05 mars 2007

Langur dagur

Já eins og dyggir aðdáendur mínir vita þá var ég boðuð í mitt fyrsta atvinnuviðtal í dag.

Ég semsagt vaknaði eldhress á þeim ókristilega tíma 05:00. Skellti mér í fötin og hafði mig til. Var komin út í strætó rétt um klukkutíma seinna og svo rétt um 07:00 renndi lestin af stað frá Aalborg Hovedbanegården. Ég notaði nú fyrsta hluta ferðarinnar í það að punkta niður hjá mér mikilsverðar athugasemdir sem ég vildi ræða á fundinum og svör mín við líklegum spurningum þeirra. Svo loks um hálf ellefu, eða eftir 3 og 1/2 tíma lestarferð var ég komin til Fredericia. Þá tók við að finna leigubíl til að koma mér í réttan smábæ, eða lítinn bæ sem heitir Skærbæk og var í um 20mín akstursfjarlægð frá Fredericia. Svo rétt um tíu mínútur í ellefu í morgun var ég mætt galvösk og vel lestuð á tröppurnar hjá Energinet.dk. Tókst án nokkurar fyrirhafnar að finna viðmælanda minn og yfirmann hans og hófust því umræður í ágætu fundarherbergi, fullu af smákökum, súkkulaði, ávöxtum, gosi, kaffi og tei. Það gekk bara rosalega vel og ég afhenti þeim einhver gögn um mig ásamt CV og sýndi þeim þær 4 ritgerðir sem ég hef unnið að síðastliðin tvö ár og leist þeim bara vel á (þeir vissu reyndar að sjálfsögðu um þá síðustu þar sem hún var unnin fyrir þá). Lét þá líka fá greinina sem ég skrifaði fyrir ráðstefnuna í Frakklandi. Allavega leit þetta allt rosalega vel út og þeir virtust frekar jákvæðir í minn garð. Sögðu að bæði Claus kennarinn minn og þeir sem ég hef unnið í samstarfi við hjá fyrirtækinu hafi talað "meget højt" um mig og því voru þeir spenntir að hitta mig fyrst ég væri að velta fyrir mér doktor. Svo nú er bara að bíða og vona að þeir séu sáttir við að ég get ekki byrjað fyrr en í ágúst og að ég þurfi að vinna heima við í hálft ár, eða þangað til nýi fjölskyldumeðlimurinn fer á vöggustofu. Þeir buðu mér svo í mat og var ég hjá þeim til rúmlega eitt, eða í rúmlega tvo tíma og upplýstu þeir mig um það að þeir myndu hafa samband við mig í byrjun næstu viku varðandi hvort eitthvað verði af þessu hjá okkur eða ekki.
Klukkan 14:40 og einni leigubílaferð seinna settist ég upp í lest á leið til Álaborgar aftur. Þetta skiptið var það lyn lest sem ég náði svo lestarferðin varði ekki nema tæpa tvo tíma. Svo um klukkan 17:10, eða 12 tímum eftir að ég vaknaði, var ég komin heim og sest við eldhúsborðið :o)

Svo það má segja að dagurinn hafi verið ansi langur, enda búin að ferðast í heildina c.a. 500 km til að komast á tveggja tíma fund, sem þar að auki kostaði um 1000DKK, eða rúmar 11þús íslenskar (sem ég þurfti þó sem betur fer ekki að greiða sjálf). Svo nú er bara að bíða og vona að þessi fundur hafi lukkast og að ég nái mér í þetta frekar svo spennandi doktorsverkefni, þó svo ég geti ekki hafið störf fyrr en að 5 mánuðum liðnum og þurfi þar að auki að sitja heima við í hálft ár ;o)

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þegar þú verður doktor, ætlaru þá að láta alla kalla þig "doktor" Unnur?

Bara spæla..
Masi

Unnur Stella sagði...

Nei ég hugsa að titillinn minn verði Frú Unnur Stella og vinnutitillinn Phd. í raforkuverkfræði ;o)

Mun reyna að forðast að gera eins og góðvinur okkar doktor Ross og láta vita af mér þegar sagt er: "This is an emergency, is there any doctor in the house?"

Hvernig er annars lífið í Bostoníunni?

Magga sagði...

Við höfum það alveg hrikalega gott og nú bíðum við bara spennt eftir sumrinu sem kemur í síðasta lagi uppúr byrjun apríl, þá verður sko gott að lifa ;)