26 mars 2006

kanil og pipar

Í gær fór ég í 55 ára afmæli, eða réttara sagt þá fór ég í tvöfalt afmæli. Hann Kim í grúppunni minni var að halda upp á þrítugsafmælið sitt og Lise kærastan hans var að halda upp á 25 ára afmælið sitt. Þetta var svona ekta danskt matarboð og skemmtilegheit. Ég var eini útlendingurinn með svona 30 dönum, bæði fullorðnum og ungum. Foreldrar þeirra, vinir og ættignjar sátu semsagt allir saman við eitt langborð. Hafi einhver einhverntíman sagt að Danir borðuðu mikið þá hefur hinn sami haft HÁRÉTT fyrir sér. Matarvenjur Dana eru mjög skemmtilegar og líflegar. Það var sumsé hlaðborð (sem er víst mjög algengt í svona veislum). Fyrst var forréttarhlaðborð, svo kom aðalréttarhlaðborð og að lokum eftirréttarhlaðborð og svo að allra lokum eftir-eftirrétta aðalréttur :o)

Mæting var klukkan 6 um kvöldið (Danir borða yfirleitt snemma, 7 er frekar seint fyrir kvöldmat) og allir mættir á slaginu sex. Ekki neitt einhver að mæta of seint eða aðeins seinna, nei Danir eru stundvíst fólk og allir því mættir prúðbúnir og fínir á slaginu 18:00 til að taka við velkomstdrik og spjalla. Svo klukkan hálfsjö settumst við að borði og það var borðað til klukkan 24:00 eða í fimm og hálfan tíma. Eftir matinn var svo haldið áfram að spjalla og hafa það skemmtilegt og um klukkan 1 um nóttina var borinn fram nýr réttur, svona ef fólk skildi nú vera orðið svangt aftur eftir að hafa borðað laxamús, pastasalat, brauð, kjötbollur, ávaxtasalat, kartöflurétti af öllum tegundum og stærðum, rifjasteik, rauðkál, kjúklingabringur og MARGT MARGT MARGT fleira.
Það sem mér fannst líka mjög skemmtilegt að sjá var að allir, fullorðnir og ungir, drukku sinn Tuborg/Carlsberg bjór með matnum að alvöru dönskum sið. Enda er bjórinn mun ódýrari en gos og næstum því ódýrari en mjólk og fæst í öllum heimsins tegundum hérna úti í matvöruversluninni okkar, Dreisler (held ég hafi aldrei á ævinni séð jafnmargar mismunandi tegundir af bjór).

Auðvitað varð að framfylgja óskrifuðum dönskum lögum, en það er að hver sá sem verður 25 ára og er ógiftur er kanil og sá sem nær þrítugsaldri ógiftur er pipar. Því hélt allur skarinn útfyrir (til að spilla ekki hreinlæti salarins) milli aðalréttar og eftirréttar og var kanil hellt yfir afmælisstúlkuna og þar á eftir pipar yfir afmælispiltinn. Þetta var mjög skemmtilegt að sjá og vakti mikla lukku allra viðstaddra (enda bæði foreldrar og vinir mjög vel vopnaðir með þessum kryddtegundum til að framfylgja hefðinni).

Þetta kvöld var semsagt alveg æðisleg upplifun og gaman að þekkja og kynnast svona mörgum Dönum og hafa möguleikann á því að komast svona alveg í kjarna menningar landsins. Við sátum og skáluðum til klukkan rúmlega 2 í nótt eftir líkamsklukkunni, en komumst ekki heim fyrr en klukkan rúmlega 3 þar sem samkvæmt tímatali á að vera að byrja sumar hérna núna (það er slydda úti núna) og því var skipt yfir í sumartíma í nótt og klukkan færð klukkutíma fram. Svo núna Íslendingar góðir er ég loks orðin tveimur tímum á undan ykkur (og þarafleiðandi að sjálfsögðu 2 tímum eldri og reyndari).

Bless kex og ekkert stress,
Unnur Stella Danavinur

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég sat heima og drakk lúxus bjór frá London á meðan, hálfslítra flaska af einhverju rándýru sulli, hefði frekar átt að ganga í bjórbyrðirnar úti í geymslu. Við feðgarnir borðuðum nú saman svikinn héra áður en maður fór í bjórinn, ágætis matur það.

Nafnlaus sagði...

Jói er bara alltaf hafður heima hehehe. Það hefur nú samt ekki verið slæmt að hafa bara svona smá feðgakvöld ;)

Nafnlaus sagði...

Alltaf gaman að hafa feðrakvöld, verður einmitt eitt feðrakvöld í viðbót annaðkvöld þegar Unnur fer á galakvöld með stelpunum hérna úti. Verður fínt þegar þið eruð komin út og við Björgvin getum setið heima með krakkalakkana á meðan þið stelpurnar skreppið eitthvað út, hvort sem það er að djamma eða í verslunarleiðangra í Bilka... :)

Unnur Stella sagði...

Þið eruð alveg að misskilja þetta. Jóhann auðvitað verðum við að nota þau, helduru að þau séu að koma til Álaborgar til einhvers annars en að þjónusta okkur :o) Næsta haust förum við saman á barinn hverja einustu helgi og leyfum þessum fullorðnu að prófa að hafa 3 börn í stað tveggja ;o)

Nafnlaus sagði...

Hehehe já Jói við erum sko ekki að koma í skóla heldur ætlum við að flytja inn til ykkar því Unnur er búin að ráða okkur sem aupaira ;). Þannig að það verður "smá" fjölgun á heimilinu ykkar hehehehe.
Nei annars fyrir utan það þá eigum við nú örugglega eftir að nýta okkur hvert annað í passinu, það er örugglega voða gott að geta átt eina svona hjónastund á milli þess sem við Unnur djömmum og þið kallarnir sitið heima með börnin ;).