26 ágúst 2007

Garðvinna

Já þessa dagana er ekkert í fréttum nema vinna í nýja húsinu ;o)

Við vorum í garðinum í allan dag og með okkar frábæru grænu fingrum og töktum tókst okkur með einhverjum herkjum og ótrúlegri heppni að lagfæra garðinn aðeins. Við stefnum reyndar á mun meiri vinnu og ætlum hægt og bítandi að umbreyta garðinum. En dagurinn fór í að rífa upp nokkur tré með rótum, moka meðfram húsinu (þar ætlum við að setja svona litla gráa steina), hreinsa beð, setja niður snúrustaur, helluleggja, slá, raka og þrífa. Við nutum góðrar aðstoðar drengjanna okkar sem gerði verkið mun auðveldara og skemmtilegra ;o)

Annars erum við endanlega búin að ákveða íslandsför og skírn. Stefnt er á ferð heim um jólin og skírn á annan í jólum. Nú er bara að ná í prestinn okkar og sjá hvort hann geti lagt blessun sína yfir litla prinsinn þann dag.


Búið er að bjóða okkur hjónakornunum í danskt brúðkaup þann 3. nóvember næstkomandi og erum við búin að semja við Írisi um að líta eftir litla prinsinum og erum að vonast til að hún Bogga elskan okkar geti litið eftir þeim eldri, en hún er í mjög miklu uppáhaldi hjá honum og þá sérstaklega eftir að hún hringdi og bauð honum með sér í dýragarðinn um síðustu helgi. Það var algjör draumur og skemmtu þau sér konunglega. Allavega talar drengurinn enn um þessa ferð með henni Bonku sinni (eins og hann kallar hana).

Til að undirbúa bíóferð okkar í október og skemmtiferð í brúðkaup í nóvember leigði ég mér eitt stykki pumpu og núna sit ég öll kvöld í ruggustólnum tengd við rafmagnspumpu sem pumpar í takt við ruggið mitt ;o)


Jæja farin að horfa á imbann og tengja mig við mjaltavélina.

Engin ummæli: