27 janúar 2008

Blóðugt horn og talíbanar

Já hvernig geta nú blóðug horn, talíbanar og ég átt samleið.

Jú það gerðist nú í dag að leið okkar lá saman.
Eins og þeir sem þekkja mig vel vita, þá get ég verið alveg einstaklega klaufsk og óheppin með mig. Þetta reyndist sannað enn einu sinni í dag, þegar mér tókst að næla mér í gat á hausinn, í fyrsta skipti á ævinni (og alveg að verða 28 ára gömul). Jæja þetta var nú bara þannig að ég var að taka dót upp af gólfinu inni hjá honum Mána mínum og þegar ég reis upp, þá með einhverjum óskiljanlegum klaufahætti mínum lukkaðist það hjá mér að skalla hornið á vegghillunni inni hjá drengnum þannig að það sprakk fyrir og lak blóð niður eftir andlitinu. Aumingjans stóra stráknum mínum leist nú ekki á það að sjá allt blóðið sem lak í stríðum straumi niður andlitið á mömmu sinni, en sem betur fer er pabbinn á heimilinu handlaginn heimilisfaðir og tókst með undrafljótum hætti að hefta skurðinn saman og setja blóðstoppandi plástur á ennið á mömmunni og fallegan bangsímon plástur á ennið á prinsinum, svona til að lækna sálarsárið hans. Svo nú göngum við um húsið í stíl, ég og hann Máni minn, og státum fögru plástrahöfuðpríði. Mínum plástri fylgir nú hinsvegar bæði ljótt mar og risa stórt horn, sem hann Máni minn hefur sem betur fer ekki (enda er sárið hans ekki sjáanlegt hið ytra þar sem það fyrirfinnst á sálinni en ekki höfðinu).
Jæja, þannig var nú það með blóðuga hornið, sem vonandi verður horfið áður en drengirnir mínir gifta sig (spekingurinn hann pabbi minn sagði alltaf við mig að sárin mín myndu gróa áður en ég gifti mig, en það gengur víst ekki lengur).

Þá að talíbanaumræðunni.....
við Jóhann gerðum okkur nefnilega glatt kvöld og skruppum að sjá hreyfimynd á tjaldi. Við komumst að því að þessháttar hreyfimyndir innihalda nú bæði hljóð og er varpað á tjaldið í öllum regnbogans litum. En þar sem það er svo langt um liðið síðan við gátum síðast brugðið svona undir okkur betri fætinum, þá höldum við að á þeim tíma hafi hreyfimyndir verið í svörtum og hvítum lit með texta á milli atburða, í stað talsetningar ;o)

Allavega, við fórum að sjá myndina Drageløberen, eða flugdrekahlauparinn, og verð ég að segja að sú mynd er alveg frábær. Þetta er mynd um dreng/mann sem er fæddur í Kabúl, en varð að flýja ásamt föður sínum til Bandaríkjanna ungur að aldri, eða þegar Rússar réðust inn í Afganistan. Þetta er ofsalega átakamikil saga og segir frá breytingum sem urðu við það að fyrst Rússar og svo talibanir tóku völd í Afganistan. Þessi mynd er byggð á samnefndri bók eftir höfundinn Khaled Hosseini. Heimasíðu myndarinnar má finna hér. Ég mæli eindregið með því að fólk fari og sjái þessa frábæru mynd, en ég vara við hún er frekar átakamikil á tímabili.

Jæja þá hafið þið fengið allt að heyra um horn á heimilinu og bíóferðir okkar skötuhjúa, svo það er kominn tími til að skríða undir sæng og kyssa karl.
Kveðjur frá frú klaufabárði

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ha bara með gat á hausnum og fórst ekki einu sinni upp á slysó til að láta sauma fyrir gatið? Ég hélt að það þyrfti alltaf að sauma fyrir þegar maður fengi gat á hausinn (fékk reyndar eitt slíkt síðast þegar ég var 8 ára) en hin síðari ár, þá hafa slysó ferðir mínar yfirleitt haft eitthvað með Ásgeir að gera, eða tábrot (ég er snillingur með tærnar á mér) eða mjög vægan heilahristing (já ekki gott beygja sig niður á sama andartaki og sonur manns ákveður að rísa upp og skallar mann svona rosalega).

Kveðja frá Andreu frænku, sem hefur víst líka erft hrakfallabálksgenið!

Nafnlaus sagði...

hihihi velkomm tú ðe klöbb, getur verið ansi þreytandi að vera svona óheppin og ég tala nú ekki um ef maður sér að börnin sín hafa erft genið :S

kveðja, Íris óheppna