17 desember 2006

Verslunardagur aldarinnar

Já það má með sanni segja að það var verslunardagur aldarinnar í gær. Við Íris byrjuðum laugardaginn rétt upp úr 8 og skelltum okkur í strætó niður í miðbæ til að sækja þennan rosa fína kagga sem við höfðum leigt okkur saman. Brunuðum svo beinustu leið í Aldi til að versla allt sem þar fæst í jólamatinn. Fólk horfði á okkur STÓRUM augum þegar við þrömmuðum um búðina og stútfylltum kerruna okkar. Hún var svo full að það var orðið vandamál að fá hlutina til að passa í hana. Þetta varð líka hálfgert vandamál, því Aldi er hugsuð sem verslun þar sem fólk verslar frekar lítið í einu (sem er frekar undarlegt þar sem þetta er ódýrasta verslunin á svæðinu) og því er nánast ekkert pláss til að setja í poka við kassann (ekki svona færiband eins og á flestum stöðum heldur bara pínu ponsu borð). Þar af leiðandi þarf að setja vörurnar beint ofan í kerruna aftur þegar búið er að skanna þær, og það var engin leið fyrir okkur að geta tæmt alla kerruna upp á færibandið og nota síðan sömu kerru (dótið komst ekki allt upp á færibandið fyrir kassann, þó það sé vel stórt). Svo kassastrákurinn var nú svo sætur í sér að sækja auka kerru fyrir okkur til að raða ofaní. Þannig að það endaði með því að við gengum útúr búðinni með tvær pakkfullar kerrur og borguðum ekki nema rétt rúmar 600 DKK fyrir ;o) En þar sem við erum nú svo bilaðar, þá ákvaðum við meðan við fylltum bílinn af varningnum, að við þyrftum að versla örlítið meira og fórum því inn í búðina aðra ferð og bættum örlitlu við. Síðan var ferðinni heitið í Nettó sem er önnur svona ódýr búð, örlítið dýrari en með meira úrval. Þar byrgðum við okkur af Quality Streat konfekti og örlitlu af nokkrum nauðsynjavörum. Brunuðum svo í Fötex og versluðum nú ekki mikið þar. Þá var barasta að líða að hádegi svo ákveðið var að skella sér heim í smá pásu og mat. Eftir hádegi var svo ferðinni heitið í UPPÁHALDS búðina, eða Bilka. Sem er eins og USA Target eða RISA stór Hagkaup með mun meira úrvali og mun lægra verði. Þar var restinni af deginum eytt og verslað allt milli himins og jarðar. Ég gerði mér nú lítið fyrir og keypti eitt stykki RISA jólatré sem varla komst inn í bílinn, en það reddaðist á endanum. Lukum svo þessum gíga verslunarleiðangri á því að fara aftur í Nettó og versla jólagosið. Fólk starði stórum augum á okkur þegar við mættum á kassann með fulla kerru af gosi, eða 18 flöskur af 2L gosi. Þannig að um kvöldmatarleitið vorum við loksins komnar heim eftir vel heppnaðann dag. Buddan tóm en kælir, frystir, skápar og hillur stútfullar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já buddunni blæddi en skápar eru troðnir ;)