05 apríl 2007

Við lifum hratt, á gervihnattaöld

Já tíminn bókstaflega flýgur áfram hérna. Mér finnst eins og það hafi verið í gær þegar ég fattaði að ég væri kannski ófrísk og var þá barasta komin allnokkrar vikur á leið (var einmitt örfáum dögum eftir ærlegt djamm með krökkunum úr skólunum, en óvell) og núna er ég víst komin 25 vikur plús 3 daga. Enda farið að sjást allvel utan á hvalnum hérna á Næssundvej 78, sem getur ekki haldið sig frá kökum og sælgæti þessa dagana. Ekki bætir ofaná að nú erum við orðnir stoltir bílaeigendur og þá er náttúrulega ekki hægt að hreyfa á sér rassinn, hver fer að labba eða hjóla þegar hann getur setið í eðalvagni hvern einasta meter. Úff, ég ætla nú að breyta þessu því við ætlum að skjótast á laugardaginn og kaupa okkur hjólastatív sem er fest á krókinn á bílnum. Þannig get ég þá hjólað í skólann og fengið svo far heim (með hjólið aftaná) og losnað við þessa #$%$%&$"% brekku sem er hérna og ég dríf ekki lengur upp, nema sitja eftirá í nokkra klukkutíma og kveinka mér í lífbeini og grind. Það verður samt hressandi að geta allavega hjólað léttar vegalengdir og haldið þannig við smá hreyfingu. Þarf að koma í veg fyrir að þessi blessaða undirhaka sem ég er að næla mér í nái ekki að vaxa um of.

Anyways, hérna var vetur, svo kom vor, svo kom sumar og nú er komið haust. Eins og ég sagði þá líður tíminn óskaplega hratt. Nei það er nú bara þannig að fyrir ekki svo löngu var allt bókstaflega á kafi í snjó og ískalt. Síðan bráðnaði snjórinn á 2 vikum eða svo og það hlýnaði og allt byrjaði að springa út. Fengum þar með c.a. 3 vikna vor með tilheyrandi blómstrun og gluggaveðri (var kalt útaf vindi). Svo í síðustu viku barasta rauk hitinn upp yfir 15 gráður og vel það. Var rétt um 20 gráður í garðinum okkar á síðustu helgi (og prinsinn að leika sér bara á bleyju og bol utandyra), svo tók veðrið upp á því í gær að byrja aðeins að blása með sólinni, svo það kólnaði niður í ekki nema 5-10 gráður. Svo núna er allt í lagi hiti, samt ekki lengur stuttermabolaveður, kannski peysuveður, og dálítill vindur. Fínasta haust. En mér sýnist nú á DMI að það eigi að byrja að hlýna aftur verulega eftir helgi og fara hlýnandi. Svo vonandi komumst við fljótlega aftur upp úr þessum 7-8 gráðum og upp í góðu indælu 20 gráðurnar okkar :o)


Það er reyndar allt að verða voða fínt í kringum okkur. Hekkið í garðinum á bakvið er í blóma (koma fyrst gul blóm og svo græn blöð), páksaliljurnar allar útsprungnar ásamt öðrum laukum sem ég setti niður í hitteðfyrra, svo það er voðalega páskalegt og gult í garðinum okkar. Ég fór líka á síðustu helgi í blómaleiðangur í Bilka, svo nú eru komnar rósir og fínust blóm í alla potta og öll beð. Okkur tókst líka á sunnudaginn síðasta að borða úti (í 20 gráða hitanum) og grilluðum auðvitað íslenskt lamb. Ætlum að grilla aftur í kvöld en þurfum að öllum líkindum að borða inni og við sem vorum að kaupa okkur nýtt borð í fyrradag. Stóra garðborðið okkar (það sem við höfum alltaf á pallinum að framan) brotnaði nefnilega undan snjóþunganum í febrúar svo við urðum að færa litla borðið (það sem við höfum alltaf í bakgarðinum) á pallinn að framan. En þá gátum við ekki notið þess að sitja úti á bakvið líka, þar sem sólin er á morgnana og í hádeginu (hún er ekki að framan fyrr en í eftirmiðdaginn). En núna erum við aftur komin með tvö borð svo við getum setið hvort um sig, sitt hvorum megin við húsið ;o)


Jæja, best að halda áfram í lærdómnum.



Prinsinn í sólarleik í bakgarðinum



Hvalurinn með undirhökuna

2 ummæli:

Magga sagði...

Vá ekkert smá nett og fín kúla!

Nafnlaus sagði...

humm, hvaða hvalur, þú ert fín svona.
Annars vildi ég bara óska ykkur gleðlegra páska.
Kv. Andrea.