31 mars 2007

Pólitík og meiri pólitík

Jæja ég lofaði víst að segja ykkur frá því hvernig ég er farin að blanda mér í pólitíkina á Íslandi. Málið er nú mál málanna í dag, stækkun álversins í Hafnarfirði. Áður en ég fer að messa hérna um mína skoðun (sem er mjög heit) þá vil ég benda á að Hafnarfjarðarbær seldi álverinu lóðina undir stækkun fyrir rúmum 3 árum síðan og gaf loforð um stækkun. Nú þegar líða fer að kosningum hafa þeir svo ákveðið að draga það til baka og setja framtíð hundruða starfsmanna í kosningu íbúanna. Ég spyr mig bara að einu, hvað gerist ef kosningaúrslit neita fyrirtækinu um stækkun? Fyrir utan alla þá fjármuni sem bærinn og íbúar hans verða af við hvarf álversins, þá mun bærinn að öllum líkindum þurfa að endurgreiða landið og hverfa því enn meiri peningar úr bæjarsjóðnum þar, fyrir utan öll íþrótta- og tómstundarfélögin í bænum sem hafa notið góðs af. Þau munu verða af stærsta árlega stuðning sínum þegar álverið hverfur og mun starfsemi og aðhald að börnum og unglingum í bænum þar af leiðandi versna og dvína sökum fjárskorts. En jæja, mín ívil í þessa umræðu er að finna að litlum hluta á bls. 41 í aðalblaði Morgunblaðsins í dag og er greinin víst birt í fullri lengd á http://unnurstella.blog.is/blog/unnurstella/

Margir tala um mikla mengun frá bæði núverandi og stækkuðu álveri. En sem betur fer hafa síðustu ár verið mikil gróskuár í þróun hreinsitækni og minnkun á útblæstri og er nú svo komið að ISAL er í fremstu röð álvera í heiminum í þeim efnum, fyrir utan að mengunin bæði innan og utan álversins er LANGT undir leyfilegum mörkum samkvæmt íslenskum og alþjóðalögum. Þar að auki vinnur fyrirtækið statt og stöðugt í því að bæta umhverfi sitt og ásýnd. Síðustu ár hefur þessu verið sinnt samhliða því að gera vel við starfsmenn. Þetta er þannig að það eru peningaverðlaun í hverjum mánuði til þeirra vakta í Steypuskála og Kerskála sem standa sig best, og er hluti af þessu öryggi á vinnustað, umgengni og ásýnd vaktarinnar. Peningaverðlaunin eru í formi bónusar, þar sem gefin eru ákveðið mikil stig og hvert stig gefur hærri bónus. Í valnefnd hvers mánaðar eru bæði talsmenn yfirmanna og almennra starfsmanna. Þar að auki skaffar fyrirtækið að sjálfsögðu hverjum starfsmanni öryggisbúnað og fatnað til að starfa í og eru viðurlög og reglur við því hvaða öryggisbúnað á að bera og íklæðast til að öryggi og heilsa mana sé sem best á kosið. Þar sem aukning míns kyns í starfsliði fyrirtækisins hefur verið mikil, eru tekin sérstök tillit til þess búnaðar sem þarf að vera fyrir konur og eru eldvarnarfatnaður þannig gerður að brjóstahaldarar og annað sem konur þurfa umfram karlmenn eru í boði. Gerist kona svo lánsöm að verða ófrísk (sem ég varð t.d. meðan ég vann þarna) er í boði eftirlit og áhættuskoðun af hálfu læknis og sé talin þörf á, t.d. vegna óþæginda frá hita í kerskála, er konan flutt til í starfi eða komið til móts við hana með öðrum hætti. Í mínu tilfelli, þar sem ég vann mikla skrifstofuvinnu á þeim tíma sem ég var ófrísk, var mér boðinn nýr tölvuskjár, fótahvílir, nýr skrifborðsstóll og menn til aðstoðar til þess að fara fyrir mig í erindagjörðir um svæðið t.d. í afriðladeildir (en ég vann á þessum tíma við teikningu og hönnun á nýrri afriðladeild við kerskála 3) þar sem ekki voru til staðar rannsóknir á því hvort mikið segulsvið þar inni gæti haft áhrif á mig eða barnið. Málið var ekki það að vitað var að þetta væri eða gæti verið hættulegt, nei bara vegna þess að ekki voru til rannsóknir og niðurstöður frá fyrri árum var mér boðinn þessi kostur. Fyrir utan þetta allt saman þá naut ég mín í starfi og leik allan þann tíma sem ég var hjá fyrirtækinu og eignaðist marga vini sem ég reyni að halda enn sambandi við í þau fáu skipti sem ég kemst til Íslands. En þessir góðu vinir mínir eru að 90% karlmenn á aldri við pabba minn og hafa alla tíð tekið mér opnum örmum bæði sem starfsmanni og félaga. Þessir menn, auk svo margra annarra innan fyrirtækisins, eru búnir að vinna á gólfinu þarna í 20, 30 og jafnvel 40 ár og eru heilir heilsu og þrótti og stunda margir hverjir daglegar göngur á fjöll auk mikillar útiveru svo sem skíði og hjólreiðar. Svo ekki er hægt að setja neitt út á heilsu þeirra eða hæfni þrátt fyrir áralanga vinnu á því sem margir vilja ranglega nefna sem “mengað og óhollt svæði”.

Einnig vilja sumir benda á að það sé tímaskekkja að hafa svo stórt iðnaðarfyrirtæki inni í bæ. Mitt nærtækasta dæmi er víst Álaborg, en hérna er sementsverksmiðja í miðbæ Álaborgar með mjög mikla mengun og útblástur úr stórum strompum auk bruggverksmiðju í hjarta Álaborgar sem er mjög mikil sjónmengun. En einnig veit ég til þess að í Óðinsvé (sem er mikill ferðamannabær sökum m.a. HC Andersen) er risa stór skipasmíðastöð og bræðsla með töluvert mikilli mengun í andrúmsloftið og sem af hlýst sjónmengun. Auk þessa er hægt að líta á stórborgir bæði í USA og Kanada (auk Bretlands), þar sem má finna iðnaðarfyrirtæki bæði inni í bæjunum og í útjaðri þeirra. En ISAL er staðsett í útjaðri Hafnarfjarðarbæjar, og ekki inni í miðjum bænum.

Væri fyrirtækið eins slæmt og margir eru að reyna að láta líta út fyrir, bæði mengunarlega og hagsmunalega séð fyrir starfsfólk, hversvegna í veröldinni eru þá yfir 450 starfsmenn þar með yfir 15 ára starfsaldur auk nokkur hundruða með enn lengri starfsaldur? Hversvegna festist gott fólk (fólk sem ég lít á mína jafningja og vini) í svo mörg ár á sama staðnum? Gæti ekki verið að góðar tekjur, örugg vinna og gott aðhald að fólki orsaki þetta? Hversvegna gerir fyrirtækið eins gott við bæinn og raun ber vitni? Það er enginn sem neyðir stjórnendur þess til að setja stórar fjárhæðir í tónlistarnám í bænum, íþróttafélög, tómstundarstaði (svo sem kostnað að byggingu Suðurbæjarlaugar), lagningu á göngu/hjólabraut frá bænum og meðfram Reykjanesbrautinni, eflingu grænna svæða með skógrækt auk margs annars stuðnings við íbúa bæjarins. Er ekki í raun og veru hægt að telja þetta allt saman sem auka kaupauka fyrir alla þá starfsmenn sem eru íbúar í bænum (sem eru í miklum meirihluta)?

Að lokum vil ég bara segja að ég vona svo innilega og hjartanlega að Hafnfirðingar geri sér ferð á kjörstaði og kjósi áframhaldandi velmegun og stöðuga framtíð barna sinna með því að segja JÁ.

Kveðja,
Unnur Stella Hafnfirðingur í húð og hár.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ehrm, starfsmenn Alcans eru nú ekki nema 450 talsins.
Tekið af alcan.is "Starfsmenn hjá Alcan á Íslandi eru um 450 talsins." Eru þeir allir með yfir 15 ára starfsaldur og síðan eru nokkur hundruð aðrir með meira en það??
Unnur Unnur Unnur

kv. Dísa

p.s. Til Lukku með bílinn!!

Nafnlaus sagði...

Sæl Unnur Stella

'Eg var að vinna hjá Alcan fyrir nokkrum árum. Mér finnst nú sú mynd sem þú dregur af 'Alverinu ekkert lík minni reynslu né MARGRA félaga minna sem hafa unnið og/eða eru að vinna þar í dag.
Þegar ég var að vinna þar, var þessi samkeppni á milli vaktanna sem þú minnist alls ekki til annars fallin en að auka á vinnupressu sem skilaði sér í aukinn slysahættu. Peningarnir sem voru í verðlaun skiluðu EKKI til almenna starfmanna á gólfinu sem unnu alla vinnuna. 'I sambandi við öryggisbúnaðinn er hann sjálfsagt mál og lögum samkvæmt og óþarfi að tíunda það hér sem einhver "perks" fyrir starfsmenn.
Þegar slys áttu sér stað, sem voru ansi tíð þá voru þögguð niður svo "tölurnar" á skiltinu breyttust ekki og menn fengnir til vinnu við að flokka pappír og annað slíkt meðan þeir voru að jafna sig.
Með starfsaldurinn, má ekki því gleyma að atvinnuflóra og tækifæri voru ekki í sama mæli og þau eru búin að vera undanfarin ár. Því eru mikið af eldra fólki með langan starfsaldur sem þorir ekki að breyta til því ungæðisdýrkunin á 'Islandi er svo mikil. Síðan er mikið af ungu fólki sem án efa bíður eftir tækifæri annarstaðar. En hér erum við auðvitað að tala um hinn almenna starfskraft í kerskálum, steypuskálum o.þ.h. Ekki hámenntað lið sem vinnur við allt aðrar aðstæður og allt önnur laun.
Launin mín voru alveg skelfileg - en ég fékk ókeypis í rútu til og frá vinnu - súper!


kær kveðja,
Steinar

p.s. Til hamingju með bílinn og frelsis.... munið ódýrara bensín á sunnudagskvöldum!

Unnur Stella sagði...

Hæ hæ,
það eru nú alltaf mismunandi skoðanir á hitamálum. Og sorry með tölurnar, my mistake.

En svona bara til að leiðrétta Steinar, þá var ég ekki í skrifstofuvinnu fyrr en ég var útskrifuð. Fyrir það vann ég með rafvirkjum á rafmagnsverkstæði og meðal annars í Kerskála. Eitt af mörgum hættulegum verkefnum (sem er langt frá því að vera skrifstofuvinna) var að skipta um perur í kerskálum, þar sem ég hékk í lyftu yfir opnum kerum í steikjandi hita. Enda eru mörg verkefni rafvirkjanna í þessum dúr, útum allar trissur. Þessir eldri menn sem ég tala um eru rafvirkjar og vel metnir í sínu starfi, enda hörkuduglegir. Þeir hefðu flest allir getað stundað aðra vinnu hvenær sem var, enda alltaf vöntun á duglegum iðnaðarmönnum í húsbyggingaræði Ísleninga, og þá sérstaklega á rafvirkjum. Þeir hafa ekki ílengst þarna vegna lélegra atvinnutækifæra og síðan ekki þorað að hætta. Ég þekki allvel til í húsbyggingum þar sem ég kem úr frekar stórri fjölskyldu þar sem allir hafa á undanförnum árum endurgert fyrirtæki, íbúð eða byggt hús. Í öllum þeim tilfellum sem ég veit um kýs fólk frekar eldri reyndari rafvirkja með meistaramenntun (sem er skilda til að fá uppáskrift á rafmagnið) sem mögulega hafa sér yngri aðstoðarmenn. Svo það sem þú kallar ungæðisdýrkun kemur ekki við sögu allsstaðar.

Bíllinn er flottur og frábær lúxus, þó svo við höfum nú ekki látið hjólið eða strætó stoppa okkur frá því sem við höfum þurft að gera eða langað til.