31 ágúst 2007

Góði samverjinn

Í gær vorum við Jóhann svo heppin að hitta góða samverjann hérna í Álaborg.

Við vorum svo ægilegir nördar að takast að týna töskunni minni í gær. Í töskunni var gemsinn minn, digital vídeókameran okkar og veskið mitt með öllum kortunum og meðal annars sygesikring kortinu mínu, hans Mána míns og hans Mumma. Svo við vorum að vonum miður okkar yfir þessu. En sem betur fer er nú enn til gott fólk í heiminum, því um það bil á sama tíma og við föttum að taskan er horfin hringir mamma í gemsann hans Jóa alveg miður sín um að eitthvað hafi komið fyrir.
Það var nefnilega svo sniðugt, að einstaklega úrræðagóður og heiðarlegur Dani hafði fundið töskuna mína og datt það snilldarráð í hug að fara í gegnum símanúmerabókina í gemsanum mínum. Að sjálfsögðu eru nánast öll nöfn á íslensku og erfitt fyrir einhvern Dana að finna hvað hann geti notað. En það var eitt orð sem hann þekkti. Ég hef nefnilega símann hjá henni móður minni vistaðan undir nafninu "mamma". Þó svo mamma sé ekki notað í dönsku, þá nota nágrannaþjóðir Dana þetta orð og sum ungabörn segja mamma á barnamáli áður en þeim hefur tekist að segja mor og far. Svo maðurinn hringdi í númerið merkt mamma og sagði við konuna sem svaraði að hann væri með veski dóttur hennar og hefði fundið það úti á götu í Danmörku. Mamma hélt nú fyrst að þetta væri einhver fábjáni og skellti á aumyngjans manngreyið (hún var úti í Bónus að versla þegar þetta gerðist) en fannst þetta svo eitthvað skrítið og fór að hafa áhyggjur af því að eitthvað hefði komið fyrir. Svo hún móðir mín tók nú upp símann og hringdi aftur í manninn og fékk að heyra aftur á dönsku, að maðurinn hefði fundið veski dóttur hennar úti á götu í Danmörku. Eftir smá samræður og útskýringar tókst þeim að skilja að ég hefði týnt töskunni minni og maðurinn hefði fundið hana og þekkt orðið mamma og ákveðið að hringja í það. Svo mamma fékk heimasímann hans og hringdi svo í gemsann hans Jóhanns til að láta okkur vita.

Þannig að bara hálftíma síðar var ég komin með veskið aftur í hendurnar og búin að hitta þennan indæla mann sem var svo góður að passa upp á veskið mitt og koma því í réttar hendur.

Svo mottó dagsins er: "Vertu góði samverjinn, skilaðu því sem þú finnur og notaðu heilann til að hringja í mömmu gömlu"

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er eitthvað svo sæt saga, jafnvel þótt það hafi þurft símtal til Íslands til að redda málunum.


En það er gott að vita að það er ennþá til gott fólk í heiminum sem skilar þeim hlutum sem það finnur og hefur m.a.s. talsvert fyrir því.

Kv. Andrea.