ég muni eftir að skrifa inn einhverjar skemmtilegar fréttir af þessum ferðalögum og af öllum handaböndunum. Því ef einhver eru áramótaheitin þetta árið, þá er það að vera dugleg í ræktinni og mataræðinu og að vera DUGLEGRI að blogga.

Knús og kossar frá Álaborginni

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ litla systir.

Þetta verður ekkert smá ár hjá þér. Það er greinilegt að það sem þú ert að rannsaka og þróa í háspennujarðkapla-doktorsnáminu er farið að vekja verðskuldaða athygli út um allan heim. Japan verður örugglega svakalega spennandi. Ekki gleyma því að skoða þig aðeins um þar, því að það er ekki á hverjum degi sem fólk fær tækifæri til að ferðast í þangað. Vancouver á eftir að heilla ykkur öll. Ég veit það af eigin raun, og ekki gleyma að kíkja aðeins út fyrir borgina í hið frábæra British Colombia. Rétt fyrir sunnan ykkur, USA megin, er svo önnur æðisleg borg, þ.e. Seattle. ÉG hef sagt þér það áður, og er ekkert að skafa undan því, að BC í Kanada og WA í USA eru með því fallegasta landslagi sem ég hef séð. En það sem mestu máli skiptir er auðvitað það að fá tækifæri til að vera þar með fjölskyldunni. Haltu áfram að vera svona dugleg. Ég er ofboðslega stoltur af þér og ég veit að þú ert að vinna í "cutting edge" rannsóknum á þínu sviði, sem hlýtur að vera ofboðslega gefandi.

Bestu kveðjur til Álaborgar frá okkur öllum í Edinborg.
Raggi